• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Dagsferð "eldri deildar" VLFA - ferðasaga Strandarkirkja í Selvogi
14
Sep

Dagsferð "eldri deildar" VLFA - ferðasaga

Einn af föstum liðum í starfsemi Verkalýðsfélags Akraness er ferð þeirra félagsmanna sem eru 70 ára og eldri, en félagið hefur árlega boðið þessum hópi og mökum þeirra í dagsferð. Á liðnum árum hefur þessi hópur gert víðreist og m.a. farið um Snæfellsnes, Vesturland, Suðurland, til Vestmannaeyja og í fyrra var farið í menningarferð til Reykjavíkur.

Í gærdag var komið að dagsferð eldri deildar og að þessu sinni var ferðinni heitið í suðurátt undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen. Þátttakendur voru 115 talsins og var ekið í tveimur rútum suður Hvalfjarðargöng eftir Vesturlandsvegi og síðan til austurs yfir Mosfellsheiði og Grafninginn meðfram Þingvallavatni. Veður var mun betra en veðurspár höfðu gefið vonir um og gat ferðafólk notið haustlitanna og fagurrar fjallasýnar.

Fyrsti áningarstaður var Strandarkirkja í Selvogi en þar tók Silvía Ágústsdóttir kirkjuvörður á móti hópnum og sagði aðeins frá sögu kirkjunnar en fjölmargar helgisagnir eru henni tengdar og hefur hún verið vinsæl til áheita.

Frá Strandarkirkju var ekið áfram vestur hinn nýja Suðurstrandarveg til Grindavíkur þar sem hópsins beið hádegisverður á Salthúsinu. Þar fengu sumir sæti í Paradís á meðan aðrir gengu inn um Gullna hliðið og gerðu veitingunum góð skil.

Eftir hádegisverð og rjúkandi kaffisopa í Grindavík var haldið til Víkingaheima í Reykjanesbæ, en það safn tekur á nýstárlegan hátt fyrir þátt Íslands í landafundum Norður-Ameríku.  Þar má finna víkingaskipið Íslending sem sigldi til Ameríku sumarið 2000 og einnig eru fleiri sýningar í húsinu sem tengjast sögu víkinga í Norður-Atlantshafi. Þegar Víkingaheimar höfðu verið skoðaðir var haldið út á Reykjanesbraut, í gegnum Hafnarfjörð og út á Álftanes því komið var að hápunkti ferðarinnar, en ferðafólk hafði mælt sér mót við forseta Íslands á Bessastöðum.

Móttakan á Bessastöðum var með miklum glæsibrag, en þar tók Hr. Ólafur Ragnar Grímsson á móti hópnum, heilsaði hverjum og einum með handabandi og bauð upp á hressingu. Forsetinn ávarpaði hópinn og rifjaði m.a. upp brot úr sögu Bessastaða sem full er af andstæðum og minnti fólk á hversu stuttur tími er í raun liðinn frá því Jón Hreggviðsson sat í varðhaldi í dýflissu á Bessastöðum á 17. öld og Fjölnismenn og aðrir leiðtogar sjálfstæðisbaráttu Íslendinga fengu sitt veganesti í Latínuskólanum á Bessastöðum á 19. öld.

Eftir gott spjall við forsetann var hópnum gefinn kostur á að skoða hið sögufræga hús hátt og lágt undir leiðsögn forsetans og hans góða starfsfólks, eða eins og forsetinn orðaði það: „látið bara eins og heima hjá ykkur“.

Það var stoltur og ánægður hópur sem kvaddi Bessastaði og hélt inn í Reykjavík þar sem boðið var upp á síðdegishressingu, kaffi og tertusneið, á Múlakaffi áður en haldið var upp á Skaga.

Þykir ferðin í ár hafa heppnast einstaklega vel og kann félagið öllum þeim sem að undirbúningi og framkvæmd hennar komu bestu þakkir fyrir. Sérstakar þakkir fær hinn fróði Björn Ingi Finsen sem  miðlaði sögum og fróðleik og leiddi hópinn af miklum myndarskap eins og honum einum er lagið.

Myndir úr ferðinni er að finna hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image