• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Mar

Fundað hjá ríkissáttasemjara á morgun vegna Elkem

Járnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaJárnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaEins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá rann kjarasamningur Elkem Ísland út 1. desember síðastliðinn. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að koma á kjarasamningi hefur það ekki tekist. Fyrir þónokkrum vikum síðan vísaði félagið deilunni til ríkissáttasemjara og undir hans handleiðslu hafa verið haldnir 5 fundir án árangurs. Á síðasta mánudag var fundur með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara en því miður gerðist æði lítið á þeim fundi. Á morgun er fyrirhugaður fundur hjá sáttasemjara í þessari deilu og væntir formaður þess að Samtök atvinnulífsins muni leggja fram einhvers konar tilboð þá.

Fyrir rúmri viku síðan hófst yfirvinnubann hjá starfsmönnum Elkem en það er einn liður í því að knýja fram sanngjarnar og eðlilegar kjarabætur fyrir starfsmennina. Það er ljóst að ef ennþá mun bera mikið í milli á fundinum á morgun þá verður fátt annað í stöðunni en að boða tafarlaust til fundar með starfsmönnum. Næsta skref er því væntanlega að kjósa um verkfall ef ekkert miðar áfram til lausnar á deilunni.

Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá þá miklu samstöðu og einhug sem ríkir á meðal starfsmanna fyrirtækisins í þessari deilu og er ekki nokkurn bilbug að finna á samtakamætti starfsmanna. Ljóst er að ögurstund í þessari deilu mun væntanlega renna upp á morgun. Það liggur fyrir að störf í stóriðjum eru krefjandi, áhættusöm og erfið og því mikilvægt að launakjör þeirra endurspegli þessar bláköldu staðreyndir. Það liggur til að mynda fyrir að Elkem Ísland hefur hagrætt í launakostnaði verkafólks á liðnum misserum en launakostnaður fyrirtækisins hefur lækkað um tæp 10% á milli ára. Það endurspeglar það að starfsfólki hefur fækkað sem hefur leitt af sér stóraukið álag á þá sem eftir eru. Það má líka segja og hafa í huga að launakostnaður stóriðja almennt er afar lágur sé tekið tillit til heildarveltu þessara fyrirtækja. Sem dæmi þá liggur fyrir að launakostnaður af heildarveltu Elkem er einungis 6,15%. Það verður líka að hafa í huga að Elkem er útflutningsfyrirtæki og það hefur verið stefna VLFA að fyrirtæki í útflutningi sem hagnast hafa á falli íslensku krónunnar skili þeim ávinningi með einhverjum hætti til starfsmanna.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image