• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Jan

Stefnumótunarfundur í lífeyrissjóðsmálum haldinn í febrúar

Á síðasta ársfundi Alþýðusambands Íslands var lögð fram tillaga frá Verkalýðsfélagi Akraness um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðum en eins og fram hefur komið hér á síðunni var sú tillaga kolfelld. Hins vegar var á fundinum samþykkt ályktun um heildarendurskoðun á stefnu ASÍ í málefnum lífeyrissjóða.

Nú hefur verið boðað til fundar 18. og 19. febrúar næstkomandi á Hótel Selfossi þar sem stefnumótun í lífeyrismálum Alþýðusambands Íslands verður til umfjöllunar. Það eru 85 fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni sem munu eiga seturétt á þessum fundi og mun Verkalýðsfélag Akraness eiga einn fulltrúa á fundinum.

Að sjálfsögðu mun Verkalýðsfélag Akraness halda áfram baráttu sinni fyrir því að auka lýðræðið við stjórnarval í sjóðunum. Krafa félagsins verður sú sama, það er að hætt verði með helmingaskipti atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar við skipan í stjórnir lífeyrissjóðanna og nýtt fyrirkomulag tekið upp þar sem allir sjóðsfélagar eigi rétt á að bjóða sig fram til stjórnarsetu. Þessari skoðun mun Verkalýðsfélag Akraness halda á lofti á þessum fundi.

Því miður var tillaga Verkalýðsfélags Akraness á ársfundinum um aukið lýðræði kolfelld eins og áður sagði en 80% ársfundarfulltrúa greiddu atkvæði gegn tillögunni. Það er skoðun formanns að þarna hafi sérhagsmunir forystumanna verkalýðshreyfingarinnar náð fram að ganga en af 24 miðstjórnarmönnum innan ASÍ eru 13 sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða, annað hvort sem varamenn eða aðalmenn. Setu í stjórnum lífeyrissjóðanna fylgja umtalsverð völd og einnig getur verið um töluverðan fjárhagslegan ávinning að ræða. Á þeirri forsendu er eins og áður hefur komið fram skoðun formanns að hér hafi verið um sérhagsmunagæslu forystu verkalýðshreyfingarinnar að ræða þegar tillagan fékk ekki brautargengi.  

Það er skýlaus krafa almennings í þessu landi að tekin verði upp ný gildi, gildi er lúta að réttlæti, jöfnuði og virðingu og að gömlu gildin verði látin víkja, gildi sem lúta til dæmis að sérhagsmunagæslu og það er kjörið tækifæri fyrir verkalýðshreyfinguna að sýna það í verki með því að taka upp stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image