• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jan

Kjarasamningar - næstu skref

Eins og allir vita þá voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði víða kolfelldir og sem dæmi þá felldu upp undir 60% félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands nýgerðan kjarasamning. Formaður Verkalýðsfélags Akraness er ánægður með að íslenskt verkafólk skuli hafa sýnt í verki að það sé ekki tilbúið að láta hvað sem er yfir sig ganga.

Það var æði margt í þessum samningi sem varð þess valdandi að hann fékk þá útreið sem raun bar vitni, nægir að nefna í því samhengi að launahækkanir til handa íslensku verkafólki voru einfaldlega allt of rýrar og smávægilegar til að verkafólk gæti sætt sig við þær. Þessu til viðbótar ákváðu stjórnvöld að skilja eftir tekjulægsta fólkið þegar kom að skattabreytingum, sem birtust í þeirri mynd að hátekjufólk með yfir 800.000 krónur á mánuði var að fá skattalækkun sem nam allt að 42.000 á meðan verkafólk með tekjur undir 250.000 fékk ekki eina einustu krónu í lækkun. Við slíkt er eðli málsins samkvæmt alls ekki hægt að una. Þessu til viðbótar mátti á engan hátt taka tillit til atvinnugreina sem svo sannarlega höfðu borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert og nægir að nefna ferðaþjónustuna svo ekki sé talað um sjávarútvegsfyrirtækin sem hafa hagnast um 40 milljarða eftir skatta ár hvert á undanförnum árum.

Krafa Starfsgreinasambandsins var ekki aðeins skýr, heldur var hún í raun og veru hógvær. Hún gerði ráð fyrir 20.000 króna hækkun á launum verkafólks og tekið yrði tillit til launaflokkahækkana í greinum sem starfa í útflutningi, t.d. hjá fiskvinnslufólki.

Það er óhætt að segja að upp sé komin afar skrýtin og flókin staða innan verkalýðshreyfingarinnar, en verkalýðshreyfingunni ber skylda gagnvart sínum félagsmönnum að vinna úr þeirri flóknu stöðu sem upp er komin. Sú vinna er fólgin í því að hlusta á grasrótina í verkalýðshreyfingunni, hlusta á okkar félagsmenn og berjast af alefli fyrir bættum kjörum okkar fólks. Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill undirstrika það að slík barátta skilar aldrei árangri nema með samstöðu. Samstaðan er það sem skilar árangri. Því ber félögum innan Starfsgreinasambands Íslands skylda til þess að taka höndum saman og vinna að því að ná þeim markmiðum sem voru fólgin í kröfugerðinni, og forystan verður að átta sig á því að þeir launataxtar sem íslensku verkafólki standa til boða eru einfaldlega allt of lágir og langt undir öllum opinberum framfærsluviðmiðum. Eða með öðrum orðum, lágmarkslaun á Íslandi duga ekki fyrir lágmarksframfærslu og að fólk geti haldið mannlegri reisn.

Næstu skref verða því að vera að formenn SGS fundi og taki ákvörðun um hvort menn ætli að vera saman og vinna að því að bæta kjör okkar félagsmanna og reyna eftir fremsta megni að ná eins langt í þeim efnum og kostur er. En það er morgunljóst eins og formaður hefur ætíð sagt á öllum samningafundum SGS að til að ná árangri þá verður að ríkja samstaða.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image