• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Mar

Akur mun sjá um endurbætur á orlofshúsi félagsins í Ölfusborgum

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú samið við Trésmiðjuna Akur um miklar endurbætur á orlofshúsi félagsins í Ölfusborgum. Frá því núverandi stjórn tók við félaginu hafa önnur orlofshús félagsins öll fengið andlitslyftingu, m.a. verið máluð, skipt um innréttingar og tæki og annað tilfallandi. Er sumarhús félagsins í Ölfusborgum síðasta húsið sem farið verður í þetta veigamiklar umbætur í bili.

Umbæturnar núna eru mjög umfangsmiklar, m.a. er verið að færa til veggi, skipta um eldhús- og baðinnréttingar, flísaleggja allan bústaðinn og setja hitalagnir í gólf. Þessu til viðbótar verður sólstofa byggð við húsið. Áætlað er að endurbæturnar taki allt að 2 mánuði, en húsið verður klárt fyrir sumarúthlutun.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggur mikla áherslu á að eiga í viðskiptum við fyrirtæki og verslanir í heimabyggð. Í þessu verki verður öll vinna við orlofshúsið í Ölfusborgum unnin af heimamönnum, þ.e.a.s. trésmiðir, rafvirkjar, píparar og flísalagningamenn koma allir frá fyrirtækjum á Akranesi. En að sjálfsögðu leggur stjórn félagsins einnig áherslu á að verslanir og fyrirtæki hér í bæ séu að sama skapi samkeppnishæfar um verð og þjónustu.

Rétt er að geta þess að hjá Akri starfa um 15 félagsmenn og er félagið ánægt með að hafa getað komið þessu verkefni til fyrirtækis sem er með þetta marga félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness að störfum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image