• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Gríðarleg samstaða á meðal starfsmanna Elkem Starfsmaður Elkem að störfum
28
Feb

Gríðarleg samstaða á meðal starfsmanna Elkem

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni á félagið í harðri kjaradeilu vegna starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga. Einnig hefur komið fram að yfirvinnubann hefur nú staðið yfir í 6 daga og er þetta yfirvinnubann einn liður í því að reyna að ná fram sanngjörnum og réttlátum kröfum starfsmanna um hækkun launa.

Í gærmorgun lá orðið fyrir að Samtök atvinnulífsins höfnuðu því alfarið að láta Verkalýðsfélag Akraness hafa þá kjarasamninga sem gerðir höfðu verið á hinum almenna vinnumarkaði, og einnig við síldarbræðslurnar fyrir austan og í Vestmannaeyjum, nema félagið myndi skuldbinda sig til að ganga í takt við samræmda launastefnu ASÍ og SA. Launastefnu sem kveður einungis á um 2,8% launahækkun. Slíkri kröfu hefur Verkalýðsfélag Akraness algjörlega hafnað og ríkir algjör einhugur á meðal starfsmanna Elkem um að slíka launahækkun verði ekki undir nokkrum kringumstæðum samið um.

Um hádegið í gær höfðu Samtök atvinnulífsins samband við félagið og viðruðu þá hugmynd hvort félagið vildi skoða að gera samning til lengri tíma fyrir Elkem en gerður var á hinum almenna vinnumarkaði og snerust þær hugmyndir þá um 2-3 ára samning. Slík hugmynd er í anda þess sem félagið sjálft hefur meðal annars viðrað bæði við forsvarsmenn fyrirtækisins og við Samtök atvinnulífsins þannig að það hefur alltaf legið fyrir að þessa leið væri félagið til í að skoða. Enda mun slík leið verða þess valdandi að félagið er ekki þátttakandi í þeirri samræmdu launastefnu sem samið hefur verið um.

Félagið hélt tvo öfluga starfsmannafundi í gær með starfsmönnum Elkem og fóru þeir fram á Gamla kaupfélaginu á Akranesi. Á þeim fundum var farið ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari kjaradeilu og það var gríðarlega ánægjulegt og jákvætt að finna þá ofboðslegu samstöðu sem ríkir á meðal starfsmanna í þessari kjaradeilu. Þessi ákvörðun SA varð þess valdandi að starfsmenn samþykktu að fresta því í nokkra daga að láta kjósa um verkfall í fyrirtækinu og vilja menn sjá hvort kjaraviðræðurnar í byrjun næstu viku muni skila einhverjum árangri eður ei. Krafa starfsmanna er alveg skýr. Ef kjaraviðræðurnar í byrjun næstu viku skila ekki árangri og fyrirtækið og SA koma ekki verulega til móts við kröfur starfsmanna þá verður kosið um allsherjarverkfall hjá Elkem Ísland á Grundartanga um miðja næstu viku.

Það liggur fyrir að fyrirtækið hefur leitað til mikillar hagræðingar er tengist starfsmannahaldi og á það reyndar við um flest fyrirtæki sem tengjast stóriðju. Sem dæmi hefur launakostnaður Elkem Ísland á Grundartanga lækkað um tæp 10% hjá verkafólki á árunum 2012 og 2013. Þessa lækkun má rekja til þess að starfsmönnum hefur fækkað og hefur sú fækkun leitt af sér stóraukið álag á þá starfsmenn sem eftir eru. Formaður fór líka yfir það á fundinum að hlutfall launa af heildarveltu fyrirtækisins er afar lágt en það nemur einungis 6,15% af heildarveltunni. Þetta er umhugsunarefni því það sama er uppi á teningnum hjá Norðuráli á Grundartanga, þar er hlutfall launa af heildarveltu einungis 6,85%. Með öðrum orðum, önnur atriði sem hafa áhrif á rekstur þessara fyrirtækja eru rúm 93%. Því má segja að hækkun launa hefur ekki mikil áhrif á það hver rekstrarafkoma stóriðja er.

Að mati formanns félagsins eru það forréttindi að fá að stjórna stéttarfélagi þar sem slíkur einhugur og samstaða ríkir þegar kemur til jafnalvarlegra átaka eins og félagið á nú í. Það morgunljóst að forystumaður í stéttarfélagi er ekki neitt nema hann njóti víðtæks stuðnings sinna félagsmanna í þeirri kjarabaráttu sem félagið stendur í á hverjum tíma fyrir sig. Samstaða er hornsteinninn í allri verkalýðsbaráttu á Íslandi en því miður er þeirri samstöðu ekki til að dreifa þegar horft er yfir verkalýðshreyfinguna í heild sinni. Nægir að nefna í því samhengi að það eru fjögur önnur stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi Elkem á Grundartanga en þau hafa neitað að taka þátt í þeirri kjarabaráttu sem háð er nú á Grundartanga og neitað að taka þátt í yfirvinnubanninu sem allir sem þátt tóku í kosningu um bannið samþykktu. Þetta er að mati formanns þeim félögum til skammar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image