• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Nov

Stjórn Framsýnar á Húsavík styður myndarlega við málarekstur VLFA vegna verðtryggingar

Stjórn stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík hefur ákveðið að styðja við málarekstur Verkalýðsfélags Akraness í verðtryggingarmálinu með fjárstuðningi að upphæð 120.000. Stjórn Framsýnar skorar einnig á önnur félög innan Starfsgreinasambandsins að gera slíkt hið sama.

Í frétt um málið á heimasíðu Framsýnar segir m.a.: "Fyrir liggur að verðtryggingin hefur leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og sem dæmi þá hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað uppundir 400 milljarða frá 1. janúar 2008 til dagsins í dag. Meðalverðtryggð skuld íslenskra heimila í dag er í kringum 22 milljónir króna. Að mati Framsýnar er það miskunnarlaust óréttlæti að varpa allri ábyrgð verðtryggingarinnar á skuldsett heimili í landinu, meðan lánveitendur eru tryggðir í bak og fyrir."

Stjórn VLFA þakkar félögum sínum fyrir norðan kærlega fyrir þennan stuðning, en gott vinasamband hefur verið á milli þessara tveggja stéttarfélaga um langa hríð. Það er rétt að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness sendi miðstjórn Alþýðusambands Íslands bréf með ósk um fjárstuðning vegna málarekstur á ólögmæti verðtryggingarinnar enda liggja hagsmunir allra félagsmanna ASÍ undir í þessum málarekstri. Svarið frá miðstjórn ASÍ var: Nei við styðjum ykkur ekki. Það er því ómetanlegt að finna slíkan stuðning frá félögum Framsýnar á Húsavík.

01
Nov

Hagsmunagæslan skilar árangri

Það er alltaf ánægjulegt þegar hagsmunagæslan skilar árangri, en nú í vikunni náðist niðurstaða í máli sem skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness hefur verið að vinna í að undanförnu og varðar vetrarfrí vaktavinnufólks á vinnustað einum hér í bæ. Samkvæmt kjarasamningi vinna starfsmenn í vaktavinnu sér inn 12 vetrarfrídaga á ári m.v. fullt starf, vegna rauðra daga sem falla á mánudaga til föstudaga (Kafli 3.4. og bls. 66-67). Þessir dagar eru misjafnlega margir milli ára, en þegar þetta ákvæði var sett inn í kjarasamninginn var farið 400 ár aftur í tímann og þessir dagar taldir. Niðurstaðan var sú að rauðir dagar sem falla á mánudaga til föstudaga eru að meðaltali 12 á ári.

Sé vinnustaðnum lokað á rauðum degi fækkar vetrarfrídögum um einn hjá þeim starfsmönnum sem áttu vakt þann dag. Lokunin hefur ekki áhrif á fjölda vetrarfrídaga þeirra starfsmanna sem eiga inni áunnið vaktafrí, enda vinna þeir sér inn vetrarfrí við vinnu á rauðum dögum á sínum vaktatörnum.

Ágreiningurinn snerist um það að fyrirtækið taldi fullnægjandi að greiða vaktarálag á rauðum dögum og höfðu starfsmenn aldrei fengið vetrarfrí. Eftir að skrifstofa VLFA gerði athugasemdir við þá framkvæmd hefur þetta nú verið leiðrétt aftur í tímann fyrir þá sjö starfsmenn sem leituðu til skrifstofu og nam leiðréttinging samtals rúmlega 700.000 kr. fyrir þessa starfsmenn. Eftir er að leiðrétta fyrir aðra starfsmenn fyrirtækisins, bæði hér á Akranesi og annars staðar, en fyrirtæki þetta starfar á landsvísu.

01
Nov

Fundur með starfsmönnum Sjúkrahúss Akraness

Í morgun fundaði formaður félagsins með starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hér á Akranesi og var fundarefnið ýmis mál er lúta að réttindum starfsmanna stofnunarinnar. Þetta var góður fundur þar sem margt bar á góma, t.d. fór formaður yfir þau réttindi sem starfsmenn eiga hjá stéttarfélaginu og einnig var farið yfir stöðu dómsmáls sem félagið rekur nú fyrir félagsdómi og varðar réttindi starfsmanna HVE á Akranesi. En fram kom í máli formanns að dómsniðurstöðu sé að vænta innan örfárra daga í því máli.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands, eins og aðrar stofnanir hér á landi, hefur þurft að þola mikinn niðurskurð sem leitt hefur af sér umtalsverða fækkun á starfsfólki. Það hefur síðan haft þær afleiðingar að mun meira álag er á þá starfsmenn sem eftir eru og var ljóst í máli starfsmanna að komið sé að algjörum þolmörkum hvað varðar niðurskurð hjá stofnuninni.

30
Oct

Formaður margoft beðinn um að halda fyrirlestra um hin ýmsu mál

Stjórnmálaaflið Samstaðan óskaði eftir því við formann Verkalýðsfélags Akraness fyrir nokkru síðan að hann kæmi á fund um verðtrygginguna sem haldinn var í gær og að sjálfsögðu varð formaður við þeirri beiðni og hélt hann erindi um það málefni. 

Það er óhætt að segja að hin ýmsu stjórnmálaöfl, góðgerðarsamtök og til dæmis Háskóli Íslands hafi leitað eftir því að formaður félagsins komi og ræði um margvísleg hagsmunamál er lúta að íslensku launafólki og málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Formaður hefur meðal annars haldið erindi hjá Framsóknarflokknum, Vinstri Grænum, Samstöðu, Hreyfingunni, Bót sem eru félagasamtök um fátækt og í Háskóla Íslands og er hann ánægður með að fá þetta tækifæri til að koma áherslum félagsins og hagsmunum alþýðufólks á framfæri á þessum fundum.

Fundurinn í gær var mjög góður en fjölmargir voru mættir og fór formaður ítarlega yfir þann skaðvald sem verðtryggingin er og hvernig hún hefur leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum þar sem eignahlutur heimilanna hefur verið sogaður í burtu og færður yfir til fjármálakerfisins, erlendra vogunarsjóða og þeirra sem eiga fjármagnið hér á landi.  

26
Oct

Hvar er skjaldborgin?

Í fréttum hefur komið fram að Íslandsbanki hefur hafið endurútreikning á lánum einstaklinga og fyrirtækja sem bankinn telur að falli undir dóma Hæstaréttar frá 15. febrúar og 18. október sl. Um er að ræða ólögmæt gengistryggð lán sem lántakar hafa greitt af í samræmi við gildandi skilmála á hverjum tíma.

Það gildir hins vegar ekki um öll fjármögnunarfyrirtækin eins og t.d Lýsingu sem hefur sagt að  þar sé ekki talið að dómur Hæstaréttar á fimmtudag um gengistryggð lán eigi ekki við um lánasafn Lýsingar og þar verði því ekki ráðist í endurútreikninga.  Með öðrum orðum Lýsing neitar að skila þýfinu til baka þrátt fyrir dóm Hæstaréttar.

En hvar eru Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, stjórnvöld og Alþingi þegar kemur að því að verja almenning gagnvart því ofbeldi sem Lýsing sýnir sínum viðskiptavinum? Það eru þessir aðilar sem bera ábyrgð á því að vextir Seðlabankans voru látnir gilda afturvirkt.  Eru menn búnir að gleyma að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sendu fjármálastofnunum leiðbeinandi tilmæli um að miða ætti við vexti Seðlabankans afturvirkt eftir að Hæstiréttur hafði dæmt gengistryggðu lánin ólögleg, en þessi tilmæli voru send út 30. júní 2010.

 

Skjaldborgin var um fjármálakerfið

Eftir að Hæstiréttur var búinn að dæma gengistryggðu lánin ólögleg í júní 2010 fóru stjórnvöld á fulla ferð að slá skjaldborg um fjármálastofnanir á kostnað almennings og milda áhrif dóms Hæstaréttar á fjármálastofnanir. Ríkisstjórnin ákvað að fótum troða loforðið um skjaldborg utan um heimilin og var það gert meðal annars með svokölluðum Árna Páls lögum nr. 151/2010. Í þeim lögum voru vextir Seðlabankans látnir gilda afturvirkt á þessi ólöglegu gengistryggðu lán en þeir vextir voru eins og allir vita mun óhagstæðari en þeir erlendu vextir sem voru á gengistryggðu samningunum.  Rétt er í þessu samhengi að rifja upp ummæli Gylfa Magnússonar fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra frá því í júní 2010 en í viðtali við vísir.is segir Gylfi það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu vextir standi.  Fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sagði einnig í þessu viðtali að ríkisstjórnin þurfi auðvitað að haga sér á ábyrgan hátt og koma í veg fyrir að slík niðurstaða ógni fjármálastöðugleika. „Það er kannski fyrst og fremst það sem við erum að reyna að ná fram," sagði Gylfi Magnússon í júní 2010. Þessi ummæli fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sýna svo ekki verður um villst þann hug sem stjórnvöld bera til heimila, fyrirtækja og einstaklinga.

Já, íslensk stjórnvöld fengu kaldan hroll þegar dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í júní 2010 um ólögmæti gengistryggðu lánanna, stjórnvöldum hugnaðist það alls ekki að fjármálafyrirtækjum væri gert að fara að lögum og skila almenningi þýfinu til baka. 

Hugsið ykkur þessi ummæli fyrrverandi  efnahags- og viðskiptaráðherra frá því í júní 2010 þar sem ráðherrann segir það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu vextir standi og að ríkisstjórnin þurfi auðvitað að haga sér á ábyrgan hátt og koma í veg fyrir að slík niðurstaða ógni fjármálastöðugleika. 

Það er orðið morgunljóst að stjórnvöld hugsuðu bara um eitt, að slá skjaldborg um fjármálafyrirtækin og erlenda vogunarsjóði en skuldsettri alþýðu mátti fórna á altari ólaga sem sett voru á til að reyna að koma í veg fyrir fjárhagslegt tjón fjármálastofnanna og erlendra vogunarsjóða. Svo vilja þessi stjórnvöld kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð. Það er einnig morgunljóst að áðurnefnd ummæli ráðherrans sanna svo ekki verður um villst um hvílík öfugmæli það eru að kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð.

Það ofbeldi sem íslensk heimili hafa mátt þola af hálfu stjórnvalda á sér vart hliðstæðu því það liggur fyrir að fjölmargir lögspekingar og aðrir aðilar sem komu á fund Alþingis vöruðu í umsögnum sínum eindregið við því að umrædd lög Árna Páls stæðust alls ekki lög. Þrátt fyrir þessar aðvaranir voru Árna Páls lögin sett á. Það er bæði nöturlegt og dapurlegt til þess að vita að það hefur aldrei staðið til hjá stjórnvöldum að slá skjaldborg um heimilin eins og þessi upprifjun sýnir svo ekki verður um villst.  

 

Enginn ber ábyrgð

Formaður Verkalýðsfelags Akraness spyr sig, hvernig í ósköpunum stendur á því að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sem komu með leiðbeinandi tilmæli um að vextir Seðlabankans skyldu gilda afturvirkt skuli komast upp með að bera ekki nokkra einustu ábyrgð á þessum tilmælum sínum, tilmælum sem voru algjörlega byggð á sandi. Formaðurinn spyr sig einnig hvernig má það vera að stjórnvöld og Alþingi setji lög á þrátt fyrir að allir færustu lögspekingar landsins hafi bent á að Árna Páls lögin stæðust ekki nokkra skoðun og væru ólögleg eins og hæstiréttur hefur nú margsýnt fram á.

Að lokum telur formaður að almenningur þurfi að rísa upp núna og berjast með kjafti og klóm gegn því ofbeldi sem Lýsing er nú að sýna sínum viðskiptavinum því það virðist vera orðið fullreynt að stjórnvöld ætla sér að láta þetta mál átölulaust þrátt fyrir að bera alla ábyrgð á því hvernig það hefur þróast. Því segir formaður, hingað og ekki lengra og með samstöðu getum við brotið þetta ofbeldi Lýsingar á bak aftur.

25
Oct

Formaður VLFA hefur sent skýr skilaboð til forstjóra Festu lífeyrissjóðs varðandi hlutabréfaútboð Eimskips

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hafði samband við forstjórann Gylfa Jónasson sem stýrir Festa lífeyrissjóði sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að. Formaðurinn tjáði honum með afgerandi hætti að ef lífeyrissjóðurinn Festa muni taka þátt í kaupréttarútboði á fyrirtækinu Eimskip þá mun félagið grípa til róttækra aðgerða sem gætu verið fólgnar í því að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem eru aðilar að Festu lífeyrissjóði gangi í annan lífeyrissjóð.

Forstjórinn tjáði formanni að hann hefði sent skilaboð út til stjórnarmanna sjóðsins í gær varðandi þetta útboð og mun niðurstaða liggja fyrir klukkan 14 í dag um hvað sjóðurinn muni gera varðandi þetta útboð. Það er alveg morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun og ætlar sér ekki að sætta sig við að verið sé að fjárfesta í fyrirtæki sem ætlar að rétta lykilstjórnendum Eimskips kaupréttarsamninga á silfurfati á sama tíma og sjóðurinn hefur tapað 500 milljónum króna vegna gjaldþrots Eimskips á sínum tíma. En lífeyrissjóðirnir töpuðu á gjaldþroti Eimskips hátt í 15 milljörðum króna samtals og á þeirri forsendu meðal annars er það skylda lífeyrissjóðskerfisins að senda skýr skilaboð út til fyrirtækja um að sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum muni ekki sætta sig við að græðgisvæðingin skjóti aftur rótum inni í þessum fyrirtækjum.

Ef það verður niðurstaðan eins og áður sagði að Festa lílfeyrissjóður muni fjárfesta í þessu fyrirtæki þá mun Verkalýðsfélag Akraness boða til áríðandi fundar með sínum sjóðsfélögum þar sem því verður beint til félagsmanna að greiða inn í annan lífeyrissjóð. Hins vegar er tilfinning formanns sú að stjórn Festu muni verða við þessari beiðni VLFA og taka ekki þátt í þessu útboði en rétt er að minna á að formaður gerði þessa kröfu á sjóðinn í júlí síðastliðnum þegar það lá fyrir að þessir kaupréttarsamningar yrðu að veruleika. En eins og áður sagði þá mun formaður fá svar klukkan 14 í dag um hvort Festa lífeyrissjóður muni taka þátt í þessu útboði eður ei.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image