• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jan

Afkoma stóriðjufyrirtækja mjög góð síðastliðin 10 ár

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni munu samningsaðilar að nýjum kjarasamningi Norðuráls hittast á morgun og leggja grunninn að áframhaldandi vinnu við gerð nýs kjarasamnings.

Formaður félagsins hefur verið að skoða afkomu stóriðjufyrirtækja allt aftur til ársins 1998 og það er skemmst frá því að segja að afkoma álfyrirtækjanna síðustu 10 ár er mjög góð. Varðandi járnblendiverksmiðjuna Elkem Ísland þá er afkoma hennar á síðustu 10 árum því miður ekki eins glæisleg og hjá álfyrirtækjunum. Frá árinu 1999 hefur Norðurál skilað samtals rúmum 35 milljörðum í hagnað, Alcan í Straumsvík hefur skilað 41 milljarði á sama tímabili en Elkem Ísland rúmum 2,5 milljörðum. Formaður hefur einnig verið að bera saman launakjör í þessum verksmiðjum og því miður hafa starfsmenn Norðuráls ekki notið jafn góðra kjara og starfsmenn Elkem og Alcan. En það er morgunljóst að í komandi viðræðum mun sá launamunur sem þar ríkir á milli verða leiðréttur að fullu, við annað mun Verkalýðsfélag Akraness ekki una.

Það á að vera skýlaus krafa okkar Íslendinga gagnvart stóriðjufyrirtækjunum að þeim góða ávinningi sem þessi fyrirtæki eru að skila verði skilað með einum eða öðrum hætti til starfsmanna. Þessi fyrirtæki eru að fá hjá okkur ódýrari raforku heldur en gengur og gerist, eru að fá afnot af landinu okkar og síðast en ekki síst fá þeir afskaplega góða starfsmenn til að skila þessum góða árangri sem áður hefur verið nefndur.

Formaður hefur reyndar velt einu fyrir sér, af hverju við Íslendingar reisum ekki okkar eigið álver því það er engin ástæða til þess að láta þann mikla hagnað sem álfyrirtækin eru að skila renna til erlendra eignaraðila. Þetta er möguleiki sem við Íslendingar eigum svo sannarlega að skoða með opnum hug.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image