• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Apr

Samningafundi var að ljúka

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi vegna kjarasamnings Norðuráls og var fundurinn undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Samninganefnd stéttarfélaganna lagði fram nýtt tilboð til handa forsvarsmönnum Norðuráls og byggist það tilboð algjörlega á þeim launasamanburði sem samninganefndin hefur unnið að að undanförnu. Í þeim samanburði kemur fram að launamunurinn getur numið nokkrum tugum þúsunda á mánuði í sumum tilfellum.

Forsvarsmenn Norðuráls tóku við tilboðinu og hafa það nú til skoðunar og lagði ríkissáttasemjari fram tillögu um að fresta fundi þar til á föstudaginn en þá munu forsvarsmenn Norðuráls svara tilboði stéttarfélaganna efnislega. Það er gríðarlega mikilvægt að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness að samningsaðilar fari að komast að niðurstöðu, einfaldlega vegna þeirrar óþreyju sem eðlilega er farið að gæta meðal starfsmanna fyrirtækisins. Það er einnig mat hans að deiluaðilar þurfi að komast samkomulagi eigi síðar en í byrjun næstu viku en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá eru nokkur atriði sem samninganefndin mun ekki hvika frá og eitt þeirra er jöfnun launa við sambærilegar verksmiðjur.

Formaður félagsins ætlar að leyfa sér að vera hóflega bjartsýnn á að lausn á þessari erfiðu deilu finnist í næstu viku, alla vega er það von hans að svo verði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image