• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jun

Verkalýðsfélag Akraness vísar deilu vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar til Ríkissáttasemjara

Verkalýðsfélag Akraness hefur vísað deilu félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna þeirra starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað til Ríkissáttasemjara. Samningurinn rann út þann 1. maí síðastliðinn og þrátt fyrir að um tveir mánuðir séu liðnir hafa afskaplega takmarkaðar viðræður átt sér stað. Félagið hefur lagt fram ítarlega kröfugerð en ekki fengið neina efnislega svörun hvað hana varðar.

Grundvallaratriðið í þessu er að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur samið við fjöldan allan af hópum og nægir að nefna í því samhengi BHM, grunnskólakennara og nú síðast leikskólakennara. Hafa þær launahækkanir verið langtum hærri heldur en samið var um í svokölluðum ASÍ samningum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að það eigi að vera afar einfalt mál að semja við félagið enda hefur Samband íslenskra sveitarfélaga slegið tóninn í áðurnefndum samningum.

Það er morgunljóst að þolinmæði félagsins gagnvart aðgerðaleysi Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessari kjarasamningsgerð er að þrotum komin enda erum við hér að tala um fólk sem starfar hjá sveitarfélögunum og er með hvað lökustu kjörin þar. Verkalýðsfélag Akraness er með fjöldan allan af félagsmönnum sem starfar hjá Akraneskaupstað. Nægir að nefna í því samhengi skólaliða, leikskólaliða, starfsmenn íþróttamannvirkja og svo framvegis. Þess vegna er rétt að ítreka það að þeir sem gegna áðurnefndum störfum munu aldrei sætta sig við lakari launahækkanir heldur en aðrir hópar sem sveitarfélögin hafa samið við hafa fengið.  

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, hafði samband við formann félagsins áðan og tók undir áhyggjur hans yfir því að ekki væri enn búið að ganga frá kjarasamningum fyrir ófaglærða starfsmenn Akraneskaupstaðar. Nefndi hún að mikilvægt væri að gengið yrði frá samningum eins fljótt og kostur væri og var ekki annað að heyra á bæjarstjóranum en að hún væri sammála því að búið væri að leggja línurnar í þeim samningum sem launanefndin hefur gert við aðra hópa hvað launahækkanir varðar eins og áður hefur komið fram.

Félagið eygir þá von að Ríkissáttasemjari muni boða til fundar mjög fljótlega þar sem línur munu skýrast enn frekar en það er ljóst að ef ekki næst að semjast mjög fljótlega mun félagið boða til fundar með félagsmönnum þar sem hugsanlegar verkfallsaðgerðir verði ræddar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image