• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Aug

Kjarasamningur fyrir smábátasjómenn undirritaður

Sjómannasamband Íslands skrifaði undir kjarasamning við Landssamband smábátaeigenda í nótt og er því þrautagöngu um samningsleysi smábátasjómanna loks á enda. Þetta er nánast eina starfsstéttin á Íslandi sem ekki hefur notið þeirra lágmarksmannréttinda að hafa í gildi kjarasamning.

Skrifstofu félagsins var að berast samningurinn í hús og hefur því ekki náðst að fara ítarlega yfir innihald samningsins en það er gríðarlega mikilvægt að þeir sjómenn sem munu koma til með að vinna eftir áðurnefndum kjarasamningi kynni sér innihald hans vel og rækilega. Hægt er að sjá kjarasamninginn með því að smella hér.  

29
Aug

Skrifstofa VLFA lokar kl. 13:00 vegna útfarar

Vegna útfarar Jóhanns Arnar Matthíassonar verður skrifstofa VLFA lokuð frá kl. 13:00 í dag. Útförin fer fram kl. 14:00 frá Akraneskirkju.

28
Aug

Forseti ASÍ hittir stjórn VLFA á morgun

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍGylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍForseti Alþýðusambands Íslands mun funda með stjórn Verkalýðsfélags Akraness á morgun en samkvæmt heimildum félagsins er forsetinn nú í fundaherferð þar sem hann hittir stjórnir aðildarfélaga ASÍ. Málefni sem að forsetinn óskar eftir að fá að ræða við stjórn VLFA um eru kjaramál, atvinnumál, endurskoðun kjarasamninga í janúar og jöfnun lífeyrisréttinda.

Það liggur fyrir að stjórn VLFA hefur gagnrýnt forystu Alþýðusambands Íslands og þar með talið forseta ASÍ harðlega fyrir hin ýmsu mál og er morgunljóst að stjórn félagsins mun koma sínum málefnum og athugasemdum vel á framfæri við forseta ASÍ á fundinum á morgun.

Eins og flestir muna þá gagnrýndi VLFA harðlega samræmdu launastefnuna sem gerð var í maí á síðasta ári, launastefnu sem byggðist á því að allir skyldu fá sömu launahækkanir algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Sem betur fer tókst VLFA að brjóta á bak aftur samræmdu launastefnuna er laut að stóriðjunum á Grundartanga en því miður sogaðist fiskvinnslufólk ofan í þessa samræmdu launastefnu en það er klárt mál að útgerðin hefur svo sannarlega haft svigrúm til að hækka skammarlega lág laun fiskvinnslufólks en það fékkst ekki í gegn vegna samræmdu launastefnunnar. Sem dæmi þá hafa fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki greitt sínu starfsfólki launauppbætur umfram gildandi kjarasamninga á liðnum mánuðum og er það umhugsunarefni fyrir verkalýðshreyfinguna að hafa ekki gengið harðar að fiskvinnslufyrirtækjum í ljósi þeirra staðreynda að þau koma með áðurnefndar hækkanir. Málið er að sum fiskvinnslufyrirtæki nýta sér þessa láglaunastefnu og greiða ekki uppbætur eins og önnur fiskvinnslufyrirtæki gera og nægir að nefna HB Granda í því samhengi en það fyrirtæki hefur ekki borgað sínu starfsfólki launauppbætur eins og til dæmis Samherji og fleiri stórútgerðir hafa gert fyrir sitt fólk.

Því mun félagið koma því á framfæri að það sé lykilatriði þegar endruskoðun kjarasamninga á sér stað í febrúar að launakjör fiskvinnslufólks verði leiðrétt vegna gríðarlega sterkrar stöðu útgerðarfyrirtækja um þessar mundir. Ef þau geta greitt sér aðrgreiðslur sem nema tugum ef ekki hundruðum milljóna þá hljóta þau að geta lagfært laun fiskvinnslufólks sem eru til skammar eins og áður sagði en starfsmaður í fiskvinnslu er einungis með um 230 þúsund krónur í heildarlaun með bónus eftir 15 ára starf.

Einnig verða lífeyrismál til umræðu en nú hefur ASÍ ýjað að því að hækka lífeyrisaldur og nefnt að samkomulag sé klárt við SA um að hækka iðgjöld í samtrygginguna úr 12% upp í 15,5% á næstu árum og vilja menn meina að verið sé að jafna réttindi við opinbera starfsmenn með þessari hækkun. VLFA hafnar þessu algjörlega og færir sem rök fyrir því að það sé engin trygging fyrir því að verið sé að jafna réttindi við opinbera starfsmenn með því að auka iðgjöldin um 3,5% á meðan ekki liggur fyrir ríkisábyrgð á lífeyri verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eins og hjá opinberum starfsmönnum. Rétt er að minna á í því samhengi að búið er að skerða réttindi verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni og því til viðbótar liggur fyrir að lífeyrissjóðir innan ASÍ eru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu sem nemur 119 milljörðum. Ef atvinnurekendur hafa svigrúm til að bæta í lífeyrisréttindin þá væri miklu nær að það kæmi inn í séreignina heldur en samtrygginguna því séreignin er eyrnamerkt hverjum launamanni og er erfanleg.

23
Aug

Jóhann Örn Matthíasson stjórnarmaður látinn

Jóhann Örn MatthíassonJóhann Örn MatthíassonStjórnarmaðurinn og formaður sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness, Jóhann Örn Matthíasson, lést þann 20. ágúst síðastliðinn, tæplega 67 ára að aldri. Jóhann hefur gegnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Akraness í marga áratugi og er ljóst að mikill sjónarsviptir verður að honum en hann hefur staðið vaktina fyrir hagsmunum sjómanna á Akranesi um áratugaskeið eins og áður sagði. Jóhann hefur setið mörg þing Alþýðusambands Íslands fyrir hönd félagsins sem og þing Sjómannasambands Íslands. Hann var formaður orlofssjóðs til margra ára en síðustu ár gegndi hann formennsku í sjómannadeild félagsins og sat einnig í aðalstjórn félagsins.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness horfir nú á eftir góðum stjórnarmanni sem gott hefur verið að eiga samskipti við á undanförnum árum og þakkar stjórn félagsins Jóhanni fyrir frábær störf á liðnum árum þar sem hann barðist fyrir bættum hag íslenskra sjómanna og íslensks verkafólks. Einnig vill stjórn VLFA votta aðstandendum Jóhanns innilegrar samúðar vegna fráfalls hans.

Útför Jóhanns fer fram frá Akraneskirkju miðvikudaginn 29. ágúst og hefst athöfnin klukkan 14.

20
Aug

Þak endurnýjað á skrifstofu félagsins

Núna standa yfir framkvæmdir á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13, en þakið var orðið svo illa farið að talsvert af vatni lak inn á gólf í vor, auk þess sem steyptur þakkantur var mjög sprunginn og ónýtur. Þessa dagana vinna starfsmenn Akurs hörðum höndum að því að ráða bót á þessu og eru að endurnýja þakið, setja nýtt járn og smíða þakkant.

Eins og gefur að skilja hefur lítið reynt á vatnsheldni þaksins í þeirri brakandi blíðu sem ríkt hefur í sumar, en eftir þessar endurbætur mun húsið halda veðri og vindum eins og það hefur gert síðan það var reist árið 1945.

17
Aug

Skattgreiðendur verða að segja nei

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í fréttum gær á ruv.is að hann væri búinn að gefast upp á viðræðum við stjórnvöld um að þau ráðist í stórframkvæmdir til að efla byggingaiðnaðinn. Í þessu samhengi nefndi Vilhjálmur að samgönguframkvæmdir hafi ekki gengið eftir, t.d. tvöföldun Suðurlands- og Vesturlandsvegar, og nefndi einnig að engar framkvæmdir séu hafnar við nýtt háskólasjúkrahús.

Formaður félagsins spyr, hvernig dettur framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í hug að krefja ríkissjóð um að ráðast í slíkar framkvæmdir í ljósi þeirrar stöðu sem ríkissjóður er í. 

Hér hefur verið blóðugur niðurskurður frá hruni, m.a. í löggæslunni og menntakerfinu, svo ekki sé talað um í heilbrigðiskerfinu sem er að mati þeirra sem þekkja til farið að ógna öryggi sjúklinga allverulega.  Það er meira að segja búið að loka líknardeildum og ekki fæst fjármagn til að endurnýja bráðnauðsynlegan tækjakost á Landspítalanum. 

Formaðurinn spyr því aftur, hvernig dettur framkvæmdastjóra SA það í hug að ætla að leggja tuga ef ekki hundraða milljarða króna drápsklyfjar á íslenska skattgreiðendur í ljósi þeirra hamfara sem þeir hafa mátt þola á  liðnum árum.  Hvað með bullið í kringum Hörpuna en þar er búið að skuldsetja íslenskan almenning næstu 35 árin um sem nemur einum milljarði á ári og hvað með hugsanlegan kostnað skattgreiðenda vegna Vaðlaheiðarganga, en félag íslenskra bifreiðaeigenda segir að 250 til 400 milljóna reikningur muni berast íslenskum skattgreiðendum árlega næstu þrjá áratugina vegna þeirra framkvæmda.

Formaður VLFA veit að Samtök atvinnulífsins og ASÍ vilja ráðast í stórfelldar byggingaframkvæmdir hér á landi og að lífeyrissjóðir launafólks láni fé í þessar framkvæmdir. Einnig voru uppi hugmyndir um að þessar vegaframkvæmdir yrðu greiddar með veggjöldum af vegfarendum á öllum stofnæðunum frá höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum launafólk átti að lána lífeyrir sinn í þessar framkvæmdir og greiða síðan lánið með vegtollum, við þessari framkvæmd vil ég segja, þvílíkt kjaftæði.

Formaðurinn segir að núna verða íslenskir skattgreiðendur að stoppa þessa vitleysu af og koma í veg fyrir að hundraða milljarða króna reikningur skelli af fullum þunga á skattgreiðendur. Ríkissjóður hefur alls ekki fjármagn til að ráðast í slíkar framkvæmdir á þessum tímapunkti og frekari byrðar verða ekki lagðar á íslenska skattgreiðendur enda eru þeir blóðugir upp fyrir axlir vegna þeirra byrða sem lagðar hafa verið á þá á liðnum misserum.  Ugglaust eru þetta allt réttlætanlegar framkvæmdir til lengri tíma litið en alls ekki á meðan skefjalaus niðurskurður á sér stað í grunnstoðum okkar samfélags sem er nú þegar farinn að ógna öryggi borgara og sjúklinga eins og áður hefur komið fram.

Formaður félagsins myndi vilja að lífeyrissjóðirnir lánuðu t.d Landspítalanum fjármagn á viðráðanlegum kjörum til að lagfæra húsnæðið og endurnýja öll þau bráðnauðsynlegu tæki sem eru úr sér gengin eins og t.d. geislatæki fyrir krabbameinssjúklinga.  Hann er sannfærður um að hinn almenni sjóðsfélagi í lífeyrissjóðunum sé þessu hlynntur en sá kostnaður væri bara brotabrot af því sem kostar að ráðast í byggingu á nýjum spítala sem er áætlað að muni ekki kosta undir 100 milljörðum.  Það er morgunljóst að þessi endurnýjun á tækjakosti spítalans myndi gagnast okkur öllum vel.

Skattgreiðendur verða að tryggja með öllum tiltækum ráðum að hinir ýmsu sérhagsmunahópar og einstaka kjördæmapotarar vaði ekki hér uppi og skuldsetji íslenskan almenning enn og aftur um tugi ef ekki hundruð milljarða með skelfilegum afleiðingum fyrir allan almenning hér á landi. Slík vinnubrögð eiga að heyra sögunni til, enda þekkjum við afleiðingarnar af slíkum vinnubrögðum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image