• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Nov

Fundargestir í Háskólabíói kröfðust afnáms verðtryggingar

Fundargestir klöppuðu málflutningi formanns VLFA lof í lófa (mynd: Egill Helgason)Fundargestir klöppuðu málflutningi formanns VLFA lof í lófa (mynd: Egill Helgason)Formaður Verkalýðsfélags Akraness sat í gær hörkufund sem Hagsmunasamtök heimilanna héldu um verðtrygginguna og var fundurinn haldinn í Háskólabíói. Salurinn var yfirfullur en um eða yfir eitt þúsund manns mættu á fundinn og var gríðarlega góð stemmning í salnum.

Þeir sem sátu fundinn voru meðal annars Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, þingmennirnir Pétur H. Blöndal, Helgi Hjörvar, Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Steingrímsson og Eygló Harðardóttir og einnig var Gísli Tryggvason talsmaður neytenda.

Formaður félagsins gerði grein fyrir dómsmáli sem VLFA er nú að vinna að er lýtur að ólögmæti verðtryggingarinnar en félagið hefur falið Birni Þorra Viktorssyni að sjá um málareksturinn. Málareksturinn er ekki með sama hætti og Hagsmunasamtökin eru að fara af stað með heldur lýtur málsókn VLFA að því hvort lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og tilskipun Evrópuréttar standist lög hér á landi en hér er um að ræða svokallaðar MiFid reglur sem fjalla um það hvort heimilt sé að lána flókna fjármálagjörninga, svokallaðar afleiður, til einstaklinga.

Formaður tók nokkrum sinnum til máls á fundinum og fór yfir það grímulausa óréttlæti sem íslensk heimili hafa mátt þola vegna verðtryggingarinnar á síðustu árum og áratugum en verðtryggingin hefur farið eins og skýstrókur um íslensk heimili, sogað allan eignarhluta í burtu og fært hann yfir til fjármálakerfisins. Formaður fór einnig yfir þau gríðarlegu mistök sem voru gerð í kjölfar hrunsins þegar skipuð var nefnd undir forystu forseta Alþýðusambands Íslands sem hafði það hlutverk að kanna og meta hvort hægt væri að taka neysluvísitöluna tímabundð úr sambandi vegna þeirrar óðaverðbólgu sem var að bresta á í kjölfar hrunsins. Formaður fór yfir að þarna hefði verið kjörið tækifæri til að deila byrðum hrunsins jafnt á milli fjármálakerfisins, fjármagnseigenda og skuldsettra heimila með því að taka neysluvísitöluna úr sambandi. En þessi áðurnefnda nefnd var fljót að komast að niðurstöðu þar sem lagt var til að það mætti alls ekki taka neysluvísitöluna úr sambandi vegna þess að það myndi kosta fjármálakerfið um 200 milljarða króna og formaður sagði að þessi nefnd hefði þar með um leið sagt skítt með skuldsett heimili, þeim má fórna á altari verðtryggingarinnar.

Formaður fór einnig yfir þá grafalvarlegu stöðu sem lífeyrissjóðirnir eru í og gerði hann það vegna ummæla Péturs H. Blöndal um það hversu mikilvægt væri fyrir almenning að hafa verðtryggingu til að verja lífeyrissjóðina. Formaður upplýsti Pétur um að lífeyrissjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði séu búnir að skerða réttindi sinna sjóðsfélaga um 130 milljarða króna frá hruni sem er 14 milljörðum meira en allur heildarniðurskurður íslenska ríkisins. Því sé það grátbroslegt þegar að menn tali um að lífeyrir launafólks sé verðtryggður í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir skerða réttindin miskunnarlaust á aðalfundum sjóðanna ef tryggingafræðileg staða sjóðanna er neikvæð. Formaður upplýsti Pétur einnig um að lífeyrissjóðir innan ASÍ væru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu upp á 100 milljarða króna og eru allar þessar tölur byggðar á gögnum frá Fjármálaeftirlitinu sem birtust í júlí á þessu ári. Í þessum sömu gögnum kemur fram að lífeyrissjóðskerfið í heild sinni vanti um 700 milljarða króna til að geta staðið við sínar skuldbindingar gagnvart sínum sjóðsfélögum. Svo tala menn um að þetta sé besta kerfi í heimi.

Formaður var djúpt snortinn yfir þeim móttökum sem hann fékk við sínum málflutningi og sérstaklega þegar upp undir 1000 manns risu úr sætum og klöppuðu fyrir málflutningnum. Þessi stuðningur er ómetanlegur og gerir ekkert annað en að efla félagið enn frekar í hagsmunabaráttu fyrir skuldsett heimili og fyrir bættum hag alþýðu þessa lands.

Eftirfarandi ályktun var lögð fram á fundinum og var hún samþykkt með nánast öllum greiddum atkvæðum á fundinum með örfáum undantekningum en ályktunin hljóðar með eftirfarandi hætti:

"Almennur fundur í Háskólabíói 13. nóvember 2012 krefst þess að Alþingi tryggi tafarlaust afnám verðtryggingar á lánsfé og að gildandi lög um neytendavernd séu virt."

 

Já, á þessum fundi var hún samþykkt nánast með öllum greiddum atkvæðum en á ársþingi Alþýðusambands Íslands lagði VLFA fram ályktun sem laut að nánast nákvæmlega sama hlutnum en ASÍ elítan sá hins vegar til þess að sú tillaga fengi ekki brautargengi sem er óskiljanlegt í ljósi þess að bæði þessi fundur, þing Neytendasamtakanna og allar kannanir sem hafa verið gerðar sýna eindreginn vilja í þá átt að verðtryggingin á neytendalánum til almennings verði afnumin án tafar. En snillingarnir í Alþýðusambandi Íslands, þeir eru svo sannarlega ekki á sama máli.

13
Nov

Verkalýðsfélag Akraness vann mál fyrir Félagsdómi gegn HVE

Í gær vann Verkalýðsfélag Akraness mál fyrir félagsdómi gegn Heilbrigðisstofnun Vesturlands en málið gekk út á uppsögn á greiðslu vaktaálags í helgarfríum fyrir starfsmenn Sjúkrahúss Akraness. Í nóvember 2010 tilkynnti Heilbrigðisstofnun Vesturlands til Verkalýðsfélags Akraness að frá og með 1. janúar 2011 myndu starfsmenn Sjúkrahússins ekki eiga rétt á að fá vaktaálag greitt varðandi grein 2.6.7. en í henni kveður á um að starfsmaður sem vinnur á reglubundnum vöktum alla daga ársins geti í stað greiðslna skv. gr. 2.3.2. fengið frí á óskertum launum í 88 vinnuskyldustundir á ári miðað við fullt starf í heilt ár.

Heilbrigðisstofnunin vildi meina að samkvæmt skilgreiningunni á föstum launum væri ekki átt við vaktaálag starfsmanna og þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega og taldi að þetta væri skýrt brot á gildandi kjarasamningi sem Félagsdómur hefur nú staðfest að var rétt hjá VLFA.

Verkalýðsfélag Akraness harmar það að þegar heilbrigðisstofnanir og Fjármálaráðuneytið leita sparnaðar þá er oft á tíðum reynt að höggva í þá sem síst skildi því þeir starfsmenn sem um ræðir í þessu máli starfa við ræstingu, mötuneyti og býtibúr en allt eru þetta láglaunastörf og því ekki mikið sem hægt er að taka af slíkum launum. Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með að hafa náð að vinna þetta mál enda er það stefna stjórnar að verja með kjafti og klóm öll þau réttindi sem tilheyra félagsmönnum VLFA og er ekki horft í krónur og aura þegar sú hagsmunagæsla er annars vegar.

Eftirfarandi dómsorð var kveðið upp í Félagsdómi í gær:

Viðurkennt er að ákvörðun stefnda, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, að hætta greiðslu vaktaálags í helgarfríum til félagsmanna stefnanda, Verkalýðsfélags Akraness, sem starfa hjá Heilbrigðisstofnun Versturlands á Akranesi, feli í sér brot á framkvæmd greinar 2.6.7 í aðalkjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd Ríkissjóðs og Verkalýðsfélags Akraness gagnvart félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem starfa við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

 

Viðurkennt er að stefnda sé skylt að greiða félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem starfa við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi vaktaálag á helgarfríum frá 1. janúar 2011. Viðurkennt er að vaktaálag á greiðslur í helgarfríum sé hluti af föstum launum félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

 

Stefndi greiði stefnanda 300.000 kr. í málskostnað.

12
Nov

Stéttarfélög styrkja málarekstur VLFA vegna verðtryggingar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að höfða mál til að láta á það reyna hvort að verðtrygging hér á landi standist lög eður ei. Málið er í fullum undirbúningi og er áætlað að málið verði þingfest innan nokkurra vikna en félagið mun láta reyna á svokallaðar MiFid reglur þar sem fjallað er um að ekki megi lána flókna fjármálagerninga, svokallaðar afleiður, til einstaklinga.

Það er afar ánægjulegt til þess að vita að stéttarfélög hafa verið að tilkynna að þau hyggist leggja félaginu lið við þann mikla kostnað sem fylgir því að reka slíkt mál fyrir dómstólum en nú þegar hefur Framsýn, stéttarfélag á Húsavík, styrkt málareksturinn sem og Verkalýðsfélag Grindavíkur og nú síðast var Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur að hafa samband við skrifstofu félagsins þar sem það tilkynnti að það ætlaði að leggja félaginu til fjármuni í þessum málarekstri. Kann Verkalýðsfélag Akraness þessum aðilum bestu þakkir fyrir því það er alveg ljóst að það kostar umtalsverða fjármuni eins og áður sagði að reka slíkt mál fyrir dómstólum.

Hins vegar er skemmst frá því að segja að VLFA óskaði eftir fjárstuðningi frá Alþýðusambandi Íslands, einfaldlega vegna þess að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir alla félagsmenn innan ASÍ. Því kom það félaginu verulega á óvart að ASÍ skyldi hafna fjárstuðningi vegna þessa málareksturs en félagið fór fram á 300 þúsund króna styrk vegna áðurnefndrar málsóknar.

12
Nov

Bónuskerfin í stóriðjunum að virka

Horft yfir stóriðjurnar á GrundartangaHorft yfir stóriðjurnar á GrundartangaÍ síðustu kjarasamningum var lögð töluverð áhersla á að lagfæra bónuskerfi í stóriðjunum á Grundartanga, það er að segja í Norðuráli sem og hjá Elkem Ísland. Það er óhætt að segja að þetta hefur tekist bara nokkuð vel ef marka má meðaltal þess bónus sem starfsmenn hafa verið að fá frá því að kjarasamningarnir voru gerðir.

Sem dæmi þá er bónuskerfi í Elkem Ísland að svínvirka en hámarksbónus starfsmanna getur numið 12,5% af launum þeirra en hann hefur verið að gefa að meðaltali um 11,23% á mánuði sem er yfir því sem samningsaðilar eru sammála um að eigi að vera til viðmiðunar sem er 80% af hámarkinu. Þetta er afar ánægjulegt vegna þess að fyrir nokkrum árum var bónuskerfið hjá Elkem alls ekki að virka sem skildi og var ætíð umtalsvert undir þessu 80% marki. En núna er þetta komið í lag sem er bæði til hagsbóta fyrir starfsmenn sem og fyrirtækið.

Hjá Norðuráli er hámarksbónusinn 11,25% en meðaltalið síðustu mánuði hefur verið rétt tæp 9% eða sem nemur um 80% af hámarkinu og er því bónuskerfið í Norðuráli að virka með þeim hætti sem upp var lagt með í síðustu samningum. Það er alveg morgunljóst að það skiptir starfsmenn umtalsverðu máli að bónuskerfin virki enda leggst bónusinn nánast ofan á öll laun starfsmanna og því er hér um mikla hagsmuni að ræða.

08
Nov

Þing ASÍ var tekið í gíslingu að mati miðstjórnar

Eins og fjallað hefur verið um hér á heimasíðu félagsins þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram þrjár tillögur á þingi Alþýðusambands Íslands sem haldið var 19. til 21. október síðastliðinn. Auk þessara tillaga fór formaður yfir samræmdu launastefnuna sem gerð var í síðustu kjarasamningum og gagnrýndi hann forystu Alþýðusambands Íslands harðlega varðandi það hvernig staðið var að síðustu samningagerð. Þær tillögur sem VLFA lagði fram á áðurnefndu þingi voru eins og áður sagði þrjár. Ein þeirra var tillaga um breytingu á lögum um stjórnarkjör á forseta ASÍ eða með öðrum orðum að forsetinn yrði kosinn í allsherjar atkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna ASÍ en ekki inni á lokuðu þingi sambandsins. Önnur tillagan laut að ályktun um afnám verðtryggingar og að þak yrði sett á húsnæðisvexti til einstaklinga. Og þriðja tillagan laut að lífeyrismálum eða með öðrum orðum að fyrirhuguð hækkun iðgjalds úr 12 í 15,5% renni frekar í séreign heldur en inn í samtryggingarkerfið. Rétt er að það komi skýrt fram að VLFA var eina aðildarfélagið af 52 aðildarfélögum sem lagði fram tillögur á þessu þingi. Eðli málsins samkvæmt þurfti formaður að gera ítarlega grein fyrir þessum tillögum og færa fyrir þeim góð og gild rök.

Nú hefur komið í ljós að þessi barátta Verkalýðsfélags Akraness á þinginu hefur fallið í grýttan jarðveg hjá miðstjórn Alþýðusambands Íslands því að á fyrsta fundi miðstjórnar sem haldinn var 24. október síðastliðinn kemur eftirfarandi fram í fundargerð:

Gangrýnt var að ákveðinn aðili hefði nánast tekið þingið í gíslingu með endalausum og síendurteknum ræðuhöldum sem tekið hefðu upp mikinn tíma, tafið þingstörfin og haft áhrif á möguleika annarra til að tjá sig. Þá hefði framganga viðkomandi einkennst af hroka og ókurteisi í garð þingforseta og annarra þingfulltrúa. Í því sambandi varð nokkur umræða um lýðræði á samkomum eins og þingum ASÍ hversu langt ætti leyfa einum eða fáum einstaklingum að sýna þingstjórnendum og fulltrúum vanvirðingu með því að virða ekki tímamörk og almennar fundarreglur. Einnig kom fram að slík framganga væri ekki til þess fallin að auka virðingu þingfulltrúa eða stuðning við málflutning viðkomandi“.

Já, miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir að formaður Verkalýðsfélags Akraness hafi tekið þing Alþýðusambandsins í gíslingu og hafi tafið þingstörfin og haft áhrif á möguleika annarra til að tjá sig. Málflutningur hans á að hafa einkennst af hroka og ókurteisi, meðal annars í garð þingforseta. Á þessari forsendu hafði formaður félagsins samband við Ásgerði Pálsdóttur sem að gegndi starfi þingforseta á áðurnefndu þingi og bar þessar ásakanir undir hana. Það er skemmst frá því að segja að hún kannast á engan hátt við það að formaður félagsins hafi sýnt henni hroka eða vanvirðingu á þessu þingi og sagði hún að hann hefði virt allar reglur og þau fundarsköp sem að í gildi eru fyrir ársfundi ASÍ. Hún vísaði því alfarið á bug sem fram kemur í þessari fundargerð miðstjórnar varðandi þetta mál og reyndar skildi hún ekki af hverju þetta kæmi fram í fundargerð miðstjórnar með þessum hætti því þetta ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Það er hins vegar með ólíkindum á hvaða vegferð miðstjórn ASÍ og æðsta forysta verkalýðshreyfingarinnar er því það er ekki bara talað um að formaður VLFA hafi tekið þingið í gíslingu heldur kemur einnig fram í fundargerðinni með hvaða hætti sé nánast hægt að koma í veg fyrir að menn geti tjáð sig á þessum þingum ef orðin í fundargerðinni eru rétt skilin. Var VLFA að taka þingið í gíslingu með því að spyrja hvort afnema ætti verðtryggingu á neytendalánum og setja þak á húsnæðisvexti til almennings? Var þingið tekið í gíslingu þegar félagið lagði fram tillögu um breytingar á lögum ASÍ um að forseti skuli kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna? Er það að taka þingið í gíslingu að spyrja þingfulltrúa hvort þeir vilji frekar setja aukið framlag í lífeyrissjóðina inn í séreignina en í samtrygginguna? Er það að taka þingið í gíslingu að fara yfir samræmdu launastefnuna og gagnrýna það sem að þar fór miður? Nei, að sjálfsögðu kallast þetta ekki að taka þingið í gíslingu. Þetta er hinn rétti vettvangur til að taka umræðu um þessi málefni, það er á þingi Alþýðusambands Íslands. Þessi fundargerð miðstjórnar sýnir svo ekki verður um villst á hvaða vegferð þessi hreyfing er. Já, það á að reyna að koma í veg fyrir að menn geti lagt fram tillögur og ályktanir og komið á framfæri málefnalegri gagnrýni á Alþýðusamband Íslands. Það sorglega í þessu öllu saman var að í staðinn fyrir að taka alvöru málefnalega umræðu af hálfu forystu ASÍ á þinginu þá koma menn frekar og gagnrýna það inni á miðstjórnarfundi sambandsins þar sem formaður VLFA var ekki til andsvara.

Málið er að allur ársfundur Alþýðusambands Íslands var tekinn upp á myndband. Á þeirri forsendu skorar formaður Verkalýðsfélags Akraness á forseta Alþýðusambands Íslands að birta fundinn í heild sinni inni á vef Alþýðusambandsins til að sýna hinum almenna félagsmanni þær umræður sem fram fóru á fundinum. Formaður þekkir allt sitt heimafólk og að sjálfsögðu eru ekki miklar líkur á því að við beiðni formannsins verði orðið. En formaður hefur sent forseta Alþýðusambands Íslands kröfu um það að fá allar ræður og andsvör sem formaðurinn flutti á þinginu afhent í formi upptöku þar svo hann geti sýnt hinum almenna félagsmanni innan ASÍ fyrir hvað hann var að berjast og afsannað að hann hafi tekið þingið í gíslingu eða sýnt meðal annars þingforseta einhvern hroka eða vanvirðingu. Þetta vill formaður VLFA gera þrátt fyrir að nú liggi fyrir frá þingforsetanum að slíkt eigi ekki stoð í raunveruleikanum. Það er dapurt að æðsta forysta ASÍ geti ekki tekið málefnalegri gagnrýni á þeim vettvangi sem hún á að fara fram eins og til dæmis á þingi ASÍ og skríði frekar ofan í holu sína og gagnrýni formann VLFA inni á lokuðum miðstjórnarfundi ASÍ. Slíkt er ekki stórmannlegt.  

07
Nov

Formaður fundar með þingmönnum Norðvestur kjördæmis

Formaður félagsins ásamt bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar Akraness áttu fund með þingmönnum Norðvestur kjördæmis í gær. Tilefni fundarins var úthlutun á byggðarkvóta en á Vesturlandi komu rúm 800 tonn til úthlutunar en ekkert einasta kílógramm kom hins vegar til Akraneskaupstaðar.

Það eru fá ef nokkur sveitarfélög hér á landi sem geta fært jafn góð og gild rök fyrir því að þau eigi rétt á byggðakvóta eins og Akraneskaupstaður. Ástæðan er einföld, samdráttur í vinnslu og veiðum hér á Akranesi er hvergi eins mikill á landinu öllu. Ástæðan er sú að eftir sameiningu Haraldar Böðvarssonar við Granda árið 2004 hefur dregið stórkostlega úr allri starfsemi fyrirtækisins hér á Akranesi. Þessum rökum komu áðurnefndir fulltrúar á framfæri við þingmenn Norðvestur kjördæmis því það hafa tapast hundruð starfa í fiskvinnslu og afleiddum störfum vegna þess að HB Grandi hefur flutt töluverðan hluta af sinni starfsemi til annarra starfsstöðva fyrirtækisins, eins og til dæmis til Vopnafjarðar. En HB Grandi hefur ráðist í uppundir 4 milljarða króna framkvæmdir á Vopnafirði er tengjast uppsjávardeildinni og hefur vinna á Vopnafirði verið gríðarleg sökum þessarar uppbyggingar fyrirtækisins en samt sem áður fékk Vopnafjörður 300 tonnum úthlutað í byggðarkvóta en eins og áður kom fram fékk Akranes ekkert.

Einnig bar lífeyrissjóðsmál á góma við þingmenn og fór formaður yfir stöðu lífeyrissjóðsmála en hann telur stöðu lífeyriskerfisins verulega slæma og benti sérstaklega á að búið er að skerða lífeyrisréttindi hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni sem er 14 milljörðum meira heldur en heildar niðurskurður íslenska ríkisins á sama tímabili. Hann upplýsti þingmennina einnig um að lífeyrissjóðir innan ASÍ væru þrátt fyrir þessar miklu skerðingar á lífeyrisréttindum með neikvæða tryggingafræðilega stöðu upp á 100 milljarða króna. En lífeyrissjóðskerfið í heild sinni vantar um 700 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar sem er grafalvarlegt mál og með ólíkindum að heyra forsvarsmenn lífeyrissjóðskerfisins tala um að þetta sé besta lífeyrissjóðskerfi í heimi í ljósi þessara staðreynda. Formaður bað þingmenn um að skoða þessi mál vel og rækilega því þetta sé tifandi tímasprengja sem muni springa framan í skattgreiðendur á næstu árum og áratugum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image