• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Nov

Einhugur um kröfugerð SGS

Í gær lögðu fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands fram kröfugerð sambandsins til Samtaka atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Nú liggur fyrir að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa tekið afar fálega í kröfugerð SGS og hafa látið hafa eftir sér að á þessi kröfugerð sé ekki neinn viðræðugrundvöllur.

En um hvað er kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands? Jú, hún lýtur að því að hækka skammarlega lága launataxta sambandsins um heilar 20.000 krónur í 12 mánaða samningi. En rétt er að geta þess að lágmarkstaxti Starfsgreinasambands Íslands í dag er 191.752 krónur og við þessa hækkun myndi slíkur taxti fara upp í 211.752 krónur. Það má vel vera að fulltrúum Samtaka atvinnulífsins finnist þetta vera fáránleg kröfugerð, en menn verða að viðurkenna að það verður að lagfæra lágmarkstaxta á hinum almenna vinnumarkaði. Það liggur nú þegar fyrir að þeir eru langt undir öllum opinberum framfærsluviðmiðum og á þeirri forsendu verður að hækka þá umtalsvert.

Það kemur einnig fram í kröfugerðinni að SGS gerir kröfur til þess að kjör fiskvinnslufólks og þeirra sem starfa í ferðaþjónustu hækki enn frekar á grundvelli þeirrar staðreyndar að þessar greinar hafa svo sannarlega verið að skila góðum afkomutölum og því ekkert nema eðlilegt að t.d. fiskvinnslan og ferðaþjónustan skili þeim mikla hagnaði til sinna starfsmanna í formi góðra launahækkana.

20.000 króna hækkun er rétt rúmlega 10% launahækkun á lægstu taxta, en ástæðan fyrir því að prósentutalan er með þessum hætti er að 20.000 kr. eru að leggjast ofan á upphæð sem er svo lág fyrir. Til að setja þessa upphæð í samhengi þá var fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins með um 2 milljónir í mánaðarlaun samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Fyrir honum væri þessi 20.000 kr. hækkun aðeins 1% launahækkun. En ef hann gerði kröfu um 10% launahækkun, þá myndu laun framkvæmdarstjóra SA hækka um 200.000 kr. á mánuði.

Það þarf að ríkja þjóðarsátt um leiðréttingu og lagfæringu á lágmarkstöxtum á íslenskum vinnumarkaði, því þeir eru Samtökum atvinnulífsins, verkalýðshreytingunni og samfélaginu öllu til ævarandi skammar. Það er ánægjulegt til þess að vita að það ríkir alger einhugur innan raða Starfsgreinasambands Íslands um að fylgja fast eftir þeim kröfum sem sambandið hefur nú lagt fram. Þennan einhug hefur formaður VLFA ekki fundið áður með jafn afgerandi hætti og við mótun þessarar kröfugerðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image