• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Nov

100. fundur núverandi stjórnar Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær

Í gær kom stjórn Verkalýðsfélags Akraness saman til fundar en þetta var hundraðasti stjórnarfundur núverandi stjórnar en hún tók við þann 19. nóvember 2003. Þetta eru vissulega merkileg tímamót í ljósi alls þess sem gekk á áður en stjórnin tók við en eins og félagsmenn muna voru átökin mikil í Verkalýðsfélagi Akraness á árunum 2000 til 2003 og endaði með því að Alþýðusamband Íslands yfirtók félagið og skipaði því starfsstjórn. Síðan var ákveðið að efna til allsherjar atkvæðagreiðslu um nýja stjórn í félaginu seint á árinu 2003 og tóku tæplega 90% félagsmanna þátt í kosningunum. Niðurstaðan var skýr og ný stjórn undir forystu núverandi formanns náði kjöri og tók hún eins og áður sagði við 19. nóvember 2003.

Formanni félagsins er það mjög minnisstætt þegar fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands, Grétar Þorsteinsson, kom á aðalfund félagsins eftir að ný stjórn hafði tekið við í árslok 2003 og sagði að það væri mikið verk framundan hjá nýrri stjórn að vinna upp traust félagsmanna og byggja félagið upp fjárhagslega sem félagslega. Það er skemmst frá því að segja að frá þessum tíma þá hefur félagsmönnum fjölgað um tæplega 100% en félagsmenn eru í dag um 3.000 talsins. Og það er ekki bara að núverandi stjórn hafi tekist að fjölga þetta gríðarlega í félaginu heldur var félagið algjörlega fjárvana og félagssjóður þess var rekinn á 2,5 milljóna króna yfirdrætti þegar ný stjórn tók við. Nýrri stjórn hefur tekist að byggja félagið upp jafnt félagslega sem fjárhagslega á þessum árum og stendur félagið nú traustum fótum fjárhagslega, hefur byggt upp alla sína sjóði ásamt því að auka réttindi til handa félagsmönnum, meðal annars úr sjúkrasjóði félagsins en ný stjórn hefur tekið upp 9 nýja styrki. Félagið hefur keypt tvö orlofshús frá því ný stjórn tók við enda var ljóst að með þetta mikilli fjölgun í félaginu varð að auka við orlofsmöguleika félagsmanna. Núverandi stjórn er stolt yfir þeim glæsilega árangri sem hún hefur náð frá því hún tók við en það er morgunljóst að stjórnin er hvergi nærri hætt við að vinna að því að bæta réttindi og kjör sinna félagsmanna enda er af nægu að taka í þeim efnum.

Á fundinum í gær ákvað stjórn félagsins að styrkja Ingu Elínu Cryer, afrekssundkonu um 100.000 kr., en Inga Elín var kjörin íþróttamaður Akraness í fyrra og hefur náð glæsilegum árangri í sinni íþrótt. Hún er að fara á Evrópumót í sundi í næstu viku og hafði óskað eftir því í fjölmiðlum að fá fjárhagsstuðning sökum þess að kostnaður hennar hefði orðið um 300 þúsund krónur ef hún hefði þurft að standa ein straum af honum. Það er hlutverk okkar að styrkja og styðja okkar afreksfólk því það er ekkert sjálfgefið fyrir sveitarfélög að eiga slíka einstaklinga sem skara fram úr í sinni íþrótt. Báðir foreldrar Ingu Elínar eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness og er stjórninni heiður af því að hafa náð að létta undir þannig að hún kæmist á Evrópumótið í sundi.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image