• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Mar

Auglýsing um kosningu verkfalls hjá Elkem Ísland

Samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness hefur ákveðið að hefja kosningu um verkfall á meðal félagsmanna sinna sem starfa hjá Elkem Ísland á Grundartanga. Fyrirkomulag kosningar er opinn kjörfundur á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness að Sunnubraut 13, og mun kosningin standa yfir frá og með deginum í dag til föstudagsins 14. mars 2014 kl. 12.

Verði verkfallsboðunin samþykkt mun verkfall starfsmanna sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og starfa hjá Elkem hefjast á hádegi þriðjudaginn 25. mars.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá rann kjarasamningur félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Elkem Ísland á Grundartanga út 1. desember 2013.  Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná samningi þá hefur það ekki borið árangur og ber gríðarlega mikið á milli samningsaðila.

Á fundi hjá Ríkissáttasemjara 13. febrúar var bókaður árangurslaus fundur sem er grunnforsenda til að hægt sé að hefja kosningu um verkfall samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er óhætt að segja að algjör einhugur og samstaða ríki hjá starfsmönnum í þessari kjaradeilu, enda samstaða lykilatriði þegar kjaradeila er háð.

07
Mar

Sáttatillaga ríkissáttasemjara samþykkt á Akranesi

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um sáttatillögu vegna tveggja kjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að í gegnum tvö landssambönd, annars vegar í gegnum Starfsgreinasamband Íslands og hins vegar Samiðn. Félagsmenn VLFA kolfelldu þessa samninga í janúar, en þann 28. febrúar síðastliðinn var skrifað undir þá sáttatillögu sem félagsmenn hafa nú kosið um.

Niðustaðan er sú að félagsmenn sem starfa á almenunm vinnumarkaði og tilheyra Starfsgreinasambandinu samþykktu sáttatillöguna með 85,1% atkvæða, 6,8% voru á móti og 8,1% skiluðu auðu. Félagsmenn í iðnsveinadeild og tilheyra Samiðn samþykktu einnig sáttatillöguna með 75% atkvæða, 25% voru á móti og enginn var auður.Það er því ljóst að kjarasamningar sem gerðir voru 21. desember síðastliðinn munu taka gildi frá 1. febrúar 2014 með breytingum sem kveður á um í sáttatillögunni. Helstu breytingar eru þær að í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014 greiðist sérstök eingreiðsla, kr. 14.600 m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014. Einnig hækka desember- og orlofsuppbætur um kr. 32.300, en desemberuppbót m.v. fullt starf á árinu 2014 er kr. 73.600 og orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 er m.v. fullt starf kr. 39.500.

Launabreytingar frá 1. febrúar eru þær að almennt hækka laun um 2,8%. Kauptaxtar sem eru undir kr. 230.000 hækka sérstaklega og nemur hækkunin tæplega 5%. Dæmi: Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um 9.565 og Launaflokkur 17, eftir 7 ár hækkar um kr. 10.107. Aðrir kauptaxtar og kjaratengdir liðir (bónus, premía, akkorð o.fl. hækka um 2,8%, þó að lágmarki um kr. 8.000 kr. á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf verða kr. 214.000 á mánuði fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

Press here for information in english.

Informacje w języku polskim

07
Mar

Árangurslaus fundur hjá Ríkissáttasemjara vegna Elkem

Í gær var haldinn fundur hjá Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna Elkem Íslands á Grundartanga. Það skal algerlega viðurkennast að formaður eygði þá von að forsvarsmenn fyrirtækisins myndu leggja fram einhvers konar tilboð sem hægt væri að taka til skoðunar, en það er skemmst frá því að segja að það sem lagt var fram í gær var ekki pappírsins virði. Með öðrum orðum, þetta var gamla góða samræmda launastefnan sem samið var um 21. desember síðastliðinn með örlitlum breytingum.

Nú hefur yfirvinnubann staðið yfir hjá Elkem Ísland í rétt tæpar tvær vikur og morgunljóst að ef ekki mun draga til tíðinda og stefnubreytingar af hálfu Samtaka atvinnulífsins og forsvarsmanna fyrirtækisins þá er ekkert annað en verkfall sem mun blasa við í þessari deilu. Á mánudaginn mun formaður funda með starfsmönnum Elkem Íslands á Gamla Kaupfélaginu og hefst fyrri fundurinn kl. 13 og sá síðari kl. 19. Á þeim fundum verður farið yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í deilunni. Það er mikilvægt að forsvarsmenn Elkem átti sig á þessari stöðu og fari nú að leggja fram einhverjar hugmyndir til lausnar á þessari deilu, ekki hugmyndir sem gera ekkert annað en að hleypa illu blóði í starfsmenn eins og gerðist eftir tilboðið frá þeim í gær.

07
Mar

Sérkjarasamningur vegna starfa í síldarbræðslu samþykktur

Í gær fór formaður fór á vaktaskiptum í síldarbræðslu HB Granda á Akranesi og kynnti fyrir starfsmönnum nýjan sérkjarasamning sem félagið skrifaði undir síðastliðinn mánudag. Í heildina gefur samningurinn rétt rúm 5% við undirskrift, en samningurinn er til þriggja ára. Samningurinn gefur starfsmönnum einnig færi á að sækja námskeið sem getur fært þeim töluverðar kjarabætur. Til dæmis mun starfsmaður síldarbræðslunnar sem hefur lokið báðum þeim námskeiðum sem standa til boða samkvæmt samningi þessum og hefur starfað í verksmiðjunni í 7 ár hafa í grunnlaun 287.000 krónum á mánuði.

Aðaltekjumöguleikar starfsmanna síldarbræðslna liggja í vöktunum og því skiptir miklu máli að veiðar á uppsjávarafla séu góðar, því laun taka miklum hækkunum þegar staðnar eru vaktir í bræðslum. Það ánægjulega í síldarbræðslunni á Akranesi er að allt stefnir í að fljótlega muni hefjast bræðsla á beinum í verksmiðjunni og til stendur að staðnar verði vaktir mánudaga til föstudaga, en slíkt mun hafa talsverð áhrif til launahækkana starfsmanna.

Starfsmenn voru almennt ánægðir með samninginn og var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum

07
Mar

Laust í Ölfusborgum vegna forfalla

Vegna forfalla er orlofshús félagsins í Ölfusborgum laust nú um helgina, áhugasamir hafið samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900.

05
Mar

Öskudagur 2014

Það fer vart framhjá neinum að í dag er Öskudagur og bærinn fullur af búningaklæddum börnum sem syngja í búðum og á vinnustöðum gegn greiðslu í formi sælgætis. Að sjálfsögðu er vel tekið á móti söngglöðum börnum á skrifstofu VLFA, en mikið líf og fjör hefur verið á skrifstofunni í dag. 

Myndir eru komnar inn á Facebook-síðu félagsins og í myndaalbúm hér á síðunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image