• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Feb

Fundað hjá Ríkissáttasemjara vegna Elkem á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá kusu starfsmenn Elkem Ísland sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness um yfirvinnubann vegna þess að ekkert hefur þokast í samningaviðræðum við forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, en kjarasamningur starfsmanna rann út 1. desember á síðasta ári. Það kom einnig fram í frétt hér á heimasíðunni að gríðarleg samstaða og einhugur ríkir á meðal starfsmanna Elkem Ísland og endurspeglaðist sá einhugur í kosningunni um yfirvinnubannið, enda samþykktu allir sem tóku þátt í kosningunni að hefja yfirvinnubann næstkomandi sunnudag.

Verkalýðsfélag Akraness á upp undir 90% allra starfsmanna Elkem Ísland. Hin 10 prósentin tilheyra VR, Félagi iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsambandi Íslands og Stéttarfélagi Vesturlands. Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir því við hin félögin að þau myndu taka þátt í þessu yfirvinnubanni, aðgerð sem væri fólgin í því að reyna að bæta kjör þeirra sem starfa hjá fyrirtækinu, enda er það samróma álit starfsmanna að hafna þeirri smánarhækkun sem um var samið í kjarasamningunum á hinum almenna vinnumarkaði í desember síðastliðnum.

Það kom formanni VLFA verulega á óvart þegar í ljós kom að hin félögin sem aðild eiga að samningi Elkem kváðust ekki ætla að taka þátt í þessu yfirvinnubanni og undrast formaður þá afstöðu í ljósi þeirrar miklu samstöðu og einhugs sem ríkti hjá öllum þeim sem kusu um yfirvinnubannið. En þetta endurspeglar viljaleysi og kjarkleysi verkalýðshreyfingarinnar og með ólíkindum að menn vilji ekki standa saman þegar skilaboð starfsmanna eru þetta skýr.

Starfsmenn Elkem Ísland og Verkalýðsfélag Akraness höfnuðu þessari samræmdu launastefnu sem mótuð var fyrst 2011 og svo aftur í nýgerðum kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði og sem dæmi þá tókst VLFA að brjóta á bak aftur samræmdu launastefnuna árið 2011 sem gerði það að verkum að hver og einn einasti starfsmaður Elkem Ísland fékk 1,5 milljón meira í laun á þessum þremur árum, en hafnn hefði fengið ef farið hefði verið eftir samræmdri launastefnu ASÍ og SA sem kvað á um 11,4% í heildina.

Ríkissáttasemjari hefur nú boðað til fundar í þessari erfiðu deilu á morgun kl. 11 og umtalsverðar líkur á því að yfirvinnubannið skelli á með fullum þunga á hádegi næstkomandi sunnudag, ef ekkert bitastætt kemur frá Samtökum atvinnulífsins í þessari deilu. Það er engan bilbug að finna á félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Elkem, þrátt fyrir að hin félögin hafi ekki viljað sýna félögum sínum stuðning með því að taka þátt í þessu yfirvinnubanni. En þetta samstöðuleysi lýsir íslenskri verkalýðshreyfingu í hnotskurn þessi misserin.

20
Feb

Trúnaðarmannanámskeið stendur yfir

Í gær hófst þriggja daga trúnaðarmannanámskeið í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13, en námskeiðið sitja 8 trúnaðarmenn félagsins. Um er að ræða þriðja þrep þessa náms, en áður hafa verið kennd þrep 1 og 2. Trúnaðarmenn þurfa ekki að taka þrepin í ákveðinni röð og því eru sumir trúnaðarmennirnir að koma á sitt fyrsta námskeið og aðrir eru reyndari og hafa setið nokkur trúnaðarmannanámskeið. Trúnaðarmönnum er heimilt að sækja námskeið í eina viku á ári án skerðingar á launum. Markmið slíkra námskeiða er að styrkja og efla trúnaðarmenn í sínum störfum. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um skipulagningu og kennslu á námskeiðinu.

Dagskrá námskeiðsins er fjölbreytt, í gær fengu trúnaðarmenn fræðslu um tryggingarpíramídann, tryggingar og kjarasamninga. Í dag var farið yfir starfsemi félagsins, réttindi félagsmanna í sjóðum félagsins og slíkt. Á morgun fá trúnaðarmenn kynningu frá Virk Starfsendurhæfingarsjóði fyrir hádegi, og eftir hádegi verður farið yfir námsefni um vinnueftirlit og vinnuvernd.

14
Feb

Starfsmenn Elkem Ísland samþykktu yfirvinnubann einróma

Í hádeginu í dag lauk kosningu þeirra félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Elkem Ísland á Grundartanga. Kosið var um yfirvinnubann og greiddu 52,6% þeirra sem voru á kjörskrá atkvæði. Talningu atkvæða lauk fljótlega upp úr hádegi og fór kosningin þannig að 70 manns studdu yfirvinnubann, einn seðill var auður og enginn var á móti. Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá gríðarlega samstöðu og einhug sem ríkir meðal starfsmanna um að standa saman og krefjast þess að launakjör starfsmanna verði bætt og tekið verði tillit til þeirra krefjandi vinnuaðstæðna sem fylgja því að vinna í stóriðju. Einnig ríkir algjör einhugur hjá starfsmönnum um að hafna því að sú smánarhækkun sem boðin var í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði verði látin gilda fyrir starfsmenn Elkem.

Það liggur fyrir að útflutningsgreinar hafa notið afar góðra rekstrarskilyrða allt frá hruni, meðal annars vegna falls íslensku krónunnar og því er ekki hægt að setja útflutningsfyrirtæki og aðrar atvinnugreinar hér á landi undir einn og sama hattinn, og mikilvægt að horft verði til stöðu hverrar atvinnugreinar þegar samið er um kaup og kjör hverju sinni.

Hjá Elkem hefur verið leitað hagræðingar á ýmsum sviðum á undanförnum mánuðum og ári, sem birtist m.a. í því að launakostnaður fyrirtækisins vegna verkafólks hefur lækkað umtalsvert á milli ára, sem er vegna fækkunar starfsfólk. En fækkun starfsfólks hefur leitt það að verkum að aukið álag er á þá sem eftir eru. Þessu til viðbótar liggur fyrir að störf í stóriðjum geta verið áhættusöm og krefjandi og því þurfa launakjör að endurspegla þær staðreyndir.

Rétt er að geta þess að kjarasamningur Elkem Ísland á Grundartanga rann út 1. desember 2013 og hafa viðræður staðið yfir við Samtök atvinnulífsins síðan þá, en þær hafa engan árangur borið. Í gær var fundað hjá ríkissáttasemjara og þegar ljóst var að engin stefnubreyting hafði orðið af hálfu Samtaka atvinnulífsins óskaði Verkalýðsfélag Akraness eftir því að skráð yrði í fundargerðabækur ríkissáttasemjara að viðræður væru árangurslausar, en það er ein af grunnforsendum þess að hægt er að boða til yfirvinnubanns á löglegan hátt.

Að sjálfsögðu vonast félagið svo sannarlega til þess að ekki þurfi að koma til þessa yfirvinnubanns, heldur setjist menn niður og leysi þessa kjaradeilu. En til að hún leysist þá þarf að vera eitthvað innihald í því tilboði sem berst frá Samtökum atvinnulífsins. Það er morgunljóst að yfirvinnubann hjá starfsmönnum Elkem Ísland mun geta haft víðtæk áhrif á starfsemi fyrirtækisins, en þar sem töluverð fækkun hefur orðið á starfsfólki hefur talsvert verið um yfirvinnu og oft á tíðum eru 3-4 einstaklingar á aukavakt á hverjum degi. En félagið ítrekar það að vonast er til þess að samningar takist fyrir 23. febrúar til að forða megi því að yfirvinnubannið taki gildi.

12
Feb

Samstaða og einhugur ríkti á fundi starfsmanna Elkem Ísland

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá hélt Verkalýðsfélag Akraness kynningar- og samstöðufund  í gær með starfsmönnum Elkem Ísland vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna sérkjarasamnings félagsins við Elkem.

Þrátt fyrir fundarhöld með Samtökum atvinnulífsins þá hefur ekkert miðast áfram og bjóða Samtök atvinnulífsins einungis það sama og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en það tilboð hljóðar frá 2,8% upp í rétt rúm 3%. Það kom skýrt fram hjá starfsmönnum Elkem á fundinum í gær að þeir munu aldrei sætta sig við að samið sé um launahækkanir þeirra í öðrum kjarasamningi en þeirra eigin.

Samstaðan og einhugurinn sem ríkti á fundinum var vægast sagt frábær. Skýrt kom fram hjá fundarmönnum að þeir munu aldrei sætta sig við það smánartilboð sem nú liggur á borðinu, enda liggur fyrir að starfsmenn Elkem hafa fundið fyrir umtalsverðu auknu álagi á undanförnum misserum og sem dæmi þá var framleiðslumet slegið hjá Elkem á síðasta ári, þrátt fyrir að starfsmönnum hafi fækkað talsvert. Það kom skýrt fram hjá starfsmönnum að þeir eru tilbúnir að standa saman sem einn maður í því að knýja fram sanngjarna kröfu um hækkun launa sinna, enda liggur fyrir að vinnustaðurinn Elkem getur verið áhættusamur og krefjandi og því ljóst að laun starfsmanna verða að endurspegla það umhverfi sem starfsmenn starfa við.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á morgun og það er morgunljóst að ef ekki kemst einhver niðurstaða á þeim fundi, þá munu starfsmenn íhuga sterklega að grípa til einhvers konar aðgerða. Því eins og áður sagði þá er þetta sérkjarasamningur sem starfsmenn hafa haft í áratugi og það er ekki boðlegt að þeirra mati að Samtök atvinnulífsins komi og segi að það sem samið er um í öðrum samningum en þeirra eigin, skuli gilda fyrir starfsmenn Elkem Ísland. Við slíkt munu starfsmenn aldrei sætta sig.

11
Feb

Starfsmenn Elkem - munið fundina í dag!

Verkalýðsfélag Akraness minnir starfsmenn Elkem á opna fundi um kjaramál, sem haldnir verða í dag á Gamla Kaupfélaginu. Fyrri fundurinn hefst kl. 13:00 og sá síðari kl. 19:00. Formaður félagsins mun fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna sérkjarasamnings félagsins við Elkem Ísland, en kjarasamningurinn rann út 1. desember 2013 og þrátt fyrir ítrekuð fundarhöld hefur ekki náðst nein niðurstaða í þessari deilu.

Krafa félagsins er að byrjunartaxti hjá starfsmönnum Elkem Ísland hækki um kr. 20.000, en Samtök atvinnulífsins hafa algjörlega hafnað slíkri kröfu og ítrekað að einungis sé það í boði sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði 21. desember sl.  Það gætir gríðarlegrar gremju meðal starfsmanna yfir því að Samtök atvinnulífsins skuli ætlast til þess að verið sé að semja um launaliði sérkjarasamnings starfsmanna Elkem í öðrum kjarasamningum en þeirra eigin. Með þessu telja menn að verið sé að taka af þeim sjálfstæðan samningsrétt sem þeir hafa haft um áratugaskeið, með því að skylda þá til að taka launahækkunum sem um er samið í öðrum samningum heldur en þeirra eigin.

Félagið hvetur félagsmenn til að mæta, því á þessum fundum verða teknar ákvarðanir um hvernig skuli bregðast við þessu smánartilboði sem starfsmönnum Elkem hefur verið boðið, en æði margt bendir til þess að starfsmenn muni á engan hátt sætta sig við slíkt smánartilboð. Rétt er að geta þess að starfsmenn Elkem eru að vinna við erfiðar og hættulegar aðstæður og því mikilvægt að launakjör þeirra endurspegli þær vinnuaðstæður sem þeir þurfa að starfa við.

04
Feb

Fundur hjá ríkissáttasemjara - Lagt til að verðtryggja laun

Formaður félagsins fundaði með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins í morgun hjá Ríkissáttasemjara, en eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær hafði Ríkissáttasemjari boðað til þessara fundar. Þeir kjarasamningar sem voru til umfjöllunar voru kjarasamningur starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga,  sérkjarasamningur fiskimjölsverksmiðjunnar, kjarasamningur starfsmanna Klafa, sem sér um út- og uppskipanir á Grundartanga, auk kjarasamningsins á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er óhætt að segja að viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins, sem ríkissáttasemjari stjórnaði, hafi verið gagnlegar og uppbyggilegar þar sem menn hafi skipst á skoðunum án þess að nein niðurstaða hafi náðst. Formaður lagði t.d. fram nokkrar tillögur til lausnar á deilunni, í fyrsta lagi að laun lágtekjufólks yrðu hækkuð umtalsvert, til dæmis með krónutöluhækkun og breytingum á innröðun í launatöflu, þar sem sérstakt tillit yrði tekið til starfsmanna í útflutningsfyrirtækjum eins og t.d. hjá ferðaþjónustunni og fiskvinnslunni. Í öðru lagi nefndi formaður hvort ekki mætti skoða að gengið yrði frá nokkurs konar þjóðarsátt þar sem samið yrði um fasta krónutöluhækkun sem gæti numið 20.000 krónum, sem hugsanlega gæti leitt til þess að kostnaðarauki atvinnulífsins yrði ekki meiri en fyrirliggjandi samningur kveður á um. Slík hækkun myndi ganga jafnt yfir alla óháð því hvort fólk sé með milljón í laun eða 200.000 krónur. Slíkan samning væri svo sannarlega hægt að kalla þjóðarsáttarsamning þar sem allir tækju á sig sambærilega launahækkun og horfið yrði frá prósentu-hækkun í samningnum.

Þriðja tillagan sem formaður nefndi snerist um að verðtryggja núverandi samning verkafólks út samningstímann. Með því væri ábyrgðinni varpað yfir á atvinnulífið og stjórnvöld að halda hér stöðugleika út samningstímann. Ef verðbólgan yrði 2% í lok samningstímans þá kæmi samkvæmt þessari tillögu 2% launahækkun til viðbótar því sem um hafði verið samið. Ef verðbólgan yrði hins vegar 5% þá kæmi 5% launahækkun í lok samningstímans. En með því að verðtryggja þennan samning væri verið að varpa ábyrgðinni meira yfir á ríki, sveitarfélög, verslun og í raun og veru atvinnulífið í heild sinni við að halda verðbólgu hér niðri. Formaður telur að þessi leið sé alveg fær út samningstímann og sérstaklega í ljósi þess að verðtrygging hefur ekki enn verið afnumin af fjárskuldbindingum heimilanna.

Það er skemmst frá því að segja varðandi verðtryggingu launa, þá höfnuðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins því algerlega og sögðu slíkt ekki koma til greina því reynslan af verðtryggingu launa væri ekki góð.

Varðandi sérkjarasamningana þá voru þeir einnig til umræðu og það kom alveg skýrt fram hjá forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins að ekki verður gengið frá sérkjarasamningunum fyrr en kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði hefur verið frágenginn. Einnig kom fram hjá þeim að þær launabreytingar sem um semst í aðalkjarasamningi muni verða þær sömu og sérkjarasamningarnir muni fela í sér. Slíkt á Verkalýðsfélag Akraness afar erfitt með að sætta sig við enda eru sérkjarasamningar félagsins t.d. við Elkem ísland sjálfstæðir samningar og ekki eðlilegt að starfsfólki þar sé stillt þannig upp við vegg að samið sé um kjör þeirra í allt öðrum samningum en þeirra eigin.

Eins og áður sagði þá var þetta bara nokkuð góður fundur hjá ríkissáttasemjara í dag þótt niðurstaðan væri engin, því grunnforsenda til að leysa kjaradeilur er að menn geti talað saman, skipst á skoðunum og reynt að finna lausnir til þess að leysa vandann. Því það er morgunljóst að vandinn er umtalsverður og það er skylda beggja samningsaðila að leggja sig í líma að finna lausn sem báðir samningsaðilar geta fallist á.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image