• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Oct

Kosningu um kjarasamning smábátasjómanna lokið - Talning á morgun

 Kosningu er nú lokið um kjarasamning Sjómannasambands Íslands annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar en samningurinn var undirritaður þann 29. ágúst sl. Hægt er að skoða samninginn hér.

Þeir smábátasjómenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness kusu um samninginn með póstatkvæðagreiðslu og var kosningaþátttakan 67%.

Ekki er ennþá ljóst hvernig atkvæði féllu, því atkvæði frá landinu öllu verða talin saman í húsakynnum Ríkissáttasemjara á morgun. Fréttir af niðurstöðu kosningarinnar verða birtar hér á heimasíðunni um leið og talningu er lokið.

01
Oct

Formaður með fyrirlestur í Háskóla Íslands

Formaður hélt í morgun fyrirlestur í Háskóla Íslands fyrir nemendur Gylfa Dalmanns Aðalsteinssonar, en fyrirlesturinn laut að verkalýðshreyfingunni og verkefnum henni tengdri. Formaður fór víða yfir í fyrirlestri sínum, fjallaði m.a. um verkalýuðshreyfinguna, lífeyrissjóðina og stöðu og framtíð verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni.

Þetta er í þriðja sinn sem formaður félagsins heldur slíkan fyrirlestur um starfsemi verkalýðshreyfingarinnar og það er óhætt að segja að á þessum fyrirlestrum fái formaður fjölda spurninga er lúta að starfsemi stéttarfélaganna og tilgangi þeirra. Það er mikill heiður fyrir Verkalýðsfélag Akraness að háskólasamfélagið skuli leita til félagsins um að halda slíka fyrirlestra og kann félagið þakkir fyrir að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þá sem eru í námi tengdu vinnumarkaðsfræðum í Háskóla Íslands.

27
Sep

Verðtryggingin fer fyrir dómstóla

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness samþykkti í kvöld að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort að verðtrygging hér á landi standist lög. Eins og öllum er kunnugt lét VLFA gera lögfræðilegt álit á því hvort verðtrygging hér á landi stæðist íslensk lög og var niðurstaða þess álits sú að verulegur vafi léki á slíku.

Félagið mun kosta þennan málarekstur og eru nú þegar hafnar viðræður við lögfræðistofu um að reka þetta mál fyrir dómstólum. Það liggur nú þegar fyrir að óskað verður eftir flýtimeðferð hjá dómstólum vegna þessa máls enda eru miklir almannahagsmunir í húfi hvað þetta varðar. Einnig er mjög mikilvægt að dómstólar skeri fljótt og vel úr um það hvort að verðtryggingin standist lög eður ei í ljósi þeirra staðreynda að margir aðilar sem hafa tjáð sig opinberlega draga það verulega í efa að verðtrygging á neytendalánum standist lög.

Það er engum vafa undirorpið að verðtryggingin hefur leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og sem dæmi þá hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um uppundir 400 milljarða frá 1. janúar 2008 til dagsins í dag. Og bara í dag var tilkynnt að neysluvísitalan hefði hækkað um 0,76% á milli mánaða sem þýðir að verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna hækkuðu í síðasta mánuði um 11 milljarða króna. Það er sama upphæð og er áætlað að framkvæmdirnar við Vaðlaheiðagöng  kosti. Það er einnig rétt að upplýsa að meðalverðtryggð skuld íslenskra heimila í dag er í kringum 22 milljónir króna, sem þýðir að slík lán hafi hækkað um 167 þúsund krónur á milli mánaða. Það sér hvert einasta mannsbarn hverslags miskunnarlaust óréttlæti það er að varpa allri ábyrgð verðtryggingarinnar á skuldsett heimili á meðan lánveitendur eru tryggðir í bak og fyrir.

Ástæðan fyrir því að Verkalýðsfélags Akraness ætlar að fara í þennan málarekstur er einnig að nú er orðið deginum ljósara að íslensk stjórnvöld ætla sér ekki að leiðrétta þá stökkbreyttu hækkun sem orðið hefur á verðtryggðum húsnæðislánum frá hruni heldur hafa stjórnvöld tekið ákvörðun um að slá skjaldborg um fjármálastofnanir, erlenda vogunarsjóði og aðra aðila sem fjármagnið eiga í þessu landi.

Það er heldur ekki hægt að horfa upp á það að verðtryggingin fari eins og skýstrókur um íslensk heimili og sogi allan eignarhluta í burtu og færi hann yfir til fjármálastofnana og erlendra vogunarsjóða og á sama tíma sé íslenskum heimilum fórnað á altari verðtryggingarinnar. Það er hins vegar sorglegt til þess að vita að verðtryggingin skuli vera varin meðal annars af stjórnvöldum svo ekki sé nú talað um forystu Alþýðusambands Íslands í þessum efnum. Það á að vera hlutverk ASÍ að gæta hagsmuna sinna félagsmanna og VLFA telur að hvergi séu eins miklir hagsmunir fyrir alþýðu þessa lands eins og að tekið verði á verðtryggingu á neytendalánum.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness er afar stolt af því að ætla sér að keyra þetta brýna hagsmunamál fyrir alþýðu þessa lands í gegnum dómstóla og mun félagið fylgja þessu máli eftir af fullum þunga og vonandi kemst niðurstaða í það hvort verðtryggingin sé lögleg eða ekki eins fljótt og mögulegt er.

24
Sep

Trúnaðarmannanámskeið á Sunnubrautinni

Í dag og á morgun stendur yfir trúnaðarmannanámskeið í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13. Í dag var farið yfir lestur launaseðla og sátu trúnaðarmenn sveittir yfir launaútreikningum, vaktaálagi og skattþrepum. Á morgun verður farið yfir samskipti á vinnustað og þau skoðuð frá ýmsum hliðum.

Kennarar á námskeiðinu eru þau Guðmundur Hilmarsson og Sigurlaug Gröndal, en þau starfa hjá Félagsmálaskóla Alþýðu.

19
Sep

Er verðtrygging á neytendalánum ólögleg? - Lögfræðilegt álit

Það er mat stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness að afnám verðtryggingar á neytendalánum til einstaklinga sé eitt af þeim aðalhagsmunamálum sem nú þurfi að berjast fyrir með kjafti og klóm. Á þeirri forsendu hefur stjórn og trúnaðarráð ákveðið að leggja fyrir ársþing ASÍ þann 17. október nk. tillögu að ályktun um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Enda hefur verðtryggingin leikið skuldsett heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum og sem dæmi þá hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um allt að 400 milljarða frá 1. janúar 2008 vegna hækkunar á neysluvísitölunni.

Töluvert hefur verið í umræðunni um að hugsanlega sé verðtrygging á neytendalánum til einstaklinga ólögleg og hafa nokkrir lögmenn fjallað um það í opinberri umræðu á undanförnum mánuðum. Sökum þess hversu gríðarlegir hagsmunir hér eru í húfi fyrir skuldsett heimili ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að óska eftir ítarlegu áliti hjá lögmannsstofunni Lögmenn Laugardal ehf. á því hvort verðtrygging á Íslandi væri ólögleg.

Það voru hæstaréttarlögmaðurinn Björn Þorri Viktorsson og héraðsdómslögmaðurinn Bragi Dór Hafþórsson sem unnu 19 síðna álitsgerð um álitaefni í tveimur liðum:

1.      Mögulegt ólögmæti verðtryggingar á Íslandi skv. lögum um neytendalán nr. 121/1994 og tilskipunum Evrópuréttar.

2.      Mögulegt ólögmæti verðtryggingar á Íslandi skv. lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og tilskipunum Evrópuréttar.

Í niðurstöðu úr fyrri spurningunni segir meðal annars:

"Því þurfi svör við þeirri spurningu hvort verðbætur geti talist kostnaður vegna lántökunnar sem lánveitanda hafi borið að upplýsa neytanda um, í aðdraganda lánveitingarinnar. Ekki er gert ráð fyrir verðbótum í umræddri tilskipun enda þekkist verðtrygging ekki í EES ríkjunum þegar um er að ræða lánveitingar til neytenda. Ljóst er þó að verðbætur mynda stóran hluta endanlegs uppgreiðslukostnaðar þegar verðtryggð lán eru annars vegar. Telja undirritaðir að það hljóti að hafa verið tilgangur tilskipunarinnar að ná utan um allan beinan kostnað sem verður vegna lántökunnar og að neytendur eigi ávallt rétt á þeim upplýsingum. Annað fæli í sér mikið frávik frá megin markmiðum umræddrar tilskipunar. Komi í ljós að tilskipunin hafi verið ranglega innleidd í íslenskan rétt þá getur komið til skoðunar hvort íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð vegna þessa, hvort aðili geti sannað tjón sitt og þá hvort orsakatengsl séu milli hinnar röngu innleiðingar og þess tjóns sem aðili hefur orðið fyrir. Gæti þetta því haft í för með sér stórkostlega skaðabótahættu fyrir íslenska ríkið sé tekið mið af öllum þeim verðtryggðu lánasamningum sem gerðir hafa verið við neytendur frá gildistöku tilskipunarinnar."   

Í niðurstöðu úr seinni spurningunni segir meðal annars: 

"Að gefinni þeirri forsendu að skuldabréf eða lánssamningar teljist vera afleiðusamningar, þar sem þeir tengist vísitölu og séu verðbréf í skilningi 2. gr. laganna, þá telja undirritaðir að slíkir gerningar hljóti að auki að vera flóknir fjármálagerningar. Ef svo er þá hafi ekki mátt bjóða neytendum slíka samninga, nema því skilyrði hafi verið fullnægt að fjármálafyrirtæki hafi með sannarlegum hætti óskað eftir upplýsingum um þekkingu og reynslu viðskiptavinar, til þess að geta metið hvort varan hafi verið viðeigandi fyrir umræddan viðskiptavin, sbr. 1. mgr. 16. gr., eða þá að viðskiptavinur hafi fengið samþykkt að hann teldist fagfjárfestir í skilningi 24. gr. vvl. Þýðir þetta í raun að mati undirritaðra að fjármálafyrirtækjum hafi verið óheimilt að bjóða til sölu og selja almennum fjárfestum (neytendum) verðtryggða lánssamninga eða skuldabréf þar sem uppgjör lánsins var bundið vísitölu neysluverðs, að gefinni framangreindri forsendu."

Á þessu lögfræðilega áliti sést að það eru veruleg álitamál um það hvort verðtrygging á neytendalánum standist lög. Því er afar brýnt að t.d. Alþýðusamband Íslands láti á það reyna fyrir dómsstólum hvort verðtrygging á neytendalánum standist lög eða ekki. Það er morgunljóst að meiri hagsmunir fyrir félagsmenn innan Alþýðusambands Íslands er vart hægt að finna því eins og áður hefur verið rakið hér hefur verðtryggingin leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum.

Hægt er að lesa lögfræðilega álitið í heild sinni með því að smella hér.

18
Sep

Atvinnuleitendur sviknir um tugi ef ekki hundruð milljóna

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur svikið fjölmörg samkomulög við verkalýðshreyfingunaRíkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur svikið fjölmörg samkomulög við verkalýðshreyfingunaÞað er grátbroslegt að heyra stjórnvöld státa sig af því að þeim hafi á tímum niðurskurðar og skattahækkana tekist að standa vörð um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.  Og hverjir skyldu það vera sem standa hvað höllustum fæti í íslensku samfélagi í dag? Jú, það eru þeir sem hafa orðið að þola það að missa atvinnuna vegna hrunsins og reyna nú að láta enda ná saman til að framfleyta sér og sinni fjölskyldu. Það er hins vegar morgunljóst að það er útilokað fyrir þá 8.200 sem eru nú án atvinnu að framfleyta sér á þeim grunnatvinnuleysisbótum sem atvinnuleitendur eiga rétt á, en þær nema í dag 167.176 kr.

Það sorglega er að núverandi ríkisstjórn hefur svikið grimmilega ýmis samkomulög og yfirlýsingar sem verkalýðshreyfingin hefur gert við stjórnvöld samhliða kjarasamningum undanfarinna ára og það m.a. gagnvart þeim sem eiga í mestum erfiðleikum í okkar samfélagi, þeim sem eru atvinnulausir og gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum.

Ef ríkisstjórn Íslands hefði haft manndóm í sér til að standa við þau loforð sem hún gaf verkalýðshreyfingunni samhliða kjarasamningum bæði 17. febrúar 2008 sem og 5 maí 2011, loforð er lúta að hækkun atvinnuleysisbóta, þá væru grunnatvinnuleysisbætur í dag ekki 167.176 kr. heldur 179.023 kr. og er hér um að ræða mismun sem nemur tæpum 12.000 kr. á mánuði fyrir hvern þann einstakling sem þiggur grunnatvinnuleysisbætur.

Já, hver hefði trúað því að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti skuli voga sér að svíkja samkomulög við verkalýðshreyfinguna um hagsmuni þeirra sem orðið hafa fyrir atvinnumissi jafn miskunnarlaust og raun ber vitni.  Það er á kristaltæru að atvinnuleitendur munar svo sannarlega um 12.000 kr. á mánuði og sorglegt til þess að vita að ríkisstjórn félagshyggjunnar hafi svikið atvinnuleitendur um greiðslur sem nema tugum ef ekki hundruðum milljónum króna á liðnum árum.

Formaður félagsins vill taka það skýrt fram að áðurnefnd atriði eru alls ekki það eina sem núverandi ríkisstjórn hefur svikið í þeim samkomulögum sem verkalýðshreyfingin hefur gert samhliða kjarasamningum. Í því samhengi nægir að nefna samkomulag um verðtryggingu persónuafsláttar sem gert var við fyrrverandi stjórnvöld bæði 2006 og 2008, en núverandi stjórnvöld sviku það samkomulag illilega árið 2009.  Persónuafslátturinn ætti að vera alla vega 7.000 kr. hærri en hann er í dag ef stjórnvöld hefðu staðið við áðurnefnd samkomulög.

Á að stefna stjórnvöldum fyrir dómstóla ?

Formaður veltir því fyrir sér hvaða þýðingu undirrituð samkomulög og yfirlýsingar við stjórnvöld hafi fyrir verkalýðshreyfinguna. Er það virkilega þannig að stjórnvöld geti svikið öll þau samkomulög sem gerð eru samhliða kjarasamningum eins og ekkert sé og það án nokkurra afleiðinga.  Það liggur fyrir að verkalýðshreyfingin lítur á þessi samkomulög við stjórnvöld klárlega sem hluta af þeim kjarasamningum sem gerðir eru. Rétt er að benda á að þessi samkomulög við stjórnvöld eru kynnt fyrir félagsmönnum samhliða kynningum á kjarasamningum og því geta samkomulög og yfirlýsingar við stjórnvöld oft ráðið úrslitum hvort kjarasamningar sé samþykktir eða felldir.

Formaður veit hvað gerist þegar atvinnurekendur standa ekki við gerða samninga, jú þeim er stefnt fyrir dómstóla.  Því er algerlega spurning hvort ekki eigi að stefna ríkisstjórn Íslands fyrir dómstóla vegna síendurtekinna svika við alþýðu þessa lands og krefjast þess að stjórnvöld standi við þau samkomulög sem undirrituð hafa verið í hinum ýmsu málum.

Það er eins og áður sagði þyngra en tárum taki að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð skuli koma svona fram við alþýðufólk í þessu landi.  Ríkisstjórn sem státar sig af því að slá skjaldborg um þá sem standa hvað verst, formaður heldur að þessi svik sem hann hefur rakið hér sýni svo ekki verður um villst að það er algert bull og kjaftæði.      

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image