• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Sep

Hvalveiðum að ljúka

Hvalveiðunum sem hófust 16. júní síðastliðinn er nú lokið en alls veiddust 134 langreyðar af þeim 154 sem leyfið var fyrir. Það er óhætt að segja að veiðar og vinnsla á hval hafi verið mikil innspýting fyrir atvinnulífið hér á Vesturlandi enda voru uppundir 150 manns sem störfuðu í kringum þessa starfsemi og er margt sem bendir til þess að meðallaun á vertíðinni hafi verið á bilinu 800.000 - 1.000.000 kr. á mánuði.

Á þessu sést að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir umrædda starfsmenn enda eru atvinnumöguleikar upp á slíkar tekjur ekki á hverju strái um þessar mundir. Hinsvegar er rétt að geta þess að starfsmenn Hvals hafa svo sannarlega unnið fyrir hverri krónu enda er umtalsvert vinnuframlag sem liggur að baki slíkum launum. Það hefur áður komið fram hér á heimasíðu félagsins að það er svona starfsemi sem skiptir okkur Íslendinga gríðarlega miklu máli, fyrirtæki sem skapa íslensku þjóðarbúi gjaldeyristekjur, tekjur sem gera það að verkum að við getum haldið úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í. Nú er bara að vona að hvalveiðarnar muni hefjast að nýju að ári því það er morgunljóst að á meðan á vertíðinni stendur má segja að áhrif veiðanna og vinnslunnar séu ígildi stóriðju og því má kannski segja að hér sé um vistvæna stóriðju að ræða.  

23
Sep

Þess krafist að útgerðarfyrirtæki skili góðri afkomu til fiskvinnslufólks í komandi kjarasamningum

Fyrir helgi var haldin kjaramálaráðstefna Starfsgreinasambands Íslands þar sem til umfjöllunar var mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamningviðræðna.

Niðurstaða fundarins var sú að samið verði til skamms tíma vegna óvissu í efnahagsmálum og eru menn að horfa á samning sem myndi gilda í 6 til 12 mánuði.  Það hefur bæði  kosti og galla að semja til skamms tíma. En grundvallaratriðið, óháð því hvort samið verði til skamms eða lengri tíma, er að horfið verði frá þeirri láglaunastefnu sem hér hefur viðgengist í áratugi og einnig að sótt verði af fullri hörku gagnvart þeim greinum sem hafa klárlega svigrúm til launahækkana eins og t.d. fiskvinnslan.

Það var því afar ánægjulegt að algjör einhugur var á kjaramálaráðstefnunni um að sækja á þessar greinar eins og fiskvinnsluna óháð því hversu langur samningstíminn verður. 

Það liggur fyrir að útgerðin er að skila sögulegum hagnaði ár eftir ár og nú er komið að fiskvinnslufólki að fá að njóta ávinningsins af góðri afkomu í greininni og ekki veitir af þar sem laun fiskvinnslufólks eru til skammar, en eftir 15 ára starf er starfmaður með um 250 þúsund í heildarlaun með bónus. Rétt er að geta þess að fleiri greinar í útflutningi eru að gera það gott um þessar mundir eins og t.d. ferðaþjónustan og því mikilvægt að laun í ferðaþjónustu hækki í samræmi við góða afkomu í greininni.

Það kom einnig skýrt fram á ráðstefnunni að ekki er vilji til að hækka iðgjöld í samtryggingu lífeyrissjóðanna og því fagnar formaður innilega, því það er algjörlega galið að hækka iðgjöldin á meðan lífeyrissjóðskerfið getur ekki sýnt fram á sjálfbærni.

Einnig kom fram að Starfsgreinasambandið vill ekki vera í samfloti með öðrum landssamtökum hvað launalið kjarasamninga ræðir. Ástæðan er sú að Starfsgreinasambandið hefur gríðarlega sterka stöðu hvað varðar sókn til launahækkana eins og t.d. í fiskvinnslunni og töldu ráðstefnumenn hag SGS betur borgið eitt og sér. Hins vegar voru menn sammála því að vera í samfloti með öðrum landssamböndum í sameiginlegum réttindamálum eins og t.d. því sem lýtur að stjórnvöldum.

Aðalmálið er samt sem áður það að mjög mikilvægt er að horfið verði frá þeirri láglaunastefnu sem hér hefur ríkt um allanga hríð og launakjör þeirra tekjulægstu verði hækkuð allverulega í komandi kjarasamningum.  

19
Sep

Samfylkingarmennirnir Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness

Í morgun komu Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar og Guðbjartur Hannesson fyrrv. velferðarráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins og átti formaður með þeim um 40 mínútna spjall um hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum launafólks og skuldsettra heimila.

Þetta var fínn fundur þar sem farið var yfir víðan völl, m.a. var fjallað um verðtrygginguna, skuldamál heimilanna, leigumarkaðinn, lífeyrissjóðina, Evrópusambandið og lágmarkslaun á Íslandi. Formaður fór yfir með þeim félögum hversu gríðarlega mikilvægt það væri að ná tökum á skuldavanda heimilanna og mikilvægi þess að afnema hér verðtryggingu á neytendalánum. Formaður upplýsti þá félaga um að þetta hafi verið baráttumál Verkalýðsfélags Akraness í fjöldamörg ár þar sem félagið hefur lagt fram fjölmargar tillögur og ályktanir um afnám verðtryggingar og að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur.

Leigumarkaðinn bar einnig á góma og nauðsyn þess að byggja upp öflugan og heilbrigðan leigumarkað svo fólk hafi kost á öruggum búseturétti til langframa á viðráðanlegum kjörum.

Formaður fór einnig yfir það að lágmarkslaun á Íslandi eru skammarlega lág og velti þeim möguleika upp að ef verkalýðshreyfingunni tekst ekki að lagfæra hér lágmarkslaun þannig að þau nálgist þau neysluviðmið sem gefin hafa verið út, þá þurfi Alþingi jafnvel að grípa til lagasetningar þar sem kveðið verði á um lágmarkslaun á Íslandi. Því það er ekki hægt að bjóða verkafólki upp á laun sem eru langt undir öllum neysluviðmiðum sem gefin hafa verið út af opinberum aðilum.

Þeir félagar töldu afar mikilvægt að halda aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram, en formaður tjáði þeim að hans persónulega afstaða væri einfaldlega sú að spyrja ætti þjóðina að því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vildi halda áfram aðildarviðræðum eða ekki og ef þjóðin vildi halda áfram viðræðum þá yrði slíkur samningur lagður undir þjóðina í annarri atkvæðagreiðslu.

Formaður fór líka yfir þann vanda sem lífeyrissjóðskerfið stendur frammi fyrir, en frá hruni hafa lífeyrissjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði verið skertir um 130 - 150 milljarða króna, samt er tryggingafræðilegur halli þeirra yfir 100 milljarðar. Og þessu til viðbótar er rétt að geta þess að iðgjöld hafa verið hækkuð um 20% frá árinu 2006 á hinum almenna vinnumarkaði án þess að réttindaávinnslan hafi hækkað til samræmis við þá hækkun. Þetta sýnir að lífeyrissjóðskerfið er á engan hátt sjálfbært og þarf að endurskoðast algerlega frá grunni, því það er t.d. æði margt sem bendir til þess að ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna upp á 3,5% viðhaldi allt of háum vöxtum hér á landi.

Eins og áður sagði var þetta fínn fundur þar sem menn skiptust á skoðunum og telur formaður sig hafa getað komið mörgum álitamálum er lúta að hagsmunum alþýðunnar og skuldsettra heimila vel á framfæri við þá félaga og ítrekaði hann m.a. að mikilvægasta hagsmunamálið væri leiðrétting á forsendubrestinum og afnám verðtryggingar.

12
Sep

Kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi kjarasamninga

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur mótað og samþykkt kröfugerð vegna kjarasamninga á hinum almenna vinnumakaði, en samningarnir renna út nú í lok nóvember.

Kröfugerð félagsins byggist á því að stíga stór skref í áttina að því að horfið verði frá þeirri láglaunastefnu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og áratugum en félagið vill sjá lágmarkslaun hækka úr 204.000 kr. í 250.000 kr. eða sem nemur um 22,5% við undirritun samningsins. Félagið telur þetta vera ágætis fyrsta skref í að brjótast út úr vítahring láglaunastefnunnar.

Kröfugerðin byggist meðal annars á hugmyndum um nýja launatöflu fyrir verkafólk þar sem 16 lægstu launaflokkarnir í eldri töflu eru þurrkaðir út og byggð upp ný launatafla. Einnig eru starfsaldurshækkanir auknar, en í gömlu töflunni munar einungis rétt rúmum 3% á milli byrjanda og starfsmanns sem hefur starfað í 7 ár. Í nýju töflunni verður launamunurinn 7% á milli sjö ára taxta og byrjanda. Rétt er að geta þess að lægsti launataxti verkafólks í dag er einungis rétt rúmar 191 þúsund krónur fyrir fulla dagvinnu. 

Það verður að vera þjóðarsátt um að hækka launataxta verkafólks svo um munar því það sér hver einasti maður að þau lágmarkslaun og taxtar sem verkafólki er boðið uppá duga engan veginn til að verkafólk geti framfleytt sér og sínum.

Samfélagið í heild sinni verður að brjótast út úr vítahring láglaunastefnunnar og bjóða verkafólki mannsæmandi laun fyrir sína vinnu.  Það er alveg spurning hvort fyrirtæki sem ekki geta boðið sínum starfsmönnum uppá dagvinnulaun sem nema 250 þúsundum á mánuði eigi yfir höfuð tilverurétt á íslenskum vinnumarkaði.

Síðan má ekki gleyma því að það eru til atvinnugreinar sem geta svo sannarlega hækkað laun sinna starfsmanna svo um munar og nægir að nefna ferðaþjónustuna, sjávarútvegsfyrirtæki og stóriðjurnar.  Það er t.d. gríðarlegt sóknarfæri til að leiðrétta launakjör fiskvinnslufólks, enda er hagnaður útgerðarinnar mjög mikill um þessar mundir sem birtist m.a. í ofurarðgreiðslum til eigenda, nú er komið að fiskvinnslufólki að fá hluta í þessum ofurhagnaði! Hvernig má það t.d. vera að sérhæfður fiskvinnslumaður eða -kona séu einungis með 198.000 kr. í grunnlaun eftir 15 ára starf í ljósi þess mikla hagnaðar sem útgerðin er að skila?

Það er morgunljóst að það eru mikil sóknarfæri til að leiðrétta og lagfæra kjör verkafólks eins og í þeim atvinnugreinum sem nefnd voru hér að ofan og verkalýðshreyfingin verður að standa í lappirnar og leiðrétta laun þessara aðila svo um munar. 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélag Akraness ítrekar það að nú verður samfélagið í heild sinni að vera sammála um að brotist verður út úr vítahring láglaunastefnunnar með markvissum skrefum.

Kröfugerðina í heild sinni er hægt að nálgast hér.

06
Sep

Láglaunastefna og lífeyrissjóðir

Nú er mikið fjallað um þá láglaunastefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin ár og áratugi og t.d. hefur Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands skrifað margar greinar um að hækka þurfi lágmarkslaun hér á landi svo um munar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt bæði í ræðu og riti að lágmarkslaun og launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði séu verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og samfélaginu öllu til skammar.  En í dag eru lægstu launataxtar einungis rétt rúmar 191.000 kr. og lámarkstekjutrygging kr. 204.000.  Það sér hver einasti maður er það er ekki nokkur vegur fyrir þá sem starfa á slíkum launum að framfleyta sér eða sínum. En hvað veldur því að láglaunastefnan fær að viðgangast í íslensku samfélagi eins raun ber vitni um? Að sjálfsögðu ber verkalýðshreyfingin þar stóra ábyrgð.

Getur verið að Herdís Dröfn Baldvinsdóttir, sem er með doktorspróf í atvinnulífsfræðum og stjórnun hafi hitt naglann á höfuðið í doktorsritgerð sem hún skrifaði árið 1999 um Tengslanet fjárhagslegra afla á Íslandi. Í þeirri ritgerð gagnrýnir hún harðlega þau fjármálatengsl sem eru á milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins í gegnum stjórnir lífeyrissjóðanna. Herdís varpar því fram hvort tenging verkalýðshreyfingarinnar við lífeyrissjóðina geti hugsanlega haft þau áhrif að hér sé rekin láglaunastefna vegna þess að arðsemiskrafa þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir fjárfesta í er svo gríðarleg. Það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir eiga orðið stóran hluta í flestum fyrirtækjum hér á landi, sem dæmi þá eiga lífeyrissjóðirnir uppundir 40% í Högum sem á meðal annars verslunarkeðjuna Bónus.

Getur verið að sú láglaunastefna sem rekin er í stórmörkuðum vítt og breitt um landið sé vegna arðsemiskröfu lífeyrissjóðanna á hendur þessara fyrirtækja? Hefur Herdís rétt fyrir sér um að tengsl verkalýðshreyfingarinnar við Samtök atvinnulífsins í gegnum lífeyrissjóðina sé orsakavaldur láglaunastefnunnar hér á landi? Þetta er alla vega eitthvað sem svo sannarlega þarf að rannsaka. Rétt er að vekja athygli á lokaritgerð tveggja nemenda við Háskólann í Reykjavík þar sem spurt var: Er 3,5% ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna raunhæft til framtíðar? En niðurstaða þeirra var sú að 3,5% ávöxtunarviðmið sé ekki rauhæft til framtíðar litið, enda er 3,5% töluvert fyrir ofan hagvöxt hér á landi síðustu ára En það vekur ennþá meiri athygli sem segir í niðurstöðum rannsóknarinnar að 3,5% vaxtaviðmiðið geri það að verkum að neikvæð tryggingafræðileg staða sjóðanna sé stórlega vanmetin sökum of hárrar ávöxtunarkröfu.

Það er æði margt sem bendir til þess að ef ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna yrði t.d. lækkað úr 3,5% niður í 2,5% sem er mun raunhæfari raunávöxtun, þá myndi það leiða af sér að skerða þyrfti réttindi sjóðsfélaga um allt að 20%. Með öðrum orðum er verið að lofa almenningi miklu hærri lífeyri vegna 3,5% ávöxtunarviðmiðsins heldur en verður svo á raunveruleika.

Því spyr formaður: hvaða hag hafa launþegar af því að vera með lífeyriskerfi sem hugsanlega murkar úr okkur lífið áður en kemur að töku lífeyris, m.a. vegna láglaunastefnu og glórulausra ávöxtunarviðmiða upp á 3,5% sem hugsanlega hefur gert það að verkum að vaxtakjör hér á landi eru miklu hærri en þau ella þyrftu að vera. 

03
Sep

Undirbúningur vegna komandi kjarasamninga að hefjast af fullum krafti

Bæta þarf kjör fiskvinnslufólks svo um munar í komandi kjarasamningumEins og allir íslenskir launþegar vita þá styttist nú óðfluga í að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renni út en það gerist í lok nóvember. Undirbúningur Verkalýðsfélags Akraness að mótun kröfugerðar er nú að hefjast af fullum þunga og hefur stjórn og trúnaðarráð félagsins verið kallað til fundar á næsta mánudag þar sem farið verður yfir hugmyndir að mótun kröfugerðar en stjórn og trúnaðarráð er aðal samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness.

Það er morgunljóst að komandi kjarasamningar verða erfiðir. Minnkandi kaupmáttur íslensks verkafólks er verulegt áhyggjuefni. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá er eitt af forgangsverkefnum í komandi kjarasamningum að lagfæra kjör almenns verkafólks í íslensku samfélagi. Verkafólks sem hefur mátt þola að fá einungis þær umsömdu prósentuhækkanir sem hafa verið í kjarasamingum. Almennt verkafólk hefur ekki verið að njóta þess launaskriðs sem sést hefur í hækkun á launavísitölunni. Það launaskrið virðist einskorðast við starfsfólk í fjármálageiranum og öðrum slíkum stofnunum. Nú síðast hækkuðu laun ríkisforstjóra um tugi prósenta eftir ákvörðun kjararáðs og í sumum tilfellum hækkuðu mánaðarlaun ríkisforstjóra um hærri upphæð heldur en heildarlaun fiskvinnslukonu sem starfað hefur í greininni í 15 ár. Hækkunin hjá Seðlabankastjóra nam til dæmis yfir 250 þúsund krónum á mánuði en áðurnefnd fiskvinnslukona rétt nær slíkum heildarlaunum á mánuði.

Það er hvellskýrt að það eru til greinar á íslenskum vinnumarkaði sem hafa klárlega burði til að lagfæra og leiðrétta launakjör sinna starfsmanna og nægir að nefna greinar eins og ferðaþjónustuna svo ekki sé talað um launakjör hjá fiskvinnslufólki. Það liggur til dæmis fyrir að hagnaður útgerðarfyrirtækja á Íslandi nam á síðasta ári yfir 60 milljörðum króna og á þeirri forsendu verður það meðal annars að vera eitt af forgangsverkefnunum í komandi baráttu að lagfæra kjör þeirra sem starfa í þeirri grein. Það er með öðrum orðum bullandi tækifæri hjá verkalýðshreyfingunni til að bæta stöðu áðurnefndra hópa í komandi kjarasamningum en til að það náist verður íslensk verkalýðshreyfing að standa saman sem einn maður og hvika hvergi frá þeirri kröfu að áðurnefndar greinar skili sínum ávinningi til sinna starfsmanna. Það liggur meðal annars fyrir að búið er að lækka auðlindagjald á útgerðina og það eitt og sér gefur útgerðinni svo sannarlega svigrúm til að skila góðri afkomu í vasa sinna starfsmanna.

Lágmarkslaun á Íslandi eru verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og í raun og veru samfélaginu öllu til ævarandi skammar en lágmarkslaun í dag nema 204 þúsund krónum og það sér hver einasti maður að á slíkum launum er á engan hátt hægt að framfleyta sér eða sínum. Lágmarkslaunin eru langt undir þeim neysluviðmiðum sem gefin hafa verið út. Á þeirri forsendu er afar brýnt að lágmarkslaun á Íslandi verði hækkuð umtalsvert og um það þarf að ríkja þjóðarsátt því misskiptingin á Íslandi hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og það má kannski segja að þær prósentuhækkanir sem hafa tíðkast í kjarasamingum á hinum almenna vinnumarkaði hafi algjörlega ýtt undir þessa misskiptingu. Tökum dæmi. Einstaklingur sem er með 1,1 milljón í mánaðarlaun og laun samkvæmt kjarasamingum hækkar um 4% í launum, þá fær slíkur einstaklingur hækkun sinna launa sem nemur 44 þúsundum en einstaklingur sem er á lágmarkslaunum og fær sömu prósentuhækkun fær einungis 8 þúsund króna hækkun og er hér um mismun að ræða sem nemur 36 þúsund krónum á mánuði. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hvernig prósentuhækkanir í kjarasamningum gera lítið annað en að auka bilið á milli þeirra sem hæstar tekjur hafa og þeirra sem eru tekjulægri. Því gæti það verið skynsamlegt að menn semji nú um fastar krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana í komandi kjarasamningum.

Grundvallaratriðið er hinsvegar það að verkalýðshreyfingin beri gæfu til að taka stöðu með sínum félagsmönnum og standi vörð um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og berjist af alefli fyrir því að kjör þessara aðila verði bætt svo eftir verði tekið. Verkalýðsfélag Akraness mun svo sannarlega reyna sitt allra besta til að svo verði.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image