• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

25
Nov

Bónuskerfið hjá Elkem Ísland að svínvirka

Verkalýðsfélag Akraness gekk frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Elkem Ísland í desember á síðasta ári og var sá samningur mjög hagstæður fyrir starfsmenn fyrirtækisins enda hækkuðu laun þeirra umtalsvert.

Eitt af þeim atriðum sem tekið var á í þessum nýja samningi var bónuskerfi starfsmanna en gamla bónuskerfið hafði því miður ekki virkað sem skyldi og á þeirri forsendu ákváðu samningsaðilar að taka inn ný viðmið í nýju bónuskerfi.

Nú hefur komið í ljós að þetta nýja bónuskerfi er að svínvirka. Í upphafi gerðu menn ráð fyrir að bónus starfsmanna myndi að meðaltali gefa í kringum 7% en nú hefur komið í ljós að á síðustu þremur mánuðum hefur bónusinn verið að meðaltali 8,5% sem er mjög jákvætt.

Það er meira jákvætt að frétta af Elkem Ísland en á síðasta ári gekk rekstur fyrirtækisins mjög vel en hagnaður þess nam rúmum 1,1 milljarði króna sem er um 8% af heildarveltu fyrirtækisins en heildarveltan var rúmir 13 milljarðar króna.

Það er morgunljóst að það skiptir gríðarlega miklu máli hversu vel stóriðjunni á Grundartanga gengur enda byggjum við Skagamenn okkar afkomu að þónokkuð stórum hluta á rekstri þessara fyrirtækja.

En eins og áður hefur komið fram á heimasíðunni skilaði Norðurál rúmum 16 milljörðum í hagnað á síðasta ári og Elkem skilaði 1,1 milljarði í hagnað eins og fram kom hér að ofan. Þetta sýnir að okkar styrkustu stoðir sem eru stóriðjan, virðast standa á sterkum grunni um þessar mundir öllu samfélaginu til heilla.

24
Nov

Sátt hefur náðst við Akraneskaupstað

Formaður félagsins ásamt Magnúsi Norðdahl, lögmanni ASÍ, funduðu í morgun með lögmanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Jóni Pálma Pálmasyni bæjarritara Akraneskaupstaðar.

Tilefni fundarins var það að bæjaryfirvöld á Akranesi höfðu í sparnaðarskyni stytt opnunartíma íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar umtalsvert með töluverðri tekjuskerðingu fyrir starfsmenn. Í framhaldi af þessari styttingu tóku yfirvöld ákvörðun um að heimila íþróttaiðkun í íþróttahúsinu á Vestugötu tvisvar sinnum í viku klukkutíma í senn án þess að starfsmenn bæjarins væru til staðar.

Bæjaryfirvöld ætluðu sér með öðrum orðum að láta sjálfboðaliða ganga í störf starfsmanna íþróttamannvirkja, störf sem þeir hafa sinnt undanfarin ár og áratugi.  Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega í bréfi til bæjaryfirvalda (sjá hér).

Niðurstaða fundarins var afar jákvæð, en bæjaryfirvöld hafa ákveðið að frá og með miðjum desember verði horfið frá þessari opnun þar sem starfsmenn bæjarins eru ekki til staðar. Hér var um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar. Það var ekki hægt að láta það átölulaust að sjálfboðaliðar gengju í störf starfsmanna enda hefði málið klárlega getað orðið fordæmisgefandi. Því ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fara í málið af fullri hörku með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi.

23
Nov

Valdaklíkan óhress

Formaður Rafiðnaðarsambandsins, Guðmundur Gunnarsson sá ástæðu til að gagnrýna formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýn Húsavík vegna afskipta þeirra af verkalýðsmálum yfir höfuð á ráðstefnu trúnaðarmanna Rafiðnaðarsambandsins sem haldin var um miðjan nóvember.

Frétt um þetta birtist á mbl.is í gærkvöldi. Það fer afskaplega í taugarnar á formanni Rafiðnaðarsambandsins að áðurnefndir formenn hafa gagnrýnt samninganefnd Alþýðusambands Íslands harðlega fyrir þá linkind sem sýnd var við endurskoðun kjarasamninganna 25. febrúar og 25. júní sl.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð sagt að það hafi verið stórkostlega mistök að fresta áður umsömdum launahækkunum sem hefur valdið því að verkafólk hefur verið þvingað til að afsala sér á annað hundrað þúsunda króna, og það með samþykki samninganefndar Alþýðusambands Íslands.

Formaður félagsins benti á, á formannafundum ASÍ sem haldnir voru t.a.m 25. febrúar að það væru klárlega til fyrirtæki sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við gerða samninga og benti formaður á öll þau fyrirtæki sem standa í útflutningi í því samhengi, og einnig olíufyrirtækin og önnur fyrirtæki sem hafa varpað sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið.

Flestir muna eftir málum tengdum arðgreiðslum HB Granda, sem Verkalýðsfélag Akraness vakti athygli á, en það mál endaði á farsælan hátt með því að stjórn HB Granda ákvað að greiða öllum starfsmönnum fyrirtækisins áður umsamdar hækkanir sem taka áttu gildi 1. mars.

Rétt er að rifja upp hver ályktun miðstjórnar ASÍ var í því máli, en þar situr m.a. Guðmundur Gunnarsson. En í þeirri ályktun kom fram áskorun frá miðstjórn um að HB Grandi dragi arðgreiðslurnar til baka ELLA greiði starfsfólki áður umsamdar launahækkanir.

Það var eins gott að stjórnendur HB Granda fóru ekki eftir miðstjórn, því ef farið hefði verið eftir ályktun miðstjórnar og HB Grandi dregið arðgreiðslurnar til baka þá hefði fyrirtækið ekki þurft að greiða fiskvinnslufólkinu áður umsamdar hækkanir að mati miðstjórnar ASÍ, þó svo fyrirtækið hafi skilað umtalsverðum hagnaði á síðasta ári.

Í kjölfarið á því að HB Grandi ákvað að hækka laun sinna starfsmanna fylgdi fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi og tilkynntu að þau ætluðu að standa við áður umsamdar hækkanir þó svo samninganefnd sem Guðmundur Gunnarsson situr í, hafi verið búin að þvinga launafólk til að fresta áður umsömdum hækkunum.

Þessu til viðbótar var því hafnað að launafólk sem ynni eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði fengi að kjósa um það í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort það væri tilbúið að fresta áður umsömdum launahækkunum eins og samninganefnd ákvað.

Guðmundur Gunnarsson heldur því fram að formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar "taki lítinn þátt í umræðu og stefnumótandi starfi í heildarsamtökum launamanna, þó svo þeir séu kjörnir til þess".

Þessi fullyrðing er í hæsta máta hlægileg og nægir að nefna að formaður Verkalýðsfélags Akraness gagnrýndi harðlega á formannafundum ASÍ 25. febrúar og 25. júní frestun kjarasamninga  og verða áður nefndir formenn seint sakaðir um það að koma ekki sjónarmiðum sínum á framfæri innan Starfsgreinasambandsins og Alþýðusambandsins.

Nægir að nefna í því samhengi síðasta ársfund, en þar lagði VLFA t.a.m. fram tillögu um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og formaður kom hinum ýmsu málum á framfæri. Hægt er að horfa á ræður formanns hér.

Það var stórmerkilegt á ársfundinum að Guðmundur Gunnarsson fann tillögunni um stóraukið lýðræði við stjórnarval allt til foráttu. Samt sem áður hefur Rafiðnaðarsambandið ályktað um lífeyrismál og í ályktun frá þeim frá 27. mars segir m.a. orðrétt: "Á fundum rafiðnaðarmanna undanfarin ár hafa ítrekað verið samþykktar ályktanir þess eðlis að sjóðsfélagar kjósi alla stjórnarmenn lífeyrissjóða, ekki einungis helming þeirra. "

Einnig hefur birst á mbl.is viðtal við Guðmund Gunnarsson um að kjósa þurfi stjórnarmenn beinni kosningu.

Þess vegna var óskiljanlegt að sjá formann Rafiðnaðarsambandsins berjast af alefli gegn tillögu VLFA á ársfundi ASÍ 22. og 23. október. Tillögu sem gekk út á nákvæmlega það sama og hann hefur verið að berjast fyrir. Þetta er formanni félagsins óskiljanlegt. Ekki nema menn meini ekkert með því sem eru að berjast fyrir og láta hafa eftir sér?

Málið er einfalt: Guðmundur Gunnarsson þolir það einfaldlega ekki að áðurnefndir formenn hafa gagnrýnt harðlega þá linkind sem ríkir í forystusveit Alþýðusambands Íslands og það er hlægilegt að sjá og heyra að hann leggur ofuráherslu á að fjölmiðlar ræði ekki við þá einstaklinga sem hér um ræðir. Það birtist vart pistill frá Guðmundi þar sem hann er ekki að gagnrýna spjallþáttastjórnendur og fjölmiðla yfir höfuð fyrir að ræða við þá aðila sem hafa aðra skoðun heldur en valdaklíkan sem stjórnar Alþýðusambandi Íslands.

Formanni VLFA var t.a.m. boðið í Kastljósþátt og var forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands, m.a. Guðmundi Gunnarssyni líka boðið. Á einhvern óskiljanlegan hátt sáu þessir menn sér ekki fært að mæta og ræða þá gagnrýni sem t.a.m. formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar hafa haldið á lofti. Rétt er að benda á yfirlýsingu frá Helga Seljan í þessu samhengi:

Yfirlýsing Helga Seljan  

Eitt að lokum: Guðmundur Gunnarsson formaður RSÍ talar um að áðurnefndir formenn séu einangraðir í verkalýðshreyfingunni. Það má vel vera að áðurnefndir formenn séu einangraðir hvað varðar valdaklíkuna sem öllu vill ráða, en hinn almenni félagsmaður stendur þétt að baki þeim, ef marka má skoðanakannanir sem Capacent Gallup gerði þar sem tvö stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins báru af og viti menn, það var Verkalýðsfélag Akraness með yfir 90% ánægða með starfsemi félagsins og Framsýn á Húsavík með 96% félagsmenn ánægða.

Það er þetta traust sem áðurnefndir formenn vilja njóta: traust félagsmannanna sjálfra. En það skiptir formenn VLFA og Framsýnar litlu máli hvort þeir njóti trausts valdaklíkunnar í Alþýðusambandi Íslands sem að mati formanns VLFA hefur misst öll tengsl við grasrótina og könnun leiddi í ljós að nýtur einungis trausts 25% landsmanna.

23
Nov

Kynning fyrir atvinnuleitendur

Í morgun hélt Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins, kynningu fyrir atvinnuleitendur í boði Vinnumálastofnunar. Kynningin fjallaði m.a. um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, vinnulöggjöfina og hlutverk stéttarfélaga. Góð mæting var á kynninguna og bárust formanni fjölmargar spurningar frá þátttakendum.

Kynningar sem þessar eru mikilvægur þáttur af starfsemi félagsins og er þeim sem óska eftir slíkum kynningum bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins.

20
Nov

Frábær afkoma Norðuráls

Fundað var í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur sú vinna fram að þessu aðallega farið í textabreytingar í kjarasamningnum og miðar þeirri vinnu ágætlega áfram. Samt sem áður eru nokkrar greinar sem ágreiningur er um og vonandi leysist hann von bráðar. Ekkert er farið að ræða um launalið samningsins sem skiptir jú starfsmenn hvað mestu máli.

Formaður hefur verið að kynna sér hvernig fyrirtækinu gekk rekstrarlega á síðasta ári og það er skemmst frá því að segja að afkoma Norðuráls á síðasta ári var glæsileg. Hagnaður fyrirtækisins nam rétt rúmum 16 milljörðum króna. Heildarvelta fyrirtækisins voru rúmir 47 milljarðar þannig að hagnaður nemur 34% af heildarveltu sem verður að teljast frábær árangur.

Heildarlaunakostnaður var rétt tæpir 3 milljarðar sem að gera 6,23% af heildarveltu fyrirtækisins sem verður að teljast afar lág tala. Í ljósi þeirrar staðreyndar að rekstur Norðuráls hefur verið afburðagóður, ekki bara á síðasta ári heldur nánast frá upphafi, er ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun standa fast á því að launakjör starfsmanna verði bætt allverulega í þeim viðræðum sem nú standa yfir.

Það er einnig rétt að minna á að í febrúar fór álverðið niður í 1266 dollara pr. tonn en í dag er álverðið komið upp í 2000 dollara pr. tonn. Allt þetta og einnig það sem áður hefur komið fram mun hjálpa samninganefndinni að standa fast á sínum kröfum þegar kemur að launaliðunum.

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness mun sýna tennurnar í þessum viðræðum enda er komið að því að starfsfólkinu verði umbunað fyrir þann frábæra árangur sem náðst hefur á liðnum árum og þessi árangur næst alls ekki nema með góðu og hæfu starfsfólki.

Það er gríðarlega ánægjulegt að afkoma fyrirtækisins skuli hafa verið þetta jákvæð á síðasta ári, enda er stóriðjan á Grundartanga það sem heldur lífinu í öllu samfélaginu hér á Akranesi og nærsveitum.

19
Nov

Verkafólk þvingað til að afsala sér sínum launum á sama tíma og stjórnendur taka sér tugmilljón króna bónusa

Í byrjun september sl. sendi Verkalýðsfélag Akraness áskorun á stjórn N1. Í áskoruninni krafðist VLFA, í ljósi þess að N1 skilaði tæpum hálfum milljarði í hagnað fyrstu 6 mánuði ársins, að fyrirtækið stæði við þær launahækkanir sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars sl. Samninganefnd ASÍ og Samtök atvinnulífsins höfðu þá samið um að fresta þeim hækkunum vegna bágrar stöðu fyrirtækja í landinu.

Bensínafgreiðslumaður og aðrir starfsmenn olíufyrirtækja hafa nú þegar orðið fyrir launatjóni sem nemur á annað hundrað þúsunda króna vegna þess samkomulags sem ASÍ og SA gengu frá.

Nú kom fram í fréttum fyrir fáeinum dögum síðan að framkvæmdastjórar og aðrir yfirmenn N1 hafa síðustu daga innleyst afkomutengd laun sem þeir eiga hjá fyrirtækinu vegna góðrar afkomu þess á síðasta ári. Samkvæmt fréttum nema þessar upphæðir tugum milljóna króna.

Þetta gerist á sama tíma og áskorun Verkalýðsfélags Akraness var hafnað af stjórn fyrirtækisins og var vísað í samkomulag ASÍ og SA í því samhengi.

Í svari sem Verkalýðsfélagi Akranesi barst 8. september sl. frá forstjóra N1 segir m.a. þetta: "Það er rétt sem fram kemur í áskorunarbréfinu að afkoma N1 á fyrri hluta ársins var viðunandi. Það er hins vegar mikil óvissa um framhaldið. Á síðasta starfsári N1 varð tap af rekstrinum uppá 1.200 milljónir króna."

Einnig segir: "Skuldir fyrirtækisins hafa hækkað mikið á s.l. einu og hálfu ári eins og hjá öllum fyrirtækjum og heimilum landsins. Fyrirsjáanlegt er að á næstunni verður það hörð barátta að greiða þær niður þannig að þær komist aftur í fyrra horf."

Að endingu kemur fram í svarbréfinu: "Við munum bæta við laun okkar starfsfólks í samræmi við samkomulag sem gert var þ. 25. júní sl. á milli ASÍ og SA."

Það er grátlegt til þess að vita að almennt verkafólk sem starfar hjá þessu fyrirtæki skuli hafa verið þvingað til að afsala sér sínum launum á sama tíma og græðgisvæðing stjórnenda fyrirtækja heldur áfram þar sem menn taka tugi milljóna í bónusgreiðslur og ætlast til þess að almennt verkafólk horfi aðgerðalaust á.

Það er ennþá grætilegra að verkafólk skuli hafa verið þvingað til að fresta sínum launahækkunum ogt það með fullu samþykki samninganefndar ASÍ.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er enn til staðar, það er að launafólki verði greitt það fjárhagslega tjón sem það hefur orðið fyrir vegna þess gjörnings sem gerður var við frestun á þeim launahækkunum sem taka áttu gildi 1. mars sl. skv. kjarasamningum frá 17. febrúar 2008.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: ætlar siðblinda og græðgi í íslenskum fyrirtækjum engan enda að taka?  Eitt er ljóst að verkafólki vítt og breitt um landið er gjörsamlega misboðið yfir þessum gjörningi.

Sjá fréttir um málið hér og hér.

18
Nov

Forstjóri HB Granda í heimsókn á skrifstofu félagsins

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB GrandaEggert B. Guðmundsson, forstjóri HB GrandaÁ mánudaginn var kom Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda á skrifstofu félagsins og fundaði með formanni félagsins. Eggert fór vítt og breitt yfir starfsemi fyrirtækisins og kom fram í máli hans að fyrirtækinu gengur nokkuðvel þessi misserin hjálpar það til að gengisfall krónunnar hefur verið sjávarútvegsfyrirtækjum í hag.

Vinna í frystihúsi HB Granda hér á Akranesi hefur á þessu ári aukist umtalsvert og ber að fagna því innilega. Sem dæmi þá var engin sumarlokun í sumar, sem nýttist skólakrökkum mjög vel. Hefur vinnutíminn einnig lengst umtalsvert, sem gefur starfsfólki möguleika á auknum tekjum á þessum erfiðu tímum.

Einnig kom fram hjá Eggerti að HB Grandi hafi fengið úthlutað 5.000 tonnum af síldarkvóta og reiknaði forstjórinn með að þeim afla yrði landað hér á Akranesi til bræðslu.

Þetta var ánægjulegur fundur, en eins og flestir muna þá gustaði vel á milli félagsins og fyrirtækisins fyrr á árinu vegna arðgreiðslna fyrirtækisins. Það mál leystist farsællega og var HB Grandi t.a.m. fyrsta fyrirtækið sem tók ákvörðun um að standa við allar þær launahækkanir sem taka áttu gildi 1. mars sl. Sú ákvörðun hefur skilað fiskvinnslufólki HB Granda yfir 100.000 krónum í auknum tekjum, en því miður varð stór hluti verkafólks af þessari hækkun sökum linkindar samninganefndar ASÍ.

16
Nov

Myndskeið frá ársfundi ASÍ aðgengileg á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness

Skrifstofu félagsins hafa nú borist upptökur af ræðum formanns á ársfundi ASÍ sem haldinn var dagana 22. og 23. október sl. Ákveðið hefur verið að birta ræðurnar hér á síðunni og verður myndskeiðum hlaðið inn í dag og á morgun.

Hægt er að skoða ræður formanns hér.

16
Nov

Verkalýðsfélag Akraness býður upp á fjármálanámskeið

Ingólfur H. IngólfssonIngólfur H. IngólfssonVerkalýðsfélag Akraness og Sparnaður ehf. bjóða nærsveitungum upp á námskeið með Ingólfi H. Ingólfssyni. Þar mun hann kynna ákveðna hugmyndafræði í fjármálum sem hann hefur verið að boða á undanförnum árum.

Námskeiðið verður haldið þriðjudaginn 17. nóvember 2009 frá kl. 20:00 til 21:00 í sal Gamla Kaupfélagsins að Kirkjubraut 11.

Á námskeiðinu er sýnt hvernig hægt er að nota þá peninga sem maður á til að greiða hratt niður skuldir, að byggja upp öruggan sparnað og að hafa gaman af því að nota peningana.

Eftir námskeiðið verður svo hægt að panta einkatíma hjá ráðgjöfum Sparnaðar. Í einkaráðgjöfinni er markmiðið að fólk fái yfirsýn yfir fjármálin, bæði skuldir og eignir. Fólki er síðan aðstoðað við að ná markmiðum sínum hvort sem það tengist skuldunum eða sparnaðinum. Bent er á leiðir til að forgangsraða skuldum og minnka þær eins hratt og mögulegt er án þess að auka greiðslubyrðina.

13
Nov

Ræður formanns félagsins á ársfundi ASÍ verða birtar í máli og myndum á heimasíðu félagsins

Nú nýverið lauk afar athyglisverðum ársfundi ASÍ þar sem ýmis mál voru til umræðu, til dæmis tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóði.

Hart var tekist á um það sem fram kom í ræðum formanns Verkalýðsfélags Akraness, bæði um tillöguna um lífeyrissjóðina sem og um ræðu sem formaður flutti um gagnrýni á endurskoðun kjarasamninga frá því í febrúar og júní.

Nú hefur Verkalýðsfélag Akraness óskað eftir því að fá afrit af þeim ræðum sem formaður hélt á ársfundinum og er von á þeim á allra næstu dögum. Um leið og þær hafa borist skrifstofu félagsins munu þær verða birtar í heild sinni hér á heimasíðunni. Eru félagsmenn hvattir til þess að horfa og hlusta á það sem formaður félagsins hafði fram að færa á ársfundi ASÍ og féll í svo grýttan jarðveg hjá hinum ýmsu forystumönnum innan ASÍ.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image