• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verkalýðsfélag Akraness vann mál fyrir Félagsdómi gegn HVE Hluti af starfsfólki HVE á Akranesi
13
Nov

Verkalýðsfélag Akraness vann mál fyrir Félagsdómi gegn HVE

Í gær vann Verkalýðsfélag Akraness mál fyrir félagsdómi gegn Heilbrigðisstofnun Vesturlands en málið gekk út á uppsögn á greiðslu vaktaálags í helgarfríum fyrir starfsmenn Sjúkrahúss Akraness. Í nóvember 2010 tilkynnti Heilbrigðisstofnun Vesturlands til Verkalýðsfélags Akraness að frá og með 1. janúar 2011 myndu starfsmenn Sjúkrahússins ekki eiga rétt á að fá vaktaálag greitt varðandi grein 2.6.7. en í henni kveður á um að starfsmaður sem vinnur á reglubundnum vöktum alla daga ársins geti í stað greiðslna skv. gr. 2.3.2. fengið frí á óskertum launum í 88 vinnuskyldustundir á ári miðað við fullt starf í heilt ár.

Heilbrigðisstofnunin vildi meina að samkvæmt skilgreiningunni á föstum launum væri ekki átt við vaktaálag starfsmanna og þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega og taldi að þetta væri skýrt brot á gildandi kjarasamningi sem Félagsdómur hefur nú staðfest að var rétt hjá VLFA.

Verkalýðsfélag Akraness harmar það að þegar heilbrigðisstofnanir og Fjármálaráðuneytið leita sparnaðar þá er oft á tíðum reynt að höggva í þá sem síst skildi því þeir starfsmenn sem um ræðir í þessu máli starfa við ræstingu, mötuneyti og býtibúr en allt eru þetta láglaunastörf og því ekki mikið sem hægt er að taka af slíkum launum. Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með að hafa náð að vinna þetta mál enda er það stefna stjórnar að verja með kjafti og klóm öll þau réttindi sem tilheyra félagsmönnum VLFA og er ekki horft í krónur og aura þegar sú hagsmunagæsla er annars vegar.

Eftirfarandi dómsorð var kveðið upp í Félagsdómi í gær:

Viðurkennt er að ákvörðun stefnda, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, að hætta greiðslu vaktaálags í helgarfríum til félagsmanna stefnanda, Verkalýðsfélags Akraness, sem starfa hjá Heilbrigðisstofnun Versturlands á Akranesi, feli í sér brot á framkvæmd greinar 2.6.7 í aðalkjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd Ríkissjóðs og Verkalýðsfélags Akraness gagnvart félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem starfa við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

 

Viðurkennt er að stefnda sé skylt að greiða félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem starfa við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi vaktaálag á helgarfríum frá 1. janúar 2011. Viðurkennt er að vaktaálag á greiðslur í helgarfríum sé hluti af föstum launum félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

 

Stefndi greiði stefnanda 300.000 kr. í málskostnað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image