• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Apr

Starfsmenn Elkem Ísland fá 150 þúsund króna eingreiðslu

Járnblendiverksmiðja Elkem á GrundartangaJárnblendiverksmiðja Elkem á GrundartangaElkem Ísland greiddi í dag fastráðnum starfsmönnum sínum 150 þúsund króna eingreiðslu, væntanlega vegna góðrar afkomu fyrirtækisins. Greiðslan miðast við þá starfsmenn sem hafa verið í starfi hjá Elkem frá 1. apríl 2011 til marsloka 2012 og greiðist í hlutfalli við starfstíma.  Rétt er að geta þess að greiðslan nær ekki til þeirra sem eru lausráðnir eins og t.d sumarafleysingamenn.

Rétt er einnig að geta þess að þegar gengið var frá kjarasamningi við Elkem Ísland í fyrra, 19. apríl 2011, þá ákváðu eigendur Elkem Ísland að greiða starfsmönnum sínum eingreiðslu sem nam föstum mánaðarlaunum hvers starfsmanns vegna góðrar afkomu. Er óhætt að segja að samningurinn sem gerður var við Elkem í fyrra hafi verið gríðarlega góður enda nam eingreiðslan og afturvirkni samningsins um 500 þúsund krónum fyrir hvern starfsmann. Núna hafa þeir eins og áður sagði komið með 150 þúsund króna eingreiðslu til viðbótar sem væntanlega miðast við góða afkomu fyrirtækisins á síðasta ári og verður þetta að teljast afar jákvætt fyrir starfsmennina.

Það er ánægjulegt að sjá þegar fyrirtæki taka þá ákvörðun að láta starfsmenn sína sem jú skapa velferð hvers fyrirtækis fyrir sig njóta ávinnings þegar vel árar í fyrirtækjum. Það hefur Elkem Ísland nú gert í tvígang og nema þessar eingreiðslur síðustu tveggja ára um 500 þúsund krónum hjá starfsmanni með 10 ára starfsreynslu og ljóst að starfsmenn munar um minna. Þessar eingreiðslur eru svo sannarlega til eftirbreytni fyrir önnur fyrirtæki sem eru starfrækt í útflutningi og hafa verið að njóta góðs af gengisfalli íslensku krónunnar enda hefur launahlutfall fyrirtækja sem starfa í útflutningi hríðlækkað í kjölfar falls íslensku krónunnar.   

12
Apr

Frestur til að skila umsóknum um orlofshús rennur út á morgun

Á morgun rennur út frestur til að skila umsóknum um dvöl í orlofshúsum Verkalýðsfélags Akraness sumarið 2012 og strax eftir helgi verður úthlutað.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum fyrir endurúthlutun.

 

Helstu dagssetningar:

13. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

16. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax inni á félagavefnum)

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

04. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

04. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

11. maí  - Eindagi endurúthlutunar

12
Apr

Útilegukortið 2012 er komið í sölu!

Útilegukortið 2012 er komið í sölu á skrifstofu félagsins. Orlofssjóður VLFA niðurgreiðir kortið til félagsmanna svo félagsmenn geta keypt kortið á kr. 8.000. Fullt verð á kortinu er kr. 14.900 svo afslátturinn er rétt tæp 50%.

Kortið veitir félagsmönnum aðgang að 44 tjaldsvæðum um allt land og gildir fyrir tvo fullorðna og allt að fjögur börn upp að 16 ára aldri. Eftirfarandi tjaldsvæði hafa bæst í hópinn frá því í fyrra: Mosfellsbær, Skagaströnd, Steingrímsstaðir, Lundur í Öxarfirði, Horn - Höfn í Hornafirði og Sandgerði. Athugið að gistináttaskattur er ekki innifalinn í Útilegukortinu og þurfa handhafar þess því að greiða aukalega kr. 100 fyrir gistinóttina. Aðeins er greitt eitt gjald fyrir hvert kort, en ekki gjald á hvern einstakling, svo fimm manna fjölskylda þarf aðeins að greiða kr. 100 fyrir gistinóttina.

Nánari upplýsingar um Útilegukortið, tjaldsvæðin og nánari reglur er að finna á heimasíðu Útilegukortsins: www.utilegukortid.is.

10
Apr

Er auðlindagjaldið af sama meiði og kolefnisskatturinn sem átti að leggja á Elkem Ísland?

Á föstudaginn næstkomandi mun Starfsgreinasamband Íslands halda fund með aðildarfélögum sínum þar sem kvótafrumvörpin verða til umræðu og á þeim fundi á að móta afstöðu SGS til fyrirliggjandi frumvarpa.

Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Verkalýðsfélag Akraness þegar að sjávarútvegsmálum kemur, einfaldlega vegna þess að fjölmargir félagsmenn þess vinna við sjómennsku og fiskvinnslu. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð verið hvellskýr þegar kemur að umræðu um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en krafa félagsins hefur verið að hagsmunir sjómanna, fiskvinnslufólks og þjóðarinnar allrar skyldu hafðir að leiðarljósi þegar kemur til breytinga á þessari mikilvægu auðlind okkar.

Formaður hefur verið að kynna sér fyrirliggjandi frumvörp vegna áðurnefndra hagsmuna því það má ekki undir nokkrum kringumstæðum skattleggja þessa grein með þeim hætti að það ógni starfsöryggi og kjörum fiskvinnslufólks og sjómanna. En því miður er æði margt sem bendir til að svo geti orðið en það er himinn og haf sem skilur að þegar kemur að því að meta áhrifin af veiðileyfagjaldinu. Á meðan stjórnvöld halda því fram að auðlindagjaldið sé vel innan viðráðanlegra marka fyrir útgerðina þá segja útgerðarmenn að það muni leiða til fjölda gjaldþrota í greininni og vitna meðal annars í úttekt sem Deloitte gerði á áhrifum veiðileyfagjaldsins. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði fenginn óháður aðili til að meta áhrifin af þessum frumvörpum því eins og áður sagði þá má alls ekki ógna starfsöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hefur einnig verið sú að eðlilegt sé að útgerðir greiði eðlilegt og sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni og einnig að tryggt sé að auðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar. Það er öllum ljóst að afar vel árar nú í íslenskum sjávarútvegi og því er það sorglegt að í síðustu kjarasamningum hafi ekki verið notað það svigrúm sem útgerðin hefur til að lagfæra laun fiskvinnslufólks umtalsvert. Það mátti ekki vegna þess að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins voru búin að móta og meitla í stein svokallaða samræmda launastefnu þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja eins og til dæmis sjávarútvegsfyrirtækja. Þarna var kjörið tækifæri til að lagfæra kjör fiskvinnslufólks enda eru þau íslenskri verkalýðshreyfingu og fiskvinnslufyrirtækjum til háborinnar skammar. En sérhæfð fiskvinnslukona sem starfað hefur í 15 ár er einungis með grunnlaun upp á 197.500 krónur og því til viðbótar er hún með um 300 krónur á klukkustund þannig að heildarlaun fiskvinnslukonu eftir 15 ára starf eru um 230 þúsund krónur á mánuði. Þetta eru laun sem eru til ævarandi skammar og hafi ASÍ og SA einnig skömm fyrir að hafa ekki notað tækifærið þegar vel árar hjá útgerðinni til að lagfæra laun þessa hóps sem á það svo sannarlega skilið.

Eins og áður sagði þá er mikill ágreiningur um áhrifin af þessu auðlindagjaldi en formaður spyr sig hvort þetta auðlindagjald geti hugsanlega verið af sama meiði og kolefnisskatturinn sem átti meðal annars að leggja á Elkem Ísland, skattur sem hefði gert það að verkum að ekki hefði verið einn einasti möguleiki fyrir Elkem að skila neinum hagnaði því skatturinn var langt umfram þann hagnað sem fyrirtækið hefur skilað árlega. Enda voru forsvarsmenn fyrirtækisins búnir að tilkynna að fyrirtækið myndi flytja starfsemi sína erlendis ef af þessum skatti yrði. Á þessari forsendu óttast formaður VLFA að þessi skattlagning geti ógnað starfsöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks. En eins og áður sagði þá eiga útgerðarmenn að sjálfsögðu að greiða eðlilegan og sanngjarnan skatt fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hvert það hlutfall er liggur ekki fyrir á þessari stundu en mjög mikilvægt er að finna hver sé eðlileg og sanngjörn auðlindarenta sem renni til samfélagsins í heild sinni.

30
Mar

Verðlagsmál á sjávarafurðum verði rannsökuð opinberlega

Það er óhætt að segja að umfjöllun Kastljóss undanfarin kvöld um verðlagningu og verðmyndun á sjávarafurðum hafi vakið verðskuldaða athygli, enda komu þar fram alvarlegar ásakanir og athugasemdir um hvernig á þessum málum er haldið í íslenskum sjávarútvegi.

Formaður Sjómannasambandsins sagði m.a í þessari umfjöllun að verðmyndun á sjávarafurðum væri í molum, aðkoma sjómanna að verðmyndun væri engin og Verðlagsstofa skiptaverðs sem sér um að ákveða verð á botnfiski væri liðónýt og eftirlitið væri nánast ekkert.

Nú liggur fyrir að stór hluti þess sjávarafla sem veiddur er við Íslandsstrendur er á sömu hendi það er að segja veiðar, vinnsla og sala og það kom fram í umfjöllun Kastljóssins að útgerðin er að færa hagnaðinn af skipunum inn í vinnsluna til að koma sér hjá því að þurfa að greiða sjómönnunum hlutaskiptin. Þetta eru grafalvarlegar ásakanir sem þarna komu fram á hendur útgerðafyrirtækjum og þetta snýst alls ekki bara um að sjómenn séu ekki að fá rétt uppgert, heldur er hér um að ræða ef rétt reynist hagsmuni þjóðarinnar í heild sinni.

Allt á sömu hendi

Hvað þýðir það ef útgerðarfyrirtækin sem eru með veiðar, vinnslu og sölu á sömu hendi eins og t.d í uppsjávarveiðunum færa hagnaðinn í auknum mæli  inn í vinnsluna og greiða sjómönnum lægra fiskverð en þeim í raun ber? Jú, tekjur sjómanna verða lægri sem þýðir að ríkissjóður verður af tekjuskatti, sveitafélögin fá minni útsvarstekjur og hafnargjöld og síðan hefur þetta áhrif á auðlindagjaldið enda reiknast það út frá aflaverðmæti skipanna.

En eru útgerðafyrirtækin að færa hagnaðinn af skipunum inn í vinnsluna?  Já, það er æði margt sem bendir til þess að svo sé.  Ef litið er á nýlokna loðnuvertíð þá kemur í ljós að útgerðarmenn og framkvæmdastjóri LÍÚ tala um að vertíðin hafi skilað um 30 milljörðum í útflutningstekjur af tæplega 600 þúsund tonna loðnukvóta sem veiddur var á yfirstaðinni vertíð.  Einnig kom fram í viðtali á RUV við  Ingimund Ingimundarson hjá HB Granda að þumalputtareglan sé sú að 50 krónur fáist fyrir loðnukílóið að meðaltali og samtals hafi því loðnuvertíðin gefið um þrjátíu milljarða.

Þetta er afar athyglisvert því að þegar skoðað er hvað útgerðin var að borga skipunum fyrir hvert kíló þá kemur í ljós að það er að meðaltali í kringum 26 krónur að teknu tilliti til þess sem fer í bræðslu, frystingu og hrognatöku.  Þetta þýðir að aflaverðmæti skipana af 581 þúsund tonna veiði er 15,1 milljarður, en loðnuvertíðin gaf útgerðinni sem bæði á skipin og vinnsluna rúma 29 milljarða.  Með öðrum orðum þá er vinnslan að skila útgerðinni 14 milljörðum sem er álíka mikið og aflaverðmæti skipanna var. Formaður spyr, getur þetta staðist einhverja skoðun?  Hvernig má það vera að verðið til sjómanna sé einungis 26 krónur á kíló á meðan þeir geta selt það að jafnaði á 50 krónur. 

Formaður félagsins gerir sér algerlega grein fyrir því að það þarf að vera framlegð í vinnslunni en að vinnslan sé að skila nánast jafn miklu og aflaverðmæti skipanna stenst ekki nokkra skoðun að mínu áliti.

Formaður getur ekki séð annað en að útgerðin sé að færa hagnaðinn inní vinnsluna af skipunum til að komast hjá því að greiða hærri laun til sjómanna, sveitafélögum hærri hafnargjöld, ríkinu hærra auðlindagjald og þessu til viðbótar verða ríki og sveitarfélög af skattatekjum vegna þess að laun sjómanna verða lægri fyrir vikið.

Samningaviðræður hvað?

Í Kastljósþættinum var Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ spurður hví Norðmenn gætu greitt rúmar 40 krónur fyrir loðnukílóið á meðan útgerðin hér á landi greiddi sínum skipum 26 krónur og einnig var Friðrik spyrður hvers vegna vinnslan hér væri að greiða erlendu skipunum langtum hærra verð en íslensku skipunum svo tugum prósenta munar.  Friðrik sagði að ástæðan fyrir hærra verði í Noregi væri sú að þar eru veiðar og vinnsla ekki á sömu hendi og því væri það verkefni útgerðarinnar að semja við sjómenn um verðið á hverjum tíma fyrir sig.  Málið er einfalt - í langflestum tilfellum fara engar samningaviðræður fram um verð heldur ákveður útgerðin þetta algerlega einhliða.

Það kemur skeyti um borð í skipin frá útgerðinni sem kveður á um verð. Þetta vita allir sem eru á þessum skipum en eðli málsins samkvæmt þora sjómenn ekki að andmæla þessu á nokkurn hátt af ótta við að vera sagt upp plássinu. Það er rétt að geta þess að þetta sama á við um makríl og síldveiðar á uppsjávarskipunum, ekki bara loðnuveiðarnar.  Það er morgunljóst í mínum huga að þessu fyrirkomulagi verður að breyta tafarlaust og það eiga að vera stéttarfélögin sem semja við útgerðirnar fyrir hönd sinna félagsmanna um fiskverð. Það er alla vega afar ójafn leikur að ætla sjómönnum að semja um fiskverð við sinn vinnuveitenda, því ef þeir eru óánægðir þá eiga þeir svo sannarlega á hættu á að verða reknir.

Formaður félagsins vil taka það skýrt fram að laun sjómanna eru mjög góð núna vegna stöðu íslensku krónunnar en þau hafa alls ekki alltaf verið það og nægir að fara aftur til ársins 2006 þegar gengi íslensku krónunnar var afar óhagstætt sjómönnum.

Þjóðarhagsmunir

Þetta snýst ekki eingöngu um laun sjómanna heldur þjóðarhagsmuni því með því að færa hagnaðinn frá skipunum yfir á vinnsluna er verið að hafa af samfélaginu öllu gríðarlegar upphæðir. Nú hefur verið lagt til á Alþingi að kannað verði hvaða áhrif fyrirhugað auðlindagjald hefur á bankakerfið. Í því samhengi telur formaður fulla ástæðu til að þessi verðlagsmál á sjávarafurðum verði rannsökuð opinberlega og það kannað hversu miklu þjóðarbúið tapar á því að útgerðin skuli færa hagnaðinn inn í vinnsluna til að koma sér hjá því að borga meira til þjóðarbúsins eins og áður hefur verið rakið.

28
Mar

Verðtryggingarvítisvélin að ganga af íslenskum heimilum dauðum

Í fréttum í fyrradag kom fram að ekki hafi náðst samstaða á Alþingi um að draga úr vægi verðtryggingarinnar á skuldsett heimili. Það er óhætt að segja að þetta séu sorgartíðindi, því það er alveg ljóst að verðtryggingarvítisvélin er að ganga af íslenskum heimilum dauðum. Nú síðast í morgun kom fram að verðbólgan hækkaði um 1,05% á milli mánaða og hefur verðbólgan á síðustu þremur mánuðum hækkað um 2,4%.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar um skuldavanda heimilanna sem stjórnvöld létu gera á síðasta ári kom fram að heildar verðtryggðar skuldir heimilanna nema um 1.271 milljarði króna sem þýðir að þær hækkuðu á milli mánaða um 13,3 milljarða og frá áramótum hafa þær hækkað sem nemur 30,5 milljörðum, bara vegna verðtryggingarinnar.

Nú er nýlokinni einni albestu loðnuvertíð sem verið hefur við Íslandsstrendur í áratugi, en áætlað er að heildaraflaverðmætið hafi numið 30 milljörðum. Þetta er jafnhá upphæð og verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hafa hækkað um á síðustu 3 mánuðum. Á þessu sést hvernig verðtryggingin leikur íslensk heimili miskunnarlaust, því er það algjörlega óásættanlegt að Alþingi Íslendinga ætli ekki að taka á þessum grímulausa óréttlæti sem íslensk heimili mega þola vegna verðtryggingarvítisvélarinnar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image