• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Nov

Héraðsdómur samþykkir að leitað verði ráðgefandi álits frá EFTA dómsstólnum vegna verðtryggingarmálsins

Í gær samþykkti Héraðsdómur Reykjavíkur þá kröfu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness að aflað yrði ráðgefandi álits frá EFTA dómstólnum vegna lögmætis verðtryggingar hér á landi. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fjármagna dómsmál vegna lögmætis verðtryggingar hér á landi. Er það mikill áfangasigur að Héraðsdómur Reykjavíkur skuli hafa kveðið upp þann dóm að leitað verði ráðgefandi svara frá EFTA dómstólnum en rétt er að geta þess að lögmenn Landsbankans, sem er sá banki sem lánið sem um ræðir er hjá, hafnaði því að leitað yrði eftir þessu áliti.  

Eins og fram hefur komið kvað héraðsdómur upp þennan úrskurð í gær en hann felst í að óskað verði eftir áliti varðandi 6 spurningar sem tengjast málinu. Formaður VLFA telur þetta vera eitt brýnasta mál íslenskra heimila enda nema verðtryggðar skuldir heimilanna í dag um 1.700 milljörðum króna sem þýðir að í 4% verðbólgu hækka skuldirnar um 68 milljarða á ársgrundvelli.

Ekki liggur fyrir hvort að lögmenn Landsbankans muni áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar eða ekki en það er mikilvægt að niðurstaða verði ljós í þessu máli er lýtur að lögmæti verðtryggingarinnar eins fljótt og kostur er. Rétt er að geta þess að þetta mál var þingfest í febrúar á þessu ári og hefur því málið tekið afar langan tíma. Ekki liggur fyrir hverslu langt er í að niðurstaða berist frá EFTA dómsstólnum en allt eins má gera ráð fyrir því að það geti tekið allt að þrjá mánuði.

Með því að smella á meira hér að neðan er hægt að sjá í hverju þessar spurningar sem um ræðir eru fólgnar.

Úrskurðarorð:

Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi spurningum:

1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings, sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi?

2. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ef löggjöf í ríki sem aðild á að EES-samningnum heimilar að samningur neytanda og veitanda um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrir fram ákveðinni vísitölu?

3. Ef svarið við fyrstu spurningunni er á þann veg að verðtrygging greiðslna af láni sem tekið er til fjármögnunar fasteignakaupa sé samrýmanleg ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE þá er í öðru lagi spurt hvort tilskipunin takmarki svigrúm viðkomandi samningsríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir skuli valda breytingum á hinni fyrir fram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar.

4. Ef svarið við annarri spurningunni er að tilskipun 93/13/EBE takmarki ekki það svigrúm samningsríkis sem nefnt er í þeirri spurningu þá er í þriðja lagi spurt hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast, b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið?

5. Telst aðferðin við útreikning verðbreytinga í lánssamningi um fjármögnun fasteignakaupa hafa verið útskýrð rækilega fyrir neytanda í skilningi d-liðar 2. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í þriðju spurningunni?

6. Á ríki sem er aðili að EES-samningnum val milli þess við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE, annars vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að heimilt sé að lýsa óskuldbindandi fyrir neytanda óréttmæta skilmála í skilningi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, eða hins vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að slíkir skilmálar skuli ávallt vera óskuldbindandi fyrir neytandann?

Skúli Magnússon

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image