• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Nov

Ályktun vegna hræðsluáróðurs Samtaka atvinnulífsins

Í kjölfar hræðsluáróðursins sem birtist svo glöggt í auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins þessa dagana hafa Verkalýðsfélag Akraness og stéttarfélagið Framsýn á Húsavík samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ályktun

Samtök atvinnulífsins, hafið skömm fyrir!

Stéttafélögin Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness fordæma harðlega ósmekklega auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins er miðar að því að gera lítið úr kröfum verkafólks um hækkun lægstu launa.

 

Samtök atvinnulífsins!  „Þið berið fyrst og fremst ábyrgð á því launaskriði sem verið hefur á íslenskum vinnumarkaði, ekki íslenskt lágtekjufólk. Lítið því í eigin barm í stað þess að sverta aðra fyrir ykkar eigin verk!“

 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er launaskriðið 54% hærra en umsamdar almennar launahækkanir frá gerð síðustu kjarasamninga verkafólks. Þetta er minnisvarðinn sem þið reistuð ykkur til heiðurs og berið ábyrgð á skuldlaust.

 

Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness skora á Samtök atvinnulífsins að ganga í takt með launafólki í stað þess að slá ryki í augu almennings. Himinháum auglýsingakostnaði Samtaka atvinnulífsins er án efa betur varið í vasa launafólks en í hræðsluáróður í fjölmiðlum.

21
Nov

Stefnir enn og aftur í samræmda láglaunastefnu!

Rétt í þessu lauk fundi hjá samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands og er óhætt að segja að formaður VLFA sé afar vonsvikinn með það sem þar var samþykkt. En nú liggur fyrir að meirihluti samninganefndar SGS hefur samþykkt að fara í samflot með öðrum landssamböndum innan ASÍ við gerð nýs kjarasamnings.

Þetta er svo sorgleg niðurstaða í ljósi þeirrar gríðarlegu vinnu sem aðildarfélög SGS hafa lagt í mótun kröfugerðar, en SGS hefur skilað metnaðarfullri kröfugerð til Samtaka atvinnulífsins þar sem farið var fram á að lágmarkstaxtar myndu hækka um 20.000 krónur í árssamningi, eða með öðrum orðum að lægsti taxti á hinum almenna vinnumarkaði færi úr 191.752 í 211.752 krónur. Auk þess krafðist SGS að tekið yrði sérstakt tillit til starfsmanna í útflutningsgreinunum eins og t.d. í ferðaþjónustu og fiskvinnslu, enda hafa t.d. útgerðarfyrirtæki verið að skila allt að 80 milljörðum í hagnað ár hvert undanfarin ár. Á þeirri forsendu var krafa gerð um að fiskvinnslufólk fengi sanngjarna hlutdeild í þessari góðu afkomu.

Nú liggur hins vegar fyrir að önnur landssambönd hafa látið hafa það eftir sér að kröfugerð samninganefndar SGS sé of innihaldsmikil og hafa í raun og veru gert kröfu um að slegið verði af kröfugerð SGS. Einnig hefur forseti ASÍ sagt að kröfugerð SGS sé of há! Nú vilja þessir menn enn og aftur fara í svokallaða samræmda launastefnu eins og gert var árið 2011, og mun hún væntanlega byggjast á því að allir fái sömu launahækkun algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Þetta er eins ömurlegt og mest má vera, einfaldlega vegna þess að staða Starfsgreinasambandsins í þessum viðræðum er gríðarlega sterk, enda liggja fyrir þær bláköldu staðreyndir sem hér hafa verið raktar um góða afkomu útflutningsgreinanna.

Þetta er líka sorglega grátlegt í ljósi þess að á grundvelli áðurnefndra staðreynda var samninganefnd SGS búin að samþykkja að fara eitt og sér í þessar kjaraviðræður. En nú hafa menn tekið algjöra vinkilbeygju með þessari samþykkt um samflot með hinum landssamböndunum, samflot sem byggir á engu öðru samræmdri launastefnu. Það er líka rétt að vekja athygli á að á þingi SGS fyrir nokkrum vikum var samþykkt ályktun sem kvað á um að í komandi kjarasamningum ætlaði sambandið að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt svo um munaði. Vissulega kom fram hjá forsvarsmönnum SGS á fundinum áðan að það stæði ekki til að gefa afslátt á okkar kröfum í þessu samfloti, en formaður VLFA sagði að hann væri búinn að vera nógu lengi í þessari baráttu til að skynja það sem framundan væri. Nú væri að fara af stað sama samræmda láglaunastefnan og var rekin 2011. Og það undir forystu forseta Alþýðusambands Íslands.

Formaður VLFA skal algjörlega viðurkenna að þetta eru gríðarleg vonbrigði. Að menn skuli ekki standa í lappirnar og fylgja eftir því sem áður hefur verið samþykkt, eins og að vera ein og sér og gera allt til þess að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt. Formaður ætlar að vona að hann hafi rangt fyrir sér í því sem hann telur að framundan sé, en byggir á eigin reynslu þegar hann segist óttast að hér sé enn og aftur verið að búa til samræmda launastefnu þar sem hagsmunir verkafólks verða svo sannarlega ekki hafðir að leiðarljósi.

Og það er ekki bara að hann óttist áðurnefnd atriði, heldur liggur fyrir að eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur ASÍ lagt fram tillögu um að skattatillögur nái ekki til fólks undir 250.000 krónum í launum. Það er með ólíkindum að ætla að skilja lágtekjufólk sem stendur hvað höllustum fæti í íslensku samfélagi eftir þegar kemur að aðkomu stjórnvalda hvað skattalækkanir varðar, og hafi Alþýðusambandi skömm fyrir þessa tillögu sína.

Að lokum hvetur formaður VLFA verkafólk vítt og breitt um landið til að fara að láta í sér heyra því hann trúir ekki að það sé vilji hins almenna verkamanns að stéttarfélögin vítt og breitt um landið standi ekki lappirnar og krefjist leiðréttingar á launum þeirra. Það er afar mikilvægt fyrir okkur formenn stéttarfélaga að átta okkur á því að við erum í vinnu fyrir fólkið, en fólkið þarf að segja okkur með afgerandi hætti hvernig við eigum að vinna að ykkar hagsmunum. Látið í ykkur heyra í ykkar stéttarfélagi!

21
Nov

Meira af tillögum um skattalækkanir

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni hefur Verkalýðsfélag Akraness lagst gegn því hvernig fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu eru útfærðar, en ríkisstjórnin áætlar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að lækka miðþrepið úr 25,8% í 25%. Fram hefur komið að áætlaður kostnaður vegna þessa er 5 milljarðar króna.


Ekki leggst VLFA gegn því að ráðstafa eigi 5 milljörðum til skattalækkunar, síður en svo. Það sem félagið hefur gagnrýnt er útfærslan sjálf, en með þessari aðferð fá þeir sem eru tekjulágir sáralítið sem ekki neitt í sinn hlut. Reyndar fá þeir sem eru með undir 250.000 krónum í mánaðarlaun enga skattalækkun, og þeir sem eru með 500.000 krónur fá tæplega 2.000 kr.

ASÍ hefur einnig lagst gegn þessum breytingum og hefur lagt fram eigin tillögur, en þegar þær eru skoðaðar nánar sést að þeir sem eru með undir 250.000 kr. á mánuði fengju ennþá ekki krónu í skattalækkun.

Verkalýðsfélag Akraness leggur til að í stað þess að lækka skattprósentu verði persónuafsláttur hækkaður, en slík aðgerð myndi koma öllum vel óháð tekjum. Það eru greinilega til 5 milljarðar í ríkiskassanum sem á að ráðstafa í þennan málaflokk og þeir fjármunir duga til að hækka persónuafslátt sem nemur 2.000 krónum. Auðvitað mætti þessi upphæð vera mun hærri, en þetta eru þó 24.000 krónur á ári og lágtekjufólk munar um minna. Það sem VLFA vill benda á er að aðgerð sem þessi gagnast betur öllum þeim sem eru með undir 500.000 kr. á mánuði, aðgerðirnar sem ríkisstjórnin og ASÍ hafa lagt til gagnast betur þeim sem eru með yfir 500.000 í mánaðarlaun. Það er kjarni málsins.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur nú þegar fundað með ráðamönnum um þessi mál og standa vonir til að náist að koma þessum málum í betri horf áður en fjárlög verða afgreidd á Alþingi. Það er ekki hægt að misbjóða íslensku verkafólki með tillögum sem ganga út að þær skattalækkanir sem þó verði ákveðið að fara í renni í vasa þeirra sem hæstu hafa launin, en þeir sem lægst hafa launin verði skildir eftir. Við það verður ekki unað.

19
Nov

10 ára starfsafmæli stjórnar VLFA

Í dag eru liðin nákvæmlega 10 ár frá því núverandi stjórn tók við stjórnartaumunum í Verkalýðsfélagi Akraness. Eins og einhverjir muna hafði þá um nokkurra ára skeið ríkt umtalsverður ágreiningur vegna stjórnunarhátta í félaginu. Það endaði með því að Alþýðusamband Íslands yfirtók félagið og skipaði starfsstjórn þar sem félagið var orðið óstarfhæft vegna deilna. Alþýðusambandið tók á þessum tíma ákvörðun um að breyta lögum félagsins með þeim hætti að fyrir stjórnarkosningar var stillt var upp tveimur listum, í þeim tilgangi að reyna að koma á starfsfriði í félaginu. Fór síðan fram allsherjarkosning í félaginu þar sem upp undir 90% félagsmanna tóku þátt og niðurstaðan var sú að listi undir forystu núverandi formanns bar sigur úr býtum. Rétt er að geta þess að stór hluti þeirra sem nú eru í stjórn félagsins hafa setið í henni frá upphafi með örfáum undantekningum. Það hefur ekki verið til vandræða að fá fólk í stjórn félagsins, enda hefur ríkt mikil samstaða innan stjórnar öll þessi ár.

Það er óhætt að segja að á þessum 10 árum hafi félagið tekið miklum stakkaskiptum og á það jafnt við fjárhagslega sem og félagslega. Sem dæmi má nefna að þegar núverandi stjórn tók við fyrir 10 árum var félagssjóður rekinn á yfirdrætti. Með öðrum orðum, félagið var fjárvana. Á þessum 10 árum hefur núverandi stjórn tekist að byggja upp sterkan fjárhag félagsins og stendur félagið mjög vel hvað það varðar. Auk þess hefur félagið styrkst félagslega jafnt og þétt öll þessi 10 ár sem sést m.a. á því að félagsmönnum hefur fjölgað um helming á þessum 10 árum, en árið 2003 voru um 1500 félagsmenn í VLFA en nú eru þeir rétt um 3.000. Á þessum sama tíma hafa allir sjóðir félagsins aukið við réttindi til félagsmanna og sem dæmi þá hefur félagið tekið upp fjölmarga nýja styrki til handa félagsmönnum, enda er það markmið stjórnar að láta félagsmenn ávallt njóta góðs þegar rekstur félagsins er jákvæður og það hefur hann verið öll þessi 10 ár.

Það er markmið stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að reyna eftir fremsta megni að vera það stéttarfélag sem þjónustar sína félagsmenn hvað best hér á landi og er gaman að segja frá því að félagið hefur innheimt vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota á þessum 10 árum upp undir 220 milljónir sem gerir að jafnaði 22 milljónir á ári. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er fyrir launafólk að hafa öflugt og sterkt stéttarfélag á bak við sig sem er tilbúið að berjast fyrir því að atvinnurekendur komist ekki upp með að brjóta kjarasamninga. En það er morgunljóst að vinna við að bæta og gæta að réttindum verkafólks mun aldrei taka enda, hér er um eilífðarverkefni að ræða.

14
Nov

Tillögur ASÍ þýða að lágtekjufólk er skilið eftir!

Mynd frá RUV sem sýnir tillögur ríkisstjórnarinnar í skattabreytingumMynd frá RUV sem sýnir tillögur ríkisstjórnarinnar í skattabreytingumEins og fram kom í fjárlagafrumvarpinu þá hyggst ríkisstjórnin lækka miðþrepið í skattkerfinu úr 25,8% í 25% og er áætlað að kostnaður ríkissjóðs vegna þessara tillagna sé um 5 milljarðar króna. Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness mótmælt harðlega og telur í raun og veru þessar tillögur algjörlega galnar. Ástæðan er einföld, allir sem eru undir kr. 250.000 í mánaðarlaun fá alls enga skattalækkun, heldur gagnast þessi tillaga þeim tekjuhæstu langbest, enda kemur fram að einstaklingur sem er með 800.000 krónur í mánaðarlaun mun fá í skattalækkun á ári kr. 47.808. Á sama tíma fær lágtekjufólkið sem er með tekjur undir kr. 250.000 ekki krónu í skattalækkun. Og einstaklingur með kr. 350.000 í mánaðarlaun skv. tillögum ríkisstjórnarinnar myndi einungis fá 9.000 kr. skattalækkun á ári.

Þessi tillaga er því algjörlega galin og miðast fyrst og fremst að því að hygla þeim tekjuhæstu í íslensku samfélagi og slíkt getur Verkalýðsfélag Akraness aldrei tekið þátt í að styðja. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hvað fyrirhugaðar skattabreytingar áhrærir hefur verið hvellskýr. VLFA vill að það 5 milljarða svigrúm sem er til skattalækkana verði notað til hækkunar á persónuafslætti, en skv. útreikningum fjármálaráðuneytisins þá liggur fyrir að persónuafslátturinn gæti hækkað um 2.000 kr. á mánuði sem myndi gilda fyrir alla launþega óháð tekjum. Þetta myndi skila öllu launafólki kr. 24.000 í auknar ráðstöfunartekjur á ári, en að sjálfsögðu kemur hækkun persónuafsláttar sér hlutfallslega best fyrir lágtekjufólkið.

 

 

Samantekt VLFA sem sýnir tillögur ASÍ að skattabreytingumSamantekt VLFA sem sýnir tillögur ASÍ að skattabreytingumÞað skal algjörlega viðurkennast að tillögur Alþýðusambands Íslands sem lagðar hafa verið fyrir ríkisstjórn eru formanni VLFA hulin ráðgáta. Enda gera þær ráð fyrir að lágtekjufólk sem er með tekjur undir 250.000 fái enga skattalækkun. Tillögur Alþýðusambandsins miðast við að neðri mörk miðþreps skattakerfisins hækki úr 241.476 upp í kr. 350.000. Þessi tillaga gengur áfram út á það eins og hjá ríkisstjórninni að skilja öryrkja, atvinnulausa og lágtekjufólk sem eru undir 250.000 kr. í tekjur, eftir án nokkurra skattalækkana. Þessi tillaga Alþýðusambandsins þýðir líka það að launamaður sem hefur 350.000 kr. eða meira í mánaðarlaun fær skattalækkun á ári sem nemur rúmum 32.000 kr. En á sama tíma fær lágtekjufólkið sem er með tekjur undir kr. 250.000 ekki krónu í skattalækkun.

Formaður spyr sig á hvaða vegferð ASÍ er að leggja ekki til að persónuafslátturinn hækki því það liggur fyrir að hækkun persónuafsláttar kemur tekjulægstu hópunum í íslensku samfélagi best, hópum sem samkvæmt rannsóknum hafa í sumum tilfellum ekki efni á að sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu sökum lakra kjara.

Það er óskiljanlegt að Alþýðusambandið sem á að berjast fyrir bættum kjörum m.a. þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi skuli ekki hafa lagt til hækkun persónuafsláttar sem hefði tryggt því fólki 24.000 kr. í auknar ráðstöfunartekjur á ári, og eins og áður sagði hefði allt launafólk fengið slíka skattalækkun.

Verkalýðsfélag Akraness mun vinna að því á næstu dögum að vinda ofan af þessu og tryggja frekar að persónuafslátturinn hækki þannig að tryggt verði að allt launafólk, þar með talið öryrkjar, atvinnuleitendur og lágtekjufólk fái einnig skattalækkun eins og aðrir íslenskir launþegar, enda þurfum við að slá skjaldborg utan um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi en það er ljóst að ASÍ er ekki að gæta að hag þessa fólks með þeim tillögum sem þeir haga lagt fyrir ríkisstjórn Íslands. Verkalýðsfélag Akraness skorar á ríkisstjórn Íslands að hækka persónuafsláttinn þannig að allir launþegar fái notið skattaafsláttar en ekki einungis sérútvaldir hópar í íslensku samfélagi.

11
Nov

Formaður VLFA fundar með forsætisráðherra

Formaður félagsins fundaði með forsætisráðherra síðastliðinn föstudag, en hin ýmsu mál voru til umræðu á þessum fundi, en eðli málsins samkvæmt bar kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði töluvert á góma. Formaður sagði við forsætisráðherra að það væri mjög mikilvægt að það næðist þjóðarsátt um að lagfæra og leiðrétta kjör tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi og upplýsti hann forsætisráðherrann um að lægsti taxti á íslenskum vinnumarkaði í dag næmi einungis rétt rúmum 191.000 krónum og eru þessir lágmarkstaxtar langt frá öllum framfærsluviðmiðum sem opinberir aðilar hafa gefið út.

Einnig nefndi formaður við forsætisráðherra að mjög mikilvægt væri að hækka frekar persónuafsláttinn heldur en að lækka miðþrep úr 25,8% niður í 25%, enda er ljóst að hækkun persónuafsláttar kemur þeim tekjulægstu hlutfallslega hvað best. En miðað við lækkun á miðþrepinu þá eru það þeir tekjuhæst sem munu fá mest, en allir þeir sem eru undir 250.000 krónum á mánuði munu hins vegar ekki fá neitt.

Einnig voru skuldamál heimilanna og afnám verðtryggingar til umræðu, en formaður situr í sérfræðingahópi um afnám verðtryggingar og stefnir hópurinn að því að skila af sér fyrir tilsettan tíma sem er í lok desembermánaðar. Það hefur verið baráttumál Verkalýðsfélags Akraness allt frá 2009 að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur og verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. En samhliða því hefur félagið ætíð bent á að setja þurfi vaxtaþak í það minnsta tímabundið vegna fákeppni á bankamarkaði, enda eru samkeppnisskilyrði á bankamarkaði nánast engin. Forsætisráðherra greindi formanni frá því að þessar aðgerðir í þágu heimilanna séu á áætlun, en eins og alþjóð veit þá á leiðréttingarhópurinn að skila af sér í lok þessa mánaðar og verðtryggingarhópurinn í lok desember eins og áður sagði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image