• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Nov

Formaður VLFA fundar með forsætisráðherra

Formaður félagsins fundaði með forsætisráðherra síðastliðinn föstudag, en hin ýmsu mál voru til umræðu á þessum fundi, en eðli málsins samkvæmt bar kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði töluvert á góma. Formaður sagði við forsætisráðherra að það væri mjög mikilvægt að það næðist þjóðarsátt um að lagfæra og leiðrétta kjör tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi og upplýsti hann forsætisráðherrann um að lægsti taxti á íslenskum vinnumarkaði í dag næmi einungis rétt rúmum 191.000 krónum og eru þessir lágmarkstaxtar langt frá öllum framfærsluviðmiðum sem opinberir aðilar hafa gefið út.

Einnig nefndi formaður við forsætisráðherra að mjög mikilvægt væri að hækka frekar persónuafsláttinn heldur en að lækka miðþrep úr 25,8% niður í 25%, enda er ljóst að hækkun persónuafsláttar kemur þeim tekjulægstu hlutfallslega hvað best. En miðað við lækkun á miðþrepinu þá eru það þeir tekjuhæst sem munu fá mest, en allir þeir sem eru undir 250.000 krónum á mánuði munu hins vegar ekki fá neitt.

Einnig voru skuldamál heimilanna og afnám verðtryggingar til umræðu, en formaður situr í sérfræðingahópi um afnám verðtryggingar og stefnir hópurinn að því að skila af sér fyrir tilsettan tíma sem er í lok desembermánaðar. Það hefur verið baráttumál Verkalýðsfélags Akraness allt frá 2009 að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur og verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. En samhliða því hefur félagið ætíð bent á að setja þurfi vaxtaþak í það minnsta tímabundið vegna fákeppni á bankamarkaði, enda eru samkeppnisskilyrði á bankamarkaði nánast engin. Forsætisráðherra greindi formanni frá því að þessar aðgerðir í þágu heimilanna séu á áætlun, en eins og alþjóð veit þá á leiðréttingarhópurinn að skila af sér í lok þessa mánaðar og verðtryggingarhópurinn í lok desember eins og áður sagði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image