• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Feb

Vantar um 200 milljarða til að lífeyrissjóðir innan ASÍ geti staðið við sínar skuldbindingar samkvæmt rannsóknarskýrslunni

Það er óhætt að segja að félagsmönnum innan Verkalýðsfélags Akraness hafi verið verulega brugðið þegar rannsóknarskýrsla um lífeyrissjóðina  kom út í síðustu viku (Festa er í 10. kafla, bls. 81). En flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness greiða í lífeyrissjóð Festu en þar nam heildartap sjóðsins tæpum 20 milljörðum og getur hins vegar aukist um tæpa 2,2 milljarða til viðbótar ef gjaldmiðlavarnarsamningar verða gerðir upp á þeim forsendum sem bankarnir vilja að gert verði. En þá fer tapið upp í tæpa 22 milljarða króna.

Samkvæmt rannsóknarskýrslunni þá voru eignir lífeyrissjóðs Festu rúmir 55 milljarðar í lok árs 2007 þannig að 20 milljarða tap samsvarar því að um 36% af eignum sjóðsins hafi tapast í kjölfar hrunsins. Þetta er að mati margra sjóðsfélaga algjörlega óásættanlegt og ríkir reiði á meðal margra sjóðsfélaga hvernig sjóðirnir hafa verið leiknir á undanförnum árum. 

Það er ótrúlegt til þess að vita að ávöxtun lífeyrissjóðanna almennt hefur verið skelfileg og sem dæmi þá liggur fyrir samkvæmt töflu sem er hér að neðan að meðalávöxtun lífeyrissjóðs Festu síðustu 5 ár er neikvæð sem nemur 1,1% en sé skoðað meðaltal síðustu 10 ára þá er ávöxtunin einungis 0,1%. Þetta er árangur sem er ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að sætta sig við. En það er rétt að geta þess að sambærileg staða er nánast í öllum lífeyrissjóðum á landinu. Á þeirri forsendu hefur formaður félagsins sagt á opinberum vettvangi að það sé full ástæða fyrir þá sem bera ábyrgð á þessu skefjalausa tapi að þeir sæti fullri ábyrgð og segi starfi sínu lausu.

 

 

Það liggur einnig fyrir samkvæmt rannsóknarskýrslunni að heildarskuldbindingar lífeyrissjóðs Festu eru neikvæðar sem nemur tæpum 13 milljörðum eða með öðrum orðum eignir umfram skuldbindingar eru neikvæðar um 9,9%. Formaður hefur verið að skoða alla sjóði sem tilheyra Alþýðusambandi Íslands á hinum almenna vinnumarkaði og lítur staðan þannig út að þessum 9 sjóðum sem tilheyra ASÍ vantar tæpa 200 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Sjá töflu varðandi Festu hér að neðan.

 

 

Það verður innan skamms fundur þar sem forstjóri lífeyrissjóðs Festu mun gera stjórn og trúnaðarráði félagsins grein fyrir þessari skelfilegu stöðu sem upp er komin í sjóði sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness tilheyra. En eins og áður sagði þá er þetta eitthvað sem hinn almenni sjóðsfélagi getur ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við enda hefur félagið margoft gagnrýnt ýmislegt er lítur að lífeyrissjóðunum, meðal annars stjórnarkjör í sjóðunum en félagið hefur lagt fram tillögu á ársfundi ASÍ 2009 um algjöra uppstokkun við stjórnarval þar sem sjóðsfélagarnir sjálfir myndu kjósa alla stjórnarmenn í sjóðina. En á óskiljanlegan hátt var þessi tillaga felld á ársfundinum með 80% atkvæða. Það þarf algjöra uppstokkun á þessu kerfi og því er mikilvægt að Alþingi Íslendinga fari í óháða rannsókn á sjóðunum, skoði meðal annars fjárfestingar og tengsl atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar við hinar ýmsu fjárfestingar og komi með tillögur að úrbótum með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Það liggur fyrir núna að ávinningur sjóðsfélaga af því að greiða í lífeyrissjóð er sáralítill sökum tekjutengingar við Tryggingastofnun og þetta er eitt af því sem klárlega þarf að skoða og koma með úrbætur á enda var það ekki hlutverk lífeyrissjóðanna að þurrka út greiðslur frá Tryggingastofnun.

03
Feb

Starfsmenn Akraneskaupstaðar athugið!

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína sem starfa hjá Akraneskaupstað á réttindi sín er lúta að vinnu-, hlífðar- og einkennisfötum. Samkvæmt kjarasamningi eiga hinir ýmsu aðilar sem starfa hjá bæjarfélaginu rétt á fatnaði þeim að kostnaðarlausu. Sem dæmi þá eiga starfsmenn sem starfa á leikskólum rétt á buxum, skyrtu eða íþróttagalla ásamt bol og einnig ef um útivinnu er að ræða, kulda- og regngalla. Einnig eiga starfsmenn í íþróttamannvirkjum og sundlaugum Akraneskaupstaðar rétt á fríum fatnaði, buxum, skyrtu eða íþróttagalla ásamt bol sem og að klossar og stígvél séu til staðar fyrir óþrifaleg störf og kulda- og regngalla ef um útivinnu er að ræða.

Einnig er rétt að vekja athygli á réttindum þeirra sem starfa við heimilishjálp. Þeir eiga rétt á vinnusloppi, buxum, skyrtu eða bol og svona mætti í raun og veru lengi telja varðandi hina ýmsu hópa sem starfa á vegum sveitarfélagsins. Á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt fyrir starfsmenn eins og áður sagði að kynna sér vel og rækilega þau réttindi sem í boði eru samkvæmt kjarasamningi en umræddar greinar varðandi fatnað eru í grein 8.2. í kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við launanefnd sveitarfélaga. Réttindi til fatakaupa endurnýjast einu sinni á ári.

03
Feb

Mótframlag Norðuráls í séreignarsjóði starfsmanna verður áfram óbreytt

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá breytti ríkisstjórn Íslands tímabundið gildandi lögum um séreignarsjóði. Breytingin tók gildi 1. janúar 2012 og gildir til 31. desember 2014.

Samkvæmt nýjum lögum er framlag starfsmanns í séreignarsjóð er nú einungis skattfrjálst upp að 2%, en framlag umfram það er nú skattað. Þar er einnig kveðið á um að launagreiðendur eigi að setja alla launþega niður í 2ja% framlag og starfsmaðurinn sjálfur verði að óska sérstaklega eftir því, vilji hann greiða meira en 2%.

Vegna þessara laga ákvað Norðurál að senda starfsmönnum bréf þann 23. janúar sl. og tilkynnti að samhliða lækkun framlags starfsmanns í 2% myndi mótframlag fyrirtækisins lækka um 1% eða úr 6,5% niður í 5,5%.

Í kjarasamningum Norðuráls er kveðið á um að starfsmaður sem greiðir 1% fái 4,5% mótframlag frá fyrirtækinu og starfsmaður sem greiðir 2% fái 5,5%. Þeir starfsmenn sem kjósa að greiða 3% eða meira eiga að fá 6,5%. En eins og áður sagði þá kveða lögin á um að allir skuli settir niður í 2% og á þeirri forsendu ætlaði fyrirtækið að lækka starfsmenn um 1% eins og áður sagði.

Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega, sem og önnur stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál, á grundvelli þess að það var ekki skilningur laganna að þetta myndi skaða launafólk að óþörfu. Á þessi rök féllust forsvarsmenn Norðuráls í gær og þeir starfsmenn sem voru að greiða 3-4% fyrir gildistöku laganna munu áfram fá 6,5% mótframlag þótt þeirra eigin framlag hafi verið lækkað niður í 2%.

Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða, því hér getur verið um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir hvern starfsmann. 1% mótframlag atvinnurekenda í séreignasjóð þýðir um 60.000 kr. á ársgrundvelli. Á því sést að hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir þá starfsmenn sem um ræðir.

Það er hins vegar ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa ráðist á séreignarsparnað launafólks jafnillilega og gert var í þessum lögum því starfsmaður sem kýs að vera með framlag sitt umfram 2% mun lenda í tvískattlagningu og eðli málsins samkvæmt er ekki mikill hagur af slíkum sparnaði fyrir þann sem slíka ákvörðun tekur. Á þeirri forsendu er ekki annað hægt en að fordæma þessi vinnubrögð hjá ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju.

01
Feb

Trúnaðarmannanámskeið verður haldið 21.-23. mars

Dagana 21. til 23. mars mun Verkalýðsfélag Akraness bjóða upp á trúnaðarmannanámskeið fyrir trúnaðarmenn sína. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem skipuleggur námskeiðið.

Á námskeiðinu verður m.a. farið yfir hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði, hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað, hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum og íslenskur vinnuréttur skv. lögum og reglugerðum kynntur fyrir nemendum.

Starf trúnaðarmanna er afar mikilvægt fyrir starfsemi félagsins og þurfa þeir að taka á ýmsum erfiðum málum í sínu starfi. Námskeiðinu er ætlað að gera trúnaðarmönnunum betur kleift að takast á við starf sitt. Samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmanni heimilt að sækja slík námskeið í allt að eina viku á ári án skerðingar á dagvinnulaunum.

Skráning er hafin á skrifstofu VLFA í síma 4309900.

01
Feb

Launakröfur að verða klárar

Eins og áður hefur verið greint frá var trésmiðjan TH úrskurðuð gjaldþrota í desember síðastliðnum. TH starfsrækti tvö trésmíðaverkstæði, annað á Akranesi (áður Trésmiðja Þráins) og hitt á Ísafirði (áður Trésmiðjan Hnífsdal). Samtals unnu um 30 manns hjá fyrirtækinu.

Í lögum um gjaldþrotaskipti eru launakröfur skilgreindar sem forgangskröfur í þrotabúið og kemur það í hlut Ábyrgðasjóðs launa að ábyrgjast greiðslur þeirra.

Skrifstofa VLFA er nú að ljúka vinnu við kröfulýsingu í þrotabúið vegna vangreiddra launa þeirra félagsmanna sinna sem störfuðu hjá fyrirtækinu, en frestur til að skila henni inn rennur út í lok mánaðarins. Áætlað er að þessi krafa vegna vangreiddra launa, launa í uppsagnarfresti, orlofs og desember- og orlofsuppbóta nemi ríflega 11 milljónum króna.

27
Jan

Fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda

Nú er að hefjast fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi en samkvæmt kjarasamningi hækka starfsmenn við slíkt námskeið um tvo launaflokka. Með öðrum orðum, þeir fara úr launaflokki 5 sem er almennur fiskvinnslumaður og í sérhæfðan fiskvinnslumann sem er launaflokkur 7.

Því til viðbótar var samið um í síðustu samningum að sérhæfður fiskvinnslumaður sem lokið hefur slíku námskeiði getur farið í viðbótarfiskvinnslunám sem veitir honum tveggja flokka launahækkun til viðbótar sem þýðir að viðkomandi fer í launaflokk 9.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun á mánudaginn fara yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði og jafnframt gera grein fyrir hinum ýmsu bónuskerfum sem nú eru í gildi og sýna hver meðaltalsbónus á landinu er sem og hér á Akranesi. Það er skemmst frá því að segja að það er mismunandi á milli fiskvinnslufyrirtækja hver bónus fiskvinnslufólks er. Meðaltalsbónus á landsvísu er 290 kr. en á Akranesi er meðaltalsbónusinn hins vegar 350 kr sem er rúmlega 20% hærri bónus en á landsvísu.

Launataxtar fiskvinnslufólks munu hækka um 11 þúsund krónur frá og með 1. febrúar næstkomandi og einnig mun bónusinn hækka um 3,5% en þó að lágmarki um 10 krónur pr. klst.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image