• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jul

Enn níðst á atvinnulausum í hlutastörfum

Í byrjun mars benti formaður VLFA forstjóra Vinnumálastofnunar Gissuri Péturssyni og Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra á það miskunnarlausa óréttlæti sem felst í því að þeir einstaklingar sem fá hlutastarf geta lent í því að fá minna fyrir að stunda hlutastarf heldur en að vera á 100%  atvinnuleysisbótum. Þekkt eru dæmi þar sem einstaklingur lækkaði um 20 þúsund krónur við það eitt að þiggja 50% hlutastarf í ræstingu í stað þess að vera á 100% atvinnuleysisbótum.

Þetta gerist vegna breytinga sem urðu um áramótin hjá Vinnumálastofnun.  Það hlýtur þó að vera hagur Vinnumálastofnunar og samfélagsins í heild sinni að sem flestir fái vinnu, hversu lítil sem hún er og að sem fæstir þurfi að sækja um atvinnuleysisbætur. Það stenst ekki nokkra skoðun að Vinnumálastofnun geti krafist  þess að einstaklingur sem er í atvinnuleit taki hlutastarf sem leiðir til þess að ráðstöfunartekjur lækki jafnvel um tugi þúsunda á mánuði og ef atvinnuleitandinn neitar að taka hlutastarfinu er honum refsað illilega í formi bótamissis tímabundið.

Á meðan þessi galli er á kerfinu er ekki um neinn hvata að ræða heldur er fólki refsað illilega í formi tekjutaps fyrir að taka hlutastarfi. Slíkt kerfi getur aldrei gengið upp.  Forstjóri Vinnumálastofnunar og velferðarráðherra voru algerlega sammála að þessu yrði að kippa í lag og töluðu báðir um það í fréttum 7. apríl að þeir vonuðust eftir að þetta yrði komið í lag strax eftir páska.  Í viðtali í apríl sagði m.a forstjóri VMST orðrétt : „Það er reglugerðarvinna í gangi þessa dagana og ég á von á því að þessu verði breytt strax eftir páska með nýrri reglugerð.“  Gissur sagðist hafa séð tillögur að nýrri reglugerð og átti von á að hún tæki gildi fyrir næstu útgreiðslu atvinnuleysisbóta  Forstjórinn sagði einnig „Þetta snertir sérstaklega þá sem eru að taka lægst launuðu störfin,  og það eru auðvitað þeir sem eiga ekki að þurfa að bera þessa byrði.“  Í ljósi þessara ummæla spyr formaður Verkalýðsfélags Akraness forstjóra Vinnumálastofnunar af hverju er þessu ekki kippt í lag?

Velferðarráðherra sagði í fréttum einnig í apríl að unnið væri að því að fyrirbyggja að þeir sem væru á atvinnuleysisskrá en væru í hlutastörfum ættu á hættu að vera með lægri tekjur en þeir sem ekkert vinna. Einnig sagði ráðherrann í þessu viðtali að reynt yrði að leiðrétta skekkjuna sem allra fyrst.

 Það er skemmst frá því að segja að nú, tæpum fjórum mánuðum frá því formaður VLFA kom þessari ábendingu á framfæri virðist lítið sem ekkert hafa gerst og þetta miskunnarlausa óréttlæti heldur áfram af fullum þunga og það þrátt fyrir fögur fyrirheit velferðarráðherra og forstjóra Vinnumálastofnunar í apríl um að lagfæra þetta án tafar.

Formaður félagsins neitar að trúa því að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti láti það viðgangast stundinni lengur að höggva í þá sem síst skyldi, þá sem eru án atvinnu og eru að reyna að koma sér aftur út á vinnumarkaðinn. En það er morgunljóst að þessi breyting sem varð um áramótin gerir það að verkum að það er ekki nokkur hvati fyrir slíka einstaklinga að þiggja hlutastörf í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að umræddir einstaklingar geta verið með þúsundum ef ekki tugþúsundum lægri tekjur við að taka hlutastarfi í stað þess að vera á 100% atvinnuleysisbótum.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hvernig íslensk stjórnsýsla vinnur og það er alls ekkert skrýtið þótt almenningur beri afar takmarkað traust til stjórnsýslunnar þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti og það gagnvart þeim sem hvað höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á Vinnumálastofnun og velferðarráðuneytið enn og aftur að fara að  vinna nú eins og menn og afgreiða þetta mál án tafar og leiðrétta þann skaða sem umræddir einstaklingar hafa orðið fyrir aftur til áramóta, eða frá þeim tíma sem umræddum vinnureglum var breytt hjá Vinnumálastofnun og það með skelfilegum afleiðingum fyrir umrædda einstaklinga.

06
Jul

Írskir dagar að hefjast á Akranesi

Nú eru að hefjast Írskir dagar á Akranesi og standa þeir yfir alla helgina. Mikil og fjölbreytt dagskrá verður í boði og ætti fólk á öllum aldri að finna eitthvað við sitt hæfi. Starfsmenn bæjarins hafa undanfarna daga unnið að því að skreyta bæinn og er óhætt að segja að hann sé einstaklega glæsilegur en búið er að hengja upp fána og aðrar skreytingar víðsvegar auk þess sem einstaklingar og verslanir hafa einnig tekið þátt í að setja írskan svip á bæinn með því að skreyta umhverfi sitt.

Á dagskránni um helgina eru til dæmis ýmsir tónlistarviðburðir, listasýningar og allskonar skemmtidagskrá fyrir börn en jafnframt eru fastir liðir eins og götugrill, brekkusöngur og lopapeysuballið á sínum stað. Ýmsar verslanir í bænum bjóða upp á tilboð og afslætti í tengslum við Írska daga og má búast við því að mikið líf verði í bænum alla helgina. Ítarlega dagskrá með öllum viðburðum Írskra daga má finna hér.  

Verkalýðsfélag Akraness óskar Akurnesingum sem og öllum gestum bæjarins góðrar helgar.

04
Jul

Eins og krabbameinsæxli sem stækkar og stækkar.

Það var afar forvitnilegur blaðamannafundur sem Fjármálaeftirlitið hélt í gær vegna stöðu lífeyriskerfisins og það fór ekkert á milli mála að FME hefur verulegar áhyggjur af lífeyrissjóðskerfinu. FME staðfesti á blaðamannafundinum í gær það sem að formaður VLFA sagði í pistli þann 18. maí að lífeyrissjóðskerfið vanti hvorki meira né minna en um 700 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar. Já, takið eftir, lífeyrissjóðskerfið er með neikvæða tryggingafræðilega stöðu sem nemur 700 milljörðum króna.

FME benti á að mikilvægt væri að lagfæra þennan halla og nefndi dæmi um það sem hægt væri að gera. Ein lausnin væri sú að hækka iðgjöld launafólks, önnur að skerða réttindi þess og að lokum nefndu þeir þriðja möguleikann sem væri líka til staðar - að hækka lífeyrisaldurinn um 1-2 ár til að mæta þessum gríðarlega halla sem kerfið á við að etja um þessar mundir. Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá grafalvarlegu stöðu sem lífeyrissjóðskerfið er nú í enda töpuðu sjóðirnir 500 milljörðum eftir að hafa stigið trylltan dans við fjárfestingar í fjármálakerfinu og fyrirtækjum tengdum útrásinni. Það kom einnig fram á þessum fundi að það er búið að skerða lífeyrisréttindi almenns launafólks um í það minnsta 130 milljarða frá hruni. Með öðrum orðum, hinn almenni sjóðsfélagi þarf að sæta því að horfa upp á lífeyri sinn stórskerðast vegna glæfralegra fjárfestinga stjórnenda lífeyrissjóðanna á undanförnum árum og misserum og enginn þessar stjórnenda sér neina ástæðu til að bera ábyrgð á þessum hamförum sem sjóðsfélagar þurfa nú að þola.

 

Lífeyrir ráðamanna skerðist ekki um krónu

Það undarlega í þessu öllu saman er að alþingismenn, ráðherrar, embættismenn og aðrir opinberir starfsmenn hafa ekki fengið skerðingu á sínum lífeyrisréttindum um eina einustu krónu þó svo að Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna hafi tapað 100 milljörðum í hruninu og að þann sama sjóð vanti 447 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Réttlætið og jöfnuðurinn ríða ekki einteyming enda virðist réttlætið og jöfnuðurinn sem margir stjórnmálamenn vilja kenna sig við vera fólginn í því að skerða lífeyri launafólks á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða og að láta almennt launafólk baktryggja sín eigin lífeyrisréttindi.  Eins og áður sagði er LSR með neikvæða tryggingafræðilega stöðu upp á 447 milljarða. Það er morgunljóst að þessi reikningur mun falla af fullum þunga á skattgreiðendur á næstu árum og áratugum. Því spyr formaður félagsins: Hvað hyggjast alþingismenn og aðrir ráðamenn gera í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að bakábyrgð Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna er eins krabbameinsæxli  sem stækkar og stækkar og getur stefnt lífsgæðum íslensks almennings í voða? Formaður spyr einnig: Er þetta réttlætið og jöfnuðurinn, að láta lífeyri almenns launafólks blæða út á meðan meðal annars alþingismenn og ráðamenn eru tryggðir í bak og fyrir gagnvart sínum ofurlífeyrir?

 

Réttlæti og jöfnuður

Það er orðið sorglegt að sjá hvernig alþýða þessa lands er barin sundur og saman þegar kemur að réttlæti og jöfnuði. Nægir að nefna í því samhengi að Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu fyrir nokkrum dögum síðan að Seðlabankinn og Ríkið hafi sett 400 milljarða inn í fjármálakerfið frá hruni meðal annars til að verja fjármagnseigendur. Þessu til viðbótar er ríkisábyrgð á öllum innistæðum í bankakerfinu, allt á kostnað almennings en á sama tíma þegar talað er um að leiðrétta stökkbreyttar skuldir heimilanna vegna hrunsins og verðtryggingarvítisvélarinnar þá er ekkert hægt að gera. Nægir að nefna í því samhengi skýrslu sem Hagfræðistofnun gerði um skuldastöðu heimilanna en þar kom fram að það myndi kosta um 200 milljarða að leiðrétta stökkbreyttar verðtryggðar skuldir íslenskra heimila og í framhaldi af þeirri skýrslu komu ráðamenn fram og sögðu að lítið sem ekkert væri hægt að gera til að koma til móts við skuldsett heimili . Þegar kemur að því að ræða um skuldir heimilanna þá sprettur hver fræðingurinn fram á fætur öðrum og spyr hvar eigi að taka peningana. En eins og áður sagði þá vafðist ekki fyrir ráðamönnum þessarar þjóðar að dæla peningum inn í fjármálakerfið, til að slá skjaldborg utan um það og erlenda vogunarsjóði. Á meðan er íslenskum heimilum látið blæða hægt og rólega út. Að hugsa sér að einu raunverulegu leiðréttingarnar sem skuldsett heimili hafa fengið hafa verið í gegnum dómskerfið þar sem gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg, en þessi gengistryggðu lán voru afgreidd til almennings þótt fjármálastofnanir og fjölmargir aðrir vissu að það væri ólöglegt að afgreiða slík lán. Formaður heldur að það sé orðið morgunljóst að það hefur aldrei staðið til hjá stjórnvöldum að koma íslenskum skuldsettum heimilum til hjálpar vegna þess grímulausa forsendubrests sem hér varð í kjölfar efnahagshrunsins, sagan hefur svo sannarleg sannað það.

Slagorðið að slá skjaldborg utan um heimilin hefur reynst inntóm froða sem ekkert hefur verið að marka og hafa stjórnvöld kappkostað að slá frekar skjaldborg utan um fjármálakerfið, auðmenn og erlenda vogunarsjóði.

Formanni félagsins er algjörlega óskiljanleg sú þolinmæði sem alþýða þessa lands sýnir gagnvart þessu ofbeldi sem henni er sýnt slag í slag á meðan fjármagnseigendur og fjármálakerfið er varið með kjafti og klóm. Því segi ég við alþýðu þessa lands: Látum þetta ofbeldi ekki yfir okkur ganga stundinni lengur.

02
Jul

Nýtt orlofshús félagsins bókað út sumarið

Það er óhætt að segja að nýtt orlofshús félagsins í Svínadal hafi vakið góð viðbrögð hjá félagsmönnum. Síðastliðinn föstudag var opnað fyrir bókanir í bústaðinn og er skemmst frá því að segja að hann er nú bókaður út ágúst og þegar er byrjað að bóka helgar í haust. Þessi viðbrögð sýna það enn og aftur hversu mikil eftirspurn er hjá félagsmönnum eftir orlofshúsum og að þörf var á að bæta við fleiri valkostum. Fyrsta vikan í útleigu í nýja bústaðnum hefst næstkomandi föstudag, 6. júlí.

Bústaðurinn í Efstaási er sjötti bústaður félagsins en hinir bústaðirnir eru í Húsafelli, Hraunborgum, Ölfusborgum, Kjós og í Bláskógum í Svínadal. Einnig á félagið þrjár íbúðir á Akureyri. Myndir af nýja bústaðnum má sjá hér.

29
Jun

Hagsmunagæsla VLFA hefur skilað uppundir 50 milljónum á síðustu mánuðum

Það er óhætt að segja að hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness sé búin að skila hluta starfsmanna Norðuráls umtalsverðum ávinningi á síðustu mánuðum. Eins og fram kom hér á heimasíðunni í desember á síðasta ári þá gekk félagið frá samkomulagi við forsvarsmenn Norðuráls vegna ágreinings er laut að bónusgreiðslum til afleysingastarfsmanna. 230 starfsmenn sem um ræðir fengu leiðréttingu vegna þess máls og nam sú leiðrétting tæpum 13 milljónum króna.

Fyrir skemmstu kom Verkalýðsfélag Akraness með ábendingu til forsvarsmanna Norðuráls vegna orlofsmála afleysingamanna en það var mat félagsins eftir að hafa skoðað málið ítarlega að ekki væri verið að uppfylla þann kjarasamning sem í gildi er. Forsvarsmenn Norðuráls skoðuðu málið og í fyrstu hafnaði lögmaður Norðuráls ábendingum Verkalýðsfélags Akraness. Síðan breyttu þeir þeirri ákvörðun sinni og féllust á öll rök félagsins sem leiðir til þess að fyrirtækið mun endurgreiða þeim starfsmönnum sem um ræðir leiðréttingu vegna svokallaðra rauðra daga fjögur ár aftur í tímann. Þessi leiðrétting gildir fyrir þá sem hafa verið lausráðnir og einnig sumarstarfsfólk. Samkvæmt upplýsingum sem félagið hefur fengið þá er áætlað að þessi leiðrétting verði ekki undir 30 milljónum króna þannig að hagsmunagæsla VLFA hefur skilað starfsmönnum Norðuráls vel á fimmta tug milljóna á liðnum mánuðum. Verið er að vinna í leiðréttingunni vegna orlofsmála afleysingamanna og vonast formaður til að leiðréttingin muni skila sér til þeirra sem hlut eiga að máli innan nokkurra vikna. En ljóst er að það liggur fyrir mikil vinna hjá launadeildinni við að reikna og finna út hverjir eiga rétt á leiðréttingu og einnig hversu mikil leiðréttingin er.  

Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja og fylgjast vel með að öll þau réttindi sem félagsmenn félagsins eiga skili sér til þeirra og það er hvergi hvikað í þeirri mikilvægu baráttu.  

29
Jun

Félagið hefur fest kaup á nýjum bústað í Svínadal

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú fest kaup á glæsilegum bústað í Svínadal. Bústaðurinn er staðsettur að Efstaási 11 í landi Kambshóls í Eyrarskógi og var hann byggður árið 2002. Bústaðurinn er 65,7 fermetrar að stærð með þremur svefnherbergjum, þar af eru tvö þeirra á efri hæð. Undanfarna daga hefur verið unnið að því að gera bústaðinn fullbúinn og nú styttist í að félagsmenn geti farið að bóka vikur þar. Ástæðan fyrir því að stjórn félagsins ákvað að festa kaup á þessum glæsilega bústað er fyrst og fremst aukning félagsmanna á undanförnum árum en núna eru rétt rúmlega 3.000 félagsmenn í félaginu og því var bráðnauðsynlegt að fjölga möguleikum félagsmanna til að fá úthlutað sumarhúsi. Þetta er annar bústaðurinn sem félagið kaupir á stuttum tíma en félagið keypti nýlegan bústað í Kjós í Hvalfirði í september í fyrra.

Það er óhætt að segja að rekstur félagsins hafi gengið vel undanfarin ár og á þeirri forsendu er félagið vel í stakk búið til að ráðast í svo miklar fjárhagslegar framkvæmdir eins og sumarhúsakaup eru. En þetta er gert fyrst og fremst til að mæta þörfum félagsmanna enda ríkti mjög mikil ánægja með bústaðinn í Kjós sem félagið keypti að aðsóknin í sumar- og vetrarleigu undanfarin ár hefur aukist stöðugt.

Fyrsta vikan sem er í boði er 6.-13. júlí næstkomandi. Opnað hefur verið fyrir bókanir og gildir hér reglan fyrstur kemur, fyrstur fær. Hægt er að bóka bústaðinn á skrifstofu félagsins en einnig á félagavef.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image