• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Sep

Er verðtrygging á neytendalánum ólögleg? - Lögfræðilegt álit

Það er mat stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness að afnám verðtryggingar á neytendalánum til einstaklinga sé eitt af þeim aðalhagsmunamálum sem nú þurfi að berjast fyrir með kjafti og klóm. Á þeirri forsendu hefur stjórn og trúnaðarráð ákveðið að leggja fyrir ársþing ASÍ þann 17. október nk. tillögu að ályktun um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Enda hefur verðtryggingin leikið skuldsett heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum og sem dæmi þá hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um allt að 400 milljarða frá 1. janúar 2008 vegna hækkunar á neysluvísitölunni.

Töluvert hefur verið í umræðunni um að hugsanlega sé verðtrygging á neytendalánum til einstaklinga ólögleg og hafa nokkrir lögmenn fjallað um það í opinberri umræðu á undanförnum mánuðum. Sökum þess hversu gríðarlegir hagsmunir hér eru í húfi fyrir skuldsett heimili ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að óska eftir ítarlegu áliti hjá lögmannsstofunni Lögmenn Laugardal ehf. á því hvort verðtrygging á Íslandi væri ólögleg.

Það voru hæstaréttarlögmaðurinn Björn Þorri Viktorsson og héraðsdómslögmaðurinn Bragi Dór Hafþórsson sem unnu 19 síðna álitsgerð um álitaefni í tveimur liðum:

1.      Mögulegt ólögmæti verðtryggingar á Íslandi skv. lögum um neytendalán nr. 121/1994 og tilskipunum Evrópuréttar.

2.      Mögulegt ólögmæti verðtryggingar á Íslandi skv. lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og tilskipunum Evrópuréttar.

Í niðurstöðu úr fyrri spurningunni segir meðal annars:

"Því þurfi svör við þeirri spurningu hvort verðbætur geti talist kostnaður vegna lántökunnar sem lánveitanda hafi borið að upplýsa neytanda um, í aðdraganda lánveitingarinnar. Ekki er gert ráð fyrir verðbótum í umræddri tilskipun enda þekkist verðtrygging ekki í EES ríkjunum þegar um er að ræða lánveitingar til neytenda. Ljóst er þó að verðbætur mynda stóran hluta endanlegs uppgreiðslukostnaðar þegar verðtryggð lán eru annars vegar. Telja undirritaðir að það hljóti að hafa verið tilgangur tilskipunarinnar að ná utan um allan beinan kostnað sem verður vegna lántökunnar og að neytendur eigi ávallt rétt á þeim upplýsingum. Annað fæli í sér mikið frávik frá megin markmiðum umræddrar tilskipunar. Komi í ljós að tilskipunin hafi verið ranglega innleidd í íslenskan rétt þá getur komið til skoðunar hvort íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð vegna þessa, hvort aðili geti sannað tjón sitt og þá hvort orsakatengsl séu milli hinnar röngu innleiðingar og þess tjóns sem aðili hefur orðið fyrir. Gæti þetta því haft í för með sér stórkostlega skaðabótahættu fyrir íslenska ríkið sé tekið mið af öllum þeim verðtryggðu lánasamningum sem gerðir hafa verið við neytendur frá gildistöku tilskipunarinnar."   

Í niðurstöðu úr seinni spurningunni segir meðal annars: 

"Að gefinni þeirri forsendu að skuldabréf eða lánssamningar teljist vera afleiðusamningar, þar sem þeir tengist vísitölu og séu verðbréf í skilningi 2. gr. laganna, þá telja undirritaðir að slíkir gerningar hljóti að auki að vera flóknir fjármálagerningar. Ef svo er þá hafi ekki mátt bjóða neytendum slíka samninga, nema því skilyrði hafi verið fullnægt að fjármálafyrirtæki hafi með sannarlegum hætti óskað eftir upplýsingum um þekkingu og reynslu viðskiptavinar, til þess að geta metið hvort varan hafi verið viðeigandi fyrir umræddan viðskiptavin, sbr. 1. mgr. 16. gr., eða þá að viðskiptavinur hafi fengið samþykkt að hann teldist fagfjárfestir í skilningi 24. gr. vvl. Þýðir þetta í raun að mati undirritaðra að fjármálafyrirtækjum hafi verið óheimilt að bjóða til sölu og selja almennum fjárfestum (neytendum) verðtryggða lánssamninga eða skuldabréf þar sem uppgjör lánsins var bundið vísitölu neysluverðs, að gefinni framangreindri forsendu."

Á þessu lögfræðilega áliti sést að það eru veruleg álitamál um það hvort verðtrygging á neytendalánum standist lög. Því er afar brýnt að t.d. Alþýðusamband Íslands láti á það reyna fyrir dómsstólum hvort verðtrygging á neytendalánum standist lög eða ekki. Það er morgunljóst að meiri hagsmunir fyrir félagsmenn innan Alþýðusambands Íslands er vart hægt að finna því eins og áður hefur verið rakið hér hefur verðtryggingin leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum.

Hægt er að lesa lögfræðilega álitið í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image