• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
May

6 fulltrúar atvinnurekenda með jafnmikið vægi og 60 fulltrúar sjóðsfélaga - lýðræðislegt ofbeldi

Eins og fram kom í frétt hér á heimasíðunni þá var ársfundur Lífeyrissjóðs Festu haldinn í gær og eðli málsins samkvæmt var staða sjóðsins og úttektarskýrsla sem Landssamband lífeyrissjóða lét gera umtalsvert til umræðu á þessum ársfundi. Formaður félagsins lagði eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni fram þrjár tillögur en tvær þeirra voru hins vegar felldar.

Í úttektarskýrslunni kom fram að Lífeyrissjóðurinn Festa tapaði tæpum 20 milljörðum króna eða sem nam tæpum 36% af heildareignum sjóðsins. Það var einnig ýjað að því í úttektarskýrslunni að lög um verðbréfaviðskipti er lúta að innherjaupplýsingum hafi verið brotin og á þeirri forsendu lagði formaður félagsins fram tillögu um að fengið yrði óháð lögfræðilegt álit um hvort lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 hafi verið brotin. Tillagan hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Tillaga um óháð lögfræðilegt álit

Ársfundur Lífeyrissjóðs Festu samþykkir að fengið verði óháð lögfræðilegt álit á því hvort lög um verðbréfaviðskipti nr. 108 26. júní 2007 sem lúta að innherjaupplýsingum hafi verið brotin eins og ýjað er að í úttektarskýrslunni um Festu á bls. 97.

Þegar lögfræðiálitið liggur fyrir mun það verða sent öllum aðildarfélögum Lífeyrissjóðs Festu.

--

Í þessu samhengi er rétt að benda á að einn stjórnarmaður í Lífeyrissjóði Festu var einnig stjórnarmaður í Sparisjóði Keflavíkur en Lífeyrissjóðurinn Festa tapaði tæpum 2 milljörðum króna vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Um þessi mál er ítarlega fjallað í úttektarskýrslunni á bls. 90, 91, 96 og 97. Og á þessum grunni var áðurnefnd tillaga lögð fram.

Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga var felld og það er formanni hulin ráðgáta í ljósi þess að úttektarskýrslan ýjar sterklega að því að þarna hafi lög verið brotin, að fundurinn skyldi ekki vilja fá það á hreint hvort að slíkt lögbrot hafi átt sér stað eður ei. Í atkvæðagreiðslunni kom skýrt fram sá gríðarlegi lýðræðishalli sem er við stjórnun lífeyrissjóða en hjá lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði fara atvinnurekendur með 50% vægi inni á fundunum og því er nánast útilokað fyrir hinn almenna sjóðsfélaga að koma nokkrum tillögum í gegn ef atvinnurekendur eru þeim mótfallnir.

Hin tillagan sem lögð var fram lýtur að gjaldmiðlasamningum en Lífeyrissjóðurinn Festa tapaði uppundir 4 milljörðum króna vegna gjaldmiðlasamninga. Formaður rakti það ítarlega á fundinum sem fram kemur í úttektarskýrslunni að framkvæmdastjóri sjóðsins var andvígur gjaldmiðlasamningunum strax árið 2006 en einhverra hluta vegna juku menn gjaldmiðlavarnir sjóðsins um 5 milljarða á árinu 2007 og það kemur einnig fram hjá skýrsluhöfundum að sjóðnum mátti vera það ljóst að gríðarleg áhætta var af þessum gjaldmiðlasamningum. Það er einnig rétt að vekja athygli á því að það tapaðist álíka mikið á gjaldmiðlasamningum og skuldabréfum fyrirtækja. Tillagan hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Tillaga um óháð lögfræðilegt álit

Ársfundur Lífeyrissjóðs Festu samþykkir að fá óháð lögfræðilegt álit á því hvort samþykktir sjóðsins og lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (1997 nr. 129) hafi verið brotin vegna gjaldmiðlasamninga sem sjóðurinn gerði.

Það liggur fyrir að tap Lífeyrissjóðs Festu vegna gjaldmiðlasamninga er umtalsvert og einnig er rétt að benda á að þessir samningar voru harðlega gagnrýndir, bæði í Rannsóknarskýrslu Alþingis og Úttektarskýrslu um starfsemi lífeyrissjóðanna. Á þeirri forsendu er mikilvægt að fá óháð álit á því hvort þessir samningar hafi staðist samþykktir sjóðsins og áðurnefnd lög.

Þegar lögfræðiálitið liggur fyrir mun það verða sent öllum aðildarfélögum Lífeyrissjóðs Festu.

 

--

Enn og aftur er það formanni hulin ráðgáta að þessi tillaga skyldi hafa verið felld. Sérstaklega í ljósi þess að hér var einungis verið að kalla eftir því að fá óháð lögfræðilegt álit á því hvort sjóðurinn hafi farið eftir sínum eigin samþykktum og hvort lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóðanna hafi verið brotin. Það er rétt að benda á enn og aftur að Lífeyrissjóðurinn Festa tapaði 4 milljöðrum króna á gjaldmiðlasamningum sem er ekkert annað en gjaldeyrisbrask. Það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir hafa heimild til að dreifa sinni áhættu með því að fjárfesta erlendis og er það gert til þess að mæta til dæmis gengissveiflum. Þess vegna var með ólíkindum hversu miklu sjóðurinn varði í þessar gjaldmiðlavarnir en þær námu 75% af heildar erlendum eignum sjóðsins. Í þessu fólst stórkostleg áhætta sem nú hefur birst sjóðsfélögum með skelfilegum afleiðingum. Því er eðlileg spurning fyrir hinn almenna sjóðsfélaga hvort samþykktir og áðurnefnd lög hafi verið brotin. Enn og aftur komu fulltrúar atvinnurekenda ríðandi fram með atkvæðaspjöld sín en á fundinum í gær voru 6 fulltrúar atvinnurekenda sem höfðu 50% vægi á fundinum þannig að hvert atkvæði frá einum fulltrúa atvinnurekenda virkaði sem 10 atkvæði en fulltrúar sjóðsfélaga voru 60 talsins þannig að það var útilokað og er útilokað fyrir hinn almenna sjóðsfélaga að fá eina einustu tillögu samþykkta ef að atvinnurekendur eru henni andvígir. Þennan lýðræðishalla og þetta lýðræðisofbeldi verður að stöðva í eitt skipti fyrir öll því það er ljóst að iðgjöld sem eru greidd í lífeyrissjóð eru eign sjóðsfélagans og því hefur atvinnurekandinn ekkert með það að gera að vera að ráðskast með fjármuni hins almenna sjóðsfélaga. Það eru ugglaust til dæmi þess að fulltrúi atvinnurekanda sé ekki einu sinni sjóðsfélagi í þeim sjóði sem hann er stjórnarmaður í.

Formaður sagði einnig á þessum fundi að það færi um hann kaldur hrollur að heyra orð eins og framkvæmdastjórinn lét falla um að það væri mikil ábyrgð fólgin í því að stjórna lífeyrissjóði þegar hann rökstuddi launahækkun til stjórnar. Formaðurinn spurði hvar þessi ábyrgð lægi en nú liggur fyrir að lífeyrissjóðskerfið tapaði 500 milljörðum króna og ekki einn einasti framkvæmdastjóri eða forstjóri lífeyrissjóðs hefur borið eina einustu ábyrgð og virðast ekki ætla að bera hana. Hann ítrekaði því þá skoðun sína að allir framkvæmdastjórar og forstjórar lífeyrissjóða eigi að axla sína ábyrgð á þessu grímulausa tapi sem lífeyrissjóðirnir urðu fyrir og segja af sér. Hann sagði einnig að það hafi verið nöturlegt þegar að lífeyrissjóðselítan hafi keypt heilsíðuauglýsingar til að koma því á framfæri að lífeyrissjóðskerfið stæði traustum fótum og ætti heila 2.100 milljarða í eignum. Formaðurinn sagði að það hafi vantað inn í þessa auglýsingu að lífeyrissjóðskerfið vantar 700 milljarða til þess að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar samkvæmt tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóðskerfisins í heild sinni. Hvernig í ósköpunum geta menn þá sagt að þetta sé besta kerfi sem til er? Formaðurinn sagði einnig að hann gerði orð Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði við HÍ, að orðum sínum en Stefán sagði í útvarpsviðtali að þegar að þessir menn sem stjórna lífeyrissjóðunum fara að segja að þetta sé besta lífeyrissjóðskerfi í heimi þá eigi allar aðvörunarbjöllum að hringja hjá hinum almenna sjóðsfélaga. Og það er full ástæða til þess að skoða þetta kerfi algjörlega frá grunni og er forgangsverkefni að koma í veg fyrir það að það lýðræðisofbeldi sem birtist með atkvæðagreiðslu atvinnurekenda inni í lífeyrissjóðunum verði stöðvað án tafar.

15
May

Ársfundur Lífeyrissjóðs Festu samþykkti ályktun varðandi hækkun stjórnarlauna Framtakssjóðs Íslands

Í gær var haldinn ársfundur Lífeyrissjóðs Festu á Grandhóteli. Formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði fram þrjár tillögur á þessum fundi og verður gert betur grein fyrir öllum tillögunum í annarri frétt sem birtist hér á heimasíðunni. Í þessari frétt verður gerð grein fyrir þeirri tillögu sem var samþykkt en það er skemmst frá því að segja að ein tillaga fékkst samþykkt en tvær voru hins vegar felldar.

Sú tillaga sem var samþykkt laut að þeirri ótrúlegu launahækkun sem ársfundur Framtakssjóðs Íslands samþykkti ekki alls fyrir löngu en sú hækkun nam 80% og voru stjórnarlaun hækkuð úr 100 þúsund krónum í 180 þúsund krónur. Rétt er að geta þess að Festa er aðili að Framtakssjóði Íslands og því ber okkur skylda til þess að mótmæla slíkum ofurlaunahækkunum eins og þær sem samþykktar voru hjá Framtakssjóði Íslands. Ályktunin sem var samþykkt hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Ályktun

 

Ársfundur Lífeyrissjóðs Festu krefst þess að stjórn Framtakssjóðs Íslands dragi tafarlaust til baka ákvörðun ársfundar sjóðsins um að hækka stjórnarlaun sjóðsins um 80% eða úr 100 þúsund krónum í 180 þúsund krónur.

Þessi hækkun er sem blaut tuska framan í íslenskt launafólk og er ekki í nokkru samræmi við það sem er að gerast á íslenskum vinnumarkaði og ber skýran vott um alvarlegan siðferðisbrest og græðgi af hálfu þeirra sem samþykktu áðurnefnda hækkun.

Þessi ofurhækkun er ekki í neinu samræmi við þær þrengingar sem launafólk hefur mátt þola á undanförnum mánuðum og árum sem meðal annars hafa birst í skerðingu á lífeyrisréttindum þeirra sem eru aðilar að Framtakssjóði Íslands.

Þetta getur ekki verið hið nýja siðferði sem taka átti upp við stjórnun lífeyrissjóða með því að dengja framan í íslenskt launafólk 80% launahækkun fyrir stjórnarsetu í Framtakssjóði sem gerir það að verkum að stjórnarmenn sjóðsins eru með sem nemur grunnlaunum almenns fiskvinnslumanns.

11
May

Aukaþing SGS haldið í gær

Aukaþing Starfsgreinasambands Íslands var haldið í gær en Verkalýðsfélag Akraness átti 6 fulltrúa á þinginu. Meginverkefni þingsins voru lagabreytingar en eins og allir vita þá hafa staðið yfir deilur í SGS um alllanga hríð og voru þessar lagabreytingar að hluta til ætlaðar til þess að lægja þær öldur. Það liggur alveg fyrir að þessar lagabreytingar eru sniðnar til að friða stærsta félagið innan SGS en það liggur alveg ljóst fyrir að Flóabandalagið hefur oft ýjað að því að fara út úr SGS.

Þessar lagabreytingar sem samþykktar voru í gær eru að mati fulltrúa Verkalýðsfélags Akraness veruleg skerðing á lýðræði innan SGS enda er verið að fækka í framkvæmdastjórn úr 13 manns niður í 7. Vissulega tókst þó á fundinum í gær að auka fjölda formannafunda en þeir verða fjórir þegar ekki er þingað en það er þingað annað hvert ár en þrír formannafundir verða þegar þing er.

08
May

Þolinmæði smábátasjómanna á þrotum

Það er óhætt að segja að þolinmæði smábátasjómanna sé löngu þrotin en þeir eru eina starfsstéttin hér á landi sem ekki nýtur þeirra lágmarksmannréttinda að hafa kjarasamning sem tryggir þeim hin ýmsu réttindi og kjör eins og allir kjarasamningar gera. Rétt er að geta þess að smábátasjómenn hafa aldrei haft í gildi kjarasamning sem er verkalýðshreyfingunni, smábátaeigendum og samfélaginu öllu til ævarandi skammar. Eins og áður sagði þá eru smábátasjómenn orðnir æfir yfir því hversu hægt gengur að semja um kjarasamning fyrir þá og þeir geta ekki stundinni lengur sætt sig við að hafa ekki gildandi kjarasamning.

Fjölmargir smábátasjómenn hafa haft samband við Verkalýðsfélag Akraness að undanförnu og líst vanþóknun sinni á þeim seinagangi sem viðgengst hjá Landssambandi smábátaeigenda og Sjómannasambandi Íslands en þessir aðilar hafa verið í viðræðum í marga mánuði án nokkurs árangurs. Það voru uppundir 40 smábátasjómenn sem óskuðu eftir inngöngu í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness fyrir nokkrum mánuðum síðan og óskuðu eftir að félagið myndi aðstoða þá við að ganga frá nýjum kjarasamningi. VLFA óskaði eftir viðræðum við Landssamband smábátaeigenda og hafði í hyggju að afturkalla samningsumboðið frá SSÍ. En þar sem Landssamband smábátaeigenda hafnaði viðræðum á meðan þeir væru í viðræðum við SSÍ var ekki grundvöllur fyrir félagið að draga samningsumboðið til baka að svo stöddu.

Íslensk stjórnvöld eiga að sjá til þess að smábátaeigendur fái alls ekki úthlutað aflaheimildum á næsta fiskveiðiári sem tekur gildi 1. september næstkomandi ef ekki verður kominn á samningur á milli aðila. Á fundi sem formaður VLFA sat með Steingrími J. Sigfússyni atvinnumálaráðherra, lýsti hann þessum áhyggjum sínum vegna samningsleysis smábátasjómanna og hvatti Steingrím til að tryggja í núverandi frumvarpi með afgerandi hætti að ekki kæmi til úthlutunar aflaheimilda til smábátaeigenda ef ekki væri búið að ganga frá kjarasamningi. Það var að heyra á ráðherranum að það væri algjörlega óásættanlegt að ekki væri í gildi kjarasamningur og nefndi Steingrímur það að ef ekki tækist að semja um nýjan kjarasamning þá væri ekkert annað í stöðunni fyrir stjórnvöld en að setja lög sem tryggja meðal annars skiptaprósentur smábátasjómanna.

Sumir smábátasjómenn segja að það eina sem smábátaeigendur geti komið sér saman um sé hvað eigi ekki að greiða smábátasjómönnum. Ugglaust koma flestir smábátaeigendur vel fram við sína sjómenn en það er bláköld staðreynd að innan um í þessari grein sem og öðrum eru bikasvartir einstaklingar sem víla sér ekki við að kolbrjóta á sínum starfsmönnum. Það er einnig ömurlegt til þess að vita að smábátasjómönnum er stundum tilkynnt þegar þeir fara á sjó að búið sé að breyta skiptaprósentu og öðrum kjörum og vegna þess að þeir hafa engan kjarasamning í gildi þá geta þeir lítið sem ekkert sagt og ef að þeir segja eitthvað þá eru meiri en minni líkur á því að viðkomandi þurfi að taka pokann sinn. Það er alveg ljóst að Sjómannasamband Íslands verður að hysja upp um sig buxurnar í þessum samningaviðræðum og ef þeir ekki treysta sér til þess að klára kjarasamning þá verða þeir að hleypa öðrum að samningaborðinu. Og það er einnig gríðarlega mikilvægt að smábátasjómennirnir sjálfir sýni sterka samstöðu við að láta þetta grímulausa óréttlæti, sem birtist í því að hafa ekki kjarasamning eins og allir aðrir íslenskir launþegar, yfir sig ganga.

04
May

Endurúthlutun orlofshúsa er lokið

Endurúthlutun orlofshúsa er nú lokið. Af þeim 53 vikum sem lausar voru eftir fyrri úthlutun, gengu 33 vikur út í endurúthlutun. Sömu úthlutunarreglur gilda í báðum úthlutunum, ef fleiri en einn sækja um sömu vikuna fær sá úthlutað sem á fleiri punkta.

Það eru því 20 vikur eftir í pottinum og um þær gildir hér eftir reglan: Fyrstur kemur, fyrstur fær. Eindagi endurúthlutunar er 15. maí. Eftir þann tíma verða ógreiddar bókanir felldar niður og bætast í pottinn.

Hægt er að bóka lausar vikur á skrifstofu félagsins og á FÉLAGAVEFNUM.

02
May

Frábær þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum á Akranesi

Um 200 manns tóku þátt í hátíðarhöldum vegna 1. maí á Akranesi í gær. Dagskráin hófst með kröfugöngu kl. 14:00, og annaðist Skólahljómsveit Akraness hljóðfæraleik í göngunni af miklum myndarskap.

Að göngu lokinni safnaðist fólk saman á Kirkjubraut 40, þar sem hátíðar- og baráttufundur var settur. Ræðumaður dagsins, Vilhjálmur Birgisson, kom víða við í sinni ræðu og féll hún vel í kramið hjá fundargestum. Kvennatríóið Stúkurnar sá um tónlistarflutning og sungu nokkur lög. Að venju sameinuðust fundargestir í fjöldasöng í lok dagskrár og sungu Maístjörnuna og Internasjónalinn. Það var Lionsklúbburinn Eðna sem sá um glæsilegar kaffiveitingar sem fundargestum var boðið upp á að dagskrá lokinni.

Hægt er að lesa ræðu Vilhjálms Birgissonar með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image