• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Oct

Launavísitalan hefur hækkað um tæp 52% en almennar launahækkanir um rúm 28% frá nóvember 2006

Þann 18. október síðastliðinn kom út ítarleg skýrsla sem aðilar vinnumarkaðsins létu gera. Þar var meðal annars farið yfir launaþróun frá nóvember 2006 og fram í maí 2013.

Það var æði margt forvitnilegt sem fram kom í þessari skýrslu. Meðal annars kom það fram að launavísitalan hefur hækkað um 51,7% á þessu tímabili. Það sem er athyglisvert við þetta er að almennar launahækkanir á hinum almenna vinnumarkaði, svokallaðar prósentuhækkanir, nema einungis 28,3% á sama tíma sem þýðir að launavísitalan hefur hækkað um 23,4%, meira heldur en launahækkanir sem um hefur verið samið á hinum almenna vinnumarkaði.

Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu að frá nóvember 2006 til maí 2013 hefur launavísitalan hækkað um tæp 52% eins og áður sagði sem gerir að meðaltali 6,7% hækkun á ári eða 0,5% á mánuði. Þetta sýnir svo ekki verður um villst það gríðarlega launaskrið sem á sér stað enda hefur launavísitalan hækkað um 82% meira heldur en almennar launahækkanir verkafólks.

Það verður að segjast alveg eins og er að það er stórundarlegt að heyra Samtök atvinnulífsins segja í öllum samningum að svigrúm til launahækkana sé lítið en síðan koma fyrirtækin, meðal annars innan Samtaka atvinnulífsins, og hækka laun í vissum geirum um allt að 82% meira en um var samið í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er rétt að geta þess að þetta umrædda launaskrið virðist eiga sér stað sérstaklega í efri lögum samfélagsins, til dæmis hjá stjórnendum, í fjármálageiranum, lífeyrissjóðunum, hjá skrifstofufólki en ekki hjá almennu verkafólki.

Þetta er eitthvað sem verkalýðshreyfingin þarf svo sannarlega að skoða. Það að semja ætíð um ákveðna prósentutölu á hinum almenna vinnumarkaði en þurfa síðan að horfa upp á það að vissir hópar í samfélaginu skammti til sín laun langt umfram það sem um hefur verið samið er grátlegt. Það sýnir svo ekki verður um villst að það er miklu meira svigrúm til staðar til launahækkanna heldur en Samtök atvinnulífsins segja til um í aðdraganda kjarasamninga eins og sagan sannar.

Einnig er rétt að rifja upp að Seðlabankinn sagði í síðustu samningum að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði hafi innihaldið alltof háar launahækkanir. Almennar launahækkanir námu 11,4% á samningstímanum en launaskriðið var hinsvegar 18,3% á sama tímabili og því er ekki hægt að segja að kjarasamningarnir hafi innihaldið of miklar hækkanir þegar launaskriðið var langt umfram gerða samninga.

Rétt er að geta þess að neysluvísitalan frá nóvember 2006 hefur hækkað um 54,6% sem þýðir að þeir sem hafa fengið kjarasamningsbundnar launahækkanir hafa orðið fyrir kaupmáttarskerðingu sem nemur 26,3% á sama tímabili.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image