• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Mar

Viðræður ganga hægt

Í gær var haldinn annar sáttafundurinn undir handleiðslu ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings starfsmanna Norðuráls.

Á fundinum óskaði ríkissáttasemjari eftir því að samningsaðilar færu yfir stöðuna og kom fram í máli formanns Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt er formaður samninganefndar stéttarfélaganna, að lágmarkskrafa samninganefndarinnar er sú að launakjör starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð við launakjör starfsmanna Alcan í Straumsvík.

Það er alveg ljóst, sé miðað við fyrri viðbrögð forsvarsmanna Norðuráls, að þetta verða gríðarlega erfiðar kjaraviðræður. Í raun og veru er formaður Verkalýðsfélags Akraness undrandi á viðbrögðum fyrirtækisins sökum þeirrar góðu afkomu sem fyrirtækið hefur skilað á liðnum árum og þeirri bláköldu staðreynd að launakjör starfsmanna Norðuráls eru mun lakari en hjá starfsbræðrum þeirra hjá Alcan í Straumsvík.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur látið það koma skýrt fram, bæði hér á heimasíðunni svo og á fundum með forsvarsmönnum Norðuráls og Ríkissáttasemjara að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki hvika frá þeirri sanngjörnu kröfu að laun starfsmanna Norðuráls verði leiðrétt til samræmis við kjör starfsmanna Alcan í Straumsvík. Enda er það mat formanns að engar forsendur séu fyrir því að Norðurál fái afslátt á þeim kjarasamningi sem nú hefur verið í gildi um alllanga hríð.

Það liggur fyrir að við upphaf samningsins 1998 voru launakjör starfsmanna Norðuráls mun lakari en starfsmanna í sambærilegum verksmiðjum, og það er hlutverk samninganefndar stéttarfélaganna að leiðrétta þennan mun í þessum kjaraviðræðum í eitt skipti fyrir öll.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta fundar næstkomandi miðvikudag, en í millitíðinni hefur hann óskað eftir að samningsaðilar færu yfir tvö til þrjú atriði til að reyna að fækka þeim ágreiningsefnum sem liggja fyrir. Það er einnig alveg ljóst að núna er gríðarlegt álag á ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu flugvirkja og flugumferðastjóra, en báðir þessir hópar hafa boðað til verkfalls. Á þeirri forsendu getur sáttasemjari ekki gefið sér þann tíma sem hann ella þyrfti vegna kjaraviðræðna Norðuráls.

Það er morgunljóst að verulegrar óþreyju er farið að gæta hjá starfsmönnum Norðuráls vegna þessarar kjaradeilu. Í máli þeirra fjölmörgu starfsmanna Norðuráls sem haft hafa samband við formann félagsins kemur fram að þeir eiga afar erfitt með að sætta sig við hversu langan tíma þetta ætlar að taka og leggja mikla áherslu á að samninganefndin sýni fulla hörku í þessum viðræðum hvað varðar jöfnun launa við Alcan. Hafa starfsmennirnir einnig sagt að þeir séu tilbúnir til að sýna það í verki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image