• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Nov

Kynningafundur um stóriðjuskólann hjá Ísal verður haldinn 29. nóvember

Kolbeinn Gunnarsson frá verkalýðsfélagi Hlífar í Hafnarfirði mun koma og kynna hvernig stóriðjuskólinn í Ísal virkar, og eins hversu mikla launahækkun hann er að gefa starfsmönnum að loknu námi.  Með því að smella á meira þá er hægt að lesa helstu punkta um skólann.

Það mun hafa verið árið l993  sem trúnaðarmenn Hlífar fóru að huga að menntamálum starfsmanna, og í samningum l995, var námið ein af kröfum Hlífar.

Það náðist svo í samningunum sem voru undirritaðir voru 10. apríl l997 og hófst síðan námið haustið l998.

Þessir samningar höfðust ekki baráttulaust en nú er svo málum komið að allir vildu Lilju kveðið hafa. Ríkir mikil ánægja jafnt hjá starfsmönnum og atvinnurekendum með þessi mál, og allir sammála um að hér hafi verið stigið heillaspor bæði fyrir starfsmenn og atvinnurekendur.

Námstilhögun.

Það sem starfsmenn læra í skólanum eru  Mannleg samskipti, tjáning, fyrirtæki og þjóðlíf, stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, framleiðsluferli í stóriðju, tölvur og stýringar, eldföst efni, vélfræði með fyrirbyggjandi viðhaldi, vistfræði og umhverfismál, vinnuumhverfi, og gæðastjórnun. Samtals er námslengdin 325 kennslustundir og skal náminu vera lokið innan tveggja ára frá því það var hafið.

Réttur til námsins.

Sá starfsmaður sem hefur verið í starfi við eitt framleiðsluferli í 45 mánuði á rétt að fara í námið.  Og er miðað við að starfsmaðurinn nái að ljúka þessum starfstíma við lok námsins. Starfsmenn sem fara í námið eru í náminu undanþegnir vinnuskyldu og halda óskertum launum.

  

Að loknu námi.

Þeir sem hafa lokið 325 stundum í starfsnámi, fá launahækkun sem nemur 10,5%. Kennslan hefur farið þannig fram að kennt er frá kl 12:00 -  16.00, hluti námsins er í vinnutíma, og einnig mæta starfsmenn í sínum vinnutíma, en ef næturvakt er á undan skólatíma fá starfsmenn  frí þá vakt.

Að loknu námi fá starfsmenn starfsheitið “Stóriðjugreinir”. Og atvinnurekendur fá betri starfsmenn og starfsmenn eru ánægðari og öruggari með sig í starfi. Það hefur reynslan sýnt.

19
Nov

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness er 1 árs í dag 19. nóvember

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness er eins árs í dag 19. nóvember. Það verður að segjast alveg eins og er að félagið hefur tekið algjörum stakaskiptum á þessu eina ári.  Stjórn félagsins hefur staðið í ströngu á þessu eina ári. 

Á þessu tæpa ári sem núverandi stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur starfað höfum við lent í erfiðum málum gagnvart atvinnurekendum. Í þessum málum vorum við sannfærð um að verið væri að brjóta á réttindum félagsmanna. Tekist var hraustlega á og að lokum náðist samkomulag í öllum þessum málum. Þessi réttindabarátta hefur skilað rúmum 13 milljónum króna í vasa félagsmanna okkar. Meginverkefni stéttarfélaga er að standa vörð um áunnin réttindi félagsmanna og bæta þau eins og kostur er. Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að standa einarðlega vörð um öll áunnin réttindi félagsmanna og verður hvergi hvikað í þeirri baráttu.

Þegar stjórn félagsins tók við Verkalýðsfélagi Akranes átti félagið útistandandi skuldir hjá atvinnurekendum vegna ógreiddra iðgjalda rúmar 21 milljón króna, hefur stjórn félagsins tekist að innheimta 13 milljónir af þessum ógreiddum iðgjöldum.  Voru innheimtumál og iðgjaldaskráning í verulegum ólestri, þeim hlutum hefur verið kippt í lag. 

Hvað varðar almenna þjónustu við hin almenna félagsmann þá hefur hún stóraukist. Markmið okkar sem nú stjórnum félaginu er skýrt. Markmiðið er að vera það félag á Íslandi sem mest og best þjónar sínum félagsmönnum. Vissulega eru þetta háleit markmið en að mínu mati verður að setja markið hátt. Við hljótum að vilja aðeins það besta til handa félagsmönnum okkar.

Heimsíða félagsins er komin í fulla notkun og hefur fjöldi innlita á síðuna stóraukist en daglega eru um 100 innlit inná síðuna.  Ekki er hægt annað en að minnast á að nánast allir kjarasamningar félagsins voru og eru lausir á árinu og hefur verið gríðarlegt álag vegna þess. 

Formaður félagsins hefur farið og heimsótt flest þau fyrirtæki sem félagsmenn okkar starfa hjá – ekki öll - en flest. Markmið okkar með þessum vinnustaðaheimsóknum er að auka bein tengsl milli stéttarfélagsins og félagsmanna og upplýsa þá  um réttindi þeirra og skyldur. Það er lykilatriði fyrir forustumenn í stéttarfélögum að vera í góðu sambandi við félagsmenn.

18
Nov

Kynningarfundur um nýgerðan kjarasamning sjómanna var haldinn um borð í Helgu Maríu AK

Kynningarfundur um kjarasamning sjómanna var haldinn um borð í Helgu Maríu í kvöld, hófst fundurinn kl. 22.00.  Til fundarins mættu Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Árni frá Fiski-og farmannasambandi Íslands og formaður Verkalýðsfélags Akraness.  Sævar fór yfir samninginn og svaraði þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar.  Formaður VLFA kynnti fyrir skipverjum hvernig fyrirkomulag kosninganna muni verða.

Hægt verður að kjósa á skrifstofu félagsins frá 1. desember til 31. desember.  Formaður minnti skipverja á að annar kynningafundur verður haldinn 27. desember þar sem Hólmgeir Jónsson frá SSÍ mun fara ítarlega yfir samninginn og svara fyrirspurnum fundarmanna.  Hvatti formaður VLFA alla áhafnarmeðlimi sem atkvæðisrétt hafa til að nýta kosningarétt sinn.

18
Nov

Stjórnar og trúnaðarráðsfundur var haldinn í kvöld

Stjórnar og trúnaðarráðsfundur var haldinn í kvöld.  Formaður félagsins fór yfir stöðu félagsins og kynnti einnig  fyrir trúnaðarráði stöðuna  í þeim kjaraviðræðum sem félagið stendur í þessa daga. 

17
Nov

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Íslenska járnblendifélagsins

Fundað verður hjá ríkissáttasemjara á morgun og hefst fundurinn kl. 08.30.  Stéttarfélögin munu leggja fram sameiginlegar  kröfur sínar, en félögin voru búin að leggja fram sérkröfur sínar á síðasta fundi.  Væntanlega verður farið yfir eitthvað af þessum kröfum, einnig verður rætt um gildissvið kjarasamningsins.

16
Nov

Fundað með starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins um bónusmál

Fyrstu tveir kynningafundir með starfsmönnum voru haldnir í dag það voru A og B vaktirnar sem fundað var með í dag.  Markmið fundanna var að fara yfir bónusmál starfsmanna vegna fyrri ára.  Í byrjun fundanna fór  forstjóri Ij yfir  framtíðarmarkmið fyrirtækisins.  Næst verður fundað með dagmönnum og C vaktinni, er sá fundur á morgun kl. 14.00.

16
Nov

Kröfur stéttarfélaganna og trúnaðarmanna vegna kjarasamnings Norðuráls voru lagðar fram í dag

Samningafundur var haldinn  í dag vegna kjarasamnings Norðuráls.  Til umræðu á þessum fundi voru tvö mál þ.e gildissviðið, eins fóru menn lítillega yfir breytingu á vaktarfyrirkomulagi starfsmanna.  Í lok fundarins lögðu stéttarfélögin og trúnaðarmenn NA fram kröfur sínar og gerðu forsvarsmönnum Norðuráls grein fyrir þeim. 

Næsti fundur verður fimmtudaginn 25. nóvember, á þeim fundi munu forsvarsmenn Norðuráls leggja fram sínar kröfur.

15
Nov

Kynningafundir með starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins vegna bónusmála starfsmanna verða haldnir næstu þrjá daga

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag verða haldnir kynningafundir fyrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins vegna bónusmála starfsmanna.  Ágreiningur hefur verið um það hvort starfsmenn eigi inni auka bónus vegna ofns 3 sem tekinn var í notkun árið 1999.  Starfsmenn telja að svo sé.  Formaður félagsins og aðaltrúnaðarmaður ÍJ funduðu með forsvarsmönnum Íj og fóru yfir þessi mál og sitt sýndist hverjum í þeim efnum. Forsvarsmenn Íj segja að gert hafi verið samkomulag um bónusmál starfsmanna árið 1999 og miðað við það samkomulag eiga starfsmenn ekki inneign vegna fyrri ára. Verkalýðsfélag Akraness er sammála forsvarsmönnum ÍJ hvað það varðar.  Málið er að starfsmenn og trúnaðarmenn ÍJ höfðu tækifæri bæði árið 2000 og aftur 2001 að gera aukna kröfu um bónus vegna ofns 3 en gerðu það ekki því miður.  Formaður VLFA telur að hefðu menn borið gæfu til að fara framá aukinn bónus vegna ofns 3 þegar það var hægt þá hefðu starfsmenn átt rétt á auknum bónus.   Stéttarfélögin, trúnaðarmenn og starfsmenn verða að gæta mun betur að hag sínum í náinni framtíð.  Óskaði formaður Verkalýðsfélags Akraness að forsvarsmenn Íj kynntu fyrir starfsmönnum sínum, hvers vegna þeir telja að starfsmenn eigi ekki rétt á auknum bónus vegna fyrri ára.  Fyrstu fundirnir verða á morgun, fyrri kl. 14.00 og síðari kl. 16.00.

14
Nov

Fundað verður um nýjan kjarasamning Norðuráls á þriðjudaginn

Samningafundur vegna kjarasamnings Norðuráls verður haldinn á þriðjudaginn kl. 10.00.  Það sem væntanlega verður til umræðu á þessum fundi er gildissvið samningsins, eins verður rætt um breytingu  á vaktafyrirkomulagi.

11
Nov

Fundað um nýjan kjarasamning Sementsverksmiðjunnar

Samningsaðilar hittust í dag vegna kjarasamnings Sementsverksmiðjunnar.  Farið var yfir kröfurnar sem lagðar voru fram á síðasta samningafundi.    Eru trúnaðarmenn að fara yfir það sem fram kom á fundinum til að geta metið hver næstu skref verða í samningsgerðinni.    Ekki var tekin ákvörðun á þessum fundi hvenær næsti fundur skyldi haldinn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image