• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Nov

Stjórn VLFA sjálfkjörin til næstu tveggja ára

Á fundi sínum þann 8. október síðastliðinn lagði stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fram framboðslista til stjórnar félagsins næstu tvö árin. Auglýst var eftir öðrum framboðum hér á heimasíðunni, í Póstinum og í Skessuhorni. Þar sem ekki bárust aðrir listar til kjörstjórnar telst listi stjórnar og trúnaðarráðs vera sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

Nýir inn í stjórn eru Kristófer Jónsson sem formaður Sjómanna- og vélstjóradeildar, Bjarni Ólafsson sem varaformaður Stóriðjudeildar og Hafþór Pálsson sem varaformaður Almennrar deildar og eru þeir boðnir hjartanlega velkomnir til sinna starfa. Þeir sem láta af störfum í stjórn félagsins eru Svavar S. Guðmundsson og Jón Jónsson og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir áralöng vel unnin störf í þágu félagsins.

Stór hluti núverandi stjórnarmanna hefur verið í stjórn VLFA samfleytt í 10 ár, en rétt er að geta þess að ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003 og mun því eiga 10 ára afmæli eins og áður sagði eftir örfáa daga. En það er óhætt að segja að félagið hafi tekið gríðarlegum stakkaskiptum á þessum 10 árum og á það jafnt við fjárhagslega stöðu félagsins sem og félagslega. En því verður gert betri skil hér á heimasíðunni á afmælisdegi stjórnarinnar.

05
Nov

Einhugur um kröfugerð SGS

Í gær lögðu fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands fram kröfugerð sambandsins til Samtaka atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Nú liggur fyrir að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa tekið afar fálega í kröfugerð SGS og hafa látið hafa eftir sér að á þessi kröfugerð sé ekki neinn viðræðugrundvöllur.

En um hvað er kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands? Jú, hún lýtur að því að hækka skammarlega lága launataxta sambandsins um heilar 20.000 krónur í 12 mánaða samningi. En rétt er að geta þess að lágmarkstaxti Starfsgreinasambands Íslands í dag er 191.752 krónur og við þessa hækkun myndi slíkur taxti fara upp í 211.752 krónur. Það má vel vera að fulltrúum Samtaka atvinnulífsins finnist þetta vera fáránleg kröfugerð, en menn verða að viðurkenna að það verður að lagfæra lágmarkstaxta á hinum almenna vinnumarkaði. Það liggur nú þegar fyrir að þeir eru langt undir öllum opinberum framfærsluviðmiðum og á þeirri forsendu verður að hækka þá umtalsvert.

Það kemur einnig fram í kröfugerðinni að SGS gerir kröfur til þess að kjör fiskvinnslufólks og þeirra sem starfa í ferðaþjónustu hækki enn frekar á grundvelli þeirrar staðreyndar að þessar greinar hafa svo sannarlega verið að skila góðum afkomutölum og því ekkert nema eðlilegt að t.d. fiskvinnslan og ferðaþjónustan skili þeim mikla hagnaði til sinna starfsmanna í formi góðra launahækkana.

20.000 króna hækkun er rétt rúmlega 10% launahækkun á lægstu taxta, en ástæðan fyrir því að prósentutalan er með þessum hætti er að 20.000 kr. eru að leggjast ofan á upphæð sem er svo lág fyrir. Til að setja þessa upphæð í samhengi þá var fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins með um 2 milljónir í mánaðarlaun samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Fyrir honum væri þessi 20.000 kr. hækkun aðeins 1% launahækkun. En ef hann gerði kröfu um 10% launahækkun, þá myndu laun framkvæmdarstjóra SA hækka um 200.000 kr. á mánuði.

Það þarf að ríkja þjóðarsátt um leiðréttingu og lagfæringu á lágmarkstöxtum á íslenskum vinnumarkaði, því þeir eru Samtökum atvinnulífsins, verkalýðshreytingunni og samfélaginu öllu til ævarandi skammar. Það er ánægjulegt til þess að vita að það ríkir alger einhugur innan raða Starfsgreinasambands Íslands um að fylgja fast eftir þeim kröfum sem sambandið hefur nú lagt fram. Þennan einhug hefur formaður VLFA ekki fundið áður með jafn afgerandi hætti og við mótun þessarar kröfugerðar.

01
Nov

Héraðsdómur samþykkir að leitað verði ráðgefandi álits frá EFTA dómsstólnum vegna verðtryggingarmálsins

Í gær samþykkti Héraðsdómur Reykjavíkur þá kröfu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness að aflað yrði ráðgefandi álits frá EFTA dómstólnum vegna lögmætis verðtryggingar hér á landi. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fjármagna dómsmál vegna lögmætis verðtryggingar hér á landi. Er það mikill áfangasigur að Héraðsdómur Reykjavíkur skuli hafa kveðið upp þann dóm að leitað verði ráðgefandi svara frá EFTA dómstólnum en rétt er að geta þess að lögmenn Landsbankans, sem er sá banki sem lánið sem um ræðir er hjá, hafnaði því að leitað yrði eftir þessu áliti.  

Eins og fram hefur komið kvað héraðsdómur upp þennan úrskurð í gær en hann felst í að óskað verði eftir áliti varðandi 6 spurningar sem tengjast málinu. Formaður VLFA telur þetta vera eitt brýnasta mál íslenskra heimila enda nema verðtryggðar skuldir heimilanna í dag um 1.700 milljörðum króna sem þýðir að í 4% verðbólgu hækka skuldirnar um 68 milljarða á ársgrundvelli.

Ekki liggur fyrir hvort að lögmenn Landsbankans muni áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar eða ekki en það er mikilvægt að niðurstaða verði ljós í þessu máli er lýtur að lögmæti verðtryggingarinnar eins fljótt og kostur er. Rétt er að geta þess að þetta mál var þingfest í febrúar á þessu ári og hefur því málið tekið afar langan tíma. Ekki liggur fyrir hverslu langt er í að niðurstaða berist frá EFTA dómsstólnum en allt eins má gera ráð fyrir því að það geti tekið allt að þrjá mánuði.

Með því að smella á meira hér að neðan er hægt að sjá í hverju þessar spurningar sem um ræðir eru fólgnar.

Úrskurðarorð:

Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi spurningum:

1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings, sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi?

2. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ef löggjöf í ríki sem aðild á að EES-samningnum heimilar að samningur neytanda og veitanda um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrir fram ákveðinni vísitölu?

3. Ef svarið við fyrstu spurningunni er á þann veg að verðtrygging greiðslna af láni sem tekið er til fjármögnunar fasteignakaupa sé samrýmanleg ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE þá er í öðru lagi spurt hvort tilskipunin takmarki svigrúm viðkomandi samningsríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir skuli valda breytingum á hinni fyrir fram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar.

4. Ef svarið við annarri spurningunni er að tilskipun 93/13/EBE takmarki ekki það svigrúm samningsríkis sem nefnt er í þeirri spurningu þá er í þriðja lagi spurt hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast, b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið?

5. Telst aðferðin við útreikning verðbreytinga í lánssamningi um fjármögnun fasteignakaupa hafa verið útskýrð rækilega fyrir neytanda í skilningi d-liðar 2. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í þriðju spurningunni?

6. Á ríki sem er aðili að EES-samningnum val milli þess við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE, annars vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að heimilt sé að lýsa óskuldbindandi fyrir neytanda óréttmæta skilmála í skilningi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, eða hins vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að slíkir skilmálar skuli ávallt vera óskuldbindandi fyrir neytandann?

Skúli Magnússon

25
Oct

Launavísitalan hefur hækkað um tæp 52% en almennar launahækkanir um rúm 28% frá nóvember 2006

Þann 18. október síðastliðinn kom út ítarleg skýrsla sem aðilar vinnumarkaðsins létu gera. Þar var meðal annars farið yfir launaþróun frá nóvember 2006 og fram í maí 2013.

Það var æði margt forvitnilegt sem fram kom í þessari skýrslu. Meðal annars kom það fram að launavísitalan hefur hækkað um 51,7% á þessu tímabili. Það sem er athyglisvert við þetta er að almennar launahækkanir á hinum almenna vinnumarkaði, svokallaðar prósentuhækkanir, nema einungis 28,3% á sama tíma sem þýðir að launavísitalan hefur hækkað um 23,4%, meira heldur en launahækkanir sem um hefur verið samið á hinum almenna vinnumarkaði.

Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu að frá nóvember 2006 til maí 2013 hefur launavísitalan hækkað um tæp 52% eins og áður sagði sem gerir að meðaltali 6,7% hækkun á ári eða 0,5% á mánuði. Þetta sýnir svo ekki verður um villst það gríðarlega launaskrið sem á sér stað enda hefur launavísitalan hækkað um 82% meira heldur en almennar launahækkanir verkafólks.

Það verður að segjast alveg eins og er að það er stórundarlegt að heyra Samtök atvinnulífsins segja í öllum samningum að svigrúm til launahækkana sé lítið en síðan koma fyrirtækin, meðal annars innan Samtaka atvinnulífsins, og hækka laun í vissum geirum um allt að 82% meira en um var samið í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er rétt að geta þess að þetta umrædda launaskrið virðist eiga sér stað sérstaklega í efri lögum samfélagsins, til dæmis hjá stjórnendum, í fjármálageiranum, lífeyrissjóðunum, hjá skrifstofufólki en ekki hjá almennu verkafólki.

Þetta er eitthvað sem verkalýðshreyfingin þarf svo sannarlega að skoða. Það að semja ætíð um ákveðna prósentutölu á hinum almenna vinnumarkaði en þurfa síðan að horfa upp á það að vissir hópar í samfélaginu skammti til sín laun langt umfram það sem um hefur verið samið er grátlegt. Það sýnir svo ekki verður um villst að það er miklu meira svigrúm til staðar til launahækkanna heldur en Samtök atvinnulífsins segja til um í aðdraganda kjarasamninga eins og sagan sannar.

Einnig er rétt að rifja upp að Seðlabankinn sagði í síðustu samningum að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði hafi innihaldið alltof háar launahækkanir. Almennar launahækkanir námu 11,4% á samningstímanum en launaskriðið var hinsvegar 18,3% á sama tímabili og því er ekki hægt að segja að kjarasamningarnir hafi innihaldið of miklar hækkanir þegar launaskriðið var langt umfram gerða samninga.

Rétt er að geta þess að neysluvísitalan frá nóvember 2006 hefur hækkað um 54,6% sem þýðir að þeir sem hafa fengið kjarasamningsbundnar launahækkanir hafa orðið fyrir kaupmáttarskerðingu sem nemur 26,3% á sama tímabili.  

24
Oct

Undirbúningur kjarasamninga á lokastigi

Undirbúningur að mótun endanlegrar kröfugerðar vegna komandi kjarasamninga er nú á lokametrunum. Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands hittust fyrr í vikunni þar sem farið var yfir hinar ýmsu hugmyndir er lúta að kröfugerð vegna launaliðar komandi kjarasamninga og vænta má að endanleg kröfugerð hvað launaliðinn varðar liggi fyrir í byrjun næstu viku.

Eins og fram kom í ályktun um kjaramál sem samþykkt var á þingi Starfsgreinasambandsins á Akureyri í síðustu viku, var skýrt kveðið á um að aðildarfélög SGS ætla að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og áratugum. Var það mat þingsins að lagfæring á lágmarkslaunum og lágmarkstöxtum verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verða að vera algjört forgangsmál í komandi kjarasamningum, enda liggur fyrir að lágmarkslaun á Íslandi eru langt fyrir neðan öll opinber framfærsluviðmið.

Síðan er Verkalýðsfélag Akraness einnig byrjað að huga að þeim sérkjarasamningum sem félagið er með og verða lausir á sama tíma og kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði, eða nánar tilgetið í lok nóvember. Í síðustu viku hélt formaður t.d. tvo opna fundi með starfsmönnum Elkem Ísland þar sem kallað var eftir hugmyndum að kröfugerð. Og í gær var fundur með trúnaðarmönnum Elkem, þar sem menn fóru yfir stöðuna og mun endanleg kröfugerð væntanlega liggja fyrir áður en langt um líður.

Það er morgunljóst að sótt verður að þeim fyrirtækjum sem hafa borð fyrir báru, en þau fyrirtæki eru eðli málsins samkvæmt starfandi í útflutningi eins og t.d. fiskvinnslan, ferðaþjónustan og stóriðjurnar. Það er deginum ljósara að krafa félagsins verður sú að starfsfólk fái hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja sem starfa í þessum greinum.

15
Oct

Einhugur á kjaramálafundi starfsmanna Elkem Ísland

Verksmiðja Elkem á GrundartangaÍ gær voru haldnir tveir fundir með starfsmönnum Elkem Ísland. Sá fyrri hófst kl. 13 og sá síðari kl. 19 en á þessum fundum var kallað eftir hugmyndum starfsmanna að mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamninga Elkem Ísland. Samningurinn mun renna út í lok nóvember. Á fundinum fór formaður yfir hvernig til hefði tekist í síðasta samningi og kom fram í máli hans að laun byrjenda væru í dag tæpum 60.000 kr. hærri á mánuði heldur en fyrir síðustu samninga. Hjá starfsmanni eftir 10 ára starf hefðu launin hækkað um tæpar 75.000 kr. Þessu til viðbótar samdi félagið um verulega eingreiðslu á samningstímanum og nam sú eingreiðsla 450.000 kr. á hvern starfsmann. Sem betur fer varð kaupmáttaraukning hjá starfsmönnum Elkem Ísland sem nam rétt rúmum 8% að teknu tilliti til eingreiðslunnar á samningstímanum.

Það er ljóst að töluverður hugur er í starfsmönnum Elkem vegna komandi kjarasamninga vegna þeirrar staðreyndar að álögur á launafólk gera vart annað en að hækka miskunnarlaust og eina tækifærið sem launafólk hefur til að bæta sinn hag er þegar kjarasamningar eru lausir. Það er ljóst að launafólk á hinum almenna vinnumarkaði nýtur ekki þessa launaskriðs sem viðgengst oft á tíðum því fastlaunasamningar sem gerðir eru kveða einungis á um fastar launahækkanir á samningstímanum og þar af leiðandi skilar það sér ekki í mældu launaskriði.

Það liggur fyrir að Elkem Ísland er útflutningsfyrirtæki og á þeirri forsendu telja menn að svigrúm eigi að vera til staðar í komandi samningum. Menn voru flestir sammála um að gerður verði skammtímasamningur til 12 mánaða þó vissulega hafi heyrst raddir á fundinum sem óskuðu lengri samningstíma. Mótun kröfugerðar mun nú fara fram af fullum þunga enda munu viðræður um nýjan kjarasamning hefjast von bráðar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image