• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Feb

Orrustan töpuð en stríðinu ekki lokið

Verksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaVerksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaRétt í þessu var að ljúka fundi hjá ríkissáttasemjara vegna tveggja kjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er með til úrlausnar hjá honum. Eins og fram kom í fréttum í gær þá lagði sáttasemjari fram innanhússtillögu til lausnar á kjaradeilunni á hinum almenna vinnumarkaði. Með innanhússtillögu ríkissáttasemjara fær launafólk þær hækkanir sem um var samið í desembersamningnum, þ.e. einn launaflokk og 8.000 króna hækkun auk 2,8% hækkun á aðra launaliði. Með nýju kjarasamningunum fær launafólk innan SGS að auki samtals 32.300 króna hækkun á desember- og orlofsuppbætur. Desemberuppbót verður þá 73.400 krónur fyrir fullt starf en orlofsuppbót verður 39.500 krónur fyrir fullt starf. Þar sem samningurinn hefur dregist fær launafólk að auki 14.600 króna eingreiðslu í stað launahækkunar í janúar.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að þessi viðbótarhækkun sé skref í rétta átt þó vissulega hefði hann viljað sjá frekari kjarabætur til handa tekjulægstu hópunum og einnig að tekið hefði verið tillit til þeirra félagsmanna sem starfa hjá útflutningsfyrirtækjum eins og til dæmis í fiskvinnslunni þar sem hagnaður útgerðarinnar á undanförnum árum hefur verið ævintýralegur. Formaður hefði viljað sjá að fiskvinnslufólk fengi meiri ávinning en raun ber vitni í þessum nýja samningi. Hinsvegar ítrekar formaður það að þetta er skref í rétta átt og sýnir svo ekki verður um villst að barátta Verkalýðsfélags Akraness fyrir því að kjarasamningurinn yrði felldur hefur borið árangur þótt ekki sé hann mikill. Hinsvegar er rétt að geta þess að það eru 48.000 félagsmenn í Starfsgreinasambandi Íslands og því hefur þessi barátta Verkalýðsfélags Akraness og nokkurra annarra stéttarfélaga skilað í heildina fyrir félagsmenn SGS 1,5 milljarði króna. Ef að þetta gengur yfir alla félagsmenn hjá Alþýðusambandi Íslands þá hefur þessi barátta VLFA og annarra félaga skilað í heildina rúmum 3 milljörðum króna. Við skulum hafa það hugfast að allflest félög innan ASÍ vildu að samningurinn frá 21. desember yrði samþykktur en nú hefur komið í ljós að það var meiri innistæða eins og nýr kjarasamningur staðfestir. Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að hafa þó tekið þátt í því að skila þessari kjarabót þó formaður undirstriki það að hann hefði viljað sjá alvöru samstöðu meðal félaga innan SGS og að sóttar hefðu verið enn frekari kjarabætur. Því má segja að þessi orrusta hafi tapast að hluta til en stríðið er ekki búið.

En það skrautlega í þessu öllu saman er það að Samtök atvinnulífsins vildu beita Verkalýðsfélagi Akraness algjöru ofbeldi. Þær kröfur voru gerðar að ef Verkalýðsfélag Akraness myndi taka þennan nýja samning þá væri félagið einnig að skuldbinda sig til þess að fara í svokallaða samræmda launastefnu sem kveður á um það að allir sérkjarasamningar félagsins, meðal annars við stóriðjurnar á Grundartanga og síldarbræðsluna, skyldu fá sömu launahækkun. Sú hækkun nemur rúmum 3% í heildina og slíkt gat Verkalýðsfélag Akraness ekki samþykkt gagnvart útflutningsfyrirækjum og telur sig reyndar ekki hafa neina lagalega heimild, hvað þá siðferðislega, til að ganga frá launalið annarra samninga, eins og til dæmis við Elkem Ísland, Norðurál og síldarbræðsluna í þessum kjarasamningi sem kveður einungis á um rúmlega 3% launahækkun. Á mannamáli þýðir þetta að launahækkanir sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði skuli gilda fyrir alla aðra kjarasamninga og sérskjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði sem aðildarfélög ASÍ við SA eiga eftir að gera. Í huga formanns er þetta algjört ofbeldi sem Samtök atvinnulífsins beita þarna.

Já, það er mikilvægt fyrir almennt launafólk sem er með sérkjarasamninga að átta sig á þeirri bláköldu staðreynd að búið sé að gera bókun sem kveður á um að stéttarfélögin eru algjörlega skuldbundin til að ganga frá sambærilegum launahækkunum vegna þeirra kjarasamninga sem enn eru ógerðir. Þessi gjörningur ASÍ hvað varðar samræmda launastefnu er formanni gjörsamlega óskiljanlegur.

Staðan er semsagt þannig núna að Verkalýðsfélag Akraness er eitt aðildarfélaga ASÍ með óundirritaða kjarasamninga. Og staðan er einnig þannig að yfirvinnubann mun skella á í Elkem Ísland af fullum þunga á hádegi á sunnudaginn næstkomandi og er engan bilbug að finna á félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness hvað þá deilu varðar. En formanni finnst ömurlegt að ekki skuli ríkja alvöru samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar til að standa í lappirnar gagnvart þeim atvinnugreinum sem vitað er að geti hæglega skilað sínum góða ávinningi til sinna starfsmanna í formi launahækkana.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image