• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Aug

Félagsmenn, munið eftir fræðslusjóðunum!

Skrifstofa félagsins vill minna þá félagsmenn sína sem stunda nám á að þeir geta átt rétt á endurgreiðslu á hluta námsgjaldanna, en það sem af er þessu ári hafa 160 félagsmenn fengið 5,7 milljónir greiddar í slíka styrki. Fullur styrkur er 75% af kostnaði, að hámarki kr. 60.000 á ári. Félagsmenn í hlutastarfi eiga rétt á styrk í sama hlutfalli. Nánari upplýsingar um þá fræðslusjóði sem VLFA afgreiðir styrkur úr er að finna hér.

Sérstök athygli er vakin á því að hafi félagsmaður átt rétt á styrk en ekki nýtt hann síðustu þrjá ár, getur hann átt rétt á styrk allt að kr. 180.000.- fyrir eitt samfellt nám/námskeið. Þetta ákvæði var sett inn 1. janúar 2011 og hafa nokkrir félagsmenn nýtt þetta t.d. í Háskólabrú, Naglanám eða annað kostnaðarsamt nám.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að kynna sér hvað fræðslusjóðirnir hafa upp á að bjóða, það gæti margborgað sig.

09
Aug

Starfsmaður VLFA hleypur hálfmaraþon til styrktar góðu málefni

Einn af þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer laugardaginn 18. ágúst nk. er Björg Bjarnadóttir, skrifstofufulltrúi Verkalýðsfélags Akraness. Hún mun hlaupa hálft maraþon eða 21 km til styrktar Einstökum börnum. VLFA óskar Björgu og öðrum hlaupurum góðs gengis í lokaundirbúningnum sem framundan er og í hlaupinu sjálfu.

07
Aug

Tæpar 9 milljónir innheimtar fyrir 10 félagsmenn

Fyrir helgi barst félaginu greiðsla frá Ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrots TH ehf., en VLFA hafði lagt fram innheimtukröfu vegna 10 félagsmanna sinna sem áttu inni laun og orlof þegar fyrirtækið varð gjaldþrota í desember sl. Allar kröfurnar voru samþykktar af skiptastjóra og Ábyrgðasjóði launa og nam upphæðin 8,8 milljónum króna. Það var afar ánægjulegt að geta komið þessum fjármunum í réttar hendur fyrir verslunarmannahelgina.

Ferlið sem innheimtumál fara í þegar um gjaldþrot er að ræða er nokkuð langt, en það getur tekið upp undir ár að fá slíkar kröfur greiddar úr Ábyrgðasjóði launa. Í málum sem þessum sannast það enn á ný hversu mikilvægt það er að vera í sterku stéttarfélagi, því það er skrifstofa félagsins ásamt lögfræðingi þess sem sér um kröfugerðina, innheimtu og eftirfylgni fyrir hönd sinna félagsmanna, án þess að nokkur kostnaður falli á þá félagsmenn sem um ræðir.

30
Jul

Grindhvalavaða á Akranesi

Grindhvalavaða er nú um 100 metra frá landi við Leyni á Akranesi, en hópur fólks hefur safnast þar saman til að berja vöðuna augum. Nú er bara að vona að vaðan fari sér ekki að voða því afar stutt er í miklar grynningar í Leynisvíkinni þar sem þeir svamla nú í hringi. Ugglaust er þetta sama vaða og var fyrir neðan byggðina í Innri-Njarðvík á laugardaginn, en sjón er sögu ríkari.

25
Jul

Félagsmenn duglegir að nýta réttindi sín

Það er óhætt að segja að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness séu duglegir að nýta sér þjónustu félagsins og sækja um þá styrki sem þeim bjóðast úr sjóðum félagsins. Það sem af er þessu ári hafa greiðslur úr sjúkrasjóði aukist um 18,7% miðað við sama tímabil í fyrra. Þessar greiðslur eru t.d. sjúkradagpeningar, heilsueflingarstyrkir, gleraugnastyrkir, fæðingarstyrkir, styrkir vegna sjúkraþjálfunar, heilsufarsskoðana, sálfræðiþjónustu og göngugreiningar.

Mestu munar um aukningu í fæðingarstyrkjum en þeir jukust um 195% á tímabilinu. Þess ber að geta að þann 1. janúar 2012 hækkaði fæðingarstyrkurinn úr kr. 35.000 í kr. 70.000. Þar sem félagsmenn eiga sjálfstæðan rétt til styrksins nemur styrkur vegna fæðingar barns sem á báða foreldra í félaginu kr. 140.000. Einnig eru félagsmenn mun duglegri að sækja um styrk vegna heilsufarsskoðana, en aukningin þar er 91%.

Af öðrum liðum í þjónustu félagsins má nefna að það sem af er sumri hafa selst yfir 250 Veiði- og Útilegukort á skrifstofu félagsins. Verður það að teljast góð ásókn, en hver félagsmaður getur aðeins keypt eitt kort af hvoru. Allt árið í fyrra seldust 215 kort.

Styrkir til félagsmanna úr þeim fræðslusjóðum sem VLFA á aðild að hefur einnig aukist og eru 31,6% hærri fyrstu sex mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra.

Þessi þróun er í takt við fjölgun virkra félagsmanna, aukningu í félagsgjöldum og átak sem félagið hefur gert í kynningu á þjónustu félagsins. Það er mikilvægt að félagsmenn þekki rétt sinn, en allar upplýsingar er að finna hér á heimasíðunni. Verður það að teljast mjög jákvætt að félagsmenn nýti það sem þeim býðst, því það hefur alltaf verið markmið félagsins að láta félagsmenn njóta góðs af því þegar vel gengur og það á svo sannarlega við þessi misserin.

17
Jul

Sturlaugur H Böðvarsson AK mokveiðir makríl

Í gær landaði ísfisktogarinn Sturlaugur H Böðvarsson AK 10 rúmum 50 tonnum af ferskum makríl hér á Akranesi til manneldis og var þetta fyrsti makrílfarmurinn sem landað er hér á þessari vertíð. Sturlaugur hélt aftur til veiða um miðnættið í gær og var um 6 tíma á miðin aftur. Ekki tók það Sturlaug langan tíma að ná í skammtinn sinn á ný, eða einungis um 3 tíma en skammturinn er eins og áður sagði rúm 50 tonn og er áætlað að Sturlaugur H Böðvarsson verði kominn aftur til Akraness um þrjú-leytið.

Makrílveiðar Íslendinga á árinu 2011 skiluðu þjóðarbúinu yfir 25 milljörðum króna og sköpuðu yfir 1000 ársverk á sjó og landi og því morgunljóst að makrílveiðar okkar Íslendinga skipta þjóðarbúið gríðarlega miklu máli enda mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að átta okkur vel og rækilega á því að við byggjum okkar velferðakerfi upp á því að skapa gjaldeyristekjur og það gera makrílveiðarnar svo sannarlega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image