• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Jan

Hækkun iðgjalda í lífeyrissjóð galin

Bullandi sóknarfæri fyrir launahækkun fiskvinnslufólks var ekki nýttRétt í þessu var að ljúka formannafundi Starfsgreinasambands Íslands. Þar fór Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ yfir drög að samkomulagi við Samtök atvinnulífsins vegna endurskoðunarákvæðis í kjarasamningum, en eins og flestir vita þá þarf að liggja fyrir niðurstaða fyrir 21. janúar nk. hvort aðildarfélög ASÍ vilja segja samningum upp eða ekki.  Það verður að segjast alveg eins og er að niðurstaðan í þessum drögum er afar rýr. Þau atriði sem um ræðir í þessu samkomulagi SA og ASÍ eru eftirfarandi:

Gildistími kjarasamninga milli aðila sem undirritaðir voru 5. maí styttist og gilda þeir til 30. nóvember 2013 en ekki 31. janúar 2014. Vissulega er það fagnaðarefni að samningurinn sé styttur um 2 mánuði en formaður vill minna menn á að síðasti kjarasamningur rann út 30. nóvember 2010 en ekki var lokið við gerð nýs kjarasamnings fyrr en 5. maí 2011 eða nánar tiltekið 6 mánuðum eftir að samningurinn rann út og samt var hann ekki látinn gilda frá þeim tíma sem hann rann út. Hins vegar var greidd 50.000 kr. eingreiðsla sem dekkaði alls ekki þá 6 mánuði sem launafólk var án launahækkana.  Á þeirri forsendu verður að tryggja að kjarasamningar gildi frá þeim tíma sem þeir renna út til að koma í veg fyrir það að atvinnurekendur hagnist á því að draga kjarasamningsgerðina úr hófi eins og gert var í síðustu samningum.

Talað er um í þessum drögum að iðgjöld í mennta- og fræðslusjóðina hækki um 0,1% í áföngum. Vissulega ber að fanga þessu en það skondna í þessu er að þetta á ekkert að koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2014 og hefur í raun ekkert með þessa endurskoðun á kjarasamningunum að gera, enda hefði það verið í lófa lagið fyrir stéttarfélögin að semja um þetta í næstu samningum.

 Í bókun sem gerð var í kjarasamningunum 2011 er talað um jöfnun á lífeyrisréttindum á hinum almenna vinnumarkaði við opinbera starfsmenn og þar er talað um að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% eða sem nemur 3,5% á næstu árum. Í þessum drögum sem nú liggja fyrir vegna endurskoðunar er talað um að þessi bókun haldi sér og iðgjöld hækki úr 12% í 15,5% frá árinu 2014 til 2020. Þessu varar formaður Verkalýðsfélags Akraness stórlega við, því það er algert glapræði að setja meira inn í lífeyrissjóðskerfið á hinum almenna vinnumarkaði á meðan kerfið hefur ekki náð að sýna fram á sjálfbærni sína. En í dag er tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða innan ASÍ neikvæð sem nemur 100 milljörðum og það þrátt fyrir að búið sé að skerða lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni. Á þessari forsendu leggst Verkalýðsfélag Akraness alfarið gegn því að framlagið verði aukið um 3,5% á næstu árum því það er engin ástæða fyrir sjóðsfélaga að leggja meira inn í þessa hít á meðan sjóðirnir geta ekki sýnt fram á að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar nú þegar.

Í málflutningi stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft komið fram að hafi menn í hyggju að segja upp samningum þá verði að fara fram allsherjaratkvæðagreiðsla á meðal allra félagsmanna sem vinna eftir kjarasamningunum. Það getur ekki verið hlutverk fámenns hóps að taka slíka ákvörðun, eins og gerðist m.a. við endurskoðun kjarasamninganna 2009 þegar umsamdar launahækkanir voru hafðar af launafólki með því að fresta þeim um nokkra mánuði. Verkalýðsfélag Akraness hefur sagt að hafi atvinnugreinar burði og getu til að hækka laun, eins og t.d. útgerðarfyrirtækin, þá eigi þau að gera slíkt, enda voru gerð stórfelld mistök í síðustu kjarasamningsgerð með svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útgerðarfyrirækja. En nú er komið í ljós að það er sögulegur hagnaður hjá útgerðinni en hreinn hagnaður hennar á síðasta ári nam 60 milljörðum króna.

15
Jan

Nú fá félagsmenn VLFA afslátt hjá Skeljungi og Orkunni

Enn fjölgar samstarfsaðilum VLFA sem bjóða félagsmönnum afslátt og sérkjör. Nú geta félagsmenn notið sérkjara hjá Orkunni og Shell: 6 króna afslátt af lítranum hjá Shell og 5 kr. afslátt hjá Orkunni auk annarra sértilboða eins og sjá má hér.
Til að virkja afsláttinn geta félagsmenn haft samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og fengið uppgefið hópanúmer.

11
Jan

Matarverð hækkað um 115%!

Síðastliðinn miðvikudag var formaður félagsins í viðtali í Reykjavík síðdegis þar sem formaður spurði hvort það væri virkilega þannig að enginn hefði eftirlit með mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að mælingin hefur gríðarleg áhrif á skuldir heimila og fyrirtækja. Sem dæmi þá hækkaði neysluvísitalan um 1% á milli mánaða í febrúar 2012 sem gerði það að verkum að verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu um 14 milljarða króna og það bara á 29 daga tímabili. Á síðustu 12 mánuðum hafa bara verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um tæpa 60 milljarða en rétt er að geta þess að frá 1. janúar 2008 hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hins vegar hækkað yfir 400 milljarða. Á þessu sést hverlags grímulaust rugl þessi verðtrygging er gagnvart skuldsettum heimilum enda hefur verðtrygging gert það að verkum að uppundir 50% af heimilum landsmanna eru tæknilega gjaldþrota.

Í mínum huga liggur það algerlega fyrir að framkvæmd mælinga neysluvísitölunnar þarf að vera hafin yfir allan vafa í ljósi þeirrar staðreyndar að verið er að mæla verðlagsbreytingar á 4.000 vöruflokkum í hverjum mánuði. Ástæða þess að mælingin þarf að vera hafin yfir alla vafa er augljós enda eru milljarða tugir að færast frá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum yfir til fjármálafyrirtækja og þeirra sem eiga fjármagnið í þessu landi og upphæðin ræðst af því hversu mikið neysluvísitalan hækkar. Á þeirri forsendu skilur formaður félagsins alls ekki þann gríðarlega leyndarhjúp sem liggur yfir störfum þeirra sem vinna við mælingu á neysluvísitölunni og kallar formaður því eftir skýrum svörum um hver hefur eftirlit með störfum þeirra en formaður hefur reyndar grun um enginn sjái um þetta eftirlit.

Það liggur fyrir að Hagstofan segist virða trúnaðarskyldur við þátttakendur í mælingum og gefur ekki þriðja aðila upplýsingar um hvar eða hvað er mælt og segist alls ekki gefa upp upplýsingar um einstakar vörur eða verðmælingar þeirra, það er þessi leyndarhjúpur sem formaður gagnrýnir harðlega.  Formaður spyr: hví í ósköpunum eiga t.d. fulltrúar heimilanna eða launafólks ekki sæti í þessari nefnd til að sinna eftirliti með að mælingin sé örugglega rétt framkvæmd í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi.

En er neysluvísitalan rétt mæld?

Um það hef formaðurinn engar forsendur til að meta enda ríkir mikil leynd yfir öllum störfum Hagstofunnar hvað mælinguna varðar og má eiginlega segja að nefndin starfi inní reykfylltum bakherbergjum og allt bendir til þess að það sé án nokkurs eftirlits. Það skiptir gríðarlegu máli að almenningur hafi vitneskju um verðlagsþróun, ekki aðeins vegna áhrifa neysluvísitölunnar á verðtryggðar skuldir landsmanna, heldur einnig vegna þróunar kaupmáttur launafólks á milli ára.

Fjölmargir félagsmenn hafa haft samband við formann félagsins og kvartað sáran yfir þeim skefjalausu hækkunum sem dunið hafa á neytendum á liðnum árum og það úr öllum áttum. Ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, orkufyrirtæki, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar hafa varpað sínum vanda grímulaust yfir á neytendur og eru heimilin gjörsamlega að sligast undan öllum þessum verðhækkunum.

Nokkrir aðilar hafa nefnt við formann að þeir hafi það á tilfinningunni að verðhækkanir undanfarin misseri séu heldur meiri en hækkun neysluvísitölunnar segir til um og vilja meina að staðan sé fegruð með því láta hækkun neysluvístölunnar vera minni en hún er í raun. Formaður vill taka fram að hann vonar að þetta sé ekki raunin enda er verðbólgan næg fyrir og maður hefur eins áður sagði ekki nokkra forsendur til að gefa sér af mælingin sé ekki rétt hjá Hagstofunni.

Hins vegar var formanni hugsað sterklega til þeirra einstaklinga sem hafa nefnt þessar áhyggjur við formanninn  þegar hann fékk fyrir fáeinum dögum send gögn frá manneskju sem sýna að vöruverð í Bónus hefur hækkað að meðaltali um 115% frá júní 2007 til desember 2012 á þeim vörutegundum sem hann keypti. Málið er að þessi einstaklingur keypti 40 vörur Bónus í júní 2007 og geymdi strimilinn. Í desember 2012 fór viðkomandi aftur í Bónus og keypti nákvæmlega sömu 40 vörunar og bar síðan saman strimlana. Þá kom í ljós að á þessu tímabili höfðu þessar vörur hækkað gríðarlega eða eins og áður sagði að meðaltali um 115%. Þessi einstaklingur nefndi einnig að á sama tímabili hafi bensínverð hækkað um 101%. Hins vegar var hækkun neysluvísitölunnar fyrir sama tímabil eða frá júní 2007 til desember 2012 einungis 47,6%.

Formaður verður að viðurkenna að hann hrekkur ögn við þegar hann skoðar þetta í ljósi þess að verð á þessum vörum hækkaði um 115% og bensínverð um 101% en neysluvísitalan hækkaði um rúm 47% á sama tíma.  Vissulega eru þetta fáar vörutegundir sem um ræðir en það er ekki ein einasta vara sem hefur hækkað um minna 47% og því gefur þessi mikla verðhækkun vísbendingar um þær gríðarlegu verðhækkanir sem orðið hafa á undanförnum árum.

Getur verið að verðlagshækkanir séu mun meiri en Hagstofan mælir? Alla vega benda þær upplýsingar sem þessi einstaklingur gaf mér til þess að svo sé.  Formaður félagsins spyr: geta verslunareigendur blekkt Hagstofuna þegar verðkannanir eiga sér stað mánaðarlega?  Það hefur alla vega komið fram hjá Hagstofunni að verslanir og fyrirtæki viti í flestum tilvikum ef þau eru þátttakendur í mælingu á vísitölu neysluverðs.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að gríðarlegir hagsmunir er hér í húfi þá krefst formaður þess að upplýst verði hvort einhverjir hafi eftirlit með mælingum Hagstofunnar og fari yfir störf hennar og ef svo er, hverjir það eru. Þessi leyndarhjúpur yfir mælingu á neysluvísitölunni er ólíðandi með öllu og getur ekki verið eðlilegur í ljósi þeirra hagsmuna sem almenningur í þessu landi hefur af því að hún sé rétt framkvæmd og því kallar formaður eftir gagnsæi á störfum hennar.

09
Jan

Greiðslur úr sjúkrasjóði aukast talsvert

Í vikunni var hér á heimasíðunni greint frá aukinni ásókn félagsmanna í styrki úr þeim menntasjóðum sem skrifstofa félagsins hefur umsýslu með. Þegar rýnt er í talnagögn úr sjúkrasjóði kemur einnig í ljós talsverð aukning, en greiðslur úr sjúkrasjóði VLFA árið 2012 jukust alls um 27,5% miðað við árið 2011. Munar þar mestu um fæðingarstyrkinn, en á árinu var hann hækkaður úr 35.000 kr. í 70.000 kr. og hefur upphæð afgreiddra fæðingarstyrkja ríflega tvöfaldast fyrir vikið eða sem nemur 128%. Einnig má nefna að sjúkradagpeningar hafa aukist um tæp 20%, styrkir vegna heilsufarsskoðana um 45% og heilsueflingarstyrkir um 14%.

Sem betur fer er fjárhagsleg staða félagsins afar sterk og sjóðir félagsins vel í stakk búnir til að mæta þessari aukningu á greiðslum til félagsmanna eftir uppbyggingu síðustu ára. Auk þess er útlit er fyrir að afkoma félagsins núna verði með svipuðu móti og undanfarin ár en að sjálfsögðu er allur varinn hafður á og vel fylgst með stöðu mála.

Athygli vekur hversu stór hluti þeirra félagsmanna sem eiga rétt á greiðslum úr sjóðum félagsins nýtir þann rétt sinn, en um er að ræða tæp 54% félagsmanna sem verður að teljast ansi stór hluti. Stjórn og starfsfólk félagsins hefur ávalt reynt af fremsta megni að kynna þjónustu félagsins út á við og láta félagsmenn vita af því ef þeir eiga rétt á styrkjum frá félaginu.

07
Jan

Alger sprenging í afgreiðslu menntastyrkja

Með aðild sinni að Verkalýðsfélagi Akraness eiga félagsmenn jafnframt aðild að þeim starfsmenntasjóðum sem samið hefur verið um í kjarasamningum. Þessir sjóðir eru Landsmennt, Sveitamennt, Ríkismennt og Sjómennt. Skrifstofa félagsins sér um umsýslu fyrir alla sjóðina og afgreiðir styrki til félagsmanna úr þeim.

Nú ber svo við að alger sprenging hefur orðið á þessum styrkjum því afgreiddum styrkjum fjölgaði um 48% á árinu 2012 miðað við árið á undan. Upphæð afgreiddra styrkja er samtals 55% hærri á árinu 2012 en árið 2011, en meðalupphæð hvers styrks hefur hækkað um 4,6%. Þetta eru afar ánægjulegar fréttir og alveg í takt við það átak sem gert hefur verið í kynningu á þjónustu félagsins á síðasta ári.

04
Jan

Leiðrétting upp á tæpar 30 milljónir

Um mitt síðasta ár gerði félagið alvarlegar athugasemdir hjá einu fyrirtæki við það að lausráðið starfsfólk og fólk í sumarafleysingum væri ekki að vinna sér inn frídaga vegna rauðra daga, en starfsmenn í fullri vaktavinnu ávinna sér 72 tíma á ári í frítökurétt vegna vinnu á rauðum dögum. Eftir að Verkalýðsfélag Akraness færði góð og gild rök fyrir því að þessi réttur væri klárlega einnig til staðar hjá lausráðnum og sumarafleysingafólki féllst fyrirtækið á að lagfæra þessi mistök fjögur ár aftur í tímann. 

Sú leiðrétting nam um 23 milljónum og fengu um 300 manns leiðréttingu sem gerði um 76.000 kr. að meðaltali á hvern starfsmann. Verkalýðsfélag Akraness fór síðan yfir þessa útreikninga og komst að því að leiðréttingin hafi ekki verið vaxtareiknuð og gerði því kröfu um að slíkt væri gert og að sjálfsögðu samþykkti fyrirtækið þá kröfu félagsins. Áðurnefndir starfsmenn fengu því reiknaða dráttarvexti og nam sú greiðsla yfir 6 milljónum króna. 

Þessi hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness skilaði því félagsmönnum VLFA rétt tæpum 30 milljónum og þetta sýnir hversu mikilvægt það er að launafólk komi til síns stéttarfélags og láti kanna hvort verið sé að greiða eftir þeim kjarasamningum sem í gildi eru.  Þetta sýnir einnig hversu miklivægt það er að stéttarfélögin bregðist skjótt og örugglega við öllum ábendingum um kjarasamningsbrot því miklir fjármunir geta verið í húfi fyrir starfsmenn eins og þetta dæmi sannar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image