• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

14
Dec

Fundað aftur föstudaginn 17. des. um gildissviðið í kjarasamningi Norðuráls

Fundað var í dag um gildissvið kjarasamnings Norðuráls.  Er það mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að samningsaðilar hafi nálgast nokkuð á fundinum í dag.  Ákváðu samningsaðilar að hittast aftur föstudaginn 17. des.   Mun á þeim fundi væntanlega koma  í ljós hvort mat formanns félagsins eigi við rök að styðjast eða ekki.   Formenn og trúnaðarmenn funduðu síðan eftir hádegi í dag, voru menn að fara yfir stöðuna á þeim fundi.

13
Dec

Gildissviðið til umræðu á fundi á morgun

Fundur verður haldinn um gildissvið kjarasamnings Norðuráls á morgun kl. 09:00.  Einnig munu trúnaðarmenn og formenn stéttarfélaganna funda kl. 12:00.  Á þeim fundi ætlar samninganefndin að fara yfir stöðuna.  Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa samningsaðilar komið sér saman um að fara í þær kröfur sem ekki hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir fyrirtækið.  Ætla menn að klára þau atriði nú desember.  Í janúar verða síðan launaliðirnir til umræðu.

13
Dec

Fundað verður stíft í þessari viku vegna nýs kjarasamnings Íj

Fundað var hjá ríkissáttasemjara í dag vegna kjarasamnings Íslenska járnblendifélagsins.  Stéttarfélögin lögðu fram tillögu að nýju bónuskerfi, og er það nú til skoðunar hjá stjórnendum Íj.  Ákveðið hefur verið að funda nokkuð stíft í þessari viku og er næsti fundur miðvikudaginn 15. des. kl. 10:00.  Eru deiluaðilar sammála um að reyna að klára samninginn fyrir áramót.

11
Dec

Samráðsnefnd SHA fundar mánudaginn 13. des

Samráðsnefnd Sjúkrahúss Akraness mun funda mánudaginn 13. des. kl. 09:00.  Til umræðu eru tvö mál þ.e. túlkun á kjarasamningi starfsmanna og einnig munu fulltrúar stéttarfélagsins og trúnaðarmanna afhenda forsvarsmönnum SHA yfirlýsingu og áskorun.  Mikil óánægja ríkir meðal starfsmanna vegna þeirrar ákvörðunar stjórnenda SHA að segja upp núverandi vinnufyrirkomulagi. Nýtt vinnufyrirkomulag mun taka gildi 1. jan. 2005.  Yfirlýsingin og áskorun starfsmanna SHA munu birtast hér á heimasíðunni eftir helgi í heild sinni. 

10
Dec

Fundað um gildissviðið í kjarasamningi Norðuráls

Ákveðið hefur verið að funda um gildissvið kjarasamnings Norðuráls þriðjudaginn 14. desember kl. 09.00.  Þeir sem munu sitja fundinn fyrir stéttarfélögin eru formaður Verkalýðsfélags Akraness, formaður Fit, aðaltrúnaðarmaður NA,  ásamt lögmanni stéttarfélaganna.  Hugmynd Verkalýðsfélags Akraness er nokkuð skýr hvað gildissviðið varðar þ.e. að kjarasamningur Norðuráls gildi sem lágmarkssamningur í öllum störfum sem unninn eru reglulega eða daglega á athafnasvæði Norðuráls.

09
Dec

Fundað um bónusmál Íj

Fundað var um bónusmál  starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins í dag.  Kynnt var fyrir samninganefnd Íj, hvað þær tillögur forsvarsmanna Íj að nýjum bónus hefðu gefið á síðastliðnum tveimur árum ef hann hefði verið við lýði.  Ljóst má vera að þær forsendur sem forsvarsmenn  Ij  komu með um nýjan bónus ganga alls ekki upp.  Erum við í  samninganefnd Íj að skoða niðurstöður úr þessari úttekt sem kynnt var fyrir okkur í dag.   Samninganefnd stéttarfélaganna er sammála um að   leggja fram  tillögur að nýjum bónus á fundi sem haldinn verður hjá ríkissáttasemjara á mánudaginn 13. desember. 

08
Dec

Fundað um bónusmál hjá Íslenska járnblendifélaginu

Fundað verður á morgun um bónusmál starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins, hefst fundurinn kl. 14:30.  Eins og fyrr sagði þá verða bónusmálin til umræðu.  Forsvarsmenn Íj hafa lagt fram tillögur að nýju bónuskerfi sem samninganefnd stéttarfélaganna hefur verið að skoða.  Samninganefndin óskaði eftir því að hugmyndir forsvarsmanna Íj yrðu keyrðar tvö ár aftur í tímann til að geta séð hvað hið nýja bónuskerfi væri hugsanlega að gefa starfsmönnum í aukinn bónus.  Á fundinum á morgun ætla forsvarsmenn Íj sýna hvað hið nýja bónuskerfi hefði verið að gefa starfsmönnum í bónus ef það hefði verið við lýði á síðastliðnum tveimur árum.

Þegar við verðum búnir að sjá hvernig bónusinn hefur komið út í þessari könnun sem forsvarsmenn Íj hafa gert fyrir okkur,  þá fyrst geta stéttarfélögin sagt hvort þau séu tilbúin til að semja um þetta nýja bónuskerfi.   Þeir þættir sem samningsaðilar eru sammála um að nota til vigtunar á nýju bónuskerfi er öryggis- og þrifabónus og nýtingarbónus.  Hið nýja bónuskerfi yrði því byggt upp á þessum tveimur stoðum.

07
Dec

Verkalýðsfélag Akraness og Svæðisvinnumiðlun Vesturlands í samstarf er lýtur að námskeiðshaldi

Verkalýðsfélag Akraness og Svæðisvinnumiðlun Vesturlands hafa hug á að hefja samstarf er lýtur að námskeiðshaldi fyrir atvinnulausa og félagsmenn VLFA.  Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir fiskvinnslunámskeiði í janúar og hefur nú þegar boðið Svæðisvinnumiðlun Vesturlands að kanna hvort einhverjir sem nú eru atvinnulausir hafi áhuga að fara á slíkt námskeið.  Það liggur fyrir að um 25 starfsmenn HB Granda og um 17 starfsmenn hjá Laugafiski ætla að fara á fiskvinnslunámskeiðið í janúar.

06
Dec

Fundað um nýjan kjarasamning við Íslenska járnblendifélagið

Fundað var um nýtt bónuskerfi fyrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins í dag.  Forsvarsmenn Íj kynntu fyrir formönnum félaganna og trúnaðarmönnum Íj hugmyndir sínar að nýju bónuskerfi.  Eru hugmyndir forsvarsmanna Íj að nýju bónuskerfi nú  til skoðunar hjá samninganefnd Íj.  Hvað varðar önnur kjaraatriði, þá er það orðið nokkuð ljóst að mikið ber á milli deiluaðila í þeim efnum.

06
Dec

Mjög mikil óánægja með þá ákvörðun stjórnenda SHA að segja upp núverandi vinnufyrirkomulagi

Fundur var haldinn í kvöld með starfsmönnum sem starfa í ræstingu og býtibúri á Sjúkrahúsi Akraness.  Til umræðu á fundinum var sú ákvörðun stjórnenda SHA að segja upp núverandi vinnufyrirkomulagi sem starfsmenn telja að leiði af sér aukið vinnuálag sem og skerðingu á launakjörum einstakra starfsmanna.  Afar þungt hljóð var í starfsmönnum vegna þessara ákvörðunar forsvarsmanna SHA. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image