• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Mar

Verðtryggingarvítisvélin að ganga af íslenskum heimilum dauðum

Í fréttum í fyrradag kom fram að ekki hafi náðst samstaða á Alþingi um að draga úr vægi verðtryggingarinnar á skuldsett heimili. Það er óhætt að segja að þetta séu sorgartíðindi, því það er alveg ljóst að verðtryggingarvítisvélin er að ganga af íslenskum heimilum dauðum. Nú síðast í morgun kom fram að verðbólgan hækkaði um 1,05% á milli mánaða og hefur verðbólgan á síðustu þremur mánuðum hækkað um 2,4%.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar um skuldavanda heimilanna sem stjórnvöld létu gera á síðasta ári kom fram að heildar verðtryggðar skuldir heimilanna nema um 1.271 milljarði króna sem þýðir að þær hækkuðu á milli mánaða um 13,3 milljarða og frá áramótum hafa þær hækkað sem nemur 30,5 milljörðum, bara vegna verðtryggingarinnar.

Nú er nýlokinni einni albestu loðnuvertíð sem verið hefur við Íslandsstrendur í áratugi, en áætlað er að heildaraflaverðmætið hafi numið 30 milljörðum. Þetta er jafnhá upphæð og verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hafa hækkað um á síðustu 3 mánuðum. Á þessu sést hvernig verðtryggingin leikur íslensk heimili miskunnarlaust, því er það algjörlega óásættanlegt að Alþingi Íslendinga ætli ekki að taka á þessum grímulausa óréttlæti sem íslensk heimili mega þola vegna verðtryggingarvítisvélarinnar.

27
Mar

Trúnaðarmannanámskeiði lokið

Mikil ánægja ríkti með Trúnaðarmannanámskeiðið sem lauk á föstudaginn síðastliðinn. Bæði höfðu kennarar orð á því hversu gríðarlega sterkur og góður hópur þetta væri og einnig var að heyra á nemendum að þeir hafi ekki síður verið ánægðir með góða og uppörvandi fræðslu.

Sterkir trúnaðarmenn eru ómetanlegir í starfi stéttarfélaganna, og kjarni þeirra er alltaf að þéttast og verða virkari. Stefnt er að því að halda framhaldsnámskeið í haust til að halda áfram á þessari braut.

27
Mar

Þeim fjölgar sem nota Félagavefinn

Umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins í sumar streyma nú inn til skráningar á skrifstofu félagsins, en síðasti dagur til að skila umsókn er föstudagurinn 13. apríl. Um helmingur umsóknanna hafa nú þegar borist í gegnum Félagavefinn. Þetta er fagnaðarefni, því það verður að teljast jákvætt að félagsmenn nýti þennan kost eins og hægt er. Þeir sem nýta Félagavefinn á þennan hátt hafa betri yfirsýn yfir umsóknarferlið, geta séð strax og úthlutun er lokið hvort einhver vika hafi fallið í þeirra skaut og jafnvel greitt strax með korti á vefnum.

Þegar báðum úthlutunum er lokið um hádegisbil 4. maí geta félagsmenn bókað þær vikur sem ekki ganga út og gildir þá reglan - Fyrstir koma, fyrstir fá. Þeir sem nota Félagavefinn hafa ákveðið forskot, því þeirra sýn á lausar vikur er nákvæmlega sú sama og starfsfólk skrifstofu hefur. Á Félagavefnum er því mögulega hægt að sitja í þægindum heima hjá sér, en samt verða fyrstur allra að næla sér í álitlega viku.

22
Mar

Trúnaðarmannanámskeið

Þessa dagana sitja 8 trúnaðarmenn trúnaðarmannanámskeið í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13, en samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmönnum heimilt að sækja slík námskeið í eina viku á ári án skerðingar á dagvinnulaunum. 

Markmið slíkra námskeiða er að styrkja og efla trúnaðarmenn í sínum störfum. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um skipulagningu og kennslu á námskeiðinu. Meðal annars er farið yfir hlutverk stéttarfélaga, hlutverk trúnaðarmannsins, farið yfir lög og kjarasamninga og íslenskan vinnurétt.

21
Mar

Búið að opna fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum sumarið 2012!

Í vikunni mun orlofshúsabæklingur vegna sumarúthlutunar 2012 berast inn um lúgur félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Frestur til að skila umsóknum er til 12. apríl. Umsóknum er hægt að skila á skrifstofu félagsins, eða á Félagavefnum (undir orlofshús - umsókn)

Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum, í þremur íbúðum á Akureyri og nýja bústaðnum í Kjós. Að auki hefur félagið tekið á leigu íbúð á Flateyri, og einn bústað í Úthlíð í Biskupstungum.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum fyrir endurúthlutun.

 

Helstu dagssetningar:

13. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

16. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax inni á félagavefnum)

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

04. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

04. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

11. maí  - Eindagi endurúthlutunar 

Eins og áður verður hægt að kaupa Útilegukortið 2012, Veiðikortið 2012 og gistimiða á Hótel Eddu og Fosshótel með 50% afslætti á skrifstofu félagsins. Sala Veiðikortsins er þegar hafin, Útilegukortið er væntanlegt fljótlega, gistimiðar á Fosshótel eru fáanlegir allt árið um kring og gistimiðar á Edduhótel koma fljótlega.

20
Mar

Bónuskerfi Elkem Ísland svínvirkar

Verksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga19. apríl í fyrra gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Elkem Ísland en þetta var einn fyrsti samningurinn sem undirritaður var á hinum almenna vinnumarkaði á síðasta ári. Í þessum nýja samningi var tekið upp nýtt bónuskerfi sem hefur svo sannarlega verið að skila sínu en hámarksbónusinn var hækkaður úr 10% í 13,5%. Gamli bónusinn var að gefa að meðaltali 7,32% sem er um 73% af því sem hann gat gefið en þessi nýji er hinsvegar að gefa núna 11,39% eða sem nemur 84% af hámarkinu. Rétt er að geta þess að bónusinn leggst ofan á öll greidd laun að undanskildum orlofs- og desemberuppbótum.

Starfsmaður með 10 ára starfsaldur hjá Elkem Ísland er nú með í grunnlaun tæpar 240 þúsund krónur en heildarlaun með bónus og orlofs- og desemberuppbótum nema nú um 440 þúsund krónum. Rétt er að geta þess að vinnuskylda í stóriðjunum miðast við 156 klukkustundir en ekki 173,33 eins og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en hér munar rúmum 17 klukkustundum. Það er afar ánægjulegt að sjá að þetta nýja bónuskerfi skuli virka jafn vel og nú hefur komið í ljós enda hafa bæði eigendur Elkem sem og starfsmenn mikla hagsmuni af því að bónuskerfið virki sem skyldi.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image