• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Nov

Fundargestir í Háskólabíói kröfðust afnáms verðtryggingar

Fundargestir klöppuðu málflutningi formanns VLFA lof í lófa (mynd: Egill Helgason)Fundargestir klöppuðu málflutningi formanns VLFA lof í lófa (mynd: Egill Helgason)Formaður Verkalýðsfélags Akraness sat í gær hörkufund sem Hagsmunasamtök heimilanna héldu um verðtrygginguna og var fundurinn haldinn í Háskólabíói. Salurinn var yfirfullur en um eða yfir eitt þúsund manns mættu á fundinn og var gríðarlega góð stemmning í salnum.

Þeir sem sátu fundinn voru meðal annars Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, þingmennirnir Pétur H. Blöndal, Helgi Hjörvar, Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Steingrímsson og Eygló Harðardóttir og einnig var Gísli Tryggvason talsmaður neytenda.

Formaður félagsins gerði grein fyrir dómsmáli sem VLFA er nú að vinna að er lýtur að ólögmæti verðtryggingarinnar en félagið hefur falið Birni Þorra Viktorssyni að sjá um málareksturinn. Málareksturinn er ekki með sama hætti og Hagsmunasamtökin eru að fara af stað með heldur lýtur málsókn VLFA að því hvort lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og tilskipun Evrópuréttar standist lög hér á landi en hér er um að ræða svokallaðar MiFid reglur sem fjalla um það hvort heimilt sé að lána flókna fjármálagjörninga, svokallaðar afleiður, til einstaklinga.

Formaður tók nokkrum sinnum til máls á fundinum og fór yfir það grímulausa óréttlæti sem íslensk heimili hafa mátt þola vegna verðtryggingarinnar á síðustu árum og áratugum en verðtryggingin hefur farið eins og skýstrókur um íslensk heimili, sogað allan eignarhluta í burtu og fært hann yfir til fjármálakerfisins. Formaður fór einnig yfir þau gríðarlegu mistök sem voru gerð í kjölfar hrunsins þegar skipuð var nefnd undir forystu forseta Alþýðusambands Íslands sem hafði það hlutverk að kanna og meta hvort hægt væri að taka neysluvísitöluna tímabundð úr sambandi vegna þeirrar óðaverðbólgu sem var að bresta á í kjölfar hrunsins. Formaður fór yfir að þarna hefði verið kjörið tækifæri til að deila byrðum hrunsins jafnt á milli fjármálakerfisins, fjármagnseigenda og skuldsettra heimila með því að taka neysluvísitöluna úr sambandi. En þessi áðurnefnda nefnd var fljót að komast að niðurstöðu þar sem lagt var til að það mætti alls ekki taka neysluvísitöluna úr sambandi vegna þess að það myndi kosta fjármálakerfið um 200 milljarða króna og formaður sagði að þessi nefnd hefði þar með um leið sagt skítt með skuldsett heimili, þeim má fórna á altari verðtryggingarinnar.

Formaður fór einnig yfir þá grafalvarlegu stöðu sem lífeyrissjóðirnir eru í og gerði hann það vegna ummæla Péturs H. Blöndal um það hversu mikilvægt væri fyrir almenning að hafa verðtryggingu til að verja lífeyrissjóðina. Formaður upplýsti Pétur um að lífeyrissjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði séu búnir að skerða réttindi sinna sjóðsfélaga um 130 milljarða króna frá hruni sem er 14 milljörðum meira en allur heildarniðurskurður íslenska ríkisins. Því sé það grátbroslegt þegar að menn tali um að lífeyrir launafólks sé verðtryggður í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir skerða réttindin miskunnarlaust á aðalfundum sjóðanna ef tryggingafræðileg staða sjóðanna er neikvæð. Formaður upplýsti Pétur einnig um að lífeyrissjóðir innan ASÍ væru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu upp á 100 milljarða króna og eru allar þessar tölur byggðar á gögnum frá Fjármálaeftirlitinu sem birtust í júlí á þessu ári. Í þessum sömu gögnum kemur fram að lífeyrissjóðskerfið í heild sinni vanti um 700 milljarða króna til að geta staðið við sínar skuldbindingar gagnvart sínum sjóðsfélögum. Svo tala menn um að þetta sé besta kerfi í heimi.

Formaður var djúpt snortinn yfir þeim móttökum sem hann fékk við sínum málflutningi og sérstaklega þegar upp undir 1000 manns risu úr sætum og klöppuðu fyrir málflutningnum. Þessi stuðningur er ómetanlegur og gerir ekkert annað en að efla félagið enn frekar í hagsmunabaráttu fyrir skuldsett heimili og fyrir bættum hag alþýðu þessa lands.

Eftirfarandi ályktun var lögð fram á fundinum og var hún samþykkt með nánast öllum greiddum atkvæðum á fundinum með örfáum undantekningum en ályktunin hljóðar með eftirfarandi hætti:

"Almennur fundur í Háskólabíói 13. nóvember 2012 krefst þess að Alþingi tryggi tafarlaust afnám verðtryggingar á lánsfé og að gildandi lög um neytendavernd séu virt."

 

Já, á þessum fundi var hún samþykkt nánast með öllum greiddum atkvæðum en á ársþingi Alþýðusambands Íslands lagði VLFA fram ályktun sem laut að nánast nákvæmlega sama hlutnum en ASÍ elítan sá hins vegar til þess að sú tillaga fengi ekki brautargengi sem er óskiljanlegt í ljósi þess að bæði þessi fundur, þing Neytendasamtakanna og allar kannanir sem hafa verið gerðar sýna eindreginn vilja í þá átt að verðtryggingin á neytendalánum til almennings verði afnumin án tafar. En snillingarnir í Alþýðusambandi Íslands, þeir eru svo sannarlega ekki á sama máli.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image