• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Feb

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar

Ríkissáttasemjari hefur boðað fulltrúa Verkalýðsfélags Akraness til fundar á morgun þriðjudag, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur félagið vísað kjaradeilum Elkem Ísland, Klafa og fiskimjölsverksmiðjunnar til sáttasemjara. Þessu til viðbótar er kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði einnig kominn til Ríkissáttasemjara og verða því þessir fjórir samningar til umræðu á fundinum á morgun.Það er ljóst að töluvert ber á milli aðila, en krafa Verkalýðsfélags Akraness vegna allra þessara samninga er að grunntaxtar hækki um 20.000 kr. á mánuði, en þeirri kröfu hafa fulltrúar Samtaka atvinnulífsins algerlega hafnað.

Það liggur fyrir að félagsmenn VLFA sendu félaginu skýr skilaboð varðandi kosningu um aðalkjarasamninginn á hinum almenna vinnumarkaði, en upp undir 93% félagsmanna höfnuðu þeim samningi og sendu því skýr skilaboð til samninganefndar um að gera þurfi betur til að hægt sé að bera nýjan samning upp til atkvæðagreiðslu.

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman fyrir helgi og eygði formaður þá von að samstaða myndi ríkja á milli aðildarfélaga SGS um að fara sameinuð í viðræður við atvinnurekendur, því eins og áður hefur komið fram er staða aðildarfélaga SGS nokkuð sterk í ljósi þess að margar atvinnugreinar sem félagsmenn SGS starfa í hafa verið að skila góðri afkomu á undanförnum árum og nægir í því samhengi að nefna ferðaþjónustuna og fiskvinnsluna. En því miður þá ríkti ekki mikil samstaða, alla vega á þessum fyrsta fundi, um áframhaldandi samstarf og voru skiptar skoðanir um hvaða leið ætti að fara. Kom fram að sumir vildu halda áfram sameiginlegu samstarfi við önnur landssambönd, en slíkt telur formaður VLFA að sé ekki happadrjúgt fyrir íslenskt verkafólk.

Krafan er afar hógvær, enda byggist hún á að hækka lágmarkstaxta verkafólks um 20.000 kr. á mánuði. En rétt er að benda á í því samhengi að lágmarkstaxtar og laun verkafólks duga á engan hátt fyrir lágmarksframfærslu samkvæmt öllum opinberum viðmiðum. Því verður að lagfæra þessa taxta í skrefum og 20.000 króna hækkun taxtalauna er örlítið skref í þá átt.

Það er grundvallaratriði að ef menn ætla að ná árangri í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins þá verða aðildarfélög Starfsgreinasambandsins að standa saman. Sameinuð er alveg ljóst að æði margt væri hægt að gera, en sundrung er ávísun á að skila ekki viðunandi niðurstöðu fyrir okkar félagsmenn. Það er mikilvægt fyrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni að átta sig á þessari bláköldu staðreynd, sérstaklega í ljósi þess að hinn almenni félagsmaður hefur send forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar skýr skilaboð, síðasti samningur var of innihaldsrýr svo gerið þið betur! 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image