• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Feb

Gríðarleg samstaða á meðal starfsmanna Elkem

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni á félagið í harðri kjaradeilu vegna starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga. Einnig hefur komið fram að yfirvinnubann hefur nú staðið yfir í 6 daga og er þetta yfirvinnubann einn liður í því að reyna að ná fram sanngjörnum og réttlátum kröfum starfsmanna um hækkun launa.

Í gærmorgun lá orðið fyrir að Samtök atvinnulífsins höfnuðu því alfarið að láta Verkalýðsfélag Akraness hafa þá kjarasamninga sem gerðir höfðu verið á hinum almenna vinnumarkaði, og einnig við síldarbræðslurnar fyrir austan og í Vestmannaeyjum, nema félagið myndi skuldbinda sig til að ganga í takt við samræmda launastefnu ASÍ og SA. Launastefnu sem kveður einungis á um 2,8% launahækkun. Slíkri kröfu hefur Verkalýðsfélag Akraness algjörlega hafnað og ríkir algjör einhugur á meðal starfsmanna Elkem um að slíka launahækkun verði ekki undir nokkrum kringumstæðum samið um.

Um hádegið í gær höfðu Samtök atvinnulífsins samband við félagið og viðruðu þá hugmynd hvort félagið vildi skoða að gera samning til lengri tíma fyrir Elkem en gerður var á hinum almenna vinnumarkaði og snerust þær hugmyndir þá um 2-3 ára samning. Slík hugmynd er í anda þess sem félagið sjálft hefur meðal annars viðrað bæði við forsvarsmenn fyrirtækisins og við Samtök atvinnulífsins þannig að það hefur alltaf legið fyrir að þessa leið væri félagið til í að skoða. Enda mun slík leið verða þess valdandi að félagið er ekki þátttakandi í þeirri samræmdu launastefnu sem samið hefur verið um.

Félagið hélt tvo öfluga starfsmannafundi í gær með starfsmönnum Elkem og fóru þeir fram á Gamla kaupfélaginu á Akranesi. Á þeim fundum var farið ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari kjaradeilu og það var gríðarlega ánægjulegt og jákvætt að finna þá ofboðslegu samstöðu sem ríkir á meðal starfsmanna í þessari kjaradeilu. Þessi ákvörðun SA varð þess valdandi að starfsmenn samþykktu að fresta því í nokkra daga að láta kjósa um verkfall í fyrirtækinu og vilja menn sjá hvort kjaraviðræðurnar í byrjun næstu viku muni skila einhverjum árangri eður ei. Krafa starfsmanna er alveg skýr. Ef kjaraviðræðurnar í byrjun næstu viku skila ekki árangri og fyrirtækið og SA koma ekki verulega til móts við kröfur starfsmanna þá verður kosið um allsherjarverkfall hjá Elkem Ísland á Grundartanga um miðja næstu viku.

Það liggur fyrir að fyrirtækið hefur leitað til mikillar hagræðingar er tengist starfsmannahaldi og á það reyndar við um flest fyrirtæki sem tengjast stóriðju. Sem dæmi hefur launakostnaður Elkem Ísland á Grundartanga lækkað um tæp 10% hjá verkafólki á árunum 2012 og 2013. Þessa lækkun má rekja til þess að starfsmönnum hefur fækkað og hefur sú fækkun leitt af sér stóraukið álag á þá starfsmenn sem eftir eru. Formaður fór líka yfir það á fundinum að hlutfall launa af heildarveltu fyrirtækisins er afar lágt en það nemur einungis 6,15% af heildarveltunni. Þetta er umhugsunarefni því það sama er uppi á teningnum hjá Norðuráli á Grundartanga, þar er hlutfall launa af heildarveltu einungis 6,85%. Með öðrum orðum, önnur atriði sem hafa áhrif á rekstur þessara fyrirtækja eru rúm 93%. Því má segja að hækkun launa hefur ekki mikil áhrif á það hver rekstrarafkoma stóriðja er.

Að mati formanns félagsins eru það forréttindi að fá að stjórna stéttarfélagi þar sem slíkur einhugur og samstaða ríkir þegar kemur til jafnalvarlegra átaka eins og félagið á nú í. Það morgunljóst að forystumaður í stéttarfélagi er ekki neitt nema hann njóti víðtæks stuðnings sinna félagsmanna í þeirri kjarabaráttu sem félagið stendur í á hverjum tíma fyrir sig. Samstaða er hornsteinninn í allri verkalýðsbaráttu á Íslandi en því miður er þeirri samstöðu ekki til að dreifa þegar horft er yfir verkalýðshreyfinguna í heild sinni. Nægir að nefna í því samhengi að það eru fjögur önnur stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi Elkem á Grundartanga en þau hafa neitað að taka þátt í þeirri kjarabaráttu sem háð er nú á Grundartanga og neitað að taka þátt í yfirvinnubanninu sem allir sem þátt tóku í kosningu um bannið samþykktu. Þetta er að mati formanns þeim félögum til skammar.

28
Feb

Skrifað undir sáttatillögu vegna kjarasamnings á almennum vinnumarkaði

Nú í morgun skrifuðu fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins undir sáttatillögu ríkissáttasemjara vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þessi sáttatillaga er viðauki við kjarasamninginn sem mörg félög undirrituðu þann 21. desember sl.

Í viðaukanum felst að kjarasamningurinn frá 21. desember 2013 tekur gildi 1. febrúar, en með þeim breytingum að orlofsuppbætur hækka samtals um 32.300 kr., en desemberuppbót verður kr. 73.600 og orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 verður 39.500. Einnig kemur til sérstök eingreiðsla kr. 14.600 í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014. Miðast upphæðin við fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014. Samningurinn gildir til loka febrúar 2015.

Launabreytingar eru þær að frá 1. febrúar 2014 skulu laun og kauptaxtar hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma. Kauptaxtar kr. 230.000 og lægri á mánuði hækka sérstaklega um jafnvirði eins launaflokks. Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um kr. 9.565 og launaflokkur 17 , eftir sjö ár, hækkar um kr. 10.107. Lágmarkslaun verða kr. 214.000 á mánuði fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

Sáttatillöguna má sjá í heild sinni hér.

Í næstu viku fer fram kosning um sáttatillöguna og verður kjörfundur á skrifstofu VLFA frá kl. 10:00 mánudaginn 3. mars og stendur hann yfir til kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 7. mars. Hægt er að kjósa á opnunartíma skrifstofu milli kl. 8 og 16, en einnig er hægt að óska eftir því að fulltrúar félagsins mæti á vinnustaði og gefi fólki kost á að kjósa þar.

Í morgun var einnig skrifað undir kjarasamning fyrir starfsmenn Síldarbræðslunnar og munu starfsmenn fá kynningu í næstu viku og kjósa um samninginn þá.

28
Feb

Aðalfundur deilda félagsins haldinn

Á síðasta miðvikudag var haldinn aðalfundur allra deilda félagsins nema sjómannadeildar enda er sá aðalfundur ætíð haldinn á milli jóla og nýaárs sökum aðstæðna sjómanna.

Auk venjubundinna aðalfundarstarfa, sem eru fólgin í því að kjósa stjórnarmenn í deildirnar, var farið yfir starfsemi félagsins og síðast en ekki síst stöðu kjaramála. Á fundinum fór formaður yfir að Verkalýðsfélag Akraness hefur alfarið hafnað samræmdri launastefnu hvað varðar sérkjarasamninga félagsins á Grundartanga. Enda er þar um sjálfstæða kjarasamninga að ræða og ekki hægt undir nokkrum kringumstæðum að sætta sig við að launakjör þeirra starfsmanna sem þar starfa séu ákvörðuð í einhverri samræmdri launatefnu á milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.

Það ríkti gríðarlegur einhugur og samstaða á meðal fundarmanna vegna þeirra kjaradeilna sem félagið á í og sem dæmi þá er félagið núna í harðri kjaradeildu vegna sérkjarasamnings Elkem Ísland á Grundartanga en yfirvinnubann skall á þar af fullum þunga síðasta sunnudag.

Ánægjulegt var að góð mæting var á fundinn og eins og áður sagði, samstaða og einhugur á meðal fundarmanna um að standa þétt við bakið á félaginu í þeim kjaradeilum sem í gangi eru.

21
Feb

Orrustan töpuð en stríðinu ekki lokið

Verksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaVerksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaRétt í þessu var að ljúka fundi hjá ríkissáttasemjara vegna tveggja kjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er með til úrlausnar hjá honum. Eins og fram kom í fréttum í gær þá lagði sáttasemjari fram innanhússtillögu til lausnar á kjaradeilunni á hinum almenna vinnumarkaði. Með innanhússtillögu ríkissáttasemjara fær launafólk þær hækkanir sem um var samið í desembersamningnum, þ.e. einn launaflokk og 8.000 króna hækkun auk 2,8% hækkun á aðra launaliði. Með nýju kjarasamningunum fær launafólk innan SGS að auki samtals 32.300 króna hækkun á desember- og orlofsuppbætur. Desemberuppbót verður þá 73.400 krónur fyrir fullt starf en orlofsuppbót verður 39.500 krónur fyrir fullt starf. Þar sem samningurinn hefur dregist fær launafólk að auki 14.600 króna eingreiðslu í stað launahækkunar í janúar.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að þessi viðbótarhækkun sé skref í rétta átt þó vissulega hefði hann viljað sjá frekari kjarabætur til handa tekjulægstu hópunum og einnig að tekið hefði verið tillit til þeirra félagsmanna sem starfa hjá útflutningsfyrirtækjum eins og til dæmis í fiskvinnslunni þar sem hagnaður útgerðarinnar á undanförnum árum hefur verið ævintýralegur. Formaður hefði viljað sjá að fiskvinnslufólk fengi meiri ávinning en raun ber vitni í þessum nýja samningi. Hinsvegar ítrekar formaður það að þetta er skref í rétta átt og sýnir svo ekki verður um villst að barátta Verkalýðsfélags Akraness fyrir því að kjarasamningurinn yrði felldur hefur borið árangur þótt ekki sé hann mikill. Hinsvegar er rétt að geta þess að það eru 48.000 félagsmenn í Starfsgreinasambandi Íslands og því hefur þessi barátta Verkalýðsfélags Akraness og nokkurra annarra stéttarfélaga skilað í heildina fyrir félagsmenn SGS 1,5 milljarði króna. Ef að þetta gengur yfir alla félagsmenn hjá Alþýðusambandi Íslands þá hefur þessi barátta VLFA og annarra félaga skilað í heildina rúmum 3 milljörðum króna. Við skulum hafa það hugfast að allflest félög innan ASÍ vildu að samningurinn frá 21. desember yrði samþykktur en nú hefur komið í ljós að það var meiri innistæða eins og nýr kjarasamningur staðfestir. Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að hafa þó tekið þátt í því að skila þessari kjarabót þó formaður undirstriki það að hann hefði viljað sjá alvöru samstöðu meðal félaga innan SGS og að sóttar hefðu verið enn frekari kjarabætur. Því má segja að þessi orrusta hafi tapast að hluta til en stríðið er ekki búið.

En það skrautlega í þessu öllu saman er það að Samtök atvinnulífsins vildu beita Verkalýðsfélagi Akraness algjöru ofbeldi. Þær kröfur voru gerðar að ef Verkalýðsfélag Akraness myndi taka þennan nýja samning þá væri félagið einnig að skuldbinda sig til þess að fara í svokallaða samræmda launastefnu sem kveður á um það að allir sérkjarasamningar félagsins, meðal annars við stóriðjurnar á Grundartanga og síldarbræðsluna, skyldu fá sömu launahækkun. Sú hækkun nemur rúmum 3% í heildina og slíkt gat Verkalýðsfélag Akraness ekki samþykkt gagnvart útflutningsfyrirækjum og telur sig reyndar ekki hafa neina lagalega heimild, hvað þá siðferðislega, til að ganga frá launalið annarra samninga, eins og til dæmis við Elkem Ísland, Norðurál og síldarbræðsluna í þessum kjarasamningi sem kveður einungis á um rúmlega 3% launahækkun. Á mannamáli þýðir þetta að launahækkanir sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði skuli gilda fyrir alla aðra kjarasamninga og sérskjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði sem aðildarfélög ASÍ við SA eiga eftir að gera. Í huga formanns er þetta algjört ofbeldi sem Samtök atvinnulífsins beita þarna.

Já, það er mikilvægt fyrir almennt launafólk sem er með sérkjarasamninga að átta sig á þeirri bláköldu staðreynd að búið sé að gera bókun sem kveður á um að stéttarfélögin eru algjörlega skuldbundin til að ganga frá sambærilegum launahækkunum vegna þeirra kjarasamninga sem enn eru ógerðir. Þessi gjörningur ASÍ hvað varðar samræmda launastefnu er formanni gjörsamlega óskiljanlegur.

Staðan er semsagt þannig núna að Verkalýðsfélag Akraness er eitt aðildarfélaga ASÍ með óundirritaða kjarasamninga. Og staðan er einnig þannig að yfirvinnubann mun skella á í Elkem Ísland af fullum þunga á hádegi á sunnudaginn næstkomandi og er engan bilbug að finna á félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness hvað þá deilu varðar. En formanni finnst ömurlegt að ekki skuli ríkja alvöru samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar til að standa í lappirnar gagnvart þeim atvinnugreinum sem vitað er að geti hæglega skilað sínum góða ávinningi til sinna starfsmanna í formi launahækkana.

20
Feb

Fundað hjá Ríkissáttasemjara vegna Elkem á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá kusu starfsmenn Elkem Ísland sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness um yfirvinnubann vegna þess að ekkert hefur þokast í samningaviðræðum við forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, en kjarasamningur starfsmanna rann út 1. desember á síðasta ári. Það kom einnig fram í frétt hér á heimasíðunni að gríðarleg samstaða og einhugur ríkir á meðal starfsmanna Elkem Ísland og endurspeglaðist sá einhugur í kosningunni um yfirvinnubannið, enda samþykktu allir sem tóku þátt í kosningunni að hefja yfirvinnubann næstkomandi sunnudag.

Verkalýðsfélag Akraness á upp undir 90% allra starfsmanna Elkem Ísland. Hin 10 prósentin tilheyra VR, Félagi iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsambandi Íslands og Stéttarfélagi Vesturlands. Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir því við hin félögin að þau myndu taka þátt í þessu yfirvinnubanni, aðgerð sem væri fólgin í því að reyna að bæta kjör þeirra sem starfa hjá fyrirtækinu, enda er það samróma álit starfsmanna að hafna þeirri smánarhækkun sem um var samið í kjarasamningunum á hinum almenna vinnumarkaði í desember síðastliðnum.

Það kom formanni VLFA verulega á óvart þegar í ljós kom að hin félögin sem aðild eiga að samningi Elkem kváðust ekki ætla að taka þátt í þessu yfirvinnubanni og undrast formaður þá afstöðu í ljósi þeirrar miklu samstöðu og einhugs sem ríkti hjá öllum þeim sem kusu um yfirvinnubannið. En þetta endurspeglar viljaleysi og kjarkleysi verkalýðshreyfingarinnar og með ólíkindum að menn vilji ekki standa saman þegar skilaboð starfsmanna eru þetta skýr.

Starfsmenn Elkem Ísland og Verkalýðsfélag Akraness höfnuðu þessari samræmdu launastefnu sem mótuð var fyrst 2011 og svo aftur í nýgerðum kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði og sem dæmi þá tókst VLFA að brjóta á bak aftur samræmdu launastefnuna árið 2011 sem gerði það að verkum að hver og einn einasti starfsmaður Elkem Ísland fékk 1,5 milljón meira í laun á þessum þremur árum, en hafnn hefði fengið ef farið hefði verið eftir samræmdri launastefnu ASÍ og SA sem kvað á um 11,4% í heildina.

Ríkissáttasemjari hefur nú boðað til fundar í þessari erfiðu deilu á morgun kl. 11 og umtalsverðar líkur á því að yfirvinnubannið skelli á með fullum þunga á hádegi næstkomandi sunnudag, ef ekkert bitastætt kemur frá Samtökum atvinnulífsins í þessari deilu. Það er engan bilbug að finna á félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Elkem, þrátt fyrir að hin félögin hafi ekki viljað sýna félögum sínum stuðning með því að taka þátt í þessu yfirvinnubanni. En þetta samstöðuleysi lýsir íslenskri verkalýðshreyfingu í hnotskurn þessi misserin.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image