• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

25
Oct

Vel á annað hundrað mættu í afmæli félagsins

Vel á annað hundrað manns mættu til að fagna 80 ára afmæli félagsins sem haldið var í sal Fjölbrautarskóla Vesturlands í gær.  Forseti ASÍ og formaður SGS fluttu ræðu og eins flutti forseti bæjarstjórnar örlítið ávarp.  Afmælið tókst í alla staði afar vel og fékk félagið veglegar gjafir frá hinum ýmsu fyrirtækum og stéttarfélögum.  Verkalýðsfélag Akraness vill þakka kærlega fyrir þessar veglegu gjafir.  Eins vill stjórn félagsins þakka þeim fjölmörgu, sem sáu sér fært að mæta og fagna þessum merka áfanga.  Afmælisræðu formanns Verkalýðsfélags Akraness er hægt að lesa með því að smella á meira.

Forseti ASÍ, formaður SGS, bæjarstjóri Akraness, góðir félagsmenn, og aðrir hátíðargestir.

 

 

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin í 80 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness.

 

Við erum samankomin hér í dag til að fagna og halda upp á 80 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness. Það er ekki úr vegi að líta til baka og minnast frumkvöðlanna sem komu saman í svokölluðu Báruhúsi hér á Akranesi þann 14. október árið 1924 og stofnuðu félagið.  Markmið og tilgangur með stofnun þess var að ákveða vinnutíma og kaupgjald og efla og bæta hag alþýðunnar. Það markmið er enn óbreytt. Það hefur sannast þau 80 ár sem liðin eru frá stofnun félagsins að Verkalýðsfélög um allt land hafa skilað miklu og góðu starfi í þágu verkafólks -  en alltaf má gera betur.

 Krafturinn og dugnaðurinn sem frumkvöðlarnir bjuggu yfir er sá kraftur sem núverandi stjórn vill hafa að markmiði. Maður fylltist eldmóði og aðdáun við að lesa viðtöl við heiðursfélaga Verkalýðsfélags Akraness sem birtust í afmælisblaði félagsins. Sú barátta sem háð var hér á árum áður var mun miskunnarlausari og langtum erfiðari heldur en það sem við þekkjum í dag. Heiðursfélögum Verkalýðsfélags Akraness verður seint þakkað þau fórnfúsu störf sem þau unnu fyrir félagið á liðnum áratugum. 

Markmið okkar sem nú stjórnum félaginu er skýrt. Markmiðið er að vera það félag á Íslandi sem mest og best þjónar sínum félagsmönnum. Vissulega eru þetta háleit markmið en að mínu mati verður að setja markið hátt. Við hljótum að vilja aðeins það besta til handa félagsmönnum okkar.

 

Mig langar að rifja upp atburð úr sögu félagsins sem átti sér stað árið 1929 þegar félagið var einungis fimm ára gamalt. Það ár brugðust útgerðarmenn ókvæða við aðgerðum verkalýðsfélagsins til að bæta kjör félagsmanna sinna. Þeir gerðu það að skilyrði að Verkalýðsfélag Akraness segði sig úr Alþýðusambandi Íslands - ella yrði ekki samið um kaup og kjör. Einnig neituðu þeir að semja við félagið og vildu frekar semja beint við hvern félagsmann fyrir sig. Þetta átti sér stað árið 1929 og það er ótrúlegt til þess að hugsa að nú - 75 árum síðar - eru nánast sömu hlutirnir að endurtaka sig. Útgerðamaður Sólbaks EA setur það sem skilyrði að skipverjar standi utan stéttarfélags - ef þeir ekki hlýði því þá verði þeir að finna sér annan starfsvettvang. Þetta kallar útgerðamaður Sólbaks félagafrelsi. Þessa aðför, sem nú er gerð að íslenskri verkalýðshreyfingu, verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

Á þessu tæpa ári sem núverandi stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur starfað höfum við lent Í erfiðum málum gagnvart atvinnurekendum. Í þessum málum vorum við sannfærð um að verið væri að brjóta á réttindum félagsmanna. Tekist var hraustlega á og að lokum náðist samkomulag í öllum þessum málum. Þessi réttindabarátta hefur skilað rúmum 12 milljónum króna í vasa félagsmanna okkar. Meginverkefni stéttarfélaga er að standa vörð um áunnin réttindi félagsmanna og bæta þau eins og kostur er. Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að standa einarðlega vörð um öll áunnin réttindi félagsmanna og verður hvergi hvikað í þeirri baráttu.

Það er mjög mikilvægt að Verkalýðsfélag Akraness sem og önnur stéttarfélög eigi gott samstarf við atvinnurekendur og þannig viljum við hafa það. Þegar ágreiningur verður á milli stéttarfélagsins og atvinnurekenda þá verða menn að reyna að leysa málin í sátt. En höfum það hugfast að rétt skal vera rétt – sama hvoru megin sú niðurstaða liggur.

Sem formaður félagsins hef ég farið og heimsótt flest þau fyrirtæki sem félagsmenn okkar starfa hjá – ekki öll - en flest. Markmið okkar með þessum vinnustaðaheimsóknum er að auka bein tengsl milli stéttafélagsins og félagsmanna og upplýsa þá  um réttindi þeirra og skyldur. Það er lykilatriði fyrir forustumenn í stéttafélögum að vera í góðu sambandi við félagsmenn. Ég hef fengið prýðisgóðar viðtökur í þessum vinnustaðaheimsóknum og eru félagsmönnum færðar þakkir fyrir. Við í stjórn félagsins viljum vera í nánu og góðu sambandi við félaga okkar. 

 

Atvinnumöguleikar á svæði félagsins eru býsna góðir um þessar mundir.  Með stækkun Norðuráls mun félagsmönnum fjölga töluvert og heimildir herma að forsvarsmenn Norðuráls hafi áhuga á að stækka verksmiðjuna enn frekar en talað hefur verið um hingað til. Í undirbúningi er bygging rafskautaverksmiðju, og verði hún að veruleika má búast við að störfum á okkar félagssvæði muni fjölga um allt að þrjú hundruð. Við höfum því ekki ástæðu til annars en að vera bjartsýn á framtíðina ef þessi áform ganga öll eftir.

 

Kæru félagsmenn og aðrir gestir. Ég lýt svo á að þegar núverandi stjórn tók við í Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003  hafi hafist nýr kafli í sögu félagsins. Félagið hafði fram til þeirrar stundar þurft að ganga í gegnum einstaklega erfitt tímabil eins og fólki er í fersku minni. Þeir tímar eru að baki og ekkert meira um það að segja.

Ég vil á þessari stundu nota tækifærið og þakka þá gríðarlegu hjálp sem ákveðin stéttarfélög og einstaklingar veittu formanni og nýkjörinni stjórn á fyrstu dögum og mánuðum á starfstíma hennar. Að taka við félaginu við þessar erfiðu aðstæður var mjög krefjandi og því fylgir mikil ábyrgð að vera forystumaður í einu af stærri stéttarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands.  Viljum við í stjórn félagsins þakka öllum þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu okkur.  Sérstaklega viljum við þakka Aðalsteini Baldurssyni og Ágústi Óskarssyni frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur kærlega fyrir þá ómetalegu hjálp sem þeir veittu okkur. Eins viljum við þakka Hermanni Guðmundssyni, fyrrverandi formanni Sveinafélags málmiðnaðarmanna fyrir hans aðstoð.

Stjórn félagsins er afar ánægð með útkomuna á afmælisblaði félagsins það er mat okkar að virkilega hafi tekist vel til.  Vill stjórn félagsins þakka Kristjáni Kristjánssyni rithöfundi og eiganda Uppheima ehf. og hans fólki kærlega fyrir vel heppnað blað og gott samstarf.

Kæru hátíðargestir! Það er afar ánægjulegt að þið skulið fagna þessum merka áfanga með okkur sem 80 ára afmæli félagsins er.  Sérstaklega vil ég þakka heiðursfélögum Verkalýðsfélags Akraness, þeim Herdísi Ólafsdóttur, Bjarnfríði Leósdóttur, Skúla Þórðarsyni, Garðari Halldórssyni, og Sigrúnu Clausen fyrir að vera hér með okkur í dag. Ef þessa fólks hefði ekki notið við hér á árum áður þá væri Verkalýðsfélag Akraness ekki það sterka afl sem það er í dag.

Ágætu gestir. Verkalýðsfélag Akraness mun nú sem endranær bera hag félagsmanna fyrir brjósti, líkt og frumkvöðlarnir sem börðust af elju og atorkusemi fyrir bættum kjörum. Verkalýðsfélögin eru og munu áfram vera mikilvægasta aflið á leið okkar til bættra kjara.

Ég þakka áheyrnina.

23
Oct

Kæru félagsmenn, stjórn félagsins vill minna á afmælisfagnaðinn á morgun, dagskráin hefst kl. 14:00

Haldið verður upp á 80 ára afmæli félagsins á morgun í sal Fjölbrautaskóla Vesturlands.  Dagskrá afmælisins er m.a. á þá leið að Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ og Kristján Gunnarsson, formaður SGS munu flytja ávörp, KK mun taka nokkur lög, sýndar verða myndir úr félagsstarfinu bæði gamlar og nýjar.  Kaffiveitingar. 

Félagar og aðrir velunnarar eru hvattir til að mæta og fagna 80 ára afmæli félagsins.

22
Oct

Kjaradeilu við Íslenska járnblendifélagið vísað til Ríkissáttasemjara í dag

Fundur í samningarnefnd stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi við Íslenska járnblendifélagið samþykktu í gær að vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara.  Allir í samninganefndinni skrifuðu undir samþykktina. 

21
Oct

Fundað um nýjan kjarasamning Norðuráls

Samningafundur var haldinn í dag með forsvarsmönnum Norðuráls.  Til umræðu var gildissvið kjarasamnings og breytingar á vaktafyrirkomulagi.  Fyrirhugað er að funda með vaktavinnumönnum á næstu dögum og kynna tillögur um breytingu á vaktafyrirkomulagi sem forsvarsmenn Norðuráls eru tilbúnir að gera.  Ákveðið var að funda næst fimmtudaginn 28. október.

19
Oct

Neituðu að ræða við formenn stéttarfélaganna

Ótrúleg uppákoma átti sér stað rétt áður en fyrsti formlegi samningafundur með forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins átti að hefjast í dag. Formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður FIT, voru mættir til að vera trúnaðarmönnum Íj til halds og trausts á fyrsta samningafundi við forsvarsmenn Íj. Á fundinum átti að kynna hverjir myndu sitja í viðræðunefnd fyrir hönd stéttarfélaganna í komandi kjarasamningagerð, eins átti að leggja fram kröfur starfsmanna, aðrar en sérkröfur einstakra hópa. Þegar formenn áðurnefndra félaga voru mættir ásamt trúnaðarmönnum fyrirtækisins og biðu eftir að forsvarsmenn fyrirtækisins kæmu til fundar þá birtist allt í einu aðstoðarframkvæmdastjóri Íj og spurði með  töluverðum þjósti "hvað eru þessir menn að gera hérna" og átti hann þar við formenn áðurnefndra stéttarfélaga. 

Sagði aðstoðarframkvæmdastjórinn, að hann myndi ekki funda með þessum mönnum. Óskaði hann eftir að fá að ræða einslega við aðaltrúnaðarmann Íslenska járnblendifélagsins.

Kom aðaltrúnaðarmaður Íj til baka með þau skilaboð að forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins neituðu að hefja fund ef formenn stéttarfélaganna ætluðu að sitja fundinn.

Til að hægt væri að uppfylla lagalegar skyldur um að leggja fram kröfugerð ákváðu formenn umræddra félaga að víkja úr húsi og gat þá fundurinn  hafist.

Sú framkoma sem formönnum þessara tveggja stéttarfélaga var sýnd í dag af aðstoðarframkvæmdastjóra Íj er með hreinum ólíkindum. Formenn þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi Íj munu funda og ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. Því þegar viðsemjendur okkar loka sig inn í herbergi og neita að tala við forvarsmenn stéttarfélaganna  verður að skoða hvernig bregðast skuli við. Eitt er víst að þessi framkoma sem formönnum félaganna var sýnd í dag verður  ekki liðin. Verkalýðsfélag Akraness er einungis að gæta  hagsmuna félagsmanna sinna, og að forsvarsmenn Íj reyni að koma í veg fyrir það með jafn grófum hætti og gerðist í dag verður ekki liðið. Á það skal bent að það eru stéttarfélögin sem hafa samningisumboðið og bera ábyrgð á kjarasamningum

18
Oct

Fyrsta samningafundi við forsvarsmenn Norðuráls lokið

Fyrsti samningafundur við forsvarsmenn Norðuráls var haldinn í morgun.  Fundurinn var haldinn í Mörkinni sem er húsnæði í eigu Íslenska járnblendifélagsins.  Það sem var til umræðu á þessum fyrsta formlega fundi var gildissvið kjarasamningsins.  En það er skýlaus krafa stéttafélaganna og starfsmanna að kjarasamningur Norðuráls verði lágmarkssamningur á starfssvæði Norðuráls.  Lögmaður Verkalýðsfélag Akraness sat fundinn einnig og gaf samninganefndinni lögfræðileg álit, þegar þess þurfti við.

Stéttafélögin og starfsmenn Norðuráls ætla ekki að horfa upp á það sem  gerst hefur hjá Íslenska járnblendifélaginu, þar sem störfum hefur verið úthýst, með það eitt að markmiði að lækka launakostnað.  Eins var komið lítillega inn á breytingu á vaktafyrirkomulagi.  Forsvarsmönnum Norðuráls var þó gerð grein fyrir því að starfsmenn vilja bæta fimmta vakthópnum inn.  Ákveðið var að hittast aftur fimmtudaginn 21. október kl. 14:00.  En þá verða báðir hóparnir búnir að útfæra hvernig menn vilji að gildissvið samningsins líti út.  Okkar tilfinning er sú að forsvarsmenn NA séu nokkuð jákvæðir gagnvart kröfu stéttafélaganna um að kjarasamningur Norðuráls verði lágmarkssamningur á svæðinu.

14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness er 80 ára í dag 14. október. Félagsmenn innilega til hamingju með daginn

Ágætu félagsmenn stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill óska félagsmönnum sínum sem og öllum velunnurum innilega til hamingju með 80 ára afmæli félagsins sem er í dag 14. október. 

Eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur stjórnin ákveðið að halda upp á afmæli félagsins sunnudaginn 24. október. Stjórn félagsins ákvað einnig að minnast þessara merku tímamóta með útgáfu á afmælisblaði þar sem saga félagsins hefur verið skráð í stuttu máli. Það verða birt viðtöl við heiðursfélaga félagsins o.fl. sem kunna sögu félagsins betur en við flest. Í blaðinu mun birtast töluvert af myndum úr félagslífinu sem teknar voru hér á árum áður, eitthvað verður af nýlegum myndum líka. Það er fyrirtækið Uppheimar sem sér um útgáfu á afmælisblaðinu, Uppheimar er í eigu Kristjáns Kristjánssonar rithöfundar og hefur hann umsjón með útgáfu blaðsins.

13
Oct

Lögmaður VLFA með á fyrsta samningafundi við Norðurál

Formenn þeirra félaga sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls hittust í morgun ásamt trúnaðarmönnum. Tilefni fundarins var að skipa viðræðunefnd sem mun vera í forsvari í komandi samningaviðræðum við Norðurál. Viðræðunefndin er þannig skipuð að allir formenn þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum munu vera í viðræðunefndinni ásamt aðaltrúnaðarmanni Norðuráls. Þá var einnig ákveðið að hafa lögmann með á fyrsta samningafundinn sem verður mánudaginn 18. október nk. Á þeim fundi verður rætt um gildissvið samningsins og er það skýlaus krafa stéttarfélaganna og trúnaðarmanna að kjarasamningur Norðuráls verði lágmarkssamningur á athafnasvæði Norðuráls. 

Eins og áður sagði verður lögmaður með á fyrsta fundinum og er það lögmaður Verkalýðsfélags Akraness  Ingólfur Hjartarson hrl. Lögmaður VLFA hefur verið að skoða hvort það hafi verið rétt staðið að úthýsingu starfa í Íslenska járnblendifélaginu og hvort það standist kjarasamning ÍJ. Það er okkar mat  að svo sé ekki.  VLFA er að vinna í þessum málum og ekki ólíklegt að leitað verði til félagsdóms með málið.  Við munum  líka skoða þá verktakastarfsemi sem er komin á svæðið, það er ekkert eftirlit hvað sé verið að greiða starfsmönnum í laun. Komið hefur í ljós að verktakinn sem sér um súrálslosunina hefur ekki greitt til stéttarfélaganna af sínum starfsmönnum.  Þó svo að það komi skýrt fram í samningi sem Klafi ehf. gerði við umræddan verktaka, að hann ætti að greiða eftir gildandi kjarasamningum stéttarfélaganna. Þrátt fyrir óskir aðaltrúnaðarmanns Norðuráls sem og formanns Verkalýðsfélags Akraness, um aðgang að launaseðlum þeirra starfsmanna sem vinna hjá verktökum á svæðinu hefur því alfarið verið hafnað. Það sem er að gerast á Grundartangasvæðinu er alls ekki svo ólíkt því sem er að gerast í Sólbaksdeilunni. Atvinnurekendur eru að reyna eftir öllum leiðum að lækka rekstrarkostnað og bitna þær aðgerðir alltaf harðast á verkamönnum. Sótt er að hreyfingunni úr öllum áttum þessa daganna, en gott er til þess að vita að verkalýðshreyfingin ætlar ekki að láta valta yfir sig í þessum málum.

13
Oct

Dagskrá vegna 80 ára afmælis Verkalýðsfélags Akraness að verða klár

Haldinn var fundur í stjórn félagsins í gær, hin ýmsu mál voru til afgreiðslu.  Aðalmál fundarins var að ganga frá dagskrá fyrir 80 ára afmæli félagsins.  En eins og flestum er kunnugt um er Verkalýðsfélag Akraness 80 ára 14. október.  Stjórn félagsins ákvað að fresta að halda upp á afmælið þar sem ársfund Starfsgreinasambands Íslands ber upp á sama dag og félagið á afmæli. 

Á stjórnarfundinum í gær var verið að leggja loka hönd á dagskrá afmælisins.  Veislustjóri verður Gísli S Einarsson, KK mun spila nokkur lög, sýndar verða myndir úr félagslífinu með skjávarpa. Boðið verður uppá kökuhlaðborð.  Afmælið verður haldið í sal Fjölbrautaskóla Vesturlands.  Afmælið verður auglýst nánar þegar nær dregur.  Félagsmenn eru eindregið hvattir til koma og fagna 80 ára afmæli félagsins.

11
Oct

Ársfundur Starfsgreinasambands Íslands hefst á fimmtudag

Ársfundur Starfsgreinasambands Íslands verður haldinn í Reykjavík 14. - 15. október. Á fundinum verður eðlilega fjallað um málefni sem snerta verkafólk. Auk þess verður kosið um nýja forystusveit í sambandinu þar sem núverandi formaður, Halldór Björnsson gefur ekki kost á sér áfram. Kristján Gunnarsson, Björn Snæbjörnsson og Signý Jóhannesdóttir gefa kost á sér til forystu í sambandinu. Þau hafa öll verið mjög lengi áberandi í íslenskri verkalýðsbaráttu.

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness eru.  Vilhjálmur Birgisson formaður félagsins, Auður Ásgeirsdóttir varaformaður, Guðrún Linda Helgadóttir matvæladeild, Tómas Rúnar Andrésson stóriðjudeild.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image