• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Valdaklíkan óhress Lætur valdaklíkuna ekki segja sér fyrir verkum
23
Nov

Valdaklíkan óhress

Formaður Rafiðnaðarsambandsins, Guðmundur Gunnarsson sá ástæðu til að gagnrýna formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýn Húsavík vegna afskipta þeirra af verkalýðsmálum yfir höfuð á ráðstefnu trúnaðarmanna Rafiðnaðarsambandsins sem haldin var um miðjan nóvember.

Frétt um þetta birtist á mbl.is í gærkvöldi. Það fer afskaplega í taugarnar á formanni Rafiðnaðarsambandsins að áðurnefndir formenn hafa gagnrýnt samninganefnd Alþýðusambands Íslands harðlega fyrir þá linkind sem sýnd var við endurskoðun kjarasamninganna 25. febrúar og 25. júní sl.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð sagt að það hafi verið stórkostlega mistök að fresta áður umsömdum launahækkunum sem hefur valdið því að verkafólk hefur verið þvingað til að afsala sér á annað hundrað þúsunda króna, og það með samþykki samninganefndar Alþýðusambands Íslands.

Formaður félagsins benti á, á formannafundum ASÍ sem haldnir voru t.a.m 25. febrúar að það væru klárlega til fyrirtæki sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við gerða samninga og benti formaður á öll þau fyrirtæki sem standa í útflutningi í því samhengi, og einnig olíufyrirtækin og önnur fyrirtæki sem hafa varpað sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið.

Flestir muna eftir málum tengdum arðgreiðslum HB Granda, sem Verkalýðsfélag Akraness vakti athygli á, en það mál endaði á farsælan hátt með því að stjórn HB Granda ákvað að greiða öllum starfsmönnum fyrirtækisins áður umsamdar hækkanir sem taka áttu gildi 1. mars.

Rétt er að rifja upp hver ályktun miðstjórnar ASÍ var í því máli, en þar situr m.a. Guðmundur Gunnarsson. En í þeirri ályktun kom fram áskorun frá miðstjórn um að HB Grandi dragi arðgreiðslurnar til baka ELLA greiði starfsfólki áður umsamdar launahækkanir.

Það var eins gott að stjórnendur HB Granda fóru ekki eftir miðstjórn, því ef farið hefði verið eftir ályktun miðstjórnar og HB Grandi dregið arðgreiðslurnar til baka þá hefði fyrirtækið ekki þurft að greiða fiskvinnslufólkinu áður umsamdar hækkanir að mati miðstjórnar ASÍ, þó svo fyrirtækið hafi skilað umtalsverðum hagnaði á síðasta ári.

Í kjölfarið á því að HB Grandi ákvað að hækka laun sinna starfsmanna fylgdi fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi og tilkynntu að þau ætluðu að standa við áður umsamdar hækkanir þó svo samninganefnd sem Guðmundur Gunnarsson situr í, hafi verið búin að þvinga launafólk til að fresta áður umsömdum hækkunum.

Þessu til viðbótar var því hafnað að launafólk sem ynni eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði fengi að kjósa um það í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort það væri tilbúið að fresta áður umsömdum launahækkunum eins og samninganefnd ákvað.

Guðmundur Gunnarsson heldur því fram að formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar "taki lítinn þátt í umræðu og stefnumótandi starfi í heildarsamtökum launamanna, þó svo þeir séu kjörnir til þess".

Þessi fullyrðing er í hæsta máta hlægileg og nægir að nefna að formaður Verkalýðsfélags Akraness gagnrýndi harðlega á formannafundum ASÍ 25. febrúar og 25. júní frestun kjarasamninga  og verða áður nefndir formenn seint sakaðir um það að koma ekki sjónarmiðum sínum á framfæri innan Starfsgreinasambandsins og Alþýðusambandsins.

Nægir að nefna í því samhengi síðasta ársfund, en þar lagði VLFA t.a.m. fram tillögu um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og formaður kom hinum ýmsu málum á framfæri. Hægt er að horfa á ræður formanns hér.

Það var stórmerkilegt á ársfundinum að Guðmundur Gunnarsson fann tillögunni um stóraukið lýðræði við stjórnarval allt til foráttu. Samt sem áður hefur Rafiðnaðarsambandið ályktað um lífeyrismál og í ályktun frá þeim frá 27. mars segir m.a. orðrétt: "Á fundum rafiðnaðarmanna undanfarin ár hafa ítrekað verið samþykktar ályktanir þess eðlis að sjóðsfélagar kjósi alla stjórnarmenn lífeyrissjóða, ekki einungis helming þeirra. "

Einnig hefur birst á mbl.is viðtal við Guðmund Gunnarsson um að kjósa þurfi stjórnarmenn beinni kosningu.

Þess vegna var óskiljanlegt að sjá formann Rafiðnaðarsambandsins berjast af alefli gegn tillögu VLFA á ársfundi ASÍ 22. og 23. október. Tillögu sem gekk út á nákvæmlega það sama og hann hefur verið að berjast fyrir. Þetta er formanni félagsins óskiljanlegt. Ekki nema menn meini ekkert með því sem eru að berjast fyrir og láta hafa eftir sér?

Málið er einfalt: Guðmundur Gunnarsson þolir það einfaldlega ekki að áðurnefndir formenn hafa gagnrýnt harðlega þá linkind sem ríkir í forystusveit Alþýðusambands Íslands og það er hlægilegt að sjá og heyra að hann leggur ofuráherslu á að fjölmiðlar ræði ekki við þá einstaklinga sem hér um ræðir. Það birtist vart pistill frá Guðmundi þar sem hann er ekki að gagnrýna spjallþáttastjórnendur og fjölmiðla yfir höfuð fyrir að ræða við þá aðila sem hafa aðra skoðun heldur en valdaklíkan sem stjórnar Alþýðusambandi Íslands.

Formanni VLFA var t.a.m. boðið í Kastljósþátt og var forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands, m.a. Guðmundi Gunnarssyni líka boðið. Á einhvern óskiljanlegan hátt sáu þessir menn sér ekki fært að mæta og ræða þá gagnrýni sem t.a.m. formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar hafa haldið á lofti. Rétt er að benda á yfirlýsingu frá Helga Seljan í þessu samhengi:

Yfirlýsing Helga Seljan  

Eitt að lokum: Guðmundur Gunnarsson formaður RSÍ talar um að áðurnefndir formenn séu einangraðir í verkalýðshreyfingunni. Það má vel vera að áðurnefndir formenn séu einangraðir hvað varðar valdaklíkuna sem öllu vill ráða, en hinn almenni félagsmaður stendur þétt að baki þeim, ef marka má skoðanakannanir sem Capacent Gallup gerði þar sem tvö stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins báru af og viti menn, það var Verkalýðsfélag Akraness með yfir 90% ánægða með starfsemi félagsins og Framsýn á Húsavík með 96% félagsmenn ánægða.

Það er þetta traust sem áðurnefndir formenn vilja njóta: traust félagsmannanna sjálfra. En það skiptir formenn VLFA og Framsýnar litlu máli hvort þeir njóti trausts valdaklíkunnar í Alþýðusambandi Íslands sem að mati formanns VLFA hefur misst öll tengsl við grasrótina og könnun leiddi í ljós að nýtur einungis trausts 25% landsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image