• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jan

Búið að þingfesta verðtryggingarmálið sem VLFA stendur fyrir

Klukkan 10 í morgun var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir og snýst um það hvort verðtrygging hér á landi sé ólögmæt eða ekki. Látið verður á það reyna hvort verðtrygging á Íslandi standist lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og tilskipunum Evrópuréttar. Málið lýtur að svokölluðum MiFID neytendaverndarreglum ESB, sem voru lögfestar hér á landi með lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, en samkvæmt þeim er bannað að lána almenningi flókna fjármálagjörninga á borð við afleiður. Þetta er aðalkrafan í stefnunni, en til vara verður látið á það reyna hvort heimilt sé að uppreikna höfuðstól samkvæmt neysluvísitölu.

Ástæða þess að Verkalýðsfélag Akraness fer í þennan málarekstur er sú að fjöldi lögspekinga hefur ýjað að því að þessi áðurnefndu lög heimili ekki verðtryggingu til almennings þar sem um sé að ræða flókna fjármálagjörninga, svokallaðar afleiður. En ekki síður er ástæðan fyrir málsókninni sú að það er orðið fullreynt að stjórnvöld ætli sér að gera eitthvað er lýtur að verðtryggingunni og þeim skelfilega vanda sem af henni hlotist. En verðtryggðar skuldir heimilanna hafa stökkbreyst frá hruni og hafa þær nú hækka um yfir 400 milljarða króna frá 1. janúar 2008. Á meðal annars þessari forsendu sá félagið sig knúið að láta á þetta mál reyna í eitt skipti fyrir öll fyrir dómsstólum.

Það er rétt að geta þess að Hagsmunasamtök Heimilanna þingfestu sitt mál fyrir nokkrum vikum, en það er mikilvægt að fólk átti sig á því að hér er ekki verið að láta reyna á sömu lagaheimildirnar. Hagsmunasamtök heimilanna eru samkvæmt upplýsingum félagsins ekki að láta reyna á það hvort verðtryggingin sé ólögleg eða ekki. Þeir eru hins vegar að láta reyna á það hvort upplýsingaskylda fjármálafyritækja skv. 5., 6. og 7. grein áðurnefndra laga hafi verið uppfyllt, en í þeim greinum er kveðið á um að  heildarlántökukostnaður eigi allur að koma fram á lánasamningum. En eins og almenningur veit þá er oft og tíðum ekki gert ráð fyrir neinni verðbólgu inni í greiðsluáætlunum og það er það sem HH ætla að láta á reyna, að ekki sé verið að fullnægja upplýsingaskyldu lánveitanda.

En eins og áður hefur komið fram lýtur mál Verkalýðsfélags Akraness að allt öðru, þ.e. hvort verðtrygging hér á landi standist lög eða ekki, því það er mat lögmanna félagsins að það sé óheimilt með öllu að lána flókna fjármálagjörninga, svokallaðar afleiður, til einstaklinga.

Stefnan vegna þessa máls er ítarleg og nemur hún á þriðja tug blaðsíðna og það verður afar fróðlegt að sjá hvernig þetta mál fer fyrir dómstólum. Það er mat formanns VLFA að hér sé um að ræða eitt brýnasta mál skuldsettra heimila og alþýðu þessa lands fyrr og síðar og er formaður fullur bjartsýni á að jákvæð niðurstaða muni nást frá dómsstólum í þessu máli.

28
Jan

Flaggað í tilefni sigurs í Icesave-málinu

Verkalýðsfélag Akraness vill óska Íslendingum innilega til hamingju með stórglæsilegan sigur vegna Icesave-málsins. En rétt er að geta þess að stjórn VLFA var alfarið á móti því að semja um þessa greiðslu á sínum tíma og greiddi ávalt atkvæði gegn öllum ályktunum innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem kveðið var á um að mikilvægt væri að ganga strax frá samningi við Hollendinga og Breta.

Hann var ótrúlegur sá skefjalausi hræðsluáróður sem haldið var uppi á sínum tíma, m.a. var því á sínum tíma hótað að ekki yrði gengið frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði nema Icesave samningurinn yrði samþykktur. Það er full ástæða til þess að þakka öllum þeim sem börðust af alefli fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar m.a. In Defence hópnum og þeim stjórnmálamönnum sem höfðu kjark og þor til að standa í lappirnar, en síðast en ekki síst forseta Íslands sem hafði það ómælda hugrekki að gefa þjóðinni kost á að hafa lokaorð í þessu máli.

Í ljósi þessarar glæsilegu niðurstöðu ákváðu starfsmenn félagsins að flagga í tilefni dagsins og ítreka hamingjuóskir til Íslendinga með þessa glæsilegu niðurstöðu.

23
Jan

Launabreytingar 2013

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hækka almennt um 3,25% þann 1. febrúar 2013 auk þess sem reiknitölur og föst álög hækka um 3,25%, en þó ekki lægra en um 9 kr. Athygli er vakin á því að almennir kauptaxtar hækka hins vegar um ákveðna upphæð kr. 11.000,-. Þá verða lágmarkstekjur fyrir fullt starf kr. 204.000,- á mánuði. Unnið er að því að setja nýju taxtana inn á heimasíðu stéttarfélaganna.

Einnig munu laun starfsmanna Elkem Ísland og Klafa hækka frá og með 1. febrúar nk. um 3%.  En laun starfsmanna Norðuráls hækkuðu frá 1. janúar um 3,25% en hægt er að nálgast launataxtana fyrir stóriðjunar hér á heimasíðunni undir kjaramál. 

Hér má sjá kauptaxta sem gilda fyrir þá sem vinna eftir kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness á hinum almenna vinnumarkaði og Samtaka atvinnulífsins.  Kauptaxtana má nálgast hér.

18
Jan

Félagsmenn, munið eftir endurgreiðslu vegna krabbameinsleitar!

Sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness veitir félagsmönnum ýmsa styrki vegna kostanaðar við forvarnir og endurhæfingu. Einn er sá forvarnarstyrkur sem er sérstaklega mikið nýttur núna í janúar á meðan leitarstöðin er starfsrækt á Heilsugæslunni á Akranesi, en það er styrkur vegna heilsufarsskoðunar. Það sem af er janúar hafa 60 slíkir styrkir verið skráðir á skrifstofu félagsins sem er sami fjöldi og allan janúarmánuð í fyrra. 

Þær konur sem voru í krabbameinsleit á heilsugæslunni í vikunni geta komið með kvittunina á skrifstofu VLFA og fengið fulla endurgreiðslu hafi þær ekki nýtt styrkinn í eitthvað annað sl. 12 mánuði. Styrkur vegna heilsufarsskoðunar er að hámarki kr. 15.000 á hverjum 12 mánuðum og er hann 50% af kvittunum yfir 4.000 kr., en 100% þegar kvittunin er undir 4.000 kr. Að sjálfsögðu gildir þetta líka um karlmenn sem fara í krabbameinsleit.

Styrk vegna heilsufarsskoðunar er einnig hægt að nýta þegar farið er í skoðun hjá Hjartavernd, í speglanir eða röntgenmyndatökur. Félagsmenn, bæði konur og karlar, eru eindregið hvattir til að kynna sér málið. Það gæti borgað sig.

17
Jan

Fundur um verðtrygginguna í kvöld!

Það er orðið afar algengt að háskólasamfélagið, félagasamtök og stjórnmálaflokkar leiti til formanns Verkalýðsfélags Akraness og óski eftir að hann haldi erindi sem tengd eru verkalýðsmálum og þeim baráttumálum sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir.

Núna liggur til dæmis fyrir að formaður félagsins mun flytja erindi á þremur fundum á næstu dögum og vikum. Þeir fundir sem formaðurinn hefur nú þegar bókað sig á eru hjá Rotarý, Sjálfstæðismönnum í Kópavogi og í kvöld kl. 20 mun formaðurinn vera með erindi um verðtrygginguna á opnum fundi um það málefni á vegum Framsóknar en fundurinn verður haldinn í Gamla Kaupfélaginu á Akranesi.

Auk formanns félagsins mun Elsa Lára Arnardóttir, grunnskólakennari, fjalla um hvort hægt sé að lifa með verðtryggðu láni.  Síðan um Elvira Mendez Pinedo, prófessor í Evrópurétti flytja erindi um lögmæti verðtryggingar í ljósi Evrópuréttar. Einnig mun formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ávarpa fundinn.

Formaður hvetur alla til að mæta á þennan fund sem hefst í kvöld kl. 20:00 í Gamla Kaupfélaginu enda verður m.a fróðlegt að hlusta á erindið frá Elviru Mendez en mál sem Verkalýðsfélag Akraness er nú að fara að höfða vegna verðtryggingarinnar byggist m.a á því sem Elvira hefur verið að benda á.  

15
Jan

Hækkun iðgjalda í lífeyrissjóð galin

Bullandi sóknarfæri fyrir launahækkun fiskvinnslufólks var ekki nýttRétt í þessu var að ljúka formannafundi Starfsgreinasambands Íslands. Þar fór Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ yfir drög að samkomulagi við Samtök atvinnulífsins vegna endurskoðunarákvæðis í kjarasamningum, en eins og flestir vita þá þarf að liggja fyrir niðurstaða fyrir 21. janúar nk. hvort aðildarfélög ASÍ vilja segja samningum upp eða ekki.  Það verður að segjast alveg eins og er að niðurstaðan í þessum drögum er afar rýr. Þau atriði sem um ræðir í þessu samkomulagi SA og ASÍ eru eftirfarandi:

Gildistími kjarasamninga milli aðila sem undirritaðir voru 5. maí styttist og gilda þeir til 30. nóvember 2013 en ekki 31. janúar 2014. Vissulega er það fagnaðarefni að samningurinn sé styttur um 2 mánuði en formaður vill minna menn á að síðasti kjarasamningur rann út 30. nóvember 2010 en ekki var lokið við gerð nýs kjarasamnings fyrr en 5. maí 2011 eða nánar tiltekið 6 mánuðum eftir að samningurinn rann út og samt var hann ekki látinn gilda frá þeim tíma sem hann rann út. Hins vegar var greidd 50.000 kr. eingreiðsla sem dekkaði alls ekki þá 6 mánuði sem launafólk var án launahækkana.  Á þeirri forsendu verður að tryggja að kjarasamningar gildi frá þeim tíma sem þeir renna út til að koma í veg fyrir það að atvinnurekendur hagnist á því að draga kjarasamningsgerðina úr hófi eins og gert var í síðustu samningum.

Talað er um í þessum drögum að iðgjöld í mennta- og fræðslusjóðina hækki um 0,1% í áföngum. Vissulega ber að fanga þessu en það skondna í þessu er að þetta á ekkert að koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2014 og hefur í raun ekkert með þessa endurskoðun á kjarasamningunum að gera, enda hefði það verið í lófa lagið fyrir stéttarfélögin að semja um þetta í næstu samningum.

 Í bókun sem gerð var í kjarasamningunum 2011 er talað um jöfnun á lífeyrisréttindum á hinum almenna vinnumarkaði við opinbera starfsmenn og þar er talað um að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% eða sem nemur 3,5% á næstu árum. Í þessum drögum sem nú liggja fyrir vegna endurskoðunar er talað um að þessi bókun haldi sér og iðgjöld hækki úr 12% í 15,5% frá árinu 2014 til 2020. Þessu varar formaður Verkalýðsfélags Akraness stórlega við, því það er algert glapræði að setja meira inn í lífeyrissjóðskerfið á hinum almenna vinnumarkaði á meðan kerfið hefur ekki náð að sýna fram á sjálfbærni sína. En í dag er tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða innan ASÍ neikvæð sem nemur 100 milljörðum og það þrátt fyrir að búið sé að skerða lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni. Á þessari forsendu leggst Verkalýðsfélag Akraness alfarið gegn því að framlagið verði aukið um 3,5% á næstu árum því það er engin ástæða fyrir sjóðsfélaga að leggja meira inn í þessa hít á meðan sjóðirnir geta ekki sýnt fram á að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar nú þegar.

Í málflutningi stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft komið fram að hafi menn í hyggju að segja upp samningum þá verði að fara fram allsherjaratkvæðagreiðsla á meðal allra félagsmanna sem vinna eftir kjarasamningunum. Það getur ekki verið hlutverk fámenns hóps að taka slíka ákvörðun, eins og gerðist m.a. við endurskoðun kjarasamninganna 2009 þegar umsamdar launahækkanir voru hafðar af launafólki með því að fresta þeim um nokkra mánuði. Verkalýðsfélag Akraness hefur sagt að hafi atvinnugreinar burði og getu til að hækka laun, eins og t.d. útgerðarfyrirtækin, þá eigi þau að gera slíkt, enda voru gerð stórfelld mistök í síðustu kjarasamningsgerð með svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útgerðarfyrirækja. En nú er komið í ljós að það er sögulegur hagnaður hjá útgerðinni en hreinn hagnaður hennar á síðasta ári nam 60 milljörðum króna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image