• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Mar

Trúnaðarmannanámskeiði lokið

Mikil ánægja ríkti með Trúnaðarmannanámskeiðið sem lauk á föstudaginn síðastliðinn. Bæði höfðu kennarar orð á því hversu gríðarlega sterkur og góður hópur þetta væri og einnig var að heyra á nemendum að þeir hafi ekki síður verið ánægðir með góða og uppörvandi fræðslu.

Sterkir trúnaðarmenn eru ómetanlegir í starfi stéttarfélaganna, og kjarni þeirra er alltaf að þéttast og verða virkari. Stefnt er að því að halda framhaldsnámskeið í haust til að halda áfram á þessari braut.

27
Mar

Þeim fjölgar sem nota Félagavefinn

Umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins í sumar streyma nú inn til skráningar á skrifstofu félagsins, en síðasti dagur til að skila umsókn er föstudagurinn 13. apríl. Um helmingur umsóknanna hafa nú þegar borist í gegnum Félagavefinn. Þetta er fagnaðarefni, því það verður að teljast jákvætt að félagsmenn nýti þennan kost eins og hægt er. Þeir sem nýta Félagavefinn á þennan hátt hafa betri yfirsýn yfir umsóknarferlið, geta séð strax og úthlutun er lokið hvort einhver vika hafi fallið í þeirra skaut og jafnvel greitt strax með korti á vefnum.

Þegar báðum úthlutunum er lokið um hádegisbil 4. maí geta félagsmenn bókað þær vikur sem ekki ganga út og gildir þá reglan - Fyrstir koma, fyrstir fá. Þeir sem nota Félagavefinn hafa ákveðið forskot, því þeirra sýn á lausar vikur er nákvæmlega sú sama og starfsfólk skrifstofu hefur. Á Félagavefnum er því mögulega hægt að sitja í þægindum heima hjá sér, en samt verða fyrstur allra að næla sér í álitlega viku.

22
Mar

Trúnaðarmannanámskeið

Þessa dagana sitja 8 trúnaðarmenn trúnaðarmannanámskeið í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13, en samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmönnum heimilt að sækja slík námskeið í eina viku á ári án skerðingar á dagvinnulaunum. 

Markmið slíkra námskeiða er að styrkja og efla trúnaðarmenn í sínum störfum. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um skipulagningu og kennslu á námskeiðinu. Meðal annars er farið yfir hlutverk stéttarfélaga, hlutverk trúnaðarmannsins, farið yfir lög og kjarasamninga og íslenskan vinnurétt.

21
Mar

Búið að opna fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum sumarið 2012!

Í vikunni mun orlofshúsabæklingur vegna sumarúthlutunar 2012 berast inn um lúgur félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Frestur til að skila umsóknum er til 12. apríl. Umsóknum er hægt að skila á skrifstofu félagsins, eða á Félagavefnum (undir orlofshús - umsókn)

Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum, í þremur íbúðum á Akureyri og nýja bústaðnum í Kjós. Að auki hefur félagið tekið á leigu íbúð á Flateyri, og einn bústað í Úthlíð í Biskupstungum.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum fyrir endurúthlutun.

 

Helstu dagssetningar:

13. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

16. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax inni á félagavefnum)

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

04. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

04. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

11. maí  - Eindagi endurúthlutunar 

Eins og áður verður hægt að kaupa Útilegukortið 2012, Veiðikortið 2012 og gistimiða á Hótel Eddu og Fosshótel með 50% afslætti á skrifstofu félagsins. Sala Veiðikortsins er þegar hafin, Útilegukortið er væntanlegt fljótlega, gistimiðar á Fosshótel eru fáanlegir allt árið um kring og gistimiðar á Edduhótel koma fljótlega.

20
Mar

Bónuskerfi Elkem Ísland svínvirkar

Verksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga19. apríl í fyrra gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Elkem Ísland en þetta var einn fyrsti samningurinn sem undirritaður var á hinum almenna vinnumarkaði á síðasta ári. Í þessum nýja samningi var tekið upp nýtt bónuskerfi sem hefur svo sannarlega verið að skila sínu en hámarksbónusinn var hækkaður úr 10% í 13,5%. Gamli bónusinn var að gefa að meðaltali 7,32% sem er um 73% af því sem hann gat gefið en þessi nýji er hinsvegar að gefa núna 11,39% eða sem nemur 84% af hámarkinu. Rétt er að geta þess að bónusinn leggst ofan á öll greidd laun að undanskildum orlofs- og desemberuppbótum.

Starfsmaður með 10 ára starfsaldur hjá Elkem Ísland er nú með í grunnlaun tæpar 240 þúsund krónur en heildarlaun með bónus og orlofs- og desemberuppbótum nema nú um 440 þúsund krónum. Rétt er að geta þess að vinnuskylda í stóriðjunum miðast við 156 klukkustundir en ekki 173,33 eins og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en hér munar rúmum 17 klukkustundum. Það er afar ánægjulegt að sjá að þetta nýja bónuskerfi skuli virka jafn vel og nú hefur komið í ljós enda hafa bæði eigendur Elkem sem og starfsmenn mikla hagsmuni af því að bónuskerfið virki sem skyldi.  

15
Mar

Bjartara yfir atvinnulífinu á Akranesi

Iðnaðarsvæðið á Grundartanga heldur áfram að stækka þessi misserin en þónokkur fyrirtæki hafa nú bæst við þá starfsemi sem þar er en eins og flestir vita þá eru Norðurál og Elkem Ísland langstærstu fyrirtækin á þessu svæði um þessar mundir. Á liðnum misserum hafa fyrirtæki eins og Lífland, Hamar, Stálsmiðjan og Héðinn hafið starfsemi á Grundartangasvæðinu.

Núna er stálendurvinnslufyrirtækið GMR nýbyrjað uppbyggingu og er að koma sér fyrir á svæðinu og einnig eru fleiri fyrirtæki í startholunum með að hefja starfsemi á Grundartangasvæðinu. Það eru viss forréttindi fyrir okkur Skagamenn að hafa þetta svæði og þó vissulega sé atvinnuleysi á Akranesi of mikið þá er það mat formanns VLFA að atvinnuástandið á Akranesi sé mun betra en víðast hvar, þökk sé stóriðjusvæðinu á Grundartanga. Samkvæmt Gísla Gíslasyni, forstjóra Faxaflóahafna, þá hafa fjárfestingar á Grundartangasvæðinu frá árinu 2007 verið allt að 20 milljarðar króna sem sýnir svo ekki verður um villst þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað á svæðinu.

Það eru fleiri jákvæð tíðindi sem berast frá atvinnulífinu á Akranesi en skemmst er frá því að segja að fyrirtækið Skaginn gerði milljarða samning við færeyskt fyrirtæki sem mun skapa tugum manna störf til viðbótar. Einnig kom tilkynning um að SS verktakar hafi keypt vélar af þrotabúi vegna trésmiðjunnar TH ehf og hyggist endurvekja starfsemina í fyrra húsnæði fyrirtækisins. Væntanlega mun þetta skapa á annan tug nýrra starfa í þessu fyrirtæki. 

Og ekki má gleyma þeirri gríðarlegu loðnuvertíð sem nú er senn á enda en unnið hefur verið sleitulaust á vöktum við hrognatöku sem og við bræðslu en tugir manna hafa gegnt þessum störfum á liðnum vikum og er um umtalsvert uppgrip að ræða hjá þeim sem við þetta starfa.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image