• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

30
Dec

356 Akurnesingar án atvinnu

Það þarf að fara alveg aftur til ársins 1995 til að finna álíka mikið atvinnuleysi hér á Akranesi eins og staðan er í dag. Nú eru 356 Akurnesingar án atvinnu og er skipting á milli kynja nokkuð jöfn. Þessu til viðbótar eru 26 einstaklingar án atvinnu í svæðisnúmeri 301 sem eru nærsveitirnar hér í kringum Akranes.

Á Vesturlandi öllu eru 617 án atvinnu og er það gríðarleg fjölgun ef litið er til síðustu þriggja ára og álag á starfsmenn Vinnumálastofnunnar er mjög mikið en starfsmannafjöldi er jafnmikill nú og var fyrir þremur árum síðan þegar atvinnuleysið á Vesturlandi öllu var innan við 100 manns. Það er skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að starfsmönnum Vinnumálastofnunnar verði sköffuð þau starfsskilyrði svo viðunandi sé, bæði fyrir starfsmenn og síðast en ekki síst fyrir atvinnuleitendur.

Á þessu sést að staðan er nokkuð alvarleg þó svo að á okkar atvinnusvæði sé ástandið mun betra en á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Það fjölgaði til dæmis um 15 manns í fiskvinnslu HB Granda eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær og einnig hefur stóriðjan á Grundartanga haldið lífæð atvinnulífsins gangandi.

29
Dec

Verkalýðsfélag Akraness fagnar fjölgun starfa hjá HB Granda

Um 3.800 tonn af bolfiski fóru til vinnslu hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi á árinu sem er að líða. Þetta er mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir og var starfsmönnum fjölgað í samræmi við aukin umsvif. Í byrjun árs voru 25 starfsmenn í vinnu hjá HB Granda á Akranesi en þeir eru nú um 40 talsins.

Torfi Þ. Þorsteinsson, framleiðslustjóri HB Granda, segir í samtali við vef fyrirtækisins að vinnsla á þorski hafi verið aukin að nýju í fiskiðjuverinu á Akranesi á árinu og alls hafi um 3.200 tonn af þorski verið unnin þar. Vinnsla á ufsa nemi um 600 tonnum.

"Það var aukið við þorskkvótann í janúar sl. og það skilaði sér strax í auknum umsvifum í landvinnslunni á Akranesi. Ekkert hlé varð á vinnslunni í sumar. Við réðum 15 námsmenn til starfa yfir hásumarið og allt voru þetta ákaflega dugleg ungmenni sem við vonumst til að fá aftur til vinnu á næsta ári,“ segir Torfi. Ekki hefur fallið niður vinna í einn einasta dag á þessu ári vegna hráefnisskorts hjá HB Granda á Akranesi.

,,Það var mjög mikið að gera í sumar sem leið og í júlímánuði var t.d. unnið frá klukkan 6 á morgnana og fram til kl. 18 alla virka daga og sömuleiðis var unnið á laugardögum. Starfsmenn hafa sýnt mikinn dugnað og sveigjanleika og alltaf verið tilbúnir að bæta við sig vinnu þegar á þarf að halda. Sala og vinnsla hefur sömuleiðis gengið mjög vel.  Allir þorskhnakkar eru seldir ferskir og fara með flugi á markaði á meginlandi Evrópu. Afurðirnar eru seldar á hæsta verði og viðskiptamenn okkar sætta sig ekki við annað en fyrsta flokks vöru. Ufsavinnslan er einnig stór þáttur í starfseminni á Akranesi. Ufsinn er léttsaltaður og lausfrystur og fer á markað í Brasilíu og Suður-Evrópu,“ segir Torfi.

Í jólafríi var ráðist í töluverðar lagfæringar á vinnslulínum hjá HB Granda á Akranesi. Bætt var við niðurskurðarvél og flokkara og pökkunaraðstaða var endurbætt.  Einnig voru gólf lagfærð og tækifærið notað til að sinna annarri viðhaldsvinnu.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessari auknu starfsemi hjá HB Granda hér á Akranesi.  Sérstaklega í ljósi þess að gríðarleg fækkun starfa hefur verið í landvinnslu HB Granda á undanförnum árum og sé dæmi þá voru um 120 manns sem störfuðu í landvinnslunni hér á Akranesi á árinu 2003.

28
Dec

Ályktun um sjómannaafsláttinn samþykkt

Rétt í þessu var að ljúka aðalfundi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness. Auk venjubundinna aðalfundarstarfa var samþykkt ályktun vegna áforma ríkisstjórnar Íslands um að afnema sjómannaafsláttinn. Í ályktuninni segir meðal annars:

Aðalfundur sjómannadeildar hvetur alla sjómenn til að standa þétt saman í því að koma í veg fyrir þessi áform og mun sjómannadeild Verklýðsfélags Akraness ekki skjóta sér undan þeirri ábyrgð ef samstaða næst um aðgerðir til varnar sjómannaafslættinum.

Formaður félagsins fór yfir hin ýmsu mál er lúta að sjómannadeildinni og upplýsti fundarmenn um mikilvægi þess að kynna sér það sem félagið býður upp á, bæði er lýtur að sjúkrasjóði sem og greiðslum úr starfsmenntunarsjóði Sjómenntar og einnig aðra þjónustu sem félagið býður upp á. Farið var vítt og breitt um réttindamál sjómanna og voru fundarmenn sammála um mikilvægi þess að vanda vel til kjarasamningsgerðar en kjarasamningur sjómanna er laus eftir rétt rúmt ár.

28
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness í dag

ið minnum á aðalfund sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness sem verður í dag og hefst klukkan 14. Fundurinn verður haldinn í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Auk venjubundinnar aðalfundardagskrár munu áform ríkisstjórnarinnar um afnám sjómannaafsláttarins klárlega verða til umræðu enda er hér verið að höggva í starfskjör sjómanna sem hafa verið við lýði í hartnær 40 ár. Það er mat félagsins að það sé ekki hægt að láta þessi áform yfir sjómenn ganga átölulaust.

23
Dec

Jólakveðja frá stjórn Verkalýðsfélags Akraness

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn félagsins  senda félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum bestu jólakveðjur með óskum um farsæld og frið á jólum, um áramót og á komandi ári. 

22
Dec

Að gefnu tilefni

Í sjónvarpsfréttum á Ruv í gær kom fram að gagnagrunnur sem Jón Jósef Bjarnason, framkvæmdastjóri IT Ráðgjafar vinnur að muni sýna á myndrænan hátt krosstengsl einstaklinga í viðskiptalífinu. Höfundur grunnsins segir að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar leggi stein í götu þeirrar viðleitni að bæta við upplýsingum um þá sem fara með fé í nafni samtaka launamanna.

Verkalýðsfélag Akraness vill að gefnu tilefni að það komi skýrt fram að VLFA varð að sjálfsögðu strax við beiðni frá Jóni Jósep um hverjir skipi stjórn félagsins enda á að ríkja algjört gagnsæi í starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness harmar það ef satt sé að aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar hafi lagt stein í götu þeirrar viðleitni að bæta við upplýsingum um þá sem fara með fé í nafni samtaka launamanna. 

Formaður VLFA fagnar þeirri vinnu sem Jón Jósef vinnur nú að, einfaldlega vegna þess að fulltrúar stéttarfélaga bæði í stjórnum stéttarfélaga og lífeyrissjóða verða að vera hafnir yfir alla gagnrýni og þar verður að ríkja algjört gagnsæi. 

22
Dec

73 milljónir úr vasa skattgreiðenda

Óskiljanleg vinnubrögðÓskiljanleg vinnubrögðHvað er eiginleg í gangi? Í rúm 10 ár hefur núverandi sagnaritari þegið greiðslur frá skattgreiðendum Akraneskaupstaðar, fjárhæð sem nemur 73.337.692.- m.v. uppreiknaða vísitölu, fyrir það eitt að rita sögu Akraneskaupstaðar.

Þessu til viðbótar var samþykkt nýverið í bæjarstjórn að greiða umtalsverða fjárhæð til að klára verkið þrátt fyrir að þegar sé búið að greiða 73 milljónir fyrir það. Þetta gerist á sama tíma og verið er að skerða laun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja um tugi þúsunda á mánuði, hvernig getur þetta átt sér stað?

Vinnubrögð af þessu tagi eru að mati formanns félagsins algjörlega óskiljanleg og á þeirri forsendu þarf bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að útskýra fyrir skattgreiðendum hér á Akranesi í hverju þessi ritun er eiginlega fólgin. 

21
Dec

Dagbækur og félagsskírteini væntanleg

Um þessar mundir er verið að vinna að því að senda út dagbækur til félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness en dagbækurnar eru jafnframt félagsskírteini þeirra. Í bókunum má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um starf félagsins. Félagsmenn ættu að vera búnir að fá dagbókina senda heim í byrjun nýs árs.

18
Dec

Ásmundur Uni verður heiðraður fyrir störf í þágu félagsins

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað á fundi sínum á þriðjudaginn var að heiðra Ásmund Una Guðmundsson fyrir hans störf í þágu félagsins.

Ásmundur Uni var fyrst kjörinn ritari verkamannadeildar félagsins árið 1965 og einnig var hann vararitari aðalstjórnar í fjölmörg ár. Heiðrunin mun eiga sér stað á hinum árlega jólatrúnaðarráðsfundi félagsins sem haldinn verður þann 29. desember næstkomandi.

17
Dec

Lágmarkslaun til skammar fyrir íslenskt samfélag og verkalýðshreyfinguna

Það var afar athyglisverð frétt á Stöð 2 í gær þar sem sagt var frá því að Útlendingastofnun hefði synjað tælenskri konu um búsetuleyfi á þeirri forsendu að 175 þúsund króna laun dygðu ekki til framfærslu. Umrædd kona starfar í einu af þvottahúsum ríkisspítalanna og er afar fróðlegt að sjá að Útlendingastofnun skuli vera búin að kveða upp úrskurð um að laun upp á 175 þúsund krónur dugi ekki fyrir framfærslu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness er í raun og veru algjörlega sammála því að lágmarkslaun á hinum almenna vinnumarkaði dugi engan veginn fyrir lágmarksframfærslu.

Það er ágætt að vera búin að fá þessa staðfestingu frá Útlendingastofnun um að lágmarkslaun á Íslandi í dag dugi ekki til að fólk geti framfleytt sér. Þetta mun klárlega verða notað í komandi kjaraviðræðum, bæði við ríki, sveitarfélög og á hinum almenna vinnumarkaði sem rök fyrir því að hækka beri lágmarkslaun umtalsvert þegar kjarasamningar verða lausir á næsta ári.

Formaður félagsins hefur margoft fjallað um þessi skammarlega lágu lágmarkslaun og gerði það meðal annars á ársfundi Alþýðusambands Íslands sem haldinn var dagana 22.-23. október síðastliðinn en í ræðu sem hann hélt sagði hann að það væri íslensku samfélagi og einnig verkalýðshreyfingunni til skammar að vera með lágmarkstaxta sem dygðu ekki fyrir framfærslu fólks. Skorar formaður á fólk að hlusta á umrædda ræðu en hlutinn sem snýr að lágmarkslaununum er í öðrum hluta þegar 8 mínútur eru búnar af ræðunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image