• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jun

Félagið gerði allt sem það gat

Járnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaJárnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaÍ gær skrifaði fyrrverandi starfsmaður ISS á Grundartanga, Málmfríður Guðrún Sigurvinsdóttir, góða grein í héraðsblaðið Skessuhorn undir fyrirsögninni „Til verkalýðsfélaga og vinnustaða á landinu.“

Hún var ein af fimm starfsmönnum ISS sem var sagt upp störfum eftir fjórtán ára starf. Fyrst starfaði hún hjá Íslenska járnblendifélaginu, síðan hjá Fang og nú síðast hjá ISS. Ástæða uppsagnarinnar var „skipulagsbreytingar“ að sögn fyrirtækisins. Formaður VLFA getur vel skilið þá gríðarlegu gremju sem ríkir á meðal þeirra starfsmanna sem lentu í þessum uppsögnum enda eru uppsagnirnar ógeðfelldar með öllu. Í greininni spyr höfundur til hvers launþegar séu að greiða í stéttarfélög ef ekki er hægt að koma í veg fyrir að verið sé að brjóta á starfsfólki. Hún tilgreinir sérstaklega að í sínu tilfelli hafi stéttarfélagið ekki náð að verjast því að henni ásamt fjórum öðrum konum var sagt upp störfum hjá ISS á Grundartanga.

Verkalýðsfélag Akraness verður seint sakað um að verja ekki hagsmuni sinna félagsmanna með kjafti og klóm og formaður vonar að sagan hingað til staðfesti það. Það sem greinarhöfundur er óánægð með er að félagið hafi ekki náð að koma í veg fyrir að þeim hafi verið sagt upp störfum. 

Það er mikilvægt að launafólk átti sig á þeirri köldu staðreynd að stéttarfélögin vítt og breitt um landið hafa engar lagaheimildir sem banna fyrirtækjum að segja upp starfsfólki, því miður.  Málið er að atvinnurekendur ráða algerlega hverja þeir ráða til sín og hverjum þeir segja upp störfum, þannig eru lögin og reglurnar á hinum almenna vinnumarkaði. Það eina sem fyrirtækjunum ber að uppfylla er að greiða starfsmönnum þann uppsagnarfrest sem starfsmenn hafa áunnið sér þegar uppsögn á sér stað, ef ekki er óskað eftir vinnuframlagi starfsmannsins á uppsagnartímanum.

Hins vegar liggur algerlega fyrir að Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi ISS harðlega fyrir þessar siðlausu uppsagnir og skrifaði formaður m.a. pistil í apríl um þessar uppsagnir undir fyrirsögninni „Hafið þið skömm fyrir“ og því til viðbótar skrifaði formaður frétt sem birtist í félagsblaði VLFA sem kom út í maí þar sem þessar uppsagnir voru harðlega gagnrýndar. Þessu til viðbótar talaði formaður bæði við forsvarsmenn ISS og forsvarsmenn Elkem Ísland og gerði alvarlegar athugasemdir við þessar uppsagnir sem voru og eru algerlega siðlausar en því miður löglegar.

Ég get svo sannarlega skilið að þeir starfsmenn ISS sem unnu í mötuneytinu á Grundartanga séu sárir og svekktir yfir þessari framkomu hjá fyrirtæki eins og ISS sem vill kenna sig m.a við  heiðarleika og ábyrgð. Sér er nú hver heiðarleikinn og ábyrgðin að segja m.a góðum starfsmönnum upp störfum með starfsaldur sem spannar allt að 14 ár.

Ég get að lokum fullyrt að Verkalýðsfélag Akraness hefur gert allt sem í valdi þess stendur til að verja þessi störf sem um ræðir, en sum mál eru einfaldlega þannig að félagið hefur ekki lagalegar heimildir til að verja sína starfsmenn eins og t.d þegar fólki er sagt upp störfum. Það er hægt að lesa um þá baráttu sem VLFA hefur háð á undaförnum 10 árum m.a. til að verja kjör og atvinnuöryggi þeirra sem starfa á Grundartangasvæðinu inni á vef félagsins www.vlfa.is. Sláið inn leitarorðinu Fang eða Klafi eða ISS, Elkem Ísland eða Norðurál og lesið þessa baráttu og þá sést af hverju það borgar sig að vera í stéttarfélagi. En formaður vill ítreka að alltaf má gera betur í hagsmunabaráttunni, en það er alltaf sorglegt þegar svona mál fá ekki farsælan endi og ég ítreka enn og aftur, ISS og Elkem Ísland hafið ævarandi skömm fyrir ykkar framkomu gagnvart áðurnefndum starfsmönnum.

27
Jun

Samtök atvinnulífsins vissu af falli krónunnar en...

Eins og allir vita þá liggur fyrir þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna en skuldsett alþýða er búin að bíða eftir þessum aðgerðum í fimm ár. Í þessari aðgerðaáætlun kemur fram að afnema á verðtrygginguna og leiðrétta á forsendubrest heimilanna sem varð vegna bankahrunsins.

Það þarf ekki að spyrja að því að þegar til stendur að gera eitthvað fyrir skuldsetta alþýðu þá sprettur sérhagsmunaelítan fram og öskrar hátt og skýrt að sauðsvartur almúginn skuli gjöra svo vel að borga sínar skuldir uppí topp því hér hafi enginn „forsendubrestur“ orðið.  Slíkt má klárlega lesa úr umsögn Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans.

Rétt er að geta þess að nokkrir af æðstu stjórnendum bankanna sitja í stjórnum Samtaka atvinnulífsins og því kemur það ekki á óvart að SA finni því allt til foráttu að gera eigi eitthvað fyrir heimilin í þessu landi

Orðrétt segja Samtök atvinnulífsins í sinni umsögn: „ Gengislækkun krónunnar árin 2008 og 2009 og verðlagshækkun í kjölfarið var alls ekki ófyrirséð.Samtök atvinnulífsins  og ýmsir greiningaraðilar bentu þvert á móti ítrekað á það, frá árinu 2005, að raungengi krónunnar væri allt of hátt og gengi krónunnar hlyti þar af leiðandi að falla mikið á komandi misserum“

Með þessu eru Samtök atvinnulífsins að segja við skuldsetta alþýðu að hún hafi átt að vita að raungengi krónunnar væri alltof hátt og myndi því falla mikið sem myndi leiða til mikillar verðbólgu og hækka verðtryggðar skuldir heimilanna. Með öðrum orðum það varð enginn forsendubrestur að mati Samtaka atvinnulífsins.

Já, þetta eru gríðarlegir snillingar hjá Samtökum atvinnulífsins sem vissu allan tímann að krónan ætti eftir að falla eins og steinn með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið og heimilin. Það vildi bara enginn hlusta á þá, "að þeirra sögn".

En bíðið nú við, Samtök atvinnulífsins skipa 50% af öllum stjórnarsætum í lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði. Eins og allir vita þá töpuðu lífeyrissjóðirnir 500 milljörðum vegna þess að þeir stigu trylltan dans með útrásinni. Skoðum þetta tap lífeyrissjóðanna betur í ljósi þeirrar staðreyndar að Samtök atvinnulífsins skipa 50% af stjórnarsætum sjóðanna og segjast hafa vitað um og varað við því að krónan ætti eftir að falla umtalsvert.

Tóku stöðu með krónunni

Rifjum upp gjaldmiðlasamninga lífeyrissjóðanna í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins hafa nú upplýst í sinni umsögn að þeir vissu að krónan myndi falla gríðarlega á árunum 2008 og 2009.  Formaður vill byrja á því að upplýsa að lífeyrissjóðirnir töpuðu í það minnsta 50 milljörðum af lífeyri launafólks á gjaldmiðlasamningunum, já takið eftir 50 milljörðum. Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að íslensku lífeyrissjóðirnir gerðu tugmilljarða króna gjaldmiðlavarnarsamninga við Landsbankann, Kaupþing og Glitni fyrir bankahrun. Alls var staða gjaldmiðlasamninganna 2,2 milljarðar evra við bankahrun og hafði umfang þeirra tvöfaldast á einu ári. Með öðrum orðum, lífeyrissjóðirnir tóku stöðu með krónunni, sem þýddi að þeir högnuðust ef krónan styrktist en eins og allir vita þá féll krónan gríðarlega og tap sjóðanna varð því 50 milljarðar eins og áður sagði. 

 

Hvernig í himninum stendur á því að stjórnarmenn Samtaka atvinnulífsins í lífeyrissjóðunum gerðu gjaldmiðlasamninga þar sem veðjað var á að krónan myndi styrkjast í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins vissu samkvæmt umsögn sinni til Alþingis að krónan myndi falla gríðarlega.

Rannsaka verður þetta mál   

Mál hafa verið rannsökuð út af minna tilefni en þessu en hér var um 50 milljarða að ræða. Formaður telur því að rannsaka verði hví í ósköpunum lífeyrissjóðirnir gömbluðu með lífeyri launafólks í gjaldmiðlasamningunum í ljósi þessara upplýsinga sem SA telur sig hafa vitað - að krónan myndi falla.

Já, Samtök atvinnulífsins segja núna þegar til stendur að koma til móts við forsendubrest heimilanna að það hafi ekki orðið neinn forsendubrestur því allir hefðu átt að vita að krónan myndi falla. Það grátbroslega í þessu öllu saman er að lífeyrissjóðirnir báru fyrir sig forsendubresti þegar gera átti upp gjaldmiðlasamningana við slitastjórnir föllnu bankanna. Þeir byggðu sína vörn meðal annars á því að  sumir bankanna hefðu misnotað gjaldeyrismarkaðinn í upphafi árs 2008 til að fella krónuna. Rétt er að geta þess að sjóðirnir vildu gera gjaldmiðlasamningana upp á genginu 126,5 en bankarnir á því gengi sem var þegar samningarnir runnu út sem var langt yfir genginu 200. Með öðrum orðum, lífeyrissjóðirnir báru fyrir sig „forsendubresti“ og gleymum því ekki að 50% stjórnarmanna í lífeyrissjóðunum eru fulltrúar Samtaka atvinnulífsins.  

Hafi Samtök atvinnulífsins ævarandi skömm fyrir umsögn sína – að þykjast hafa vitað að krónan væri að falla eins og enginn væri morgundagurinn á sama tíma og fulltrúar þeirra í stjórnum lífeyrissjóðanna gömbluðu með lífeyri launafólks þar sem veðjað var á að krónan myndi styrkjast  sem gerði það að verkum að sjóðirnir töpuðu 50 milljörðum eins og áður hefur komið fram. Formaður spyr hver er ábyrgð Samtaka atvinnulífsins að hafa látið slíkt gerast í ljósi þess að þeir telja sig hafa vitað af falli krónunnar? Því við skulum ekki heldur gleyma því að samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins er búið að skerða lífeyrisréttindi launafólks á hinum almenna vinnumarkaði um í það minnsta 130 milljarða frá hruni.

Þessir snillingar koma svo núna og segja að sauðsvartur almúginn hefði átt að vita að verðtryggðar skuldir heimilanna myndu hækka gríðarlega vegna þess að þeir hafi verið búnir að vara við falli krónunnar. Málflutningur af þessu tagi er ekki boðlegur íslensku samfélagi og það hjá samtökum sem vilja láta taka sig alvarlega.

Nei, þessi sérhagsmunaelíta segir að enginn forsendubrestur hafi orðið en fer síðan sjálf hálfgrenjandi og ber fyrir sig forsendubresti eins og til dæmis vegna gjaldmiðlasamninganna. Og ekki má heldur gleyma að Samtök iðnaðarins báru fyrir sig forsendubresti fyrir hönd verktaka við Orkuveituna og Reykjavíkurborg.

Við ríkisstjórnina vil formaður segja: Standið í lappirnar gagnvart þessari sérhagsmunaelítu sem hér vill öllu ráða og reynir að koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum að alþýða þessa lands og skuldsett heimili fái einhverja leiðréttingu á því efnahagshruni sem hún ber ekki nokkra einustu ábyrgð á. Standið í lappirnar.

26
Jun

Atvinnuástandið á Akranesi nokkuð gott

Að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness geta Akurnesingar verið nokkuð ánægðir með það atvinnuástand sem ríkir á þeirra svæði um þessar mundir sé miðað við mörg önnur sveitarfélög hér á landi. Akurnesingar búa við þann munað að vera með gríðarlega sterkar stoðir í sínu samfélagi og má þar nefna Grundartangasvæðið með stóriðjurnar Elkem og Norðurál í broddi fylkingar en mörg önnur smærri fyrirtæki hafa verið að hefja starfsemi á svæðinu að undanförnu.

Þessu til viðbótar er nú hvalurinn kominn á fulla ferð og unnið er á sólarhringsvöktum bæði í Hvalfirði sem og hér á Akranesi við vinnslu á hvalafurðum en þessi starfsemi skilar uppundir 150 manns atvinnu fyrir utan afleidd störf sem eru fjölmörg. Ekki má heldur gleyma því að HB Grandi hefur hafið undirbúning að því að auka vinnsluna hér á Akranesi umtalsvert á þessu ári og því næsta sem væntanlega mun þýða fjölgun starfsmanna en talað er um að vinnslan muni fara úr um 3500 tonnum upp í allt að 6000 tonn á ársgrundvelli sem er umtalsverð aukning.

Á þessu sést eins og áður sagði að við Akurnesingar búum við nokkuð gott atvinnuástand og ekki spillir fyrir að þessir burðarstólpar sem hér hafa verið taldir upp eru allt fyrirtæki sem skapa íslensku þjóðarbúi gjaldeyristekjur en það er þannig sem við náum að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í.

19
Jun

Gleðitíðindi - vinnsla á hval hafin

Þau gleðitíðindi bárust í gær að fyrsta langreyðurin væri komin á land í Hvalfirði og það þýðir ekki nema eitt - að veiðar og vinnsla á hval eru komin á fulla ferð. Í tilefni af því fór formaður VLFA í vinnustaðarheimsókn í húsakynni HB Granda á Akranesi þar sem verið var að skera og ganga frá fyrsta hvalnum. Ríkti mikil ánægja meðal starfsmanna með að vertíðin væri nú hafin eftir tveggja ára stopp.

það er morgunljóst að hvalveiðarnar veita umtalsverða innspýtingu inn í atvinnulífið hér á Akranesi enda eru uppundir 200 manns sem koma að veiðum og vinnslu á þessari vertíð. Á vertíðunum 2009 og 2010 voru tekjumöguleikar starfsmanna mjög góðir enda voru meðallaun við vinnslu á hval hér á Akranesi yfir 700 þúsund krónur þó rétt sé að geta þess að umtalsvert vinnuframlag lá að baki slíkum launum. Unnið er á sólarhringsvöktum hér á Akranesi sem eru keyrðar áfram af tveimur vakthópum. Einnig eru tugir manna að störfum uppi í Hvalfirði þar sem líka er unnið á sólarhringsvöktum eðli málsins samkvæmt.

Það er alveg ljóst að þessar veiðar og vinnsla hafa umtalsverða þýðingu fyrir okkur Akurnesinga og reyndar samfélagið allt enda skila þessar veiðar sér til ríkis og sveitarfélaga meðal annars  í formi útsvarstekna. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að átta okkur á því að við þurfum að hafa hér fyrirtæki sem skapa gjaldeyristekjur því það er einungis þannig sem við náum að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa við.

Fyrirtækið Hvalur hf, undir dyggri stjórn Kristjáns Loftssonar, á þakkir skildar fyrir þá elju og atorkusemi við að halda þessum veiðum ætíð áfram þó oft hafi á móti blásið. Allavega erum við Akurnesingar afar þakklátir fyrir þessi atvinnutækifæri sem Hvalur hf býður okkur upp á. Það liggur fyrir að mun færri komust að en sóttu um að fá að starfa hjá Hval hf á þessari vertíð og það segir allt sem segja þarf hvað þennan atvinnumöguleika snertir. Myndir frá vinnslunni er hægt að sjá hér.

14
Jun

Verkafólk eins og hamstrar í búri!

Það er eins og við manninn mælt að þegar styttist í að kjarasamningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru að verða lausir þá heyrast varnaðarorð vítt og breitt um samfélagið. Varnaðarorð sem byggjast á því að nú þurfi að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til handa verkafólki til að stöðugleiki ríki í íslensku samfélagi. Varnaðarorð í þessum anda hefur verkafólk ætíð þurft að heyra þegar kemur að kjarasamningum. Frægt er til dæmis þegar greiningastjórar bankanna sögðu í janúar 2008 að það yrði að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til að hér myndi ríkja stöðugleiki en þá voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði lausir. Hugsið ykkur, greiningastjórar bankanna vöruðu við því í byrjun hrunársins mikla árið 2008 að ef verkafólk fengi örlitla hækkun þá yrði stöðugleika í íslensku hagkerfi ógnað. Á sama tíma og þessi orð voru látin falla var nánast verið að ræna bankana innan frá sem hafði skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag eins og allir þekkja og það beint fyrir framan nefið á þessum greiningastjórum sem höfðu mestar áhyggjur af því að verkafólk fengi einhverjar launahækkanir sem talandi væri um.

Fræg eru líka orð seðlabankastjóra þegar kjarasamningar voru lausir árið 2011 en þá lagði hann mikla áherslu á að kjarasamningarnir yrðu hófstilltir og að innistæða væri fyrir þeim því annars myndi stöðugleikanum verða ógnað. Á sama tíma og hann lét þessi orð falla var hann að stefna sínum eigin banka fyrir dómstóla og krefjast hundruð þúsunda í launahækkun á mánuði.

Og síðast í gær kemur nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og hvetur til þess að gengið verði frá hófstilltum kjarasamningum því innistæðulausir samningar leiði óhjákvæmilega til verðbólgu og verri lífskjara. Segir hann í þessu samhengi að „enginn sigri í launakapphlaupinu.“ Gott og vel, ugglaust margt til í þessu hjá framkvæmdastjóra SA. En málið er einfalt. Ef við skoðum kjarasamningana sem gerðir voru 2011 þá var til dæmis samið um 12 þúsund króna launahækkun á mánuði fyrir verkafólk það ár. Það var gengið frá svokallaðri samræmdri launastefnu, launastefnu sem gekk út á það að launafólk ætti að fá sambærilegar launahækkanir. En þetta sama ár og var samið um þessa 12 þúsund króna launahækkun til handa verkafólki þá hækkuðu stjórnendur, framkvæmdastjórar og æðstu stjórnendur fyrirtækja laun sín um 200-300 þúsund krónur á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Það má því eiginlega segja að það væri nær fyrir Samtök atvinnulífsins að hvetja æðstu stjórnendur í fyrirtækjum til að gæta hófs í sjálfskömmtunarlaunahækkunum sínum heldur en að vara við að verkafólk sem er með skammarlega lág laun sem duga vart til lágmarksframfærslu fái einhverja leiðréttingu á sín laun.

Hlaupaleiðirnar misjafnar

Já, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði að enginn sigri í launakapphlaupinu. Það liggur fyrir og það er staðfest að nánast allir kjarasamningar sem gengið er frá hjá Ríkissáttasemjara eftir að samið hefur verið fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði eru mun innihaldsríkari heldur en kjarasamningar verkafólks. Þannig hefur þetta ætíð verið og því má segja að launakapphlaupið sem framkvæmdastjóri SA talar um byggist á því að hlaupaleiðir launþega séu afar mismunandi. Það má eiginlega segja að hlaupaleið verkafólks sé eins og fyrir hamstur í búri sem hleypur í hlaupahjólinu og kemst ekkert áfram á meðan hlaupaleið til dæmis æðstu stjórnenda í fyrirtækjum og sumra launahópa virðist liggja í því að þeim er keyrt í limmósínu í mark og þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því að svitna.

Ekkert verður gefið eftir

Það liggur fyrir að það þarf að laga kjör verkafólks eins og til dæmis þeirra sem starfa í fiskvinnslunni enda verður þar nægt svigrúm þar sem búið er að lækka sértæka veiðigjaldið um milljarða króna og því morgunljóst að þar verður innistæða fyrir þeim launahækkunum sem sækja þarf til handa fiskvinnslufólki. Það liggur einnig fyrir að afkoma útflutningsfyrirtækja hér á landi er mjög góð um þessar mundir og því morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki sjá neina ástæðu til þess að gefa þeim fyrirtækjum sem klárlega hafa svigrúm fyrir hækkun launa sinna starfsmanna neinn afslátt í komandi kjarasamningum. Vonandi er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sammála formanni Verkalýðsfélags Akraness í því að fyrirtæki eins og útflutningsfyrirtækin þar sem klárlega er innistæða fyrir launahækkun deili góðri afkomu með starfsmönnum í formi góðrar launahækkunar.

12
Jun

Fundi með forsætisráðherra lokið

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá boðaði forsætisráðherra formann félagsins til fundar í stjórnarráðinu og var sá fundur haldinn í morgun. Það er skemmst frá því að segja að þessi fundur var bæði góður og gagnlegur.

Eins og flestir vita hefur eitt aðalbaráttumál Verkalýðsfélags Akraness á undanförnum árum á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar verið afnám verðtryggingar á neytendalánum og að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur. Því miður hafa þær tillögur og ályktanir sem VLFA hefur lagt fram á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum ekki hlotið hljómgrunn hjá forystu hreyfingarinnar. Á þeirri forsendu hefur formaður félagsins lýst yfir ánægju með að núverandi ríkisstjórn ætli að taka á þessum helstu baráttumálum Verkalýðsfélags Akraness.

Á fundinum í morgun ræddi forsætisráðherra tillögur er lúta að aðgerðaáætlun um skuldavanda heimilanna sem lögð var fram á þinginu í gær og er í 10 liðum. Þessi aðgerðaáætlun virðist í fljótu bragði vera í algjöru samræmi við þau loforð sem gefin voru út fyrir kosningar. Formanni VLFA líst vel á þetta aðgerðaplan og er fullur bjartsýni á að loksins muni sjá fyrir endann á þeim miskunnarlausa forsendubresti sem heimilin máttu þola og síðast en ekki síst að nú hilli undir afnám verðtryggingar á húsnæðislánum heimilanna. Skýrt er kveðið á um í þessari aðgerðaáætlun að skipaður verði starfshópur sem eigi að skila tillögum er lúta að afnámi verðtryggingar fyrir áramót.

Formaður félagsins ræddi fjölmörg önnur mál á fundinum er tengjast hagsmunum alþýðunnar, svosem komandi kjarasamninga og mikilvægi þess að bæta stöðu þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Benti formaður meðal annars á að mikilvægt væri að hækka persónuafslátt því það væri morgunljóst að það kæmi þeim tekjulægstu hvað best.

Eins og áður sagði þá var þetta góður fundur enda var gott að eiga þetta samtal við forsætisráðherra og gat formaður ekki skynjað annað en að það væri fullur hugur hjá ríkisstjórninni að taka á þessum málum er lúta að skuldavanda heimilanna af fullri einurð og krafti. Enda er mjög mikilvægt að þetta taki eins skamman tíma og hægt þar sem skuldsett heimili geta ekki beðið í mjög langan tíma eftir aðgerðum. Formaður nefndi við forsætisráðherra að mikilvægt væri að fresta nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði til áramóta í ljósi þess að allir starfshópar sem skipaðir verða vegna skuldavanda heimilanna eigi að skila af sér niðurstöðum og tillögum seinnihluta þessa árs. Þá mun liggja fyrir hvernig endanleg aðgerðaáætlun mun líta út hvað varðar aðgerðir til handa heimilunum. Það var ekki annað að heyra á forsætisráðherra en að öll þessi mál væru svo sannarlega til skoðunar hjá ríkisstjórninni sem er vel.  

Forsætisráðherra er það fullkunnugt að formaður Verkalýðsfélags Akraness mun fylgjast vel með að öll þessi mál er lúta að hagsmunum alþýðunnar og skuldsettum heimilum fái farsælan endi og að staðið verði við gefin loforð. Enda mun formaður VLFA veita ríkisstjórninni fullkomið aðhald og vera gagnrýninn á ef hún fer út af sporinu hvað varðar lausn á vanda íslenskra heimila.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image