• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Feb

Skrifað undir sáttatillögu vegna kjarasamnings á almennum vinnumarkaði

Nú í morgun skrifuðu fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins undir sáttatillögu ríkissáttasemjara vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þessi sáttatillaga er viðauki við kjarasamninginn sem mörg félög undirrituðu þann 21. desember sl.

Í viðaukanum felst að kjarasamningurinn frá 21. desember 2013 tekur gildi 1. febrúar, en með þeim breytingum að orlofsuppbætur hækka samtals um 32.300 kr., en desemberuppbót verður kr. 73.600 og orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 verður 39.500. Einnig kemur til sérstök eingreiðsla kr. 14.600 í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014. Miðast upphæðin við fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014. Samningurinn gildir til loka febrúar 2015.

Launabreytingar eru þær að frá 1. febrúar 2014 skulu laun og kauptaxtar hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma. Kauptaxtar kr. 230.000 og lægri á mánuði hækka sérstaklega um jafnvirði eins launaflokks. Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um kr. 9.565 og launaflokkur 17 , eftir sjö ár, hækkar um kr. 10.107. Lágmarkslaun verða kr. 214.000 á mánuði fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

Sáttatillöguna má sjá í heild sinni hér.

Í næstu viku fer fram kosning um sáttatillöguna og verður kjörfundur á skrifstofu VLFA frá kl. 10:00 mánudaginn 3. mars og stendur hann yfir til kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 7. mars. Hægt er að kjósa á opnunartíma skrifstofu milli kl. 8 og 16, en einnig er hægt að óska eftir því að fulltrúar félagsins mæti á vinnustaði og gefi fólki kost á að kjósa þar.

Í morgun var einnig skrifað undir kjarasamning fyrir starfsmenn Síldarbræðslunnar og munu starfsmenn fá kynningu í næstu viku og kjósa um samninginn þá.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image