• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Apr

Lífeyrir launafólks á almennum vinnumarkaði er vart verðtryggður

Aðalfundur Festu lífeyrissjóðs var haldinn á Grand hóteli í gær en Festa lífeyrissjóður er sá lífeyrissjóður sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness eiga aðild að. Eins og margoft hefur komið fram hefur formaður félagsins gagnrýnt lífeyrissjóðina harðlega vegna stöðu þeirra og margoft hefur komið fram að lífeyrissjóðskerfið í heild sinni tapaði gríðarlegum upphæðum í kjölfar hrunsins eða sem nemur yfir 500 milljörðum króna. Tap sem má rekja til glórulausra fjárfestinga í atvinnulífinu en lífeyrissjóðirnir stigu trylltan dans með útrásinni fyrir hrun.

Það hefur komið fram í skýrslu frá Fjármálaeftirlitinu að lífeyrissjóðskerfið á hinum almenna vinnumarkaði hefur skert réttindi sinna sjóðsfélaga um 130 milljarða frá hruni til ársins 2011. Það er ljóst að ef árið 2012 yrði tekið með þá yrði þessi upphæð jafnvel mun hærri.

Á fundinum í gær kom fram að tryggingafræðileg staða Festu lífeyrissjóðs er neikvæð um 7% og vantar sjóðinn yfir 11 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar. Á þeirri forsendu lagði stjórn sjóðsins fram tillögu um 4% skerðingu á lífeyrisréttindum sjóðsfélaga innan Festu lífeyrissjóðs. Brúttó skerðing sjóðsins er 15,1% frá hruni að teknu tilliti til þessarar 4% skerðingar sem samþykkt var í gær. Formaður sagðist ekki geta stutt þessar skerðingar þegar hann gerði grein fyrir afstöðu sinni en hann sagði jafnframt að það væri með ólíkindum að varðmenn verðtryggingarinnar héldu því hátt á lofti að lífeyrir launafólks á hinum almenna vinnumarkaði væri verðtryggður og svo kæmi fram á aðalfund sjóðsins 4% skerðing á lífeyrisréttindum sem er nánast sama hækkun og lífeyririnn hefði hækkað um á síðustu 12 mánuðum vegna verðtryggingarinnar.

Það er morgunljóst að lífeyrir á hinum almenna vinnumarkaði er ekki verðtryggður í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að lífeyrissjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði hafa verið að skera réttindi sinna sjóðsfélaga niður eins og enginn sé morgundagurinn enda staðfestir skýrsla FME frá því í fyrra það illilega og er eins og áður sagði búið að skerða réttindi sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða og ugglaust er sú tala mun hærri þegar árið 2012 er tekið með.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft fjallað um það að það þarf að endurskoða lífeyrissjóðskerfið í heild sinni, velta við öllum steinum og koma með tillögur til úrbóta í þessu kerfi því þar er alveg ljóst að kerfið er ekki að virka sem skyldi í ljósi áðurnefndra skerðinga sjóðsfélaga.  

23
Apr

Hafið þið skömm fyrir

Eins og hér hefur verið fjallað um á heimasíðunni að undanförnu hefur þróun verktakavæðingar Elkem Ísland haft afar neikvæð áhrif, en verktakavæðingin byrjaði árið 2000 með því að stofnuð voru dótturfélög í kringum hluta starfseminnar. Á þessum árum var mötuneytið, ræsting og þvottahús ásamt starfsemi á Grundartangahöfn komið fyrir í dótturfélögunum Klafa og Fangi, en starfsmenn sem þarna störfuðu voru áður í fullu starfi hjá Elkem Ísland.

Á þessum árum snerist baráttan um að tryggja að með þessari úthýsingu myndu þeir starsfmenn sem unnu áðurnefnd störf héldu öllum þeim launakjörum sem þeir höfðu þegar þeir voru starfsmenn Elkem, en í upphafi var Fang og Klafi í 100% eigu Elkem Ísland. Að mörgu leyti tókst að tryggja að launakjör sem starsfmennirnir höfðu áður fylgdu starfsmönnunum yfir, en frá því þessu úthýsing átti sér stað hefur slagurinn við að verja kjör þessa starfsfólks oft  verið blóðugur.

Það er lenska á íslenskum vinnumarkaði að ætíð þegar leita á hagræðingar og sparnaðar þá virðist það fyrsta sem kemur upp í huga stjórnenda að skera niður í ræstingu, mötuneyti og þvottahúsi. Þarna telja stjórnendur að ætíð sé að sækja mikla fjármuni til sparnaðar sem formanni finnst í raun og vera vera grátbroslegt. Það er ugglaust á þessari forsendu að forsvarsmenn Elkem Islands ákváðu þann 1. júlí 2009 að bjóða áðurnefnd störf út og ISS tók yfir rekstur Fangs frá þeim degi. Aftur hófst barátta VLFA við að verja þau kjör sem þessir starfsmenn höfðu áunnið sér og var það m.a. gert með fyrirtækjasamningi við ISS, enda hefur það verið viðurkennt að störf í stóriðjum hafa verið langtum betur borguð heldur en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Núna gerðust hins vegar þeir sorglegu atburðir að ISS kveðst ætla að gera skipulagsbreytingar hvað þessi störf varðar, og þá sér í lagi í mötuneytinu. Þessar breytingar hafa þær skelfilegu afleiðingar að 5 starfsmönnum í mötuneytinu var í gær sagt upp störfum og þar af voru t.a.m. tveir starfsmenn með mikla starfsreynslu, en annar starfsmaðurinn var með 14 ára starfsreynslu í mötuneyti Elkem Ísland en hinn í 11 ár. Hinir þrír voru einnig með áralanga starfsreynslu hjá fyrirtækinu. Það er ömurlegt til þess að vita hvernig þessi verktakavæðing hefur leikið starfsmenn fyrirtækisins grátt á undanförnum árum, og er morgunljóst að félagið mun þurfa að beita öllum sínum kröftum til að verja kjör og atvinnuöryggi þeirra sem starfa á þessu svæði. Formaður vill ekki að ætla forsvarsmönnum ISS að reyna að lækka hjá sér launakostnað með því að segja svona reynslumiklum starfsmönnum upp störfum, en þó er rétt að geta þess að með því að segja þessum starfsmönnum upp þá sparar ISS sér allt að 22% vegna þess að umræddir starfsmenn eru komnir á 10 ára launataxta. En að sjálfsögðu velti maður því fyrir sér hvort þetta sé ein af ástæðunum, einfaldlega vegna þess að það á að ráða strax aftur í störf þeirra sem fengu uppsögn í gær.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill segja við forsvarsmenn Elkem Ísland sem og forsvarsmenn ISS, hafið þið skömm fyrir þessar aðgerðir ykkar. Og það gagnvart fólki sem er búið að eyða sínum bestu starfsárum í þágu þessa fyrirtækis og lagt sig í líma við að þjónusta fyrirtækið eftir sinni bestu getu enda eru hér um úrvalsstarfsmenn að ræða og það geta allir starfsmenn Elkem Íslands sem hafa notið þjónustu þessara kvenna svo sannarlega vitnað um. Svona komum við ekki fram við íslenska launþega.

22
Apr

Afskipti atvinnurekenda af félagsaðild eru ólögleg

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni vinnur Verkalýðsfélag Akraness nú að stefnu gegn Elkem Ísland vegna verktaka sem starfa inni á athafnasvæði fyrirtækisins allt árið um kring. Fyrirtækið hefur neitað því að gera samkomulag um að starfsmenn umrædds verktakafyrirtækis starfi eftir þeim launakjörum sem gilda á svæðinu.

Það hefur verið stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja kjör sinna félagsmanna og bæta þau eins og kostur er og oft á tíðum hefur það kostað umtalsverð átök. Sem dæmi þá átti félagið í töluverðum átökum við stóriðjurnar á Grundartanga í síðustu kjarasamningsgerð sem átti sér stað á árinu 2011 en þá boðaði félagið verkfall hjá Klafa sem er þjónustufyrirtæki sem sér um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu og er 50% í eigu Elkem Ísland og 50% í eigu Norðuráls. Sem betur fer náðist að afstýra verkfallinu með kjarasamningi, kjarasamningi sem byggðist á sömu launahækkunum og um hafði verið samið fyrir starfsmenn Elkem Ísland. Nú er ljóst að þessi kjarabarátta sem var nokkuð hörð hefur haft umtalsverðar afleiðingar en formaður VLFA vill taka fram að félagið fór ekki fram af neinni óbilgirni í þessum samningum heldur einungis af sanngirni og réttlæti enda var krafa félagsins fyrir starfsmenn Klafa einungis sú að starfsmenn þar myndu njóta sömu kjara og um hafði verið samið fyrir starfsmenn Elkem. Til þess að ná því í gegn þurfti félagið að beita allri þeirri hörku sem það hafði yfir að ráða en nú eins og áður sagði hefur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Sem dæmi hefur formaður nú vitneskju um það að verktakafyrirtækið Snókur, sem gengur í dagleg störf inni á athafnasvæði Elkem, gerði þá kröfu til starfsmanna sinna í september 2011 að þeir segðu sig úr Verkalýðsfélagi Akraness og færðu sig yfir í Stéttarfélag Vesturlands. Einn starfsmaður Snóks neitaði að verða við þeirri beiðni og sagði það ekki koma til greina að færa aðildina yfir í Stéttarfélag Vesturlands enda væri hann mjög ánægður með starfsemi VLFA. Það er skemmst frá því að segja að fljótlega eftir að þessa neitun fékk hann uppsögn, en að sjálfsögðu var uppsögnin sögð byggð á allt öðrum forsendum en þeim að hann hefði neitað að færa stéttarfélagsaðild sína. Nú hefur formaður fengið vitneskju um að verið sé að bjóða út upp- og útskipanir sem starfsmenn Klafa hafa séð um hingað til. Það er skemmst frá því að segja að verktaka sem hafði í hyggju að bjóða í þetta verk varð verulega brugðið þegar hann settist niður með einum af forsvarsmönnum Elkem Ísland til að forvitnast um þessa verkþætti. Á þeim fundi ýjaði forsvarsmaður Elkem sterklega að því við verktakann að þeir starfsmenn sem yrðu ráðnir þyrftu að eiga aðild að Stéttarfélagi Vesturlands en ekki Verkalýðsfélagi Akraness. Þessi verktaki svaraði því þannig að allir sínir starfsmenn væru hjá Verkalýðsfélagi Akraness og hann sæi ekki hvernig hann ætti að geta komið því við. Það er skemmst frá því að segja að eftir að verktakinn hafði látið þessi ummæli falla, heyrðist ekki meira frá forsvarsmönnum Elkem Ísland.

Formaður félagsins er alveg gáttaður á þeirri stefnu sem forsvarsmenn Elkem Ísland virðast hafa tekið upp, stefnu sem er algjört brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og ógnar kjarabaráttu stéttarfélaga illilega. Að fyrirtæki séu farin að krefjast þess að starfsmenn tilheyri ákveðnu stéttarfélagi vegna þess að þar er tekið öðruvísi á kjarabaráttu heldur en í Verkalýðsfélagi Akraness er með ólíkindum og í raun og veru grafalvarlegt mál. Eins og áður sagði er þetta brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur enda er skýrt kveðið á um að atvinnurekendur megi ekki hafa áhrif á stéttarfélagsaðild sinna starfsmanna.

Í umræddum lögum segir m.a. orðrétt: „Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með:

a.

uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,

b.

fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.“

 

Formaður vill að það komi skýrt fram að nánast undantekningarlaust á félagið í góðum samskiptum við atvinnurekendur þótt vissulega hvessi oft hressilega þegar kjaraviðræður eiga sér stað, enda er ekkert óeðlilegt við það þar sem það er hlutverk stéttarfélaga að berjast fyrir bættum hag sinna félagsmanna með kjafti og klóm ef svo ber undir. Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei láta atvinnurekendur kúga sig með slíkum hótunum að vísa starfsmönnum sínum í annað stéttarfélag þar sem fyrirtækin geta fengið allt aðra og betri meðferð, meðferð sem má líkja við silkihanskameðferð. Nei, VLFA mun aldrei liggja eins og þægur heimilishundur við hlið atvinnurekenda þegar kemur að kjarasamningsgerð og þegar verja á réttindi félagsmanna. Félagið lítur á það sem viðurkenningu þegar atvinnurekendur vilja færa sína félagsmenn frá VLFA til að geta fengið betri meðferð, það sýnir að barátta VLFA fyrir sína félagsmenn er að skila sér. Sem dæmi þá er hægt að upplýsa félagsmenn um að Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð tekið hart á öllum kjarasamningsbrotum og sem dæmi þá hefur félagið innheimt vegna kjarasamningsbrota fyrir sína félagsmenn yfir 200 milljónir á síðustu árum.

Það er morgunljóst að núna fóru forsvarsmenn Elkem Ísland yfir strikið með því að ýja að því við verktaka að þeir þurfi að láta sína starfsmenn vera í öðru stéttarfélagi enda er það eins og áður sagði algjört brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er einnig ljóst að Verkalýðsfélag Akraness hefur ekki þurft að hafa áhyggjur af því að félagsmenn vilji ekki vera í VLFA enda fjölgaði í félaginu á milli ára um 295 félagsmenn. Fjölmargir einstaklingar hafa óskað eftir inngöngu í félagið vegna þess að það hefur staðið fast á sínu í allri kjarabaráttu og tekið stöðu með launþegum þessa lands. Það er líka á hreinu að Verkalýðsfélag Akraness hefði ekki áhuga á að taka við félagsmönnum sem skikkaðir hefðu verið til inngöngu af atvinnurekendum þeirra. Það væri ávísun á að stéttarfélagið sé ekki að sinna sínu starfi eins og því ber að gera.

Það er alveg ljóst að þetta mál mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta átölulaust enda er það orðið grafalvarlegt mál ef atvinnurekendur eru farnir að reyna að hafa áhrif á kjarabaráttu stéttarfélaga með því að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur eins allt bendir til í þessu máli. Það er mikilvægt fyrir hinn vinnandi mann að sjá til þess að svona hótanir og vinnubrögð fái ekki að líðast á íslenskum vinnumarkaði því ef atvinnurekendum tekst þetta þá er verið að mylja undan starfsemi stéttarfélaga með afgerandi hætti og gera tilraun til að lama alla starfsemi þeirra. Félagið ítrekar það að þessu verður mætt af fullri hörku.

Formaður félagsins hefur haft samband við starfsmannastjóra Elkem Ísland og gert grafalvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð en það er skemmst frá því að segja að segja starfsmannastjórinn segir að þetta sé ekki rétt.  Formaður vil að það komi skýrt fram að hann tekur ekkert mark á þeim orðum því hann sér ekki nokkra ástæðu fyrir því að umræddur verktaki og starfsmaður séu að segja ósatt í þessu máli enda hafa þeir alls enga hagsmuni af slíku.

12
Apr

Fyrsta úthlutun orlofshúsa sumarið 2013!

Strax eftir helgi verður gengið frá fyrstu úthlutun umsókna um dvöl í orlofshúsum félagsins í sumar. Þeir sem ekki hafa þegar skilað inn umsókn geta gert það um helgina, annað hvort á Félagavefnum eða skilað umsókninni í bréfalúguna á Sunnubraut 13.  

Starfsfólk skrifstofu VLFA mun hefjast handa við úthlutun strax á mánudagsmorgun og verður úthlutun lokið fljótlega eftir hádegi. Nánari reglur um úthlutun er að finna hér. Allir umsækjendur fá sent bréf þar sem fram kemur hvort einhver vika hafi fallið í þeirra skaut eður ei, en notendur Félagavefs geta séð bókun á vefnum sínum eftir hádegi á mánudag, hafi þeir hlotið orlofshús í sumar.

11
Apr

Frambjóðendur Regnbogans í heimsókn á skrifstofu VLFA

Á kaffistofu Verkalýðsfélags Akraness skapast oft fjörugar umræður og þar eru allir velkomnir sem vilja. Á þessum árstíma, þegar frambjóðendur ríða um héruð og heimsækja fyrirtæki til að kynna sig og sín málefni vill umræðan á kaffistofunni óneitanlega snúast um kosningarnar sem framundan eru. Ekki er verra þegar frambjóðendur líta við í kaffi og taka þátt í umræðunni eins og þeir gera gjarnan.

Í dag komu í heimsókn á skrifstofu félagsins frambjóðendur Regnbogans, en það er nýtt framboð sem býður fram á landsvísu. Það voru þau Jón Bjarnason, alþingismaður og fyrrv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Arnþrúður Heimisdóttir, tamningakona og kennari frá Langhúsum Fljótum sem litu við fyrr í dag og áttu gott spjall á kaffistofunni. Formaður félagsins notaði tækifærið og kom á framfæri við frambjóðendur að brýnasta hagsmunamál íslenskra heimila væri afnám verðtryggingar og leiðrétting þess forsendubrests sem hrunið olli. Um þetta hefur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness ítrekað ályktað og hefur lagt fram slíkar ályktanir á öllum þingum og hvar sem því hefur verið við komið síðan árið 2008.

09
Apr

Gríðarleg stemmning á framboðsfundi Framsóknarflokksins í Garðabæ í gær

Formaður félagsins hefur verið að fara víða og halda erindi er lúta að afnámi verðtryggingar og skuldavanda íslenskra heimila. Hefur hann meðal annars haldið erindi fyrir Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokk og framundan eru fundir hjá Dögun og Flokki heimilanna.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni eru ályktanir stjórnar- og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags AKraness afdráttarlausar hvað þessi málefni varðar. Frá árinu 2009 hefur VLFA lagt fram fjölmargar tillögur og ályktanir um afnám verðtryggingar og leiðréttingu á þeim skelfilega forsendurbresti sem heimilin urðu fyrir. Í þessum ályktunum hefur einnig verið kveðið skýrt á um að setja verði vaxtaþak á húsnæðislán til heimilanna.

Í gær var haldinn gríðarlega fjölmennur fundur hjá framsóknarmönnum í Garðabæ og hélt formaður VLFA erindi þar. Á meðal ræðumanna voru auk formanns Ólafur Arnarson ritstjóri Tímaríms, Eygló Harðardóttir oddviti í Kraganum og formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Formaður VLFA fór víða yfir í erindi sínu og kom meðal annars fram að brýnasta hagsmunamál íslenskra heimila og alþýðu þessa lands væri að afnema verðtryggingu á neytendalánum, leiðrétta forsendubrest heimilanna og að þak verði sett á húsnæðislán. Það kom einnig fram í máli formanns að það þarf að taka af fullum þunga og hörku á erlendu vogunar- og hrægammasjóðunum og nota það svigrúm sem þar er til staðar til að leiðrétta þann miskunnarlausa forsendubrest sem heimilin hafa orðið fyrir. Það virðist ekki lengur vera ágreiningur á meðal manna um að þetta svigrúm verði til staðar heldur virðist ágreiningurinn núna lúta að því í hvað á að nota þetta svigrúm sem næst í samningum við hrægammasjóðina. Formaður sagði að í sínum huga væri það engin spurning að heimilin ættu að vera í algjörum forgangi hvað það svigrúm varðar og nota á það til að leiðrétta forsendubrestinn. Íslensk heimili og alþýða þessa lands hafa þurft að bera afleiðingar hrunsins þar sem ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur, orkufyrirtæki og aðrir þjónustuaðilar hafa varpað sínum vanda miskunnarlaust yfir á íslensk heimili.

Það kom einnig fram í máli formanns að heimilin eru tannhjól samfélagsins og því er gríðarlega mikilvægt að forsendurbresturinn verði leiðréttur þannig að heimilin fái súrefni á nýjan leik sem mun svo klárlega skila sér í aukinni verslun og þjónustu um leið og skuldafarganinu verður létt af heimilunum.

Það þarf ekki að velkjast í vafa um það að þetta er brýnasta hagsmunamál íslenskrar alþýðu og krafa kjósenda er skýr. Afnemið verðtryggingu og leiðréttið forsendubrest heimilanna. Annað verður ekki við unað.

Fjölmargir fundarmenn óskuðu eftir að formaður myndi setja þær glærur sem hann var með á fundinum hér inn á heimasíðuna. Í ljósi þess að hann á eftir að halda nokkur erindi á fleiri fundum verður beðið með það þar til þeim er lokið af kurteisi við þá sem eiga eftir að hlýða á erindið. Þegar fundunum er lokið sem formaður hefur gefið loforð fyrir að tala á munu þessar glærur verða settar inn á heimasíðuna þar sem þær verða aðgengilegar öllum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image