• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Sep

Atvinnuleitendur sviknir um tugi ef ekki hundruð milljóna

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur svikið fjölmörg samkomulög við verkalýðshreyfingunaRíkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur svikið fjölmörg samkomulög við verkalýðshreyfingunaÞað er grátbroslegt að heyra stjórnvöld státa sig af því að þeim hafi á tímum niðurskurðar og skattahækkana tekist að standa vörð um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.  Og hverjir skyldu það vera sem standa hvað höllustum fæti í íslensku samfélagi í dag? Jú, það eru þeir sem hafa orðið að þola það að missa atvinnuna vegna hrunsins og reyna nú að láta enda ná saman til að framfleyta sér og sinni fjölskyldu. Það er hins vegar morgunljóst að það er útilokað fyrir þá 8.200 sem eru nú án atvinnu að framfleyta sér á þeim grunnatvinnuleysisbótum sem atvinnuleitendur eiga rétt á, en þær nema í dag 167.176 kr.

Það sorglega er að núverandi ríkisstjórn hefur svikið grimmilega ýmis samkomulög og yfirlýsingar sem verkalýðshreyfingin hefur gert við stjórnvöld samhliða kjarasamningum undanfarinna ára og það m.a. gagnvart þeim sem eiga í mestum erfiðleikum í okkar samfélagi, þeim sem eru atvinnulausir og gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum.

Ef ríkisstjórn Íslands hefði haft manndóm í sér til að standa við þau loforð sem hún gaf verkalýðshreyfingunni samhliða kjarasamningum bæði 17. febrúar 2008 sem og 5 maí 2011, loforð er lúta að hækkun atvinnuleysisbóta, þá væru grunnatvinnuleysisbætur í dag ekki 167.176 kr. heldur 179.023 kr. og er hér um að ræða mismun sem nemur tæpum 12.000 kr. á mánuði fyrir hvern þann einstakling sem þiggur grunnatvinnuleysisbætur.

Já, hver hefði trúað því að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti skuli voga sér að svíkja samkomulög við verkalýðshreyfinguna um hagsmuni þeirra sem orðið hafa fyrir atvinnumissi jafn miskunnarlaust og raun ber vitni.  Það er á kristaltæru að atvinnuleitendur munar svo sannarlega um 12.000 kr. á mánuði og sorglegt til þess að vita að ríkisstjórn félagshyggjunnar hafi svikið atvinnuleitendur um greiðslur sem nema tugum ef ekki hundruðum milljónum króna á liðnum árum.

Formaður félagsins vill taka það skýrt fram að áðurnefnd atriði eru alls ekki það eina sem núverandi ríkisstjórn hefur svikið í þeim samkomulögum sem verkalýðshreyfingin hefur gert samhliða kjarasamningum. Í því samhengi nægir að nefna samkomulag um verðtryggingu persónuafsláttar sem gert var við fyrrverandi stjórnvöld bæði 2006 og 2008, en núverandi stjórnvöld sviku það samkomulag illilega árið 2009.  Persónuafslátturinn ætti að vera alla vega 7.000 kr. hærri en hann er í dag ef stjórnvöld hefðu staðið við áðurnefnd samkomulög.

Á að stefna stjórnvöldum fyrir dómstóla ?

Formaður veltir því fyrir sér hvaða þýðingu undirrituð samkomulög og yfirlýsingar við stjórnvöld hafi fyrir verkalýðshreyfinguna. Er það virkilega þannig að stjórnvöld geti svikið öll þau samkomulög sem gerð eru samhliða kjarasamningum eins og ekkert sé og það án nokkurra afleiðinga.  Það liggur fyrir að verkalýðshreyfingin lítur á þessi samkomulög við stjórnvöld klárlega sem hluta af þeim kjarasamningum sem gerðir eru. Rétt er að benda á að þessi samkomulög við stjórnvöld eru kynnt fyrir félagsmönnum samhliða kynningum á kjarasamningum og því geta samkomulög og yfirlýsingar við stjórnvöld oft ráðið úrslitum hvort kjarasamningar sé samþykktir eða felldir.

Formaður veit hvað gerist þegar atvinnurekendur standa ekki við gerða samninga, jú þeim er stefnt fyrir dómstóla.  Því er algerlega spurning hvort ekki eigi að stefna ríkisstjórn Íslands fyrir dómstóla vegna síendurtekinna svika við alþýðu þessa lands og krefjast þess að stjórnvöld standi við þau samkomulög sem undirrituð hafa verið í hinum ýmsu málum.

Það er eins og áður sagði þyngra en tárum taki að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð skuli koma svona fram við alþýðufólk í þessu landi.  Ríkisstjórn sem státar sig af því að slá skjaldborg um þá sem standa hvað verst, formaður heldur að þessi svik sem hann hefur rakið hér sýni svo ekki verður um villst að það er algert bull og kjaftæði.      

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image