• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Feb

Áskorun send á þingmenn um flýtimeðferð vegna verðtryggingarmálsins

Verkalýðsfélag Akraness hefur sent öllum þingmönnum Alþingis bréf með áskorun um að þeir beiti sér af fullum þunga fyrir því að það dómsmál sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur um ólögmæti verðtryggingar fái algjöra flýtimeðferð fyrir dómsstólum. Enda er gríðarlega mikilvægt í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í þessu máli að þeirri réttaróvissu verði eytt eins fljótt og kostur er. Umrætt bréf var sent þingmönnum rétt í þessu og er það á þessa leið:

____________________________________________

Ágæti þingmaður.

 

Eins og þér er eflaust fullkunnugt um þá  var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur þann 29. janúar sl. mál er lýtur að því hvort verðtrygging hér á landi standist gildandi lög, en málinu var stefnt gegn Landsbankanum hf.  Í raun var það tilviljun ein sem réði því hvaða fjármálafyrirtæki varð fyrir valinu sem gagnaðili, vinnist málið verður að telja að niðurstaða þess verði fordæmisgefandi gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum.  Kröfur málsins sem varða verðtrygginguna og lögmæti hennar eru aðallega að ákvæði skuldabréfsins um verðtryggingu sé óskuldbindandi.  Til vara er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi að óheimilt sé að uppreikna mánaðarlega höfuðstól skuldabréfsins skv. vísitölu neysluverðs.

Aðal málsástæður lögmanna Verkalýðsfélags Akraness í þeim hluta málsins sem snýr að verðtryggingunni eru í fyrsta lagi þær að verðtryggingin eins og hún er framkvæmd, fari gegn MiFID tilskipuninni, sem gerir það að kröfu að ekki megi eiga viðskipti með flókna fjármálagerninga (afleiður) við neytendur.  Í öðru lagi er á því byggt, að lánveitingin, framkvæmd greiðsluáætlunar og upplýsingar um birtingu árlegrar hlutfallstölu kostnaðar standist ekki skilyrði neytendalánalaga og þeirra Evróputilskipana sem þau byggja á.

Nú liggur fyrir nýlegt  álit frá sérfræðingi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem ýjað er sterklega að því að framkvæmd verðtryggðra lána standist ekki skilyrði neytendalánalaga og þeirra Evróputilskipana sem þau byggja á.  En álit sérfræðings framkvæmdastjórnar er algjörlega í samræmi við aðal málsástæður sem lögmenn Verkalýðsfélags Akraness halda fram um ólögmæti verðtryggingarinnar.  En rétt er einnig að geta þess að það lán sem VLFA er með fyrir dómstólum er hefðbundið neytendalán en ekki fasteignalán.

Það dylst engum að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir almenning og reyndar samfélagið allt og á þeirri forsendu verður að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkir um það hvort verðtryggingin standist lög eða ekki eins fljótt og kostur er.  Á þeirri forsendu  þá skora ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness á þig sem þingmann að þú beitir þér af fullum þunga fyrir því að þetta mál fái algjöra flýtimeðferð fyrir dómstólum.

Óska ég eftir því að þessu erindi verði svarað eins fljótt og kostur er.

 

Virðingarfyllst,

 

____________________________

Vilhjálmur Birgisson,

formaður Verkalýðsfélags Akraness

15
Feb

Óskað eftir upplýsingum frá Landssamtökum lífeyrissjóða

Formaður VLFA hefur sent fyrirspurn til Þóreyjar S. Þórðardóttur framkvæmdastjóra LL varðandi tap lífeyrissjóðanna vegna gjaldmiðlavarnarsamningannaEins og fram kom í úttektarskýrslu um lífeyrissjóðina sem var gerð opinber í fyrra töpuðu lífeyrissjóðirnir uppundir 500 milljörðum króna af lífeyri launafólks. Af þessum 500 milljörðum voru 36,4 milljarðar bókfærðir sem tap hjá lífeyrissjóðunum vegna gjaldmiðlavarnarsamninga. Hinsvegar var skýrt kveðið á um það í úttektarskýrslunni að hugsanlega væri uppundir 70 milljarða tap til viðbótar vegna gjaldmiðlasamninganna. Ástæðan fyrir því var sú að lífeyrissjóðirnir vildu gera gjaldmiðlasamningana upp á gengisvísitölunni 175 en slitastjórnir Kaupþings og Glitnis vildu gera þessa samninga upp á því gengi sem var þegar samningarnir runnu út.

Fram kom í fréttum fyrir nokkrum vikum síðan að lífeyrissjóðirnir væru búnir að ná samningum við slitastjórn Kaupþings vegna þessara samninga en það kom einnig fram í fréttum að innihald samninganna væri leyndarmál á milli lífeyrissjóðanna og slitastjórnar Kaupþings. Hinsvegar kom fram hjá Arnari Sigmundssyni sem var í forsvari fyrir lífeyrissjóðina við gerð þessara samninga að „þeir“ væru nokkuð sáttir með innihaldið. Það er með ólíkindum að sjóðsfélagarnir sem eiga þessa fjármuni skuli ekki vera upplýstir um gerð þessara samninga og hvert hugsanlegt viðbótartap lífeyrissjóðanna er vegna þeirra. Sérstaklega í ljósi þess að þessir samningar voru harðlega gagnrýndir, bæði í rannsóknarskýrslu Alþingis sem og í úttektarskýrslunni og ýjað var sterklega að því að þeir stæðust vart lög.

Á þessum forsendum er gríðarlega mikilvægt að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna upplýsi sjóðsfélagana um þessa samninga því það er óþolandi með öllu að verða vitni að því hvernig forsvarsmenn lífeyrissjóðanna haga sér og neita að upplýsa eigendur fjármunanna um þá samninga sem gerðir hafa verið, meðal annars vegna gjaldmiðlasamninganna, og hvert tapið er. Enda er mikilvægt fyrir forsvarsmenn lífeyrissjóðina að muna að það eru sjóðsfélagarnir sem eiga þessa fjármuni og hafa fullan rétt á að fá upplýsingar um hvernig þeim er varið.

Nú hefur komið fram að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa verið í miklu stríði við slitastjórn Glitnis vegna ofurlauna og ofurkjara sem slitastjórnin hafði en það skal tekið skýrt fram að formaður VLFA er algjörlega sammála forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna hvað þetta varðar því þarna er græðgivæðingin algjör.

Hinsvegar vekur það furðu að einungis sé krafist upplýsinga hvað varðar ofurlaun slitastjórnar Glitnis en ekki slitastjórna Landsbankans eða Kaupþings. Getur það verið að ástæðan fyrir því sé að búið sé að ná samningum við slitastjórnir Kaupþings og Landsbankans en ekki Glitni? Einfaldlega vegna þess að nú liggur fyrir að slitastjórn Glitnis er t.d búin að stefna Lífeyrissjóði Verslunarmanna vegna þessara gjaldmiðlasamninga og hefur krafið lífeyrissjóðinn um 19 milljarða vegna þeirra. Eru forsvarsmenn lífeyrissjóðsins að hlífa hinum slitastjórnunum á grundvelli áðurnefndra samninga en ætla að ganga fram af fullri hörku gagnvart slitastjórn Glitnis vegna þess að þeir hafa ekki náð samningum við þá, spyr sá sem ekki veit.

Á grundvelli alls þessa og þeirrar leyndarhyggju sem ríkt hefur yfir viðbótartapi lífeyrissjóðanna vegna þessara glórulausu gjaldmiðlasamninga hefur formaður VLFA lagt fram spurningar til framkvæmdastjóra Landssambands lífeyrisssjóðanna, Þóreyjar Þórðardóttur, þar sem þess er krafist að fá upplýsingar um hvert tap sjóðanna er vegna þessara gjaldmiðlasamninga til viðbótar því sem fram kemur í úttektarskýrslunni og einnig hvað samningurinn við slitastjórn Kaupþings hljóðaði upp á. Einnig óskaði formaður eftir skýringum á því við framkvæmdastjóra Landssambands lífeyrissjóðanna , af hverju forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa ekki krafið slitastjórnir Kaupþings og Landsbankans um upplýsingar um gjaldskrár og launakjör eins og gert var við slitastjórn Glitnis. Það vekur alla vega upp furðu hjá formanni VLFA af hverju hinar slitastjórnirnar eru ekki einnig krafðar um sambærilegar upplýsingar  um launakjör og kostnað eins og slitastjórn Glitnis.

Þess vegna skal ítrekað að það er mikilvægt fyrir forsvarsmenn lífeyrissjóðanna að átta sig á því að þetta eru peningar launafólks og því ber þeim skylda til að upplýsa sjóðsfélaga um hvert heildartap lífeyrissjóðanna var vegna þessara glórulausu gjaldmiðlasamninga því það er nöturlegt til þess að vita að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna beri fyrir sig leyndarhyggju þegar um lífeyri launafólks er að ræða.

14
Feb

Verðlagseftirlit Verkalýðsfélags Akraness gangsett

Á síðasta fundi stjórnar Verkalýðsfélags Akraness var ákveðið að félagið myndi fylgjast með verðlagi á matvöru og annarri vöru til heimilanna með reglubundum hætti. Vinna við þetta verðlagseftirlit VLFA er þegar hafið og fer þannig fram að félagið kaupir fyrirfram ákveðna vörukörfu og staðgreiðir hana á kassa. Enginn ágreiningur er um verð á vörunni því hann kemur skýrt fram á strimlinum og verðsamanburður milli tímabila ætti því að vera óumdeilanlegur.

Niðurstöður verðlagseftirlits VLFA verða birtar ársfjórðungslega hér á síðunni og eru fyrstu niðurstöður væntanlegar í maí. Vörurnar sem keyptar verða hverju sinni nýtast sumar á skrifstofu félagsins en megnið af vörukörfunni, t.d. hreinlætisvörur, kælivörur og frystivörur eru gefnar til góðgerðarmála og hefur Mæðrastyrksnefnd Vesturlands þegar notið góðs af því sem til féll úr fyrstu vörukörfunni.

Er það von stjórnar VLFA að vel verði tekið í þetta framlag félagsins til þess að fylgjast með verðlagi á svæðinu, en taka ber fram að ekki er verið að bera saman verð milli verslana á svæðinu heldur einungis verið að fylgjast með verðlagsþróuninni til lengri tíma litið.

13
Feb

Öskudagur 2013

Það er skemmtilegur bragur á bæjarlífinu í dag þegar alls konar fígúrur hlaupa á milli húsa og syngja fyrir bæjarbúa og fá nammi að launum. Hér á Sunnubrautinni hefur verið líf og fjör í allan morgun og eftir því tekið að atriðin í ár eru sérstaklega vönduð og vel æfð. Það fer ekki á milli mála að krakkarnir eru upp til hópa metnaðarfull þegar kemur að búningum og söng og að sjálfsögðu er vel tekið á móti þeim þegar þau koma.

Búið er að setja myndir og myndbönd inn á Facebook-síðu Verkalýðsfélags Akraness, meðal annars er hægt að sjá eitt sérstaklega skemmtilegt atriði með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image