• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Feb

Kjaradeilu við forsvarsmenn Norðuráls vísað til Ríkissáttasemjara

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi stéttarfélaganna við forsvarsmenn Norðuráls. Á þessum fundi lögðu forsvarsmenn Norðuráls fram nýtt tilboð til handa stéttarfélögunum vegna kjarasamnings Norðuráls. Því miður ber allt of mikið á milli samningsaðila miðað við fyrirliggjandi samningstilboð og á þeirri forsendu ákvað samninganefnd stéttarfélaganna að vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara.

Héðan í frá mun Ríkissáttasemjari því sjá um verkstjórn kjaraviðræðna. Áttu formaður Verkalýðsfélags Akraness og forstjóri Norðuráls samræður við Ríkissáttasemjara í morgun um næstu skref. Hefur Ríkissáttasemjari nú þegar boðað til næsta fundar á mánudaginn kemur.

Krafa stéttarfélaganna er skýr, það er að launakjör starfsmanna Norðuráls verði með sama hætti og gerist hjá öðrum sambærilegum stóriðjum eins og t.d. Alcan í Straumsvík. Því miður sýna allir launasamanburðir sem gerðir hafa verið að munur á milli þessara verksmiðja er umtalsverður. Þetta vandamál á rætur að rekja aftur til ársins 1998 þegar starfsemi Norðuráls hófst á Grundartanga. Þá, einhverra hluta vegna, var gefinn verulegur afsláttur á kjörum starfsmanna Norðuráls samanborið við aðrar stóriðjur.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt að hann muni ekki skrifa undir samning nema í honum felist jöfnuður á við laun í öðrum stóriðjum, það er alger lágmarkskrafa.

Formaður hefur einnig kallað eftir skýringum á því af hverju starfsmenn Norðuráls eigi ekki að njóta sambærilegra kjara og t.d. starfsmann Alcan í Straumsvík. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur rekstur verksmiðjunnar á Grundartanga allt frá því hún hóf starfsemi 1998 verið afar góður. Fyrirtækið skilaði t.d. 16 milljörðum í hagnað á árinu 2008, mest allra fyrirtækja hér á landi og frá árinu 1998 hefur fyrirtækið skilað 37 milljörðum í hagnað. Á þessu sést að það eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti ekki sömu kjara og starfsbræður þeirra hjá Alcan í Straumsvík.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image