• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Dec

Verkalýðsfélag Akraness tapaði máli gegn Norðuráli um stórhátíðarálag – niðurstaðan vekur mikla undrun

Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) höfðaði mál gegn Norðuráli fyrir Félagsdómi vegna ágreinings um greiðslur fyrir vinnu á stórhátíðardögum. Félagið krafðist þess að viðurkennt yrði að starfsfólk Norðuráls í vaktavinnu ætti rétt á sérstökum greiðslum fyrir vinnu á stórhátíðum og helgidögum, líkt og almennt gildir um annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði. Félagsdómur hafnaði kröfunni og sýknaði Norðurál, með þeim afleiðingum að VLFA tapaði málinu.

Niðurstaða dómsins þykir afar undarleg og vekur alvarlegar spurningar um túlkun kjarasamninga. Félagsdómur byggir niðurstöðu sína á þeirri forsendu að fast meðalvaktaálag vaktavinnufólks eigi að dekka vinnu á þeim dögum sem vaktir falla, þar á meðal á rauðum dögum og stórhátíðardögum. Að mati VLFA er sú niðurstaða gjörsamlega óskiljanleg.

Í dóminum er í raun gengið út frá því að 30% vaktarálag á kvöldin, 55% vaktarálag um helgar og 60% vaktarálag á næturvinnu eigi jafnframt að dekka vinnu á rauðum dögum sem falla á virka daga, mánudaga til föstudaga, sem og alla stórhátíðardaga. Þetta er með öllu óútskýranlegt, enda eru þessir dagar ekki hluti af hefðbundnu vaktamynstri heldur sérstakir helgidagar sem njóta sérstakrar verndar í kjarasamningum.

Í kjarasamningum er skýrt kveðið á um hvernig greiða skuli fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðardögum. Þar segir að vinna á helgidögum skuli greidd með yfirvinnukaupi, 1,14%, og vinna á stórhátíðardögum með stórhátíðarkaupi, 1,57%. Þessi ákvæði eru skýr og afdráttarlaus. Þrátt fyrir það kemst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að þessi grein eigi einungis við um dagvinnufólk.

VLFA bendir á að ekkert í orðalagi greinarinnar styðji slíka túlkun. Í greininni er hvergi tekið fram að hún eigi aðeins við um dagvinnumenn né eru þar að finna undanþágur fyrir vaktavinnufólk í stóriðjum. Að mati félagsins er hér um að ræða túlkun sem hvorki byggir á texta samningsins né á almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Sérstaka athygli vekur að málið tapaðist meðal annars vegna bréfs frá árinu 1999. Í því bréfi var viðurkennt að stórhátíðarálag væri hvorki innifalið í né tekið tillit til þess við útreikning á meðalvaktaálagi. Í kjölfarið samþykkti Norðurál einhliða að greiða stórhátíðarkaup á stórhátíðardögum, að frádregnu yfirvinnukaupi. Sú framkvæmd mun halda áfram, enda byggir hún á umræddu bréfi frá árinu 1999, sem Félagsdómur lagði til grundvallar í niðurstöðu sinni.

VLFA telur þessa framkvæmd algerlega fráleita og án allrar stoðar í kjarasamningum. Slíkur frádráttur á yfirvinnukaupi frá stórhátíðarkaupi þekkist ekki á íslenskum vinnumarkaði og er ekki sambærilegur við neina almenna framkvæmd. Enginn á íslenskum vinnumarkaði „er á yfirvinnukaupi“ á stórhátíðardögum með þeim hætti að heimilt sé að draga það frá sérstökum stórhátíðargreiðslum.

VLFA bendir jafnframt á að félagið hefði mun frekar getað skilið þá niðurstöðu að dregið yrði meðalvaktaálagið frá stórhátíðarkaupi, enda væri þá um að ræða frádrátt á greiðslu sem ætlað er að dekka vaktavinnu almennt. Slíkt var hins vegar ekki niðurstaða Félagsdóms, heldur var viðhaldið frádrætti á yfirvinnukaupi sem á sér enga stoð í kjarasamningum.

Þrátt fyrir þessa viðurkenningu að stórhátíðarálag sé ekki innifalið í meðalvaktaálagi komst Félagsdómur engu að síður að þeirri niðurstöðu að ekki væri um samningsbundna skyldu að ræða. VLFA telur það með ólíkindum og telur að niðurstaðan leiði til þess að starfsfólk í vaktavinnu í stóriðjum á Grundartanga standi verr að vígi en annað launafólk þegar kemur að greiðslum fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðum.

VLFA bendir jafnframt á að þróun kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár hafi gengið í þveröfuga átt við niðurstöðu Félagsdóms. Í nánast öllum kjarasamningum hefur verið lögð rík áhersla á að styrkja stöðu vaktavinnufólks, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera, meðal annars með hækkandi vaktarálögum og skýrari ákvæðum um greiðslur vegna vinnu á helgidögum og stórhátíðum. Sú þróun byggir á rannsóknum sem sýna að vaktavinna er krefjandi og getur verið heilsuspillandi til lengri tíma.

Þrátt fyrir þessa viðurkenndu þróun kemst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að starfsmenn Norðuráls eigi ekki rétt á slíkum greiðslum, ólíkt því sem gildir um launafólk almennt á íslenskum vinnumarkaði. Að mati VLFA er þessi niðurstaða bæði í andstöðu við texta kjarasamninga og við þá stefnu sem vinnumarkaðurinn í heild hefur markað um að bæta kjör og vernd vaktavinnufólks.

Enn fremur vekur athygli að þau stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningum við Norðurál eru þau sömu og eiga aðild að kjarasamningum við Elkem. Þrátt fyrir það hefur starfsfólk Elkem í vaktavinnu nánast ekkert fengið greitt sérstaklega fyrir vinnu á stórhátíðardögum, þrátt fyrir að vinnufyrirkomulag sé í grundvallaratriðum hið sama í báðum verksmiðjum. VLFA telur óskiljanlegt að þessi mismunur hafi ekki verið gerður að umtalsefni fyrr.

VLFA leggur jafnframt áherslu á að morgunljóst sé að þessi niðurstaða verði ekki látin átölulaus. Undir engum kringumstæðum verður samþykkt að vaktavinnufólk í stóriðjum á Grundartanga njóti lakari réttinda en annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði. Málið verður því óhjákvæmilega sett á dagskrá í næstu kjarasamningum og verður barist fyrir því af fullum þunga að réttur til greiðslna fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðum verði skýrður og tryggður með ótvíræðum hætti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image